26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. stjórn þóttist ætla að hafa þau vinnubrögð í þessum eldhúsdagsumr., að moka frá dyrunum jafnóðum og kastað væri að þeim, en mér sýnist hún vera að gefast upp við það, enda eru haugarnir farnir að verða nokkuð stórvaxnir.

Ég ætla að segja fáein orð út af því, sem hæstv. forsrh. svaraði ræðu minni. Hann sagði, að ef þingið hefði gert lítið, þá væri það mér að kenna og mínum samherjum. En ég vil ekki kannast við, að ég hafi á nokkurn hátt unnið minna eða ver að þingstörfum nú en áður. Hitt er staðreynd, að það hefir vantað stj. á þessu þingi og ábyrgð á því verða ráðh. og þeirra flokksmenn að bera.

Hæstv. ráðh. fannst það vera alveg út í bláinn, og ekkert koma málinu við, skildist mér, að vera að ráðast á fyrrv. ritstjóra Tímans, Tryggva Þórhallsson. En ég hefi aldrei getað skilið sundur persónuna Tryggva Þórhallsson, í ritstjóra og ráðh. Þó að hæstv. ráðh. vilji skipta sér í tvo helminga, held ég, að þegar ritstjórinn varð ráðh., hafi engin umbreyt. orðið á persónunni. Það, sem ég var að gera, var samanburður á verkum ráðh. og orðum ritstjórans, og það tvennt er eins ólíkt og dagur og nótt. Hæstv. ráðh. fannst auðvitað óþarfi að vera að rifja upp, hvað hann sagði, áður en hann varð ráðh. Ég skil það vel, að þetta er heldur óþægilegt fyrir hann. En ef hæstv. ráðh. vill viðurkenna rétta þá setningu, sem hæstv. dómsmrh. hefir sagt um stjórnmálamenn, að gildi þeirra eigi að metast eftir því, hvernig þeir standi við það, eftir að þeir verða ráðh., sem þeir hafa sagt á undan, hlýtur hann að sjá, að réttmætt er að gera þennan samanburð líka á honum sjálfum. Það er alkunna, að hæstv. forsrh. „dependerar“ mjög af hæstv. dómsmrh. Ég vil því, að hann virði orð hans í þessu sambandi engu síður en þegar hæstv. dómsmrh. vill fá hann til einhverra miður þokkaðra verka.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði farið norður með fjáraukalögin miklu í töskunni. Ég nefndi ekki fjáraukalögin, heldur landsreikningana. En ég vil minna hæstv. ráðh. á, að það fóru fram kosningar sama árið, sem hann ólmaðist sem mest í Tímanum út af fjáraukal. Það var árið 1923. Þá fékk ég fleiri atkv. en ég hefi nokkru sinni fengið, fyrr og síðar. Hitt er rétt, að atkv. mín við síðustu kosningar voru færri en þá, en þó voru þau nógu mörg til þess, að ég hafði mikið fram yfir þá menn, sem fylgdu hæstv. ráðh. að málum.

Hæstv. forsrh. gat ekki annað en viðurkennt, að skýrsla sú, sem hann gaf þinginu í fyrra um gjöld ársins 1928, hefði ekki reynst rétt, eins og ég benti á í fyrri ræðu. minni. En honum fer svo lítilmannlega, að hann kennir einhverjum ónefndum manni í stjórnarráðinu um þetta. Það er mjög handhægt að nota þá aðferð, en gallinn er aðeins, að ráðh. fer hér með rangt mál. Ég veit vel af hverju þessi mismunur stafar. Hann stafar af greiðslum tilheyrandi árinu 1928, sem fóru fram eftir að skýrslan var gefin. Þetta sama kom fram, er ég á sínum tíma gaf þinginu skýrslu um gjöld ársins 1921 og kemur ætið fram. En þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði gefið falsaða skýrslu, og ég vildi nú aðeins sýna honum fram á, að hann hefir þá líka gefið falsaða skýrslu. Í stað þess að viðurkenna þetta skellir hann sökinni á einhvern í stjórnarráðinu, til þess að reyna að frelsa sitt eigið skinn. En þetta er ljót aðferð og ætti að vera ósamboðin öllum ráðh.

Hæstv. ráðh. spurði, af hverju við beittum hann ekki heim vopnum, sem við réðum yfir. Finnst hæstv. ráðh. ekki, að vopnunum hafi verið heitt? Þessi látalæti hæstv. ráðh. eru hlægileg. Hann þakkar okkur og þakkar, en hann er allt annað en þakklátur í hjarta sínu. Það sést vel á honum. Hæstv. ráðh. finnur að vinnubrögðum okkar. Ég skal játa, að við sjálfstæðismenn höfum komið okkur saman um, að vera ekki sí og æ að narta í hæstv. stj., og fara ekki út fyrir þann ramma, sem dagskráin heimilar okkur í það og það skiptið, eins og hæstv. ráðh. og hans flokksmenn gerðu á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu á sínum tíma. Við tökum eldhúsdaginn til þessa og látum okkur nægja hann að miklu leyti.

Hæstv. ráðh. sagði,. að ég mundi vita eins vel um stóra lánið úr Brunabótafélagi Íslands til kaupmannsins hér í bænum og hann sjálfur, en ég veit ekkert um það, nema að það stóð í einhverju sambandi við samninga við þann mann, sem olli sjóðþurðinni í Brunabótafélaginu, samninga, sem voru komnir svo langt, að hæstv. ráðh. hafði lofað manninum að gefa honum upp sakir, en sveik hann, af því að hæstv. dómsmrh. fékk hann til þess. Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta mál. Ég vítti hæstv. ráðh. fyrir að veita lánið; það endurtek ég nú og hirði ég ekki, þótt ráðh. telji þetta illgirni.

Líka kom hæstv. ráðh. að byggingunni á Hvanneyri, fjósinu og hlöðunni. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að byggingin hefði orðið dýr, en það var í raun og veru alls ekki fyrst og fremst það, sem ég var að ásaka hann fyrir, heldur hitt, að hann skyldi ekki útvega sér heimild til að borga út svo háar upphæðir, sem um var að ræða. Hann hlaut að vita það í fyrra meðan þingið stóð, að búið var að borga 80 þús. kr., og að þó var mikið eftir. Af hverju reyndi hann ekki að fá heimild? Þessu var ég aðallega að hafa á móti, en þó vil ég undirstrika, að byggingin er svo dýr, að það er alveg óforsvaranlegt. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði látið reisa íbúðarhús handa skólastjóranum á Hvanneyri, og að það hefði orðið ½ dýrara en fjósið. Þetta var nú ekki á meðan ég var atvmrh., það var árið 1920, ef ég man rétt, og þá var dýrast að byggja allra ára. Það var búið að undirbúa þessa byggingu af Sigurði heitnum Jónssyni. Íbúðarhúsið brann, og var óhjákvæmilegt að byggja það upp aftur. Annars ætla ég ekkert að afsaka þetta. Það varð að byggja húsið á óheppilegasta tíma. Þá var margfalt dýrara að byggja en þegar fjósið var byggt, svo að í raun og veru verður fjósið miklu dýrara en íbúðarhúsið. Nú getur hæstv. ráðh. reynt að telja bændum trú um, að fjósið eigi að vera dýrara eða jafndýrt og íbúðarhúsið, en þeir munu ekki trúa því, og þeir sjá strax, að kostnaðurinn er óhæfilegur, og þeir sjá líka, að það eru engin meðmæli fyrir skólann, að fé sé eytt þar um þörf fram.

Um Búnaðarbankann sagði hæstv. ráðh. ekki annað en það, að það hefði verið nauðsynlegt að skipa 3 bankastjóra til að undirbúa starfsemi bankans. Þessi undirbúningur er í því fólginn að búa til eyðublöð og reglugerðir. Fyrirmynd að öllum eyðublöðum er hægt að fá í hinum bönkunum, og það er sannarlega ekki nema eins manns verk að semja reglugerðirnar. Nei, bankastjórastöðurnar voru ekki veittar af því, að þörf væri á þeim þegar í stað handa peningalausri stofnun, heldur til þess að láta góða flokksmenn fá feita bita. Til hvers er að skipa fjölda bankastjóra við peningalausan banka? Ekki er það fyrir landsmenn gert. Það sjá allir.

Ég er viss um, að þessi eyðublöð og reglugerðir; sem bankastjórarnir eiga að búa til, verða dýrustu skjöl á landinu. Hæstv. ráðh. sagði, að ég mundi helzt vilja, að bankinn tæki aldrei til starfa. Það er tóm vitleysa og ég spurði ráðh., hvenær hinar deildirnar tæki til starfa. Hann svaraði því engu, svo að ég endurtek hér með spurning mína.

Þá kem ég að bankaráðsformennsku hæstv. forsrh. og svari hans þar að lútandi. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki viljað taka lán eða hjálpa bankanum til að taka lán eins og fyrrv. stj. gerði. Nei, það er satt, ráðh. vildi ekki gera þetta, og því varð bankinn að loka. En hvað stóð þessi harðskeytti vilji ráðh. lengi? Jú, hann stóð þangað til ráðh. sá, að annað hvort varð stj. að fara frá eða hjálpa varð bankanum. Og þá stóð ekki á viljanum til að taka lánið, þá var sjálfsagt að gera það. En ætli það hefði ekki verið betra að gera það fyrr? Ég held það. Því segi ég: Hún hefir orðið okkur dýr, bankaráðsformennska ráðh.

