25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Ég átti von á, að það gætu orðið friðsamlegar umr. um þetta mál nú, þar sem það hefir verið svo oft áður rætt hér í deildinni. En mér fannst hæstv. ráðh. vera í hálfgerðum ófriðarhug, þegar hann var að tala um, að við nm. hefðum slegið á þá framréttu hönd, sem hann hafði rétt til sátta í þessu máli. En eins og ég sýndi fram á í framsöguræðu minni, höfum við klipið allmikið af hinum upphaflegu kröfum. Og þó fram komi einhver samkomulagstill., eru alltaf einhver takmörk fyrir því, hvað mikið hægt er að slá af kröfunum.

Það er ekki við því að búast, að konur vilji eyða tímanum í ljósmæðranám og binda sig svo við að vera alltaf til taks, nema þær fái það sæmilega launað. Og þess vegna vantar nú ljósmæður svo víða. En hæstv. ráðh. vill ekkert sjá, nema sínar eigin till. Mér finnst við hafa farið svo vægilega í sakirnar í okkar till., að hann megi sjálfum sér um kenna, ef umr. verða ekki friðsamlegar.

Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að ég hafi kannazt við, að lítill munur væri á frv. hans og till. n. gagnvart lægst launuðu ljósmæðrunum. Hana gleymir því, að eftir hans frv. eru launaflokkarnir þrír: einn í umdæmum með innan við 300 íbúa, annar í umdæmum, sem hafa yfir 300 íbúa, og þriðji í kaupstöðum. Ég sagði, að litlu munaði á launum miðflokksins eftir frv. ráðh. og till. okkar, en hjá lægst launaða flokknum munar það talsvert miklu, og sá flokkur er stærstur og hefir mesta þörf fyrir launahækkun.

Hæstv. ráðh. sagði ekki tiltökumál, þó aðrar tölur væru í frv. sína en till. okkar, úr því á annað borð væri ágreiningur um málið. En það, sem ég vildi fá að vita, var það, hvers vegna hann setti í frv. orðin: „þó mega launin án dýrtíðaruppbótar aldrei fara fram úr 1.500 kr.“ Mér finnst þetta ákvæði alls ekki hafa neina þýðingu. Ég vil ekki gera þær getsakir, að það sé sett í blekkingarskyni, svo launin sýnist geta orðið hærri en þau nokkurntíma verða. En þetta hlýtur þá líka að vera einhver villa; það er líkast því, að einhversstaðar vantaði í orð, sem gerðu það mögulegt, að launin kæmust svona hátt.

Hæstv. ráðh. er enn með þær fullyrðingar, að umkvartanir ljósmæðra utan af landi séu þagnaðar. Þessu má auðvitað slá fram, en það er í meira lagi léleg röksemd, einkum þegar hægt er að leggja fram skjöl, sem benda í gagnstæða átt, þó vitanlega sé aldrei hægt að sanna fullkomlega, hvort þetta eða hitt sé skrifað algerlega af eigin hvötum bréfritaranna.

Ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bréf frá ljósmæðrum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Það hljóðar svo:

„Vér undirritaðar ljósmæður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu leyfum oss hér með að skora á háttvirta stjórn „Ljósmæðrafélags Íslands“, að hún sjái um, að lagt verði fyrir næsta Alþingi frumvarp það til l. um launakjör ljósmæðra, sem lá fyrir síðasta Alþingi, að því þó breyttu, að sýslusjóði sé gert að skyldu að greiða dýrtíðaruppbót á hálf launin. Í septembermánuði 1929.

Virðingarfyllst“.

(Undirskriftir 9 ljósmæðra).

Ég hefi annað svipað bréf úr Barðastrandarsýslu; ég nenni ekki að vera að lesa það upp, en það sýnir, að þessar kröfur koma víðar fram.

