25.03.1930
Neðri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. þm. Borgf. nefndi mig hér í gærkvöldi í sambandi við nokkra minniháttar reikninga. Mér er kunnugt um það, að hv. þm. Borgf. er reglusamur um sín og annara fjármál. Hefir hann því eflaust ætlazt til, að ég kvittaði eitthvað fyrir.

Hv. þm. byrjaði á því að tala um, að stj. hefði eytt miklu fé í bitlinga, bæði til utanfara og allskonar n., án þess heimild væri fyrir því í fjárl. Um þessar n. er nú það að segja, að þær n., sem lengst hafa starfað og því kostað mest, eru allar settar eftir skipun þingsins. (PO: Ég sagði ekki, að þær hefðu verið settar í heimildarleysi!). Hv. þm. var nú samt að ámæla stj. vegna þess fjár, sem þeim hefir verið greitt. Hinsvegar skal ég viðurkenna, að það er alveg rétt hjá hv. þm., að greitt hefir verið allmikið fé til utanfara utan fjárl. Má vitanlega áfella stj. fyrir það, enda þótt slíkir styrkir hafi oft verið nauðsynlegir og réttmætir. En samt sé ég ekki, eftir því sem fram er komið um afgreiðslu fjárlagafrv. hér í hv. d., að sú d. hafi sérstaka ástæðu til að áfella stj. Þessi hv. d. hefir nú samþ. ýmsa styrki og bitlinga upp á 30–40 þús. kr. fram yfir þann sérstaka lið, sem til þess er ætlaður í fjárlfrv. stj. Flestir þessir styrkir eru komnir inn á fjárl. án þess að stj. mælti með þeim. Og allmargir þeirra munu hafa þangað komizt fyrir atbeina hv. þm. Borgf. Ég vil því senda þessum hv. þm. reikninga hans til baka, með tilmælum um, að hann athugi nánar þá liði bitlinganna, sem nafn hans eða atkv. er riðið við.

Ég ætla ekki að tala neitt sérstaklega um það, þótt sumt af þessum styrkjumgangi í kjördæmi hv. þm. Borgf. Það hefir alltaf verið sagt um hv. þm. Borgf., að hann væri sparsamur, og að hann hefði mikla tilhneigingu til að greiða atkv. móti útgjöldum úr ríkissjóði. Þetta var rétt hér áður. En ég get ekki neitað því, að mér hefir fundizt nokkuð vera farin að gufa upp sú sparnaðartilhneiging. Á því hefir bólað nokkuð mikið upp á síðkastið, að hann hefir gert allmikið að því að greiða atkv. með og jafnvel flytja till. um stórar útgjaldaupphæðir. Ég neita því að vísu ekki, að margt af þessu sé til þarflegra hluta. En það verður þess þó valdandi, að hagur ríkissjóðs verður lakari. Hv. þm. Borgf. hefir nú í þetta sinn greitt atkv. með ábyrgðarheimildum á hendur ríkissjóðs, sem nema yfir 1½ millj. kr. Og hann hefir greitt atkv. með beinum útgjaldaupphæðum úr ríkissjóði, sem nema hátt upp í 1 millj. kr., fyrir utan sjálft fjárlagafrv. Í þessum upphæðum tel ég hafnirnar, sem hljóta að binda ríkissjóði stór útgjöld í nálægri framtíð, ef að lögum verða. En það er nú svo, að þeir, sem á annað borð finna til ábyrgðar um að sjá hag ríkissjóðs borgið, verða alltaf að vera á verði. Ég hélt nú, að hv. þm. Borgf. mundi reynast betri varðmaður á því sviði. Og það er vitanlega ekki enn vonlaust, að hann snúi seinna við á þessari braut og fari gætilegar en á þessu þingi.

En það er meira en útgjöld ríkissjóðs, sem þarf að hugsa um. Það þarf líka að hugsa honum fyrir tekjum. Ýmsir hreppar hafa fyrir nokkuð löngu síðan fengið lán, en nokkur misbrestur hefir orðið á um greiðslu vaxta og afborgana hjá sumum þeirra. Nú stendur svo á, að hreppurinn, sem hv. þm. Borgf. er hreppstjóri í, skuldar ríkissjóði eina slíka upphæð. Sú upphæð er ógreidd enn. Nú vænti ég, að hv. þm. stuðli að því, að farið verði að greiða nokkuð af þessari skuld árlega. Hv. þm. hefir oftar en einu sinni farið fram á það, að hreppnum væri gefnir eftir vextir af þessari skuld, og líka fengið því framgengt.

Það var nú ekki nema lítill hluti af ræðu hv. þm. Borgf., sem að mér snéri. Vil ég því ekki tefja tímann með því að fara lengra út í það, af því líka hæstv. dómsmrh. hefir svarað nokkru af því. En ég vildi þá beina nokkrum orðum til hv. þm. Vestm.

Hv. þm. Vestm. hélt alllanga ræðu hér í dag um Síldareinkasöluna. Mér þótti leitt að heyra, vegna hv. þm., hve sú ræða var full af blekkingum og rangfærslum. Úr ræðu hv. þm. andaði svo mikilli óvild til Síldareinkasölunnar, að ég held að enginn, sem á hlýddi, hafi getað vænzt óhlutdrægs dóms frá hv. þm. um Einkasöluna. Hv. þm. talaði líka af miklum ókunnugleik um þetta. Er það líka eðlilegt, því ég hygg, að hv. þm. hafi lítið kynnt sér þetta mál af eigin raun eða eigin starfsemi, hann mun vera fremur ókunnugur starfsemi Síldareinkasölunnar, og síldveiðunum fyrir norðan yfirleitt.

Lýsing hans á starfsemi Einkasölunnar var á þá lund, að þar væri ekkert að finna nema ranglæti og heimsku. Þeir menn, sem þar störfuðu, hefðu ekkert vit á verkum sínum og sýndu hina mestu hlutdrægni og fávizku. Hann hélt því fram, að með þessari Einkasölu væri verið að drepa síldarútveginn. Þetta eru í sjálfu sér ekkert annað en tómir sleggjudómar. Það mætti þó kannske hlusta á þá, ef ferill síldarverzlunarinnar áður hefði verið svo glæsilegur. En því held ég að engum manni detti í hug að halda fram. Sannleikurinn er sá, að síldarútvegurinn var kominn í það ófremdarástand, að útvegsmenn sáu sjálfir, að svo búið mátti ekki lengur standa. Nýtt skipulag varð að finna. Ágreiningurinn var aðeins um, hvernig því yrði fyrir komið. Nú fannst mér það ekki vaka fyrir hv. þm. Vestm. að endurbæta skipulagið, nei, heldur skipulagsleysi, rétt eins og áður var. En hver varð útkoman af skipulagsleysinu? Sífelld og árleg gjaldþrot og vanskil, og af því leiddi stórtöp fyrir marga aðila. Bankarnir báðir urðu fyrir stórtjóni við það allt saman.

Hv. þm. fór fram á, að ríkisstj. gerði honum grein fyrir ýmsum atriðum í rekstri Síldareinkasölunnar, sölusamningum hennar, ýmsum færslum á reikningum hennar o. s. frv. Þetta er vitanlega ómögulegt. Þetta er sérstakt fyrirtæki. Stj. gerir ekki annað en að tilnefna suma þá menn, sem stj. þess hafa á hendi. Hún hefir engan íhlutunarrétt um það, hvernig síldin er verðreiknuð, og getur ekki heldur fylgzt með því, hvernig reikningum Einkasölunnar er hagað.

Hv. þm. kom með ýmiskonar aths. og fyrirspurnir. Hann minntist á árið 1928. Ég hygg, að allir viðurkenni, að Einkasalan hafi gengið mjög vel það ár, og að útkoman þá hafi verið mikið betri en áður átti sér stað. Í fyrsta lagi minntist hv. þm. á ákvæði, sem sett hefðu verið í suma síldarsölusamninga sumarið 1928, um svokallaða verðfallstryggingu, og taldi framkvæmdarstjórn Síldareinkasölunnar mjög ámælisverða fyrir það atriði. Ég vil taka fram, að enn hefir aldrei komið til þess, að þetta hafi lækkað verð á nokkurri einustu síldartunnu. En hinsvegar hefir það orðið til að greiða fyrir sölu á haustin, þegar mikið hefir legið fyrir, með sæmilegu verði. (JJós: Því hélt þá verðfallstryggingin ekki áfram?). Það er mér ekki kunnugt um, því að ég hefi ekki séð neinn reikning Einkasölunnar fyrir 1929. En reikninginn fyrir 1928 sá ég, og þess vegna er mér þetta atriði kunnugt.

Þá sagði hv. þm., að stj. Síldareinkasölunnar hefði selt fyrirfram meiri síld en veiðzt hefði. Þetta er í sjálfu sér rétt hjá hv. þm. Síldin getur brugðizt fyrr en nokkurn varir. Ekki var heldur gott að varast þær misfellur, sem urðu á flokkun síldarinnar. Það var samin reglugerð um, hvernig ætti að flokka síld í tunnur eftir stærð, og átti Björn Lindal mestan þátt í henni. Framkvæmdarstjórarnir seldu síldina samkv. flokkun þeirrar reglugerðar, og líka samkv. því, sem vanir menn töldu réttast. Björn Líndal og Ásgeir Pétursson voru þeir menn, sem um mörg ár höfðu einkum haft ráðin um þetta og áttu að vera því kunnugastir. En reynslan sýndi, að þeir fóru villir vegar um stærð síldarinnar. Þó að nú hafi brugðið út af því, að hægt hafi verið að fullnægja sölusamningum um stærð síldarinnar, var þó hægt að fullnægja kaupendum svo, að tjón varð ekkert.

Þú voru það Brödrene Levy. Hvað veit hv. þm. um Brödrene Levy og samninga við þá? Við þá hafa engir samningar verið gerðir, nema eins og við aðra kaupendur. (JJós: Það var þó játað á fundi í fyrra). Nei, engir samningar aðrir en við þá kaupmenn yfirleitt, sem seldu síld. (ÓTh: Jú, það var játað af þm. fyrir meir en 300 tilheyrendum). Þetta firma keypti 30 þús. tunnur árið 1928, enda er það aðalviðskiptafirma Einkasölunnar í Danmörku. Þetta eru allir samningarnir.

Þá kom hv. þm. að síldarmatinu og taldi það illa rækt, sérstaklega að mér skildist síðastliðið sumar. Til þess hefðu verið settir unglingar, sem ekkert hefðu þekkt til þessara hluta. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að fyrsta sinn í sumar hafði Einkasalan aðstöðu til þess að skipulagsbinda matið. Og það skipulag bar þann árangur, að kaupendur viðurkenndu allir, að matið hafi orðið mun betra en undanfarin ár. Þeir fullyrða jafnvel, að það hafi aldrei verið eins gott. Þetta hefir sagt mér einn af framkvstj. Einkasölunnar.

Þá talaði hv. þm. um, að Einkasalan hefði tekið lán til þess að greiða eigendum andvirði síldarinnar. Þetta er í raun og veru ákaflega eðlilegt. Þeir, sem öfluðu síldarinnar, þurftu auðvitað að fá peningagreiðslu áður en hægt var að koma síld þeirra í verð. Einkasalan fann sér skylt að gera þetta fyrir framleiðendurna, en til þess þurfti lán.

Enn skal ég drepa á ásakanir hv. þm. fyrir það, að seld hafi verið síld, sem aldrei var veidd. Síldin hvarf fyrr en nokkur hafði búizt við. Allir höfðu gert ráð fyrir meiri síld en raun varð á. Hv. þm. sagði, að út af þessu hefði orðið samningsrof, og hann spyr, hve mikið hafi verið borgað í gabbsbætur vegna samninga, sem ekki var hægi að standa við. Sumt af þessari síld var kryddsíld, og þeim samningum var fullnægt með því að láta saltsíld í staðinn. Mér er ekki vel kunnugt um niðurstöðuna, en ég hygg, að lítið eða ekkert hafi þurft að greiða í skaðabætur. Getur verið, að þetta sé ekki alveg útkljáð enn við eitt eða tvö firmu. Hinum er öllum fullnægt að skaðlausu fyrir Einkasöluna.

