27.01.1930
Efri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Frv. til l. um breyt. á l. um launakjör yfirsetukvenna er ekki nýr gestur hér á þinginu. Slík frv. hafa legið fyrir 4–5 undanförnum þingum, en þó engin lausn fengizt á málinu. Öll þau frv., sem fram hafa verið borin, hafa sætt meiri eða minni mótspyrnu.

Ég skal ekki dyljast við því, að ég hefi verið einn í tölu þeirra þm., sem ekki hafa getað gengið inn á þær till., sem fram hafa komið til breytinga á launakjörum ljósmæðra. Ekki af því, að ég hafi ekki viljað gera neitt til að bæta laun þeirra, heldur af því, að mér hefir fundizt kröfurnar vera ósanngjarnlega háar. Mér hefir fundizt frv. ganga of langt í því að heimta hlutfallslega hærri laun til handa ljósmæðrunum en ýmsir aðrir starfsmenn þess opinbera hafa, og þar sem þau öll hafa haft í fór með sér óhæfilegan útgjaldaauka fyrir sýslur og ríkissjóð, og auk þess hafa verið í ósamræmi við aðra launalöggjöf, hefi ég ekki getað fylgt þeim.

Því hefir verið haldið fram hér í þinginu í umr. um þessi ljósmæðrafrv., að tilfinnanlegur skortur væri á ljósmæðrum úti um land, vegna þess, hve þær væru illa launaðar. Því hefir verið slegið föstu, eins og lesa má í Þingtíðindunum; að það vantaði 30 ljósmæður, án þess þó að neinar sönnur hafi verið á þetta færðar. Ég lét því athuga það í fjármálaráðuneytinu, hvernig það væri með útborganir á launum ljósmæðra, og kom þá allt annað í ljós. Það virtist enginn hörgull á ljósmæðrum; a. m. k. höfðu þær allar gætt þess vendilega að hirða laun sín.

Til þess nú að komast fyrir um það með vissu, hvað væri satt og hvað rangt í þessu máli, leitaði ég til sýslumanna úti um land eftir upplýsingum um það, hvernig ástatt væri með ljósmæður í sýslum þeirra hvers um sig. Niðurstaðan hefir orðið sú, að í 10–14 umdæmum eru engar fastar ljósmæður. Í 4–5 af þessum umdæmum er talin aðkallandi þörf á nýjum ljósmæðrum, og í öðrum umdæmum eru engar skipaðar yfirsetukonur, en þeim þjónað af öðrum ljósmæðrum í góðu samkomulagi við alla hlutaðeigendur, svo góðu, að umrædd umdæmi óska ekki eftir nýjum ljósmæðrum.

Sé það nú rétt, sem haldið var fram hér í þinginu í fyrra, að vantað hafi ljósmæður í 30 umdæmum á landinu, hlýtur þetta að hafa lagazt síðan. En ef svo er, þá er það rangt, að ljósmæður hafi vantað í þessi umdæmi vegna þess, hve launin voru lág. Enda hefir satt að segja lítið borið á því, að auglýst væri eftir ljósmæðrum.

Ég spurðist einnig fyrir um annað atriði hjá sýslumönnunum, vegna þess, að það var gengið út frá því í umr. um þetta mál hér í þinginu í fyrra, að ljósmæður fengju greidda dýrtíðaruppbót á öll laun sín. Ég fékk þær upplýsingar, að aðeins 4–5 sýslur greiða ljósmæðrunum dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna. Sýnir þetta einnig, að ekki virðist vera mikill hörgull á ljósmæðrum vegna of lágra launa, því að annars mundu sýslurnar bæta upp launin með því að greiða dýrtíðaruppbót.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja sögu þessa launamáls yfirsetukvenna. Sagan er raunasaga, bæði fyrir þá, sem barizt hafa fyrir bættum launakjörum ljósmæðra, en ekkert unnið á, og eins fyrir þingið í heild sinni, að þurfa ár eftir ár að fjalla um þetta mál, án þess að nokkur niðurstaða fáist í því.

Á síðasta þingi fengu ljósmæður meiri byr undir launakröfur sínar en nokkru sinni áður. Er því ástæða til að ætla, að þingið sé nú farið að snúast á þá sveif að bæta kjör þeirra. Vona ég, að hægt verði að leysa þetta mál nú á grundvelli þessa frv., en það er í öllum aðalatriðum byggt á þeim miðlunartill., sem fram komu hér í málinu í fyrra, en féllu með jöfnum atkv. í þessari hv. deild.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., enda er grg. þess það ítarleg, að þetta ætti að nægja. Ég vil aðeins að síðustu leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn., þegar umr. er lokið.