Ég ætla að lesa bréf frá oddvita vestan úr Ísafjarðarsýslu, sem ég hefi undir höndum, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir fulla viðleitni og margítrekaðar tilraunir hreppsnefndar Ögurhrepps til þess að útvega ljósmóður í umdæmi hreppsins, sem hefir verið laust til umsóknar síðastliðin þrjú ár og auglýst, hefir nefndinni ekki tekizt að fá ljósmóður til að gegna þessu starfi. Hinsvegar hefir nefndin og hreppsbúar orðið að hlíta því vandræða ástandi, að verða að semja við ljósmæður tveggja næstliggjandi hreppa um að gegna starfi þessu fyrir sérstaka borgun úr hreppssjóði, og hafa þær annazt störf þessi, sín í hvorum helming Ögurhrepps. Nú á síðastliðnu hausti flutti ljósmóðirin úr Reykjarfjarðarhreppi burt þaðan úr hreppnum, en það er annar næsti hreppur við Ögurhrepp, svo báðir þessir hreppar eru nú ljósmóðurlausir; en ljósmóðir Súðavíkurhrepps hefir fyrir beiðni hreppsnefndar Ögurhrepps tekið að sér að gegna ljósmóðurstörfum hér í hreppnum, að svo miklu leyti, sem henni væri mögulegt.

Ástand þetta í þessu efni má fyllilega telja vandræða ástand, þegar tillit er tekið til þeirra vegalengda, sem hér er um að ræða fyrir hlutaðeigendur, sem á ljósmóður þurfa að halda, og sem eru oft ófærar bæði á sjó og landi að vetrinum til. Eins og það líka oft getur komið fyrir, að ljósmóðir þessi, anna vegna, geti ekki farið úr umdæmi sínu hingað í hrepp, enda þó veður hamli ekki......

Ennfremur skal ég í sambandi við þetta erindi til félagsins taka það fram, að hreppsnefnd Ögurhrepps myndi greiða þeirri ljósmóður, er félagið kynni að geta útvegað, einhver viðbótarlaun úr hreppssjóði, þar til kjör ljósmæðra frá hálfu þess opinbera verða bætt frekar hvað föst laun snertir, sem hlýtur að eiga sér stað von bráðar.

Vænti svars frá heiðruðu félagi yðar þessu viðvíkjandi hið fyrsta“.

Ég las ekki bréfið allt. Oddvitinn snýr sér til Ljósmæðrafélagsins og spyr, hvort það sjái enga leið til að útvega ljósmóður. Þetta sýnir, hvílíka örðugleika hlutaðeigendur hafa við að stríða vegna þeirra kjara, sem ljósmæður hafa nú, og að þeir telja sjálfsagt, að þau séu bætt hið fyrsta.

Hæstv. ráðh. er alltaf að staglast á samræmi í launakjörum. Ég veit svo sem, hvað þetta samræmi þýðir. Það eru hreppstjórar og aftur hreppstjórar, sem bera á saman við. Laun ljósmæðra eru ekki sambærileg við laun neinna annara af föstum starfsmönnum ríkisins. Ég veit, að t. d. póst- og símamönnum er illa launað, en kjör þeirra eru þó skárri. Ljósmæðurnar í sveitum fá eiginlega engin laun; þetta er bara dálítil þóknun fyrir að vera alltaf viðbúin, hvenær sem kallað er.

Hæstv. ráðh. minnist á sannanir í þessu máli. Ég held betra hefði nú verið fyrir hann að vera ekki að lýsa eftir þeim. (Fjmrh.: Eru ekki sannanir alltaf góðar?). Þær eru góðar fyrir þann, sem ber þær fram, til að staðfesta orð sín.

Það hefir mikið verið deilt um, hvað margar ljósmæður vantaði á landinu. (JÞ: Það hefir aldrei vantað neina til að taka á móti laununum). Hafi verið greidd yfirsetukonulaun í þau umdæmi, sem enga ljósmóður hafa, er víst ástæða til að rannsaka þá embættisfærslu. Kannske það sé haft eins og í Frakklandi, þar sem einu sinni kom í ljós, að greidd höfðu verið eftirlaun manns nokkurs í 300 ár eftir dauða hans, og alltaf var tekið á móti þeim. (PH: Þetta eru getsakir til yfirsetukvenna).

Fjhn. sendi öllum héraðslæknum á landinu símskeyti og spurði þá, hvort vantaði ljósmæður í umdæmi þeirra. Til þess að öll gögn sjáist, skal ég lesa eftirrit af skeytinu, með leyfi hæstv. forseta.

„Vantar ljósmæður í hérað yðar, símsvar hve margar. — Fjárhagsnefnd Ed.

Þessu skeyti hafa þeir allir svarað, og ætla ég að lesa upp svörin. Byrja ég þá á svari. fyrrv. héraðslæknis í Flateyjarhéraði, sem fyrir hinar vísu ráðstafanir stj. situr nú suður í Grindavík.

„Vantar 1 ljósmóður Flateyjarhérað. — Kaldalóns“.

Frá Hafnarfirði kom svo hljóðandi svar:

„Vantar eina ljósmóður í Garða Bessastaðahreppi. — Héraðslæknir“.

Frá Stykkishólmi:

„Vantar 2 ljósmæður í héraðið. — Héraðslæknir“.

Frá Húsavík:

„Vantar eina ljósmóður í vor. — Héraðslæknir“.

Frá Ísafirði:

„Vantar yfirsetukonu þann hluta héraðs míns, sem er í Ögurhreppi. Súðavíkur-yfirsetukona gegnir Ögurhreppi; fyrir því Súðavíkurhreppur tímum saman yfirsetukonulaus. — Héraðslæknir“.

Frá Hjaltastað:

„Vantar 2 ljósmæður í héraðið. — Héraðslæknir“.

Frá Fáskrúðsfirði:

„Héraðið tvö umdæmi, annað vantar yfirsetukonu. — Héraðslæknir“.

Frá Hofsósi:

„Vantar eina ljósmóður, ólærð sett. — Héraðslæknir“.

Frá Blönduósi:

„Vantar 2 ljósmæður. — Héraðslæknir“.

Frá Dalvík: „Eitt umdæmi af fjórum vantað ljósmóður mörg ár, öðru sagt lausu fyrsta júlí næstkomandi, engin fengizt í staðinn. — Héraðslæknir Svarfdælahéraðs“.

Frá Akureyri:

„Þrjár ljósmæður vantar. — Héraðslæknir“.

Frá Hesteyri:

„Sem stendur vantar eina. — Héraðslæknir“.

Frá Eyrarbakka:

„Vantar eina ljósmóður. — Gísli Pétursson“.

Frá Seyðisfirði:

„Vantar eina ljósmóður í Loðmundarfjörð.

— Héraðslæknir“.

Frá Breiðabólsstað:

„Ljósmóður vantar í eitt umdæmi. – Héraðslæknir Síðuhéraðs“.

Frá Hvammstanga:

„Vantar ljósmóður eitt umdæmi Bæjarhreppi Strandasýslu. — Héraðslæknir Hvammstanga“.

Frá Flateyri:

„Vantar eina ljósmóður, ófáanleg. — Héraðslæknir“.

Frá Bíldudal:

„Vantar eina ljósmóður. — Læknir“. Frá Mosfelli:

Tvær ljósmæður vantar. — Héraðslæknir Grímsneshéraðs“.

Frá Arngerðareyri:

„Vantar eina. — Héraðslæknir“.

Frá Brekku í Fljótsdal:

„Hér vantar 2 yfirsetukonur. — Héraðslæknir Fljótsdalshéraðs“.

Frá Vík í Mýrdal:

„Vantar eina ljósmóður í héraðið“. –Héraðslæknir“.

Héraðslæknir Ólafsvíkurