26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Áður en ég vík nokkrum orðum að hæstv. ríkisstj., vil ég spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort hv. 2. þm. Árn. hafi mælt fyrir munn stj. þau orð, sem hann lét falla um sambandslögin í þessari hv. d. í gær. Ef svo væri, fyndist mér ástæða til að hafa eldhúsdaginn a. m. k. einum degi lengur.

Hv. þm. byrjaði á að lýsa því yfir, að hann hefði verið á móti sambandslögunum 1918. Vegna jafnréttisákvæðisins sagði hann að hann og forseti þessarar deildar hefðu verið lögunum mótfallnir og greitt atkv. gegn þeim. Þetta þótti mér ekki ótrúlegt, og ég hefi alltaf álitið þetta rétt. En svo fer hv. þm. að reyna að sannfæra deildina um það, að jafnréttisákvæðið sé ekki hættulegt. Hann dregur fram öll þau gögn ,sem hann getur, til að sýna, að hér sé engin hætta á ferðum. Hann reynir að sýna fram á það, að Danir hafi ekkert reynt síðan árið 1918 til að „vinna“ landið. Hann segir, að ef Danir hefðu ætlað að „vinna“ landið á þennan hátt, hefðu þeir þegar farið að reka hér atvinnuvegi, en það hafi þeir alls ekki gert, og því sé allt hættulaust. Þess vegna, segir hv. þm., að það sé hættulaust, þó að Danir hafi þennan rétt áfram. Nú er það vitað, að Danir hafa haft mikinn hug á því, að reka hér á Íslandi stórútgerð, en það, sem hefir heft þær framkvæmdir, er m. a. máske veigamesta ástæðan, það, að þeir eru ekki vissir um að fá haldið jafnréttisákvæðinu eftir 1943. Ég vona, að þessi orð hv. þm. standi fyrir hans eiginn reikning, en séu ekki töluð fyrir munn hæstv. ríkisstj. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. geti gefið þá yfirlýsingu, að þetta sé ekki mælt að hans vilja. Öðru máli er að gegna um hæstv. dómsmrh. Hann virðist vera sammála hv. 2. þm. Árn.

Ég skal ekki auka mikið þá glóð, sem þessa dagana hefir verið kynt að hæstv. ríkisstj., sérstaklega þar sem það er mín sannfæring, að mestur hluti af afglöpum stj. sé að kenna skapbrestum eins ráðh., þess ráðh., sem mestu ræður í stj., nefnilega hæstv. núv. dómsmrh.

Mér finnst, að til hæstv. dómsmrh megi rekja nálega öll mistök og hlutdrægni í embættaveitingum, sem núv. ríkisstj hefir framið; fjáreyðslur og annað, sem hæstv. stj. hefir verið borið á brýn, má, rekja til þess mikla skapbrests hæstv. dómsmrh., sem lýsir sér í takmarkalausu hatri og ofsóknum á hendur heilum stéttum og heilum flokkum manna. Þess eru mörg dæmi, að hæstv. ráðh. hefir gert sér hina mestu hneisu og komið flokksmönnum sínum í vandræði vegna þessa leiða skapbrests, sem keyrir svo úr hófi, að sumir segja, að það gangi geðbilun næst. Það þarf ekki að taka mörg dæmi, sem sýna þetta. Hv. þdm. þekkja þau svo vel; ég vil aðeins benda á hæstarétt og ofsóknir hæstv. ráðh. gegn honum. Áður en hæstiréttur dæmdi tvo vissa dóma, heyrðist ekki eitt orð frá hæstv. ráðh. í þá átt, að hæstiréttur væri ekki hinn bezti. En þegar hæstiréttur hafði dæmt í máli S. Í. S. gegn Birni Kristjánssyni og máli Garðars Gíslasonar gegn ritstjóra Tímans, þá varð annað uppi á teningnum. Dómurinn dæmdi í þessum málum öðruvísi en hæstv. ráðh. hefði óskað. Það er nú oftast svo, að annarhvor málsaðili er óánægður með dómana, og stundum jafnvel báðir. En það hefir ekki komið fyrir áður, að sá maður, sem á að gæta réttar og laga í landinu og halda vörð um hæstarétt, verði til að hefja ofsókn einmitt á þá stofnun, hæstarétt ríkisins.

En það hefir þessi hæstv. ráðh. gert, og það svo, að með eindæmum er.