Mér skildist hv. þm. telja ranglátt að greiða jafnhátt verð fyrir Austfjarðasíld og aðra. Það er rétt hjá hv. þm., að Austfjarðasíld er smærri og selst því lakar, sérstaklega í Svíþjóð. En bæði Norðlendingar og Vestfirðingar hafa þá aðstöðu fram yfir þá, sem síldveiði stunda við Austurland, að geta oftast nær lagt síld í bræðslu, ef ekki er hægt að koma henni í salt. Af því mun stafa, að Einkasölunni hefir ekki þótt annað sanngjarnt en að verðreikna Austfjarðasíld eins og norðlenzka. Þetta getur auðvitað verið álitamál, en hefir nauðalítil áhrif á heildarverð síldarinnar, vegna þess hve Austfjarðaveiðin er lítil.

Hliðstætt þessu er það, þegar skemmd kemur í síld eftir að búið er að ganga frá henni í tunnunum. Bæði árin 1928 og 29 hefir það valdið síldareigendum talsverðu tjóni. Þá var það líka álitamál, hvort Einkasalan ætti að bera nokkurn halla af því, eða hann ætti allur að lenda á einstökum mönnum, sem voru svo óheppnir að eiga síldina. 1928 var greitt svo úr þessu, að skaðanum var skipt milli Einkasölunnar og þeirra einstaklinga, sem skemmdu síldina áttu. Að nokkru leyti varð sama niðurstaðan í sumar, að ég hygg. Það mun hafa skemmzt talsvert mikið af síld á Svalbarði hjá Birni Líndal, skaðinn um 25 þús. kr. Síldareinkasalan tók nokkurn þátt í tapinu, en sjálfur varð hann að bera sumt. Það má vitanlega um það deila, hverja leið sé sanngjarnast og réttlátast að fara til að ráða fram úr slíkum óhöppum sem þessum, en að nota þetta sem árásarefni á Einkasöluna, nær engri átt.

Þá minntist hv. þm. á kryddsíldarverkunina og sagði, að áður en Einkasalan tók til starfa, hafi hún öll verið í höndum Íslendinga, en nú væru Norðmenn búnir að ná henni undir sig. Þetta er ekki rétt. (JJós: Ég sannaði það með tölum). Nei. Áður var hún raunverulega í höndum Svía, eins og mikið af síldarverzluninni. Þeir og aðrir útlendingar fluttu hingað salt og tunnur sínar til að fylla þær, og þeir réðu öllu um meðferð síldarinnar. Árið 1928 seldi Einkasalan af kryddsíld og sykursaltaðri og hreinsaðri síld um 50 þús. tunnur, en af saltaðri síld 184 þús. tunnur. Mest var salan af kryddsíld árið 1927, 60 þús. tunnur, en þá var líka saltaða síldin um 240 þús. tunnur. Niðurstaðan það ár var, að fjöldi manna tapaði stórfé á síldinni. Síðastliðið sumar var kryddað og sérverkað alls um 26 þús. tunnur, en saltað alls 123 þús. tunnur. Niðurstaða þessara þriggja ára verður þá, að hlutföllin milli saltsíldar og kryddsíldar verða nærri þau sömu. Kryddsíldarmagnið hefir aðeins rýrnað eftir sama hlutfalli og saltsíldarmagnið. Þess má líka geta, að eftir að Síldareinkasalan tók við, hefir verðið á kryddsíld verið miklu jafnara og stöðugra en áður. Nú er búið að selja fyrir fram 30 þús. tunnur af kryddsíld, svo að ekki er hægt að segja, að þessi markaður sé að lokast. Öðru nær. Og þessir nýju fyrirfram-samningar eru sæmilega hagkvæmir.

Hv. þm. kvartaði um það, að bátar héðan að sunnan fengju ekki söltunarleyfi nema fyrir 600 tunnum, og að ekki borgaði sig að gera út báta fyrir svo lítið. Mér fannst þetta eiga að vera ásakanir á hendur Einkasölunni, fyrir að veita ekki þessum bátum sömu réttindi og aðrir hefðu. Mér er ekki vel kunnugt um þetta atriði, en ég hygg, að það sé ástæðulaust að bregða stjórn Einkasölunnar um hlutdrægni í úthlutun söltunarleyfa. Það er rétt að bera þetta saman við togarana, þegar þeir hafa ekki söltunarleyfi nema fyrir 2.000 tunnum hver, en geta ef vel gengur aflað tíu sinnum meira. Þeir verða þá að leggja í bræðslu það, sem fram yfir er. Þetta stafar af því, að það verður að hafa hemil á, hve mikið er saltað. Það hefir verið álitið aðalatriðið til að halda uppi verði síldarinnar að hafa tök á, hve mikið er framleitt af saltsfld. Hún er ekki nema 1/4 til 1/6 af allri veiddri síld, og þá er óhjákvæmilegt að takmarka það, sem hver bátur og skip má salta fyrir sig. Meðaltalsveiði síðustu ára er 7—800 þús. hektólítrar, og þar af hefir ekki verið saltað nema 150–200 þús. tunnur.

Þá er það tunnuleysið í sumar. Það er nú ekki í fyrsta sinn í sögu síldarútgerðarinnar, sem slíkt hefir komið fyrir. Ég er ekki að mæla því bót, en það hefir verið algengur hlutur áður fyrr. Þá komu oft tugir þúsunda af tunnum, rétt þegar síldin var þrotin, og lágu svo til næsta árs. Þess væri auðvitað óskandi, að hægt væri að sneiða hjá slíkum óhöppum.

Þó að ég álíti, að Síldareinkasalan sé spor í rétta átt, dettur mér ekki í hug að halda því fram, að ekki geti átt sér stað mistök við hana. Síldarútveginum er nú einu sinni þannig farið, að erfitt er að reikna út fyrirfram, hver útkoman verður í það og það sinnið. Tunnubirgðir voru með mesta móti þegar veiðar byrjuðu síðastliðið sumar, en vegna þess, hve mikið barst á land af síld, voru þær snemma búnar.

Hv. þm. sagði, að vinir stj. hefðu haft nógar tunnur. Skildist mér hann þar eiga við vini einkasölustj. en ekki ríkisstj. Nú er það svo, að Einkasalan hefir ekki einkarétt til þess að flytja inn tunnur, þó að einstökum mönnum sé það hinsvegar ekki leyfilegt, nema með leyfi einkasölustj. Og ég veit ekki betur en að einkasölustj. hafi veitt slíkt leyfi, þeim, sem fram á það fóru. T. d. fengu útgerðarmenn á Austurlandi leyfi til þess að flytja inn svo mikið af tunnum, sem þeir vildu og þurftu, og mér er kunnugt um, að einn útgerðarmaður á Siglufirði fékk einnig þetta leyfi. Býst ég við, að hann hafi haft nógar tunnur yfir alla vertíðina. Tel ég því sennilegt, að ef fleiri hefðu farið fram á slíkt leyfi, hefðu þeir haft meiri tunnur, því að ég geri fastlega ráð fyrir, að einkasölustj. hefði veitt fleirum leyfi til að flytja inn tunnur, ef þeir hefðu um það beðið. Að minnsta kosti veit ég til þess, að einkasölustj. veitti tveim útgerðarmönnum slíkt leyfi í ágústmánuði, en þær tunnur komu of seint. Verður einkasölustj. ekki gefið það að sök.

Ég hefi þá drepið á nokkur þau atriði, sem hv. þm. Vestm. gerði að umræðuefni viðvíkjandi Síldareinkasölunni. Ég geri ekki ráð fyrir, að honum sé fullnægt með því, sem ég hefi sagt, og læt ég mér það þá í léttu rúmi liggja. Hinsvegar finnst mér, að þetta fyrirtæki eigi heimtingu á að njóta fullrar sanngirni um starfsemi sína. Ég geng þess ekki dulinn, að mistök hafa orðið í rekstri Einkasölunnar, og að svo verður áfram, vegna þess hve illt er að reikna út dutlunga síldarinnar. En hins verða menn að minnast, að síldarútgerðin var eilíf mistök frá upphafi sinna vega, allt þar til Einkasalan var sett á stofn, enda hygg ég, að engum komi til hugar að mæla því fyrirkomulagi bót, sem var á þessari atvinnugrein fyrir daga Síldareinkasölunnar. Þvert á móti er það viðurkennt af þeim mönnum, sem hafa reynslu og þekkingu á þessum útveg, eins og hann hefur gengið fyrir norðan, að með Einkasölunni hafi verið stigið sjálfsagt spor til nauðsynlegrar skipulagningar á þessari stopulu atvinnugrein.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við í ræðu hv. þm. Vestm.