26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að mér hefir ekki þótt ástæða til að standa upp til andsvara eftir hverja ræðu hjá hv. andstæðingum. Ég kvaddi mér ekki hljóðs á eftir ræðu hv, þm. N.-Ísf., af því að mér þætti sérstök ástæða til að svara henni. Það var fátt í ræðu hv. þm., sem féll í minn garð. Ég stend því upp til að segja fáein orð nú, af því nú er senn kominn kaffitími, og mér virðist það hæfilega langur tími fyrir mig, en ekki svo mjög af því, að ég þurfi að svara þeim ræðum, sem beint hefir verið til mín.

Hv. þm. N.-Ísf. mælti fátt í minn garð. Hann beindi aðeins til mín tveimur fyrirspurnum. Önnur var sú, hvort hv. 2. þm. Árn. hefði talað fyrir munn stj. um sjálfstæðismálið. Ég heyrði ekki ræðu hv. þm., og get því engar dóm á það lagt. En víst er hv. 2. þm. Árn. líklegur til að hafa talað vel um það mál sem önnur. Þá var hin spurningin sú, hvort ég hefði ekki fengið einhver bréf út af Tervanimálinu. Allt það, sem ég hefi séð og heyrt um það mál, bæði utanlands sem innan, frá málsmetandi mönnum, er einróma álit allra um, að rétt og sjálfsagt hafi verið að afgreiða það mál eins og gert var.

Þá var það hv. 1. þm. Skagf., sem vék að mér nokkrum orðum. En af því sá hv. þm. hefir nú talað tvisvar, skal ég fara mjög vægilega út í hans ræðu.

Hv. þm. talaði um þær andstæður, sem væru milli mín sem ritstjóra Tímans og sem forsrh. Ég væri nú allt annar maður en þá. Annað væri hvítt, hitt svart. Sú líking felur í sér samkv. almennri málvenju, að annað sé gott, hitt vont. Annað á við flekklausa framkomu, hitt við mjög slæma. Nú er það ljóst af ræðu hv. þm., að hann telur framkomu mína sem ráðh. ekki góða. Ég vona því, að hann sjái, hvað þetta þýðir fyrir sjálfan hann, ef allt er gott, sem ég sagði þegar ég var ritstjóri, því ýmislegt mun ég þá hafa sagt um hann. Nú veit ég, að hv. þm. meinti þetta ekki, en ég vildi sýna honum, að þetta var heldur óheppileg samlíking.

Ég skal ekki fara langt út í fjáraukalögin miklu. Það skiptir vitanlega ekki miklu máli, hvenær hv. þm. byrjaði á því að flytja þau með sér í töskunni út um land. Það er rétt, að hv. þm. fékk mörg atkv. 1923, en ég skildi hann þó svo, að hann hefði flutt fjáraukalögin með sér í töskunni fyrir síðustu kosningar. Ég býst líka við, að hv. þm. hafi haft þau með sér, er hann fór förina frægu um Strandasýslu fyrir síðustu kosningar. Þó fékk ég miklu fleiri atkv. þar 1927 en ég fékk 1923. Aftur á móti fékk hv. þm. sjálfur miklu færri atkv. 1927 en 1923. Ég get því vel unað því, að mín atkv. hafa fjölgað um leið og hans atkv. hafa fækkað — hvorttveggja ef til vill vegna fjáraukalaganna í töskunni. Læt ég svo útrætt um það mál.

Hv. þm. sagði, að Búnaðarbankinn hefði ekkert annað starf með höndum en að búa til eyðublöð. Þetta er vitanlega ekki rétt. Það er margt fleira, sem þarf að gera, og stj. Búnaðarbankans er búin að leysa mikið starf af hendi til undirbúnings starfi bankans. Annars býst ég við því, að bankinn flytji í nýja húsið í júní, og taki þá þegar til starfa að því leyti, sem hann er ekki þegar starfandi.

Þá var það um þetta, að hv. þm. líkti mér við val. Það var að vísu mjög hjartnæm saga, sem hv. þm. sagði, frá þeim tíma, að hann var smali norður í Húnavatnssýslu. En ég held, að hv. þm. hafi ekki verið heldur heppinn þar með þá samlíkingu, að Íslandsbanki hefði verið rjúpan. Hv. þm. er yfirleitt lítið heppinn í samlíkingum sínum um mig.

Þá spurði hv. þm. um, hvernig máli vitavarðarins á Reykjanesi væri varið. Ég hefi áður skýrt frá því. Rannsókn í því fór fram 1928 hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði, sem mun hafa gefið skýrslu um málið. En þá var ekki álitið, að nógu mikið lægi fyrir, sem gæfi tilefni til sakamálsrannsóknar eða frávikningar. En þegar vitamálastjóri hafði dregið saman öll sakaratriðin, og lagði jafnframt eindregið til, að honum væri vikið frá starfi, þá náði vitanlega engri átt fyrir mig að taka á mig þá ábyrgð að fara ekki eftir þessari eindregnu till. vitamálastjóra.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. um það, hvernig fara muni, ef ekkert skip er afgr. eftir kl. 10 á kvöldin, er það að segja, að ég get engu um það svarað. Mér er algerlega ókunnugt um það tilfelli, sem hv. þm. minntist á. Og ég hefi engan þátt átt í því, og hefi enga samúð með því. Mér er það alveg ókunnugt.

Þá var það hv. 2. þm. Reykv., sem gerði nokkrar athugasemdir út af ræðu minni. Hv. þm. mælti fyrst nokkrum almennum orðum um. afstöðu ríkisins til landbúnaðarins. Hv. þm. sagði, að það, sem gert hefði verið fyrir landbúnaðinn, hefði verið gert fyrir fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna, og því að nokkru leyti á annara kostnað. Þetta er vitanlega rétt, og á sér stað um allar þær framkvæmdir, sem ríkið lætur gera, eða styrkir á einhvern hátt. Þannig er það líka með verkamannabústaðina, hafnir, vita og hvað annað. En þegar hv. þm. les upp liði á fjárl. sem hann segir, að fari allir til sveitanna, þá er það mesti misskilningur, að það fari allt þangað. Góður hluti af jarðræktarstyrknum fer t. d. til Reykjavíkur. Í Búnaðarbankanum er sérstök deild, er á að styðja að jarðrækt í kauptúnum. Í Vestmannaeyjum hafa stór flæmi af landi verið tekin til ræktunar með aðstoð og styrk frá hinu opinbera. Hið sama er og í aðsigi víðar, með tilstyrk Búnaðarfélagsins og vélasjóðs til dráttarvélakaupa. Þessi styrkur hefir því líka náð til kaupstaða og kauptúna, og orðið til þess að bæta hag fólksins þar, enda er það ef til vill allra nauðsynlegast að stuðla að því, að það fólk fáist til að rækta í kringum sig.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi sig hafa það eftir mér, að ég hefði sagt, að menn ættu að vera umburðarlyndir við andstæðinga sína. Þetta er ekki rétt. Ég hefi einmitt sagt, að ef um mismunandi skoðanir er að ræða, þá beri að halda þeim fast fram. Hitt er annað mál, þótt stj. veiti pólitískum andstæðingi sínum stöðu. Þótt ég álíti, að hv. 1. þm. Reykv. hafi oft ranga stefnu í pólitík, þá álít ég ekki, að hann noti embættisstöðu sína í þágu pólitískra „agitationa“. Að því leyti má skipta manni í tvennt, sem mikið grín hefir verið gert að.“

Út af frávikningu vitavarðarins á Reykjanesi sagði hv. 2. þm. Reykv., að starfs- eða embættismönnum mundi bráðlega fækka, ef þeim væri vikið frá á þennan hátt. Um það vil ég bara segja það, að ef svo væri ástatt með fleiri, og bein og rökstudd tilmæli væru fyrir höndum frá þeim, sem ábyrgð bera á gerðum þeirra, um að víkja þeim frá, þá mundi ég telja skyldu mína að gera það.

Hv. þm. talaði enn um landssímalóðina. Það er rétt, að flutningurinn kostar mikið. En þar sem ekki var hægt að komast hjá því að raska við þráðum, þá munar það ekki svo miklu, hvort nokkrum metrum lengra eða skemmra er farið. Hv. þm. sagði, að úr því þessi lóð hefði verið keypt, þá hefði líka átt að kaupa apótekslóðina, sem er við hliðina á þessari. En þar til er því að svara, að til þess vantaði mig heimild. Ég hafði aðeins heimild til að kaupa lóð undir símann. Hefði ég því keypt hina lóðina líka, þá hefði ég bara verið að spekúlera fyrir hönd landsins. Ef ég fengi heimild til þessa gæti vel komið til mála, að ég keypti þá lóð líka, því ég tel eins og hv. þm., að heppilegt gæti verið, að landið ætti hana líka.

Þá kom hv. þm. fram með ný atriði. Eitt þeirra var um úrskurði, sem fallið höfðu í stjórnarráðinu, um barnsmeðlög. Var hv. þm. eitthvað óánægður með þá úrskurði. Ég vil upplýsa það, að stjórnarráðið ákveður að vísu, hvað háa upphæð eigi að borga, en sveita- og bæjastjórnirnar gera till. um það, og það er eitt af þeim atriðum, sem eðlilegt er að héruðin fái að ráða. Ég tel einmitt, að þetta eigi að vera eitt af sjálfsstjórnarmálum hvers héraðs. Úrskurðir stjórnarráðsins eru því í raun og veru ekki annað en form. Og mér er ekki kunnugt um, að neinar umkvartanir hafi komið fram um það efni.

Þá nefndi hv. 2. þm. Reykv. nokkur mál, sem ekki geta talizt mál jafnaðarmanna frekar en annara flokka. Svo var t. d. um innlimun Skildinganess í Reykjavík. Ég fyrir mitt leyti álít sjálfsagt, að það mál nái fram að ganga.

Þá nefndi hv. þm. alþýðutryggingarnar. Það mál er nú verið að rannsaka og undirbúa löggjöf um það efni. Árni Björnsson er nú að vinna að því.

Þá talaði hv. þm. loks um það, að kjördagur hefði verið færður frá hausti til vors, til óhagnaðar fyrir alþýðuflokkinn. Þetta er nú verið að leiðrétta á þann hátt að hafa tvo kjördaga. Ég vil þó minna á það, að þessar aðfinnslur eru ekki að öllu leyti í samræmi við skoðanir jafnaðarmanna, þótt fulltrúar þeirra hér á þingi væru færslunni mótfallnir. Einn þeirra merkilegasti, skarpvitrasti og pennafærasti maður, fyrrverandi ritstjóri Skutuls á Ísafirði, séra Guðmundur Guðmundsson, hefir haldið því fram, að það væri til hagsmuna fyrir verkamenn að hafa kjördaginn 1. júlí. Það má því um þennan hv. þm. segja hið fornkveðna, að „ekki sér hann sína menn, svo hann ber þá líka“.