Fyrst reyndi hæstv. ráðh. að vekja vantraust á hæstarétti hér innanlands með því að skrifa um hann lævíslegar blaðagreinar. En svo fer hann að beita meiri hörku, og þar að kemur, að hann kemur með málið á Alþing. Hann viðhefir þau orð um réttinn, sem verst verða sögð um vondan dómstól, segir, að hann hafi framið „jústits-morð“. En allt þetta er honum ekki nóg. Hann fer að reyna að lítilsvirða réttinn í öðrum löndum. Tækifæri til þess fékk hann, þegar enskur botnvörpungur var tekinn hér við land og sektaður. Til þess að ná sér niðri á hæstarétti, gefur hann þessum botnvörpungi upp sakir. Þetta gerði hæstv. ráðh. til þess að það sæist erlendis, að dómsmrh. landsins treysti ekki æðsta dómstóli landsins til að dæma rétta dóma, og að ráðh. yrði að taka í taumana vegna þess, að hæstiréttur hefði ekki dæmt rétt. Það er ekki verið að hugsa um, hver áhrif þetta geti haft á álit okkar í augum erlendra þjóða. Nei, sóma landsins er stefnt í voða og tvísýnu til að reyna að hnekkja áliti hæstaréttar erlendis.

Af þessu gæti auðvitað leitt það, að nábúaþjóðir okkar álitu, að við Íslendingar værum ekki færir um að dæma mál okkar eða fara með sjálfstjórn okkar. Það hefir komið fyrir, að smáþjóð hafi verið svipt sjálfstjórn sinni fyrir minni sakir en þetta. Sem betur fer hafa erlendar þjóðir séð í gegnum svikavef ráðherrans. Það er því vonandi, að í þetta sinn hafi ekki orðið verulegt tjón af þessari árás.

Hæstv. ráðh. hefir fundizt, að þessi árás hefði ekki borið fullnægjandi árangur. Því liggur fyrir þinginu nú frv., sem flutt er af hálfu hæstv. dómsmrh. um að afnema hæstarétt. Hann finnur, að fyrri árásir hans á hæstarétt hafa ekki hrifið, og þess vegna reynir hann að koma hæstarétti á kné með því að beiðast þess, að Alþingi vilji leggja hann niður. Hitt athugar hann ekki, eða kærir sig ekki um, að með þessu frv. gerist hann, að dómi nærfellt allra lögfræðinga landsins, tvöfaldur eiðrofi við stjórnarskrá ríkisins.

Eins og allir þm. hefir hann skrifað undir eiðstaf að gera ekkert, sem færi í bága við stjórnarskrá ríkisins, og sem embættismaður hefir hann sjálfsagt undirskrifað samskonar eiðstaf: Ég veit ekki, hvað hatur og ofsóknir eiga að ganga langt til þess að flokksmönnum hans sé nóg boðið, ef þeim ofbýður þetta ekki. A. m. k. virðist það benda til þess, að þeim þyki eitthvað athugavert við frv. um fimmtardóm, því að ekki er það komið ennþá úr nefnd í Ed.

Það hefir verið reynt að afla þessu frv. fylgis með því að segja rangt til um atfylgi mætra lögfræðinga við það. Þetta er þó ekki gert opinberlega, heldur hvíslað á bak við tjöldin, eins og vani er í herbúðum hæstv. dómsmrh. Því hefir verið hvíslað, að Ólafur Lárusson prófessor hefði samið frv. og svo að segja alveg búið það undir Alþingi, en það er ekki rétt. Þetta er sagt í þeim einum tilgangi að blekkja menn til fylgis við frv., því að menn vita sem er, að prófessor Ólafur Lárusson er ágætur lögfræðingur.

Eitt er það, sem alltaf fylgir svona stjórnlausu hatri og ofsóknum. Það er lítilmennskan. Lítilmennskan er óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirra, sem beita hatri og ofsóknum. Hæstv. atvmrh. mun vissulega finna með sjálfum sér, að hann er minni maður eftir að hann, vegna gamals haturs, brýtur sjálfsagða skyldu sína um að veita Magnúsi Jochumssyni póstmálaritarastarfið. Þetta er eitt dæmi lítilmennsku hans sem afleiðing haturs, en þau eru svo óteljandi hjá hæstv. dómsmrh. Lítilmenni eins og hæstv. dómsmrh. hafa þann sið, að hæla sér bæði í ræðu og riti. Hæstv. ráðh. hefir fundið til. sinnar eigin lítilmennsku, og það er gott. Þess vegna þarf hann að skrifa fleiri en eina grein í Tímann til þess að hæla sjálfum sér. Við höfum séð 16 útgáfur af hólgrein hans, þar sem hann er að miklast yfir vindsnældunum og fatasnögunum í menntaskólanum, og 17. útgáfuna höfum við heyrt nú við eldhúsdagsumr. af vörum ráðh. Óhjákvæmileg afleiðing af hátterni þessa hæstv. ráðh. er sú, að hann gerir meira en sæmilegt er til þess að afla sér fylgis. Hann beitir þeim vopnum, sem honum finnst vera handhægust í svipinn, slær á lægstu strengi mannanna og kaupir þá til fylgis við sig. Spillingin í þessu efni er orðin svo mikil, að flestum hugsandi mönnum ofbýður. Skýrt dæmi um þetta er það, að lækni á Austurlandi er veitt lausn frá embætti og hann er settur á laun hér í Reykjavík. Það var sagt af andstöðublaði ráðh., að læknirinn ætti að vinna visst starf fyrir ríkisstj., en stjórnarblaðið sjálft andmælir því, að hann eigi að vinna þetta verk; segir það óráðið, hvað hann eigi að vinna. Hinu andmælir blaðið ekki, að maðurinn fái 6.000 kr. laun. Það sé bara alveg óákveðið, hvað hann eigi að gera. Því miður er það svo, að það er ekki laust við, að líka hér innan þingsins eigi þessi spilling sér stað. Utan um þá menn, sem beita slíkum vopnum, er alltaf hópur hálaunagráðugra lítilmenna, sem bíða þolinmóðir eftir bita eða sopa. Hér á landi hefir þessi gerspillta bardagaaðferð ekki þekkzt fyrr en núv. dómsmrh. fékk völdin í landinu. Í Ameríku tíðkast hún hinsvegar mjög, en eins og menn vita verið fordæmd og vísað á bug með fyrirlitning í hinum mestu menningarlöndum. Þeir menn, sem orðið hafa berir að slíkum bardagaaðferðum hér í Evrópu, hafa æfinlega átt mjög skamman pólitískan lífsferil. Og ég vænti þess fastlega, að svo verði einnig hér. Það sannast á nálægum árum, hvort má sín meira í fari Íslendinga, arfurinn frá hinum fáu ófrjálsu mönnum eða hinum mörgu kynbornu, sem land þetta byggðu í öndverðu. Þó að ég sé ekki í vafa um, hvor arfurinn má sín meira, get ég ekki neitað, að því miður eru allmörg dæmi þess, að til eru menn á Íslandi, sem lúta svo lágt að nota sér þennan ófögnuð og taka á móti stöðum og embættum án þess að þeir hafi nokkuð til unnið, vitandi það, að aðrir menn eru betur til starfans fallnir og eiga meiri rétt til hans. Ég vona, að þegar sú óöld er hjá liðin, sem nú ríkir, verði hún þjóðinni til varnaðar. Ég veit, að það verður svo, að beztu mennirnir munu með hryggð og fyrirlitning minnast þess, sem fram hefir farið nú um tveggja ára skeið. Það er búið við þessar umr. að telja upp mýmörg dæmi um hlutdrægni í embættaveitingum og ný embætti, sem stofnuð hafa verið vegna manna, sem ráðherrarnir þurftu að kaupa til fylgis við sig. Að ég ekki tali um það, að stj. brýtur þingræðið berlega til þess að geta hangiðvið völd. Það hefir hent sumar óhappastjórnir í öðrum löndum. Hæstv. stj. lætur líka, eins og allir vita, kúgast í sínu stærstu stefnumálum. Þess eru dæmi, að hún hefir greitt atkv. gegn sínum eigin frv. til þess að þóknast jafnaðarmönnum og hanga áfram við völdin. Um þjóðina er ekki hugsað, aðeins um völdin. Það, sem ég vildi sérstaklega víta, er hatrið, heiftin og lítilmennskan, sem eru ráðandi þættir í stjórnmálastarfi núv. dómsmrh. Það verður aldrei heilbrigt stjórnmálalíf á Íslandi fyrr en sá ráðh. lætur af völdum.