27.01.1930
Efri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

11. mál, yfirsetukvennalög

Jón Baldvinsson:

Þetta frv. mun eiga að fara til fjhn., en þar sem ég á sæti í þeirri n., þarf ég ekki að fara ítarlega út í frv. að þessu sinni. Ég greiði því atkv. mitt til 2. umr. í þeirri von, að hægt verði að lagfæra það, eins og nauðsyn ber til.

Eins og hv. þm. Snæf. sagði, er það ekki komið til af góðu, að hæstv. fjmrh. flytur nú þetta frv. Ráðh. er hræddur um, að ljósmæðurnar fái of há laun, og vill því reyna að fá þingið til að fallast á miðlunartill. sínar. Það er annars dálítið einkennilegt, hve stj. á í miklu stríði við þá, sem heilbrigðismálanna eiga að gæta. Hæstv. dómsmrh. við læknana — hæstv. fjmrh. við ljósmæðurnar.

Mér þótti þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf um það, hve margar ljósmæður vantaði úti um land, harla einkennilegar. Hann sagði, að ekki væru nema 9–10 umdæmi laus; að 4–5 umdæmum væri þjónað af öðrum ljósmæðrum, og að í enn öðrum 4–5 umdæmum væru engar skipaðar yfirsetukonur, heldur væri umdæmunum þjónað af öðrum, en nú í góðu samkomulagi við alla hlutaðeigendur. Hví þá að vera með þessa flokkun?

Hæstv. fjmrh. sagði, að yfirsetukonur hefðu hærri laun en aðrir starfsmenn ríkisins, hlutfallslega. (Fjmrh.: Ég sagði, að þær hefðu sambærileg laun við aðra starfsmenn). Ég verð að mótmæla því, að svo sé. Lægst launuðu ljósmæðurnar munu ekki hafa nema eitthvað á annað hundrað króna árslaun. Ég hygg, að fáir starfsmenn ríkisins hafi lægri laun. (Fjmrh.: Hvaða ljósmæður hafa lægri laun en 200 kr. á ári? Þær eru ekki til).

Því hefir jafnan verið borið við, er rætt hefir verið um launahækkun ljósmæðra, að afleiðingin myndi verða sú, að hreppstjórar og oddvitar myndu einnig gera kröfur um aukin laun. En hvað sýnir reynslan? Hér eru sem stendur 15 ljósmæðraumdæmi laus, en ég hefi ekki heyrt þess getið, að hreppstjóra eða oddvita vantaði neinsstaðar, enda sækjast heldri bændur eftir þessum stöðum. Virðist því ekki ástæða til að óttast, að hækkuð laun yfirsetukvenna hafi hækkuð laun hreppstjóra og oddvita í för með sér. Þó má vel vera, að nauðsyn geti borið til að hækka laun oddvita, þar sem fólki fjölgar, eins og í kauptúnum. Till. hæstv. fjmrh. væru virðingarverðar, ef ekki skini út úr þeim, að þær eru bornar fram af ótta við það, að þingið myndi ekki hækka laun ljósmæðranna meira en þar er gert ráð fyrir.