Fyrsta afleiðingin af ráðsmennsku hans er sú, að taka þarf stór lán til að væta úr þessu og hjálpa atvinnuvegunum. Það er undarlegt, ef hæstv. atvmrh. álítur, að það sé í þágu landsins að hugsa ekkert um bankann. Heldur hann, að bankinn og landið séu einhverjar andstæður? Slíkt er hin mesta fjarstæða. Hæstv. ráðh. óskaði, að ég hefði haft tækifæri til að halda þessa líkræðu yfir sér sem bankaráðsformanni Íslandsbanka miklu fyrr. Ég verð að taka undir það með honum. Ég vildi að það hefði verið hægt, áður en hann var búinn að koma bankanum í þetta öngþveiti. Þá hefði verið komið í veg fyrir mikið illt.

Hæstv. forsrh. þakkaði mér fyrir, að ég hefði líkt sér við fálkann. En er hann viss um, að það sé þakkarvert? Ég skal segja honum hvers vegna ég geri það. Ég er gamall smali, og þegar ég í æsku gætti búfjár fyrir föður minn, sá ég fálkann á sumrum mjög oft ráðast á rjúpurnar, drepa þær og rífa í sundur. Og þegar hann var búinn að því, fór hann að garga og væla yfir því, eins og hann dauðsæi eftir aðförum sínum. Mér datt í hug að bera saman við þetta aðfarir hæstv. ráðh. við Íslandsbanka. Þær voru svipaðar.

Hæstv. ráðh. hafði mikil völd, en bankinn var tæpt staddur og veikur fyrir, og hann beitti sér gagnvart bankanum eins og fálkinn við rjúpuna. Síðan sá ráðh. eftir, hvernig komið var fyrir bankanum, og leggur fram 4½ milljón til bjargar honum.

Nú getur ráðh. gert það upp við sjálfan sig, hvort honum finnst ástæða til að vera upp með sér af samlíkingunni, en hann má alls ekki skilja hana svo, að ég telji það frægðarverk fyrir hann að ráða niðurlögum nauðstaddrar rjúpu, eins og Íslandsbanki var.

Hæstv. forsrh. lauk ræðu sinni með því, að það væri ósæmilegt að bera mig saman við Hallgrím Kristinsson, og að ekki mætti nefna nöfn okkar í sömu andránni. Ég var ekki að gera samanburð á okkur. Ég var að bera saman skoðun H. Kr. á fjármálakreppunni 1920–21, og skoðun hæstv. ráðh. á fjáraukal. miklu. Annars veit ég ekki, hvað gæti verið ósæmilegt við það, að nefna jafnvel miklar andstæður í sömu andránni.

Svo kveð ég að líkindum hæstv. forsrh. fyrir fullt og allt við þessa umr., því að eftir þessa ræðu er ég dauður. Hann gaf okkur stjórnarandstæðingum ráðleggingar um það, hvernig ætti að haga eldhúsdeginum, við ættum aðeins að prenta í Alþt. greinar úr Morgunblaðinu og Vísi. Ég skil þetta ákaflega vel, og veit að hann mundi helzt vilja þetta. Ég sé, að honum líður ekki vel þótt hann þakki og glotti. (Forsrh.: Það er misskilningur, mér líður afarvel. — ÓTh: Nei, afarilla). Hæstv. ráðh. getur ekki búizt við, að við högum eldhúsdeginum eftir því, sem hann óskar. Við vítum auðvitað hispurslaust það, sem vítavert er, alveg án tillits til, hvort honum líkar það betur eða ver.

Eitt sagði hæstv. ráðh. enn, sem ekki er rétt, að stj. hefði heimild til að flytja fjárveitingar á fjárl. á milli ára. Hún hafði það áður, á meðan fjárveitingatímabilið var 2 ár, en alls ekki nú orðið. Sérhvert fjárhagsár er nú reikningsheild út af fyrir sig.

Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir embættaveitingum sínum, og vildi telja hv. þdm. trú um, að þær væru framkvæmdar af óhlutdrægni og samvizkusemi. En ég vil minna hann á það, sem ritstjóri Tímans sagði fyrir stuttu í blaðinu, ég veit ekki, hvort ráðh. hefir tekið eftir því. Hann sagði, að það gætu ekki aðrir fengið embætti en þeir, sem hefðu samúð með stefnu stj. Ef þessari reglu er fylgt, þá geta ekki aðrir en þeir, sem eru í stjórnarflokknum á þingi, eða fylgja stj. utan þings, fengið embætti. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. skrifar undir þessi orð ritstjórans. Ég hefi ástæðu til að halda, enda er það kunnugt, að hann hafi ekki verið ánægður með stj. Jónasar Þorbergssonar á blaðinu, og sagt er, að hann hafi keypt ritstjórann til þess að fara frá Tímanum með því að veita honum útvarpsstjórastöðuna. Það væri gaman að heyra af vörum hæstv. ráðh., hvort hann er samþykkur þessum veitingareglum, að það eigi ekki aðrir að fá embætti en þeir, sem hafa samúð með stefnu stj. Þessi ritstjóri sagði, að hæstv. forsrh. hefði sett svartan blett á hina íslenzku kirkju og sögu þjóðarinnar, með því að veita Magnúsi Jónssyni prófessorsembætti við háskólann. En ef hæstv. ráðh. vill nokkuð miklast af þessari embættisveitingu, þá vil ég benda á, að það var skylda að veita það samkv. gildandi lögum um háskóla Íslands. Það mun hæstv. dómsmrh. ekki hafa viljað, og hefir því hæstv. forsrh. forðað honum frá því að fremja lagabrot, og að vísu er það þakkarvert að hafa sómatilfinningu fyrir því að halda lög háskólans. En þetta var ekki aðalástæðan fyrir veitingu þessa embættis. Það má ekki gleyma því, að Ásmundur Guðmundsson gat ekki fengið dócentsembættið nema að Magnúsi Jónssyni væri veitt prófessorsembættið, og skólastjórinn á Eiðum gat ekki fengið það embætti, nema dócentsembættið yrði veitt. Þarna var heil keðja, sem þurfti að leysa, og það mun hafa verið aðaltilgangur hæstv. ráðh., þó að það geti litið svo út, að hann hefi með þessu verið að bjarga hæstv. dómsmrh. frá því að fremja lagabrot.

Ég sé ekki ástæðu til að minnast á vegavinnukaupið, þó að ég hafi skrifað það hjá mér. Það er mjög eðlilegt, að kaupgjaldið geti ekki verið jafnt alstaðar á landinu, þar sem verðlag og dýrtíð er svo mismunandi í héruðunum.

En út af frávikningu vitavarðarins á Reykjanesi vil ég beina til hæstv. ráðh. fyrirspurn um eitt atriði. Það er upplýst, að 1928 var hafin rannsókn gegn honum út af því, að hann hefði náð í spíritus, sem úthlutað var handa vitanum, og drukkið hann sjálfur. Ég vil spyrja: hvers vegna var þessi rannsókn látin falla niður?

Hæstv. forsrh. talaði nokkuð um eldhúsdaginn og sagði, að þegar Framsóknarflokkurinn hefði verið í stjórnarandstöðu, þá hefði sér jafnan verið falið það einum, að halda uppi umr. og sókn á stj. (Forsrh.: Ég sagði ekki alltaf, en það var svo á þinginu 1926). Ég er ekkert að rengja það. En það væri drápsverk, og enginn einn maður, sem gæti annað því að gagnrýna gerðir núv. stj. Það var létt verk þegar hæstv. ráðh. var í stjórnarandstöðu, en nú þarf svo miklu að moka, að enginn einn maður gæti afkastað því.

Þá vil ég aðeins geta þess, að landssímaverkfræðingnum G. Hlíðdal hafa verið greidd aukalaun fyrir að gegna störfum í forföllum landssímastjóra. Þetta er beinlínis lagabrot. Það er lagaleg skylda, að embættismenn gegni störfum yfirboðara sinna, þegar þeir eru forfallaðir, án þess að þeir geti krafizt sérstakra launa fyrir það. Það var því gersamlega rangt af hæstv. ráðh. að borga þetta út.

Þá vil ég beina nokkrum orðum til hæstv. fjmrh. Mér fannst hann vera undarlega úrillur yfir því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, og þó var ég svo hógvær þá. Áður hefir mér virzt, að hæstv. ráðh. væri skapstillingarmaður, en nú var hann óvenju óstilltur, og lítur helzt út fyrir, að bankamálið hafi umhverft skapsmunum hans.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rangt með farið hjá mér, að ríkið hefði tekið 5½ millj. kr. lán síðastl. ár. Ég er alveg hissa á þessu, því að þetta stendur í frv., sem ráðh. hefir sjálfur flutt hér á þinginu, og fengið samþ. (Fjmrh.: Það voru teknar 2½ millj. kr.). Já, það kann að vera. Ég sagðist ekki vita, nema eitthvað kynni að vera óeytt af þeirri umsömdu upphæð, sem í samningnum stæði, og vísa ég til ræðunnar um það.

Hvernig getur hæstv. ráðh. búizt við, að ég viti upp á krónu, hvað kann að vera óeytt af láninu? En ég vil í þessu sambandi minna hann á, hvað flokksmenn hans sögðu eftir þingið 1927, þegar stj. leitaði ábyrgðarheimildar fyrir 9 millj. kr. láni í Ameríku handa Landsbankanum. Þá var sagt, og síðan endurtekið í blöðum Framsóknarflokksins, að með þeirri lántöku væri lagður 90–100 kr. skuldabaggi á hvert mannsbarn í landinu, og þó var aldrei tekin nema 1 millj. af þessu láni og borgað aftur nærri strax. Man ekki hæstv. ráðh. eftir þessu? En það kemur nú í ljós hér sem oftar, ef núv. ráðh. eru teknir sömu tökum og þeir beittu áður, þá ískra þeir og skrækja. En þeir hafa sízt ástæðu til þess, ef þeir athuga framkomu síns eigin flokks, þegar hann var í stjórnarandstöðu.

Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. geri til mín þá kristilegu kröfu, að ég eigi að gjalda illt með góðu. Og það kann að vera rétt og fallegt, en ég vil jafnan halda mér við þá gömlu reglu, að greiða í sömu mynt. (MJ: Samkv. kenningu gamla testamentisins). Já, hún getur oft verið góð.

Ég held mér þá við það, sem hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að búið væri að taka 2½ millj kr. af þessu láni. Annars skiptir þetta ekki miklu máli, því að stj. hefir fengið heimild til 12 millj kr. lántöku, og auk þess 4½ millj. kr. handa Útvegsbankanum. Alls hefir stj. því fengið heimild til 16½ millj. kr. lántöku. Ef þessar heimildir verða notaðar í ár, verða ríkisskuldirnar í árslok orðnar um 27 millj. kr. Þetta er ómótmælanlegt. Og ég hefi gengið út frá, að stj. léki sér ekki að því að fá lánsheimildir, heldur væri tilgangurinn að nota þær. Á þessu var spádómur minn byggður, og getur enginn vitiborinn maður haft nein rök gegn þessu.

Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ekkert áætlað fyrir vaxta- og afborganagreiðslur af þeim lánum, sem á að taka handa Útvegsbankanum, og ekkert er heldur áætlað fyrir afborgunum af 3 millj. kr. innskotsframlagi ríkissjóðs til Landsbankans. Það hefði þó verið varlegra, því að ekki er víst að Landsbankinn borgi það. Það er ekki rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að Landsbankanum bæri að greiða þetta skilyrðislaust. Samkv. samningnum er honum skylt að borga 6% í vexti af innskotsfénu, þó þannig, að sú greiðsla fari ekki fram úr helmingi af ágóða bankans hvert ár. En hvað var ágóðinn af rekstri bankans árið 1928? Enginn, Hann fór allur í afskriftir á töpum, ca. 900 þús. kr. Það má vel vera, að útkoman verði betri fyrir síðastl. ár, og að bankinn græði svo á næstu árum, að hann geti greitt vexti af þessu framlagi ríkissjóðs, en ég hefi ekki séð neitt bréf fyrir því, og um það getur enginn vitað fyrirfram. Stóryrði ráðh. út af þessu eru honum því til lítils sóma.

Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að vextir og afborganir væru of lágt reiknaðir af enska láninu, af því að ekki er tekið tillit til þess, sem lagt verður í Íslandsbanka. Ég vænti, að hæstv. ráðh. leiðrétti þetta í Ed., og, skora á hann að gera það.

Þá bar hæstv. fjmrh. okkur stjórnarandstæðingum það á brýn, að við hefðum komið mjög ógætilega fram við atkvgr. um fjárl. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi átt við fjárveitingartill., sem fluttar voru vegna míns kjördæmis til raforkuveitu. en þær voru felldar, svo að hæstv. ráðh. þurfti ekki að telja það eftir. Við fórum fram á, að ríkissj. tæki ábyrgð á ½ millj kr. láni til rafveituframkvæmda í Skagafirði, en hv. samþm. ráðh., 2. þm. Eyf., flutti till. um ábyrgðarheimild fyrir hærra láni til rafveitu á Siglufirði, og hún var samþ., en ábyrgðarbeiðni Skagfirðinga felld. (Fjmrh.: Hv. þm. hjálpaði til þess, að ábyrgðarheimild var samþ. fyrir Siglufjarðarkaupstað). Já, víst gerði ég það. Ég áleit það gott mál og sanngjarnt að veita þessa ábyrgð. Við sjálfstæðismenn erum sanngjarnari en hæstv. ráðh. og hans flokksbræður. Við greiðum atkv. eftir málefnum, en ekki eftir því, fyrir hvaða kjördæmi þau eru. Annars hélt ég að hæstv. fjmrh. væri ekki svo illa innrættur, að hann vildi haga sér eftir því. En það er augljóst, að einhverjir hv. þdm. hafa greitt atkv. eftir kjördæmum en ekki málefnum. Annars hefði önnur ábyrgðarheimildin ekki verið felld. Hæstv. ráðh. sagði, að stjórnarflokkurinn væri varasamur í þessum efnum og stingi það mjög í stúf við okkur sjálfstæðismenn. Það sjá allir, hvort við getum stofnað til eyðslu, þar sem við erum aðeins 11 en stjórnarmenn 17 í þessari deild. Hæstv. ráðh. hefir því aðstöðu til að ráða öllu, sem hann vill, og þess vegna verður hann að bera ábyrgðina.

Þá var hæstv. ráðh. eitthvað að tala um bitlinga í fjárl., en hv. þm. Borgf. hefir nú upplýst með skýrum tölum, að meiri hl. þeirra er fluttur af flokksmönnum stj. Þess vegna finnst mér það sitja illa á hæstv. stj. og sérstaklega fjmrh., að amast við því, þó að nokkrir persónustyrkir séu settir inn í fjárl., þegar hann hefir samþ. að greiða úr ríkissj. mýgrút af styrkjum og beinum til einstakra manna, sem búið er að sýna fram á, að greitt hefir verið að miklu leyti án heimildar. Það er ekkert undarlegt, þó að þm. vilji líka hafa till. um veitingu þessara bitlinga, en ekki láta stj. sitja eina að því.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það vissi enginn, hvað mikil lán yrðu tekin fyrir ríkissjóð á þessu ári, en gerir þó ráð fyrir, að einhver lán verði tekin. Þetta fer ekkert í bág við það, sem ég sagði. Ég sagði, að það væru miklar líkur til, að stj. þyrfti að taka lán, og þess vegna hefði hún tryggt sér lánsheimildina.

Þá var hæstv. ráðh. eitthvað að finna að því, að ég hefði verið að spá um ókomna tímann. Ég veit ekki hvað er á móti því að gera það, a. m. k. var mér kennt, að maður ætti að bera umhyggju fyrir morgundeginum, en ekki hafa áhyggjur af honum. Og held ég, að sú regla sé góð og nauðsynleg fyrir fjmrh. að skyggnast fram í ókomna tímann. Ég var að gera mér hugmyndir um; hvernig fjárhagur ríkissjóðs mundi verða í árslok 1930. Hæstv. ráðh. hefir orðið að mynda sér spádóma um tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1931. Ég held, að allir skynsamir menn verði að hugsa dálítið fram í tímann.

Ég skal ekki deila við hæstv. ráðh. unz það, hvort það hafi verið rétt að bæta ½ millj. við fyrir því, sem greitt var úr ríkissjóði í jan. þ. á. Reynslan sker úr um það.

Þá var hæstv. fjmrh. að tala um, að við sjálfstæðismenn hefðum borið illa ósigurinn við síðustu kosningar. Á hverju markar hann það? Mér hefir aldrei liðið betur en síðan. Og hvaða ósigur hafa sjálfstæðismenn eiginlega beðið? Er það ósigur, að auka stórum við fylgi sitt og fá mörgum þúsundum fleiri atkv. en Framsóknarflokkurinn? Þótt Sjálfstæðisflokkurinn kæmi færri mönnum að en áður, þá jók hann við kjósendatölu sína, og það er aðalatriðið.

Þá kem ég að hæstv. dómsmrh. (ÓTh: Það væri nú gustuk að sleppa honum). Þetta er mín síðari ræða, svo að ég get ekki sleppt því. (Forsrh.: Ég skal koma því til hans, sem hv. 1. þm. Skagf. óskar). Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. er svo fljótur skrifari, að hann geti það.

Ég vildi þá fyrst minnast á bláu bókina, sem hæstv. dómsmrh. var með hér á eldhúsdegi í fyrra, og sagði þá, að bráðlega myndi koma út. Sagði hann, að í henni ætti að birtast útdrættir úr ýmsum dómsmálum, svo að almenningur gæti séð réttvísina í landinu. Tilgangurinn var víst sá, að grafa undan áliti hæstaréttar. Þessi bók er ekki komin fram enn, og hefir þó verið varið a. m. k. 10 þús. kr. til að gefa hana út. Hvað hefir verið gert af upplaginu? Ég hefi heyrt þá sögu, að sjálfstæðismaður, einn hafi heimsótt framsóknarmann fyrir norðan. Framsóknarmaðurinn fór út til að ná í brennivín handa gesti sínum, og á meðan varð hinum litið á bók, sem lá á borðinu, og fór að blaða í henni. Í bókinni voru útdrættir úr ýmsum dómsmálum. Þegar framsóknarmaðurinn kom aftur með brennivínið, hrifsaði hann bókina af gestinum og sagði, að þessháttar lesning væri aðeins fyrir framsóknarmenn, en ekki neina íhaldsskarfa. Ef þetta er rétt, virðist það allundarleg aðferð að gefa út bækur, sem ætlaðar eru sérstökum flokki, eða vildarvinum sérstaks ráðh., fyrir stórfé úr ríkissjóði.

Ég tók eftir því, að hæstv. dómsmrh. sagðist vera búinn að senda þrjá menn utan vegna landsspítalans. Það er nú orðinn siður í landi hér, að enginn tekur við starfi nema hann fari utan áður. Menn eru jafnvel sendir utan löngu áður en embættinu er slegið upp, eins og t. d. átti sér stað um lögreglustjórann í Reykjavík. Vitanlega er ekkert annað en fyrirsláttur að vera að slá embættum upp, þegar er búið að ákveða löngu fyrirfram, hver þau hreppi.

Eitt atriði vildi ég minnast á enn, sem á að vísu fremur að skrifast á reikning hæstv. atvmrh. Það er stöðvunin á Esju síðast. Ég sé á grein eftir hv. 4. þm. Reykv., að nú er bannað að vinna eftir kl. 10 að kvöldi hér í Reykjavík. Þegar Esja átti að fara síðast, var eftir að láta póstinn og nokkrar tunnur af olíu um borð kl. 10, og farþegar buðust að hjálpa til þess. Skipið var eigi að síður stöðvað í 12 tíma fyrir þessar sakir. Þetta er kannske ekki stórmál, en þó vil ég spyrja: Hvernig færi nú, ef Esja fengi hvergi afgreiðslu frá því kl. 10 að kveldi og þangað til morguninn eftir? Slíkt athæfi er ekki til að örva fólk til að flýta fyrir skipinu, þegar menn út um land frétta, að svona er farið að í höfuðstaðnum, þar sem landsstj. sjálf situr með afgreiðslumanninn sem innsta kopp í búri. Ef slíkt kæmi fyrir úti á landi, færi skipið umsvifalaust burt af þeirri höfn. Sést á þessu, að meira tillit er tekið til verkamanna hér en út um land. Þar mega þeir vaka, þótt hinir sofi. (HK: Þetta er nú ekki almennur vilji verkamanna hér). Nei, en þeir vita, að ef þeir hlýða ekki forsprökkunum, þá eru þeir útilokaðir frá vinnu á eftir.

Þá var hæstv. dómsmrh. að tala um lagið á Áfengisverzluninni, og hve reksturinn á henni væri orðinn ódýr. Hér liggja nú fyrir reikningar verzlunarinnar frá 1928. Þá urðu forstjóraskipti á miðju ári, og til þess að rugla ekki saman reitunum voru reikningarnir hafðir aðskildir. Einn liður á þessum reikningum er rekstrarkostnaðurinn. Hann er fyrri hluta ársins kr. 42.435, en síðari hlutann kr. 52.900 eða tæpum 11.000 kr. hærri. Þetta er nú sparnaðurinn þarna. Það hefir oft verið talað um hin háu laun Mogensens, en mér er kunnugt um, að samanlögð laun forstjórans, sem nú er, og lyfjaeftirlitsmanns, eru sízt lægri. Seinni hluta ársins 1926 og árið 1927 hafði Mogensen eftirlit með lyfjabúðum, fyrir sérstaka borgun auðvitað. Útkoman er því sú, að reksturinn er dýrari en hann var áður.

Það er einkenni á hæstv. dómsmrh., að hann talar ávallt um allt annað en það, sem á hann er deilt fyrir. Hann heldur hér tveggja tíma „teoretiska“ ræðu með ýmiskonar útúrdúrum og rangfærslum. En honum dettur ekki í hug að koma nálægt aðfinnslum andstæðinganna, nema ef hann rétt drepur á einstöku atriði innanum allan vaðalinn.

