25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

11. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Ég verð að segja það, að mér finnst gleðilegt, að hv. fjhn. hefir ekki hvikað frá fyrri skoðunum sínum í þessu máli og hefir samkv. því borið fram brtt., sem færa frv. í svipað horf og frv. það, sem lá fyrir síðasta þingi. Ein aðalástæðan, sem á undanfarandi þingum hefir verið borin fram fyrir þessu máli, er ljósmæðraeklan. Í fyrra benti ég á, að yfirsetukonur vantaði í 30 umdæmi. Það var véfengt þá, sérstaklega af hæstv. fjmrh. Nú hefir þessi hæstv. ráðh. sýnt viðleitni til að færa sönnur á orð sín, með því að leita upplýsinga hjá sýslumönnunum um þetta mál. Samkv. þeim upplýsingum gaf hann þá skýrslu við 1. umr. þessa frv., að það vantaði ljósmæður í 15 umdæmi á landinu. Ég tek það skýrt fram, að ég tel mig hafa meiri rétt til að telja þessa skýrslu hæstv. ráðh. ranga heldur en hann hafði til að telja mína ranga í fyrra.

Það var óskipað í 30 umdæmi þá, og þeim hefir fremur fjölgað en fækkað síðan. Ég ætla að reyna ofurlítið á þolinmæði hæstv. ráðh. og gefa ekki nánari upplýsingar nú, en lofa hv. frsm. að leiða hann í allan sannleika, svo hann sjái, að hann fór áður villur vegar.

Þó þetta sé aðalástæðan til þess, að launahækkun ljósmæðra er nauðsynleg, þá eru margar fleiri ástæður til þess. Á þær hefir verið minnzt áður, og ætla ég ekki að rifja upp nema tvö atriði.

Það er öllum kunnugt, að hjúkrunarstarfsemi er mjög ófullkomin hér á landi. Lærðar hjúkrunarkonur eru ekki nema í Reykjavík og stærri kaupstöðunum, en þyrftu að vera í hverjum hreppi.

Þó alstaðar væru góðir læknar, kæmu þeir ekki að notum, þegar enga góða hjúkrun er að fá á heimilunum. Við erum í þessum efnum mjög á eftir öðrum menningarþjóðum, og það er alls ekki forsvaranlegt.

Ég hefi áður haldið því fram, að ljósmæðraefnin gætu tekið þátt í hjúkrunarnámskeiði jafnframt ljósmæðranáminu, og síðan stundað hjúkrun í umdæmum sínum. Með þessu móti fengjust auðvitað ekki hálærðar hjúkrunarkonur; hjúkrunarnámið er langt og lærðar hjúkrunarkonur dýrar, svo það er varla kleift fyrir fátæka hreppa að njóta þeirra. En þetta væri sæmileg úrlausn á hjúkrunarmáli sveitanna, sem una mætti við í bili, þangað til kostur er á lærðum hjúkrunarkonum.

Ef nú horfið væri að þessu ráði, mundi nám ljósmæðranna auðvitað lengjast og starf þeirra aukast. Rökrétt afleiðing þess yrði hærra kaup, og má búast við, að launahækkunin, sem till. n. gera ráð fyrir, yrði ekki nægileg.

Þá er hitt atriðið, sem snertir þetta mál. Nú er verið að byggja landsspítalann og er hann bráðum fullgerður. Þar mun verða sérstök ljósmæðradeild og þar eiga ljósmæðraefnin að njóta kennslu í framtíðinni. Það hefi ég fyrir satt, að þegar ljósmæðrakennslan verður flutt í landsspítalann, þá muni námstíminn verða lengdur. Hann er nú styttri hjá okkur en öðrum þjóðum, sem menntaðar eru taldar og nokkrar kröfur gera til ljósmæðra sinna, t. d. hinum Norðurlandaþjóðunum. En ef námstíminn er lengdur, ber enn að sama brunni og áður: aðsóknin minnkar, ef ljósmæðraefni eiga ekki von á að fá betri kjör við að búa að loknu námi heldur en nú er.

Það bendir því allt á það, að ekki sé hægt að komast hjá að bæta til muna kjör þessara starfsmanna.