26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1931

Héðinn Valdimarsson:

Ég talaði að bíða með að svara, en af því að útlit er fyrir, að styttast fari í umr., tek ég nú til máls.

Þegar ég minntist á það í fyrri ræðu minni, að Framsókn gerði of mikið að því að veita landbúnaðinum fjárstyrki, þá var það ekki af því, að ég ynni ekki landbúnaðinum þeirrar löggjafar, sem er honum til styrktar, heldur vakti það fyrir mér, að þessi hjálp mætti ekki vera um of á kostnað annara stétta. Nú hefir verið hallast að því á síðari árum að styrkja landbúnaðinn með lánsfé, sem lánað er með mjög lágum vöxtum. Vaxtamismuninn verður svo sjávarútvegurinn og hinar fátækari stéttir í landinu að greiða. Framsókn hélt því áður fram, að skatta ætti að leggja á eftir efnum og ástæðum. En nú er mþn. í skattamálum skilar áliti, fylgjast fulltrúar Íhalds og Framsóknar að um að láta hið gamla fyrirkomulag gilda um skattamál og verðtoll.

Það er þetta misrétti, sem ég álít, að ekki geti gengið til lengdar, að taka þannig féð og leggja það til landbúnaðarins, eins og Framsóknarflokkurinn hefir gert. Ég hefi athugað þessar fjárupphæðir, sem eiga að ganga til landbúnaðarins, og það mun láta nærri, að það sé 1½ millj., sem er mikið fé. Þar að auki hafa nú á þessu þingi komið till. um styrk til heyhlaðna, 25 þús., og til framræsluskurða, 75 þús. Ég vil benda hæstv. stj. og flokki hennar á það, að þetta getur ekki gengið svona til lengdar, að vera alltaf að auka svona það fjármagn, sem fer í sveitirnar.

Framsóknarflokkurinn virðist hingað til hafa verið á móti því, að kjördæmaskipun væri þannig, að fulltrúar í hverju kjördæmi væru í hlutfalli við fólksfjölda. Gamla kjördæmaskipunin er úrelt. Hún er bændum í hag. Þeir senda langflesta fulltrúa borið saman við fólksfjölda. Framsóknarmenn og íhaldsmenn vilja halda í þetta skipulag, því að hún er hagkvæm fyrir þá. En það rétta væri auðvitað það, að hvert kjördæmi sendi tiltölulega jafnmarga fulltrúa borið saman við fólksfjölda.

Hæstv. forsrh, vildi afsaka embættaveitingar þær, sem ég var að tala um í sambandi við hann. Hann hélt því fram, að hann hefði sýnt andstæðingum sínum umburðarlyndi, eins og t. d. Magnúsi Jónssyni, þegar hann veitti honum prófessorsentbætti við guðfræðideild háskólans. En það er beinlínis svívirðilegt, þegar sá maður fær það embætti að uppfræða kennimenn þessa lands, sem notar þá aðstöðu til að sverta andstæðinga sína sem mest, og þegar hann veit, að orðum hans er veitt meiri athygli vegna þeirrar stöðu, sem hann er í, þá notar hann sér það með því að bera pólitískum andstæðingum sínum guðleysi og vantrú á brýn. Slíkt atferli sem þetta álít ég með öllu ósamboðið hlutverki hans sem kennara í guðfræði, en með því að setja hann í þetta embætti er beinlínis verið að verðlauna svona framferði. Það sýndi sig einnig, að maður sá, sem fékk dósentsembættið eftir hann við háskólann, séra Ásmundur Guðmundsson, var ekki að öllu leyti vel til þess fallinn. Hann sýndi sig opinberlega í því, er hann hélt ræðu við setningu Alþingis nú síðast, að hefja árás á einn stjórnmálaflokkinn, enda fannst öllum, sem vildu líta á það með sanngirni, að það væri ósæmilegt. Þetta ætti að verða til þess, að forseti læsi yfir ræður þessa manns, ef hann á eftir að halda ræðu oftar við setningu Alþingis, nema það sé stefna stj. að setja þá menn í guðfræðideildina og láta þá menn prédika við þingsetninguna, sem vinna svona á móti jafnaðarmönnum.

Hæstv. forsrh. varði afsetningu vitavarðarins á Reykjanesi með því að lesa upp bréf frá vitamálastjóra. Í því bréfi kom þó ekkert fram, nema að þessi vitavörður hefði árið 1928 gert sig brotlegan gegn áfengislöggjöfinni, eftir því sem vitamálastjóri segir, en ekki, að hann hafi rækt embættisskyldu sína illa að öðru leyti en því, að hann hafi einu sinni kveikt stundarfjórðungi of seint, án þess að sönnur séu færðar fyrir því. Á móti þessum vitnisburði kemur vitnisburður allra nágranna hans, að hann hafi rækt stöðu sína vel og gætt vitans eins og vera bar, og ég verð að segja það, að þá vitnisburði met ég eins mikils. Þó að það væri rétt, að þetta hefði komið fyrir 1928, þá er engin ástæða til að setja vörðinn af embætti fyrir það 1930, enda kemur það fram í bréfi því, sem hér var lesið upp, að það hefir verið vegna deilu við vitamálastjóra á skrifstofu hans hér í bæ, en það heyrir ekki undir gæzlu vitans. Ég held, að þeim embættismönnum mundi fækka, sem héldu stöðum sínum, ef ætti að leggja svona mælikvarða á alla embættisrækslu þeirra.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. talaði umr lóð undir símastöðina, þá vil ég taka það fram, að ég álít, að það hefði verið sjálfsagt að kaupa lóð nærri pósthúsinu, svo að hægt hefði verið að koma á samstarfi milli pósts og síma, en eins og nú er, er það ekki hægt. Kostnaður við að flytja símann þaðan, sem hann er nú, í Thorvaldsensstræti, hlýtur að verða afarmikill, og er því sparnaður við það ekki sjáanlegur. Ef hæstv. atvmrh. hefði viljað fylgja fyrri stefnu sinni um sameiningu pósts og síma, hefði hann átt að tryggja sér það, að hægt væri að fá lóð við hliðina á nýju símastöðinni, svo að hægt væri að reisa sameiginlega byggingu yfir póst og síma.

Þá vil ég aðeins minnast á eitt atriði, sem ég býst við, að mörgum finnist smávægilegt. Það er úrskurður atvmrh. um meðlag barnsföður með barni sínu. Nú er það 215–270 kr. eftir úrskurði ráðh. Flestar stúlkur, sem eiga þessi börn, hafa við örðug kjör að búa. Eftir gildandi l. á barnsfaðirinn að bera helming af framfærslukostnaði barnsins, en það er ekki vafi, að hann greiðir oft minna en helming. Eftir því, sem mér hefir verið skýrt frá, er það úrskurður forsrh., að ef móðirin getur séð fyrir afkvæmi sínu, sé faðirinn ekki skyldugur til að greiða meðlag með því. Þetta kemur ótvírætt í bág við 1. Það hlýtur að vera sama skylda á föðurnum að greiða meðlag með barni sínu, þó að hagur móðurinnar sé góður. Ég veit ekki til, að atvmrh. hafi gefið úrskurð um þetta, ef móðirin getur ekki séð fyrir barninu, en mér skilst, að faðirinn muni greiða lítilsháttar meira í staðinn fyrir það, að hann ætti að taka allan kostnaðinn á sig. Ef ráðh. veit þetta ekki, vona ég, að hann taki það til athugunar.

Hæstv. forsrh. minntist þess ekki, að stj. og flokkur hennar hefði gengið sérstaklega á móti málum jafnaðarmanna. Ég skal ekki telja upp langa runu af þeim málum, en ég vil minna á þær viðtökur, sem frv. um bönnun næturvinnu við höfnina fékk. Það fékk 5 atkv. í þessari d. Enn þá sýndi það sig að verkamannafélögin gátu framkvæmt þetta án löggjafar um það, eða atbeina þingsins. Þá sást það, hvað verkamenn gátu með samtökum sínum. Nú eru í þinginu ýmis mál, sem jafnaðarmenn skiptir miklu máli að komist í framkvæmd, og gefst mönnum því tækifæri til að sýna velvilja sinn til þeirra. T. d. er nú á leiðinni frv. um takmörkun vinnutíma í síldarverksmiðjum. Það er mikið áhugamál verkamanna, sérstaklega þar sem slíkar verksmiðjur eru. Hér er líka frv. um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sem Alþýðuflokkurinn er mjög fylgjandi. Þá er þál. um alþýðutryggingar, sem hefir legið fyrir fleiri þingum. Mér vitanlega hefir stj. ekkert gert til framkvæmda í því máli, nema að greiða einum manni allmikla upphæð til að rannsaka það, en árangur þeirrar rannsóknar hefir ekki sézt enn.

Vitanlega er það á ábyrgð Framsóknarflokksins, að nokkur hluti hans gekk í lið með íhaldsmönnum að færa kjördaginn til þess dags, sem óhagstæðastur var verkafólkinu.

Þá er hér frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem er nú komið úr n. Það er auðvitað stefnumál Alþýðuflokksins, og var það líka hjá Framsóknarflokknum. Þess vegna er það undarlegt, hvernig þeir hafa snúizt í því máli nú.

Hv. þm. Borgf. virtist undrast mjög yfir því, að ég í fyrri ræðu minni sneri mér að nokkru leyti að Íhaldsflokknum í þessari d., en hann þarf ekkert að undrast yfir því. Þó að nú sé sérstaklega ætlazt til, að þdm. beini orðum sínum til hæstv. stj., þá hlýtur þó alltaf að vera barátta á milli þingflokkanna fyrir því. Hann virtist bera brigður á það, sem ég hafði skrifað um varðskipastjórana, þá Jóhann P. Jónsson og Friðrik Ólafsson, viðvíkjandi því, þegar björgunarskipið Þór bjargaði íslenzkum togara úr landhelgi. Það hefir verið haldið réttarhald í því máli, og ég veit ekki betur en Jóhann P. Jónsson hafi þar staðfest það, sem ég hefi sagt um það mál. Sú eina afsökun, sem hann reyndi að færa fram, var það, að skipið hefði þá verið björgunarskip, en ekki varðskip. En hvað var skipið þá að reka togara úr landhelgi? Það liggur í augum uppi, að þá var Þór sem varðskip. Í öðru lagi var það upplýst, að þegar þessi togari var tekinn eða bjargað úr landhelgi, var Jóhann P. Jónsson ekki, uppi á þilfari, og þegar hann kom upp, gat hann ekki athugað, hvort mæling Friðriks Ólafssonar var rétt. Þetta sýnir, að það var ekki að ástæðulausu, að minnzt var á þetta 1927.

Hv. þm. Borgf. spurði mig um kirkjumálanefndarplöggin. Ég veit ekki annað um það, en að maður úr kirkjumálan. hafði beðið mig að taka að mér eitt eða tvö af þeim málum. Ég lofaði að taka það til íhugunar, og svo einn morgun var þessi stóri pakki kominn hingað á borðið, sem hv. þm. gat um. Ég þykist vita, að hann hafi verið sendur til mín, af því form. kirkjumálan. var kunnugt um, að ég var ritari allshn. Hvað gert hefir verið síðar við hann, er mér ókunnugt um, og hefi hér með þvegið hendur mínar eins og Pílatus.

Mér virtist hv. þm. reiður yfir því, að ég skyldi kalla þann flokk Íhaldsflokk, sem hann kallaði Sjálfstæðisflokk. Mér datt í hug, það sem eitt stórskáld okkar sagði við mig einu sinni, þegar ég var honum samskipa. Við vorum að tala um, að það væri ekki rétt að nefna Ameríku eftir þessum Ameríkusi, sem hefði aðeins skrifað bók um þá álfu. Þá sagði þetta skáld við mig: „Það er alveg eins og einhver dóni ofan af Akranesi færi að kalla einhvern hluta líkama síns Evrópu“. Sama held ég að megi segja um þennan svokallaða Sjálfstæðisflokk. Þeir, sem í honum eru, vilja kalla sig sjálfstæðismenn, þó að þeir hafi alltaf staðið aftast í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Svo er engin ástæða til að hafa þetta nafn, þegar allir landsmenn eru sjálfstæðir menn.

Hæstv. dómsmrh. talaði um íbúðirnar í Laugarnesspítala. Hann sagði, að það væri eðlilegt af tveimur ástæðum, að spítalinn hefði verið tekinn til íbúðar; fyrst og fremst af því, að hann væri orðinn of stór fyrir sjúklingana, og svo væru þeir menn, sem þarna byggju, efnalausir og húsnæðislausir. Smitunarhættu gerði hann lítið úr. En við þetta er fyrst og fremst það að athuga, að það er engin fjárveitingarheimild til að gera við Laugarnesspítala. En fé það, sem eytt hefir verið til að „innrétta“ þessar íbúðir, mun vera um 20 þús. kr., sem þannig hafa verið teknar í heimildarleysi. Þetta eru þrjár þriggja herbergja íbúðir, tvær fimm herbergja íbúðir, og þar að auki eldhús. Það fólk, sem þarna býr, er ekki fátæklingar, sem erfiðast eiga með húsnæði, heldur er það millistéttarfólk, sem vel gæti komizt af, þó að það fengi ekki þessar íbúðir í Laugarnesi. Ef hæstv. dómsmrh. vill með þessum íbúðum bæta úr húsnæðisvandræðum, væri nær fyrir hann að láta fátækt alþýðufólk fá húsnæði í spítalanum en efnaða menn, sem vel geta séð sér fyrir húsnæði sjálfir. Hæstv. ráðh. sagði, að þessir íbúar spítalans greiddu vexti af viðgerðarkostnaðinum, en það er ekki rétt, en þó að svo væri, bætti það ekkert úr. Þarna voru lagðar 20 þús. kr. í kostnað, og ekkert kemur í staðinn nema vextirnir. En fyrir þessi herbergi í spítalanum er ekkert greitt, því að eftir því, sem hæstv. dómsmrh. segir, hefir engin húsaleiga verið greidd þarna fram á þennan dag. Það er alveg óverjandi af stj. að hún skuli taka fé ríkissjóðs til að byggja yfir vini sína og vandamenn og láta þá ekkert borga fyrir. Húsaleiga af öllum íbúðum, sem hæstv. stj. hefir lagt þarna undir, sig, mundi vera um 1.000 kr. samtals á mánuði, og það er mikið fé. Á þessu sést, hversu fráleitt þetta er hjá hæstv. ráðh.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að hann hefði leyfi til að gera þessi herbergi að íbúðum. Þar mun hann hafa átt við það, þegar form. Oddfellowfélagsins kom hingað og dróst eitthvað á, að það mætti hafa þarna íbúðir til viðbótar við spítalann. En það er ekki rétt, að hann hafi leyft að hafa íbúðir í spítalanum.

Þá er annað atriði í sambandi við þetta, sem er ekki síður athugavert. Það er hættan, sem getur stafað af því, að spítalinn sé notaður til íbúðar. Form. Oddfellowa leitaði álits frægasta holdsveikralæknis Dana um það, og hann varaði sterklega við því, að spítalinn væri notaður til íbúðar. Það segir sig líka sjálft, að það er hættulegt, að bæði börn og fullorðnir menn gangi þar um, sem sjúklingar eru, en holdsveiki er svo voðalegur sjúkdómur, að einangrun er nauðsynleg.

Það má nú auðvitað segja, að það sé hart að aðskilja og einangra svona nánustu vini og skyldmenni, svo sem mann og konu eða systkin, eða börn og foreldra, en það er nauðsynlegt vegna þjóðfélagsins. Þess vegna sér þjóðfélagið fyrir þessum sjúklingum, þegar þeir verða nauðugir að fara á spítala. Ef smithættan væri ekki, væri það glæpsamlegt að einangra menn svona frá öllum, sem eru þeim kærastir. Sjúkdómurinn er ekki mjög smitandi, en þó eru öll sjúkdómstilfelli holdsveikinnar smitun að kenna. Ef það kæmi fyrir, að einn einasti maður, eitt einasta barn fengi holdsveiki vegna þessara íbúða í spítalanum, væri það svo alvarlegt atriði fyrir hæstv. dómsmrh., að allt það gott, sem hann hefði unnið, mundi aldrei geta vegið upp á móti því.

Væri það ekki réttast að byggja hús fyrir holdsveika menn, en nota þennan spítala fyrir aðra sjúklinga, eins og spítalalæknirinn leggur til? Ég veit, að eftir að þessir nýju íbúar spítalans komu þangað, hafa sjúklingarnir verið óánægðir með að þurfa að vera, þarna. Þeir vilja fara til heimila sinna. Þeir hugsa sem svo: „Fyrst við megum umgangast þessa íbúa í spítalanum, hvers vegna megum við ekki alveg eins umgangast skyldmenni okkar?“ Þeir vilja fá að vera á næturnar heima hjá sér, a. m. k. þeir, sem eiga heima í Reykjavík. Það sjá því allir, til hve mikilla vandræða stefnir hér, ef ekki verður séð við í tíma.