Það er kunnugt, að hann hefir sagt nýlega, að hann hafi fundið hús í miðbænum, sem hafi verið týnt í 70 ár. Átti hann þar við bókasafnshúsið Íþöku. Þetta kemur mér undarlega fyrir sjónir, þar sem ég hefi verið svo að segja daglegur gestur í húsi þessu í þau 6 ár, sem ég var í Menntaskólanum. Skil ég satt að segja ekki í, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að fara að komast frá slíkum ýkjum með óskertum heiðri, þar sem hver menntamaður á landinu hefir gengið út og inn í þessu húsi nærri daglega alla sína skólatíð.

Mig tók sárt að heyra ummæli hæstv. ráðh. um Menntaskólann. Ég var þar í 6 ár og hefi þaðan hinar beztu minningar. Ég ber velvildarhug til allra kennara minna, og er þeim þakklátur fyrir þá fræðslu, er þeir veittu mér. Að vísu getur öllum skjátlast, og enginn er alveg eins og hann á að vera. En mér finnst það hastarlegt, að kennslumálaráðh. skuli vera að lesa upp úr afgömlum prótokollum hér á Alþingi til þess að geta svert stofnunina. Og hvað var það svo, sem hann fann? Jú, hann fann dæmi, sem ég skal ekki mæla bót, en þau eru einmitt frá þeim tíma, er rektor varð að fara frá, af því að hann hafði ekki lag á nemendunum. Þetta var fyrir 25 árum. Eftir þessu dæmir hann skólann nú á tímum. Yngsta dæmið, sem hann fann, var síðan 1916. Síðustu 14 árin hefir hann ekkert dæmi fundið, sem hann hefir haft við að athuga, eða m. ö. o. allan þann tíma, er þeir menn hafa verið ráðandi, sem hann átti að velja á milli í rektorsembættið í haust. Hér er verið að leita að gömlum blettum, löngu afmáðum, til þess að klessa á skólann aftur.

Mér finnst það ómaklegt að reyna að sverta minningu Björns M. Ólsens. Hann var að sönnu til annars betur fallinn en að stjórna slíkum skóla, og fór líka frá honum þess vegna. Mér þótti það í rauninni alltaf illt að nemendur skyldu ekki vera nægilega þroskaðir til, að þola það, sem honum kann að hafa verið áfátt sem stjórnanda, svo að þeir gætu notið kennarakosta hans, sem flestum eða öllum kom saman um, að væru einstæðir.

En þó að ýmislegt megi finna að skólanum eins og hann var fyrir 25 árum, þá kom það aldrei fyrir þá, sem gerðist í vetur, að heill bekkur neitaði kennslu í einni námsgrein. En hvað skeður? Kennslumálaráðh. tekur svari piltanna hér á Alþingi, og segir, að ekki sé von, að piltarnir hafi viljað leggja á sig jarðfræðinám hjá Guðm. G. Bárðarsyni.

Loks sagðist hæstv. ráðh. hafa orðið var við, að einn piltur með háum einkunnum hafi orðið að sitja eftir, vegna þess að hann hafi fengið neikvæða einkunn í einni námsgrein, og með þessu hafi lífsþráður hans verið skorinn sundur. Það mun vera rétt, að þetta hafi átt sér stað, og ég hefi áður komizt í að hjálpa í slíkri aðstöðu. En hvað heldur hæstv. ráðh., að hann hafi skorið á marga lífsþræði, þegar hann lokaði Menntaskólanum að hálfu leyti? Væri ekki rétt fyrir hann að telja þá?

Þá var hæstv. ráðh. að tala um bíla. Margir keyrðu í eigin bílum og enginn furða væri, þótt ríkið ætti bíl úr því að Kvöldúlfur leyfði sér það. En munurinn er bara sá, að Kvöldúlfur hefir keypt sína bíla fyrir sína peninga, en hæstv. ráðh. sína fyrir ríkisfé í fullkomnu heimildarleysi.

Það kom fram í umr. í gær, að ástæðan til þess, að hæstv. dómsmrh. kallar sjálfstæðismenn íhaldsmenn er sú, að Dönum væri illa við sjálfstæðisnafnið. Það hefði komið fram spurning um það í milliríkjanefndinni, hversvegna við kölluðum okkur sjálfstæðismenn. Sömu ástæðu hafa eflaust aðrir hv. þm., sem uppnefna Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil þá nota tækifærið til að lýsa yfir því, að ég áskil mér rétt til héðan í frá að kalla Framsókn litla Íhaldið. (Forsrh.: Í mótsetningu við það stóra!). Já, af því Framsóknarflokkurinn er svo miklu fámennari en Sjálfstæðisflokkurinn. Ég bið menn afsökunar fyrir fram, ef ég skyldi af vangá nefna Framsóknarflokkinn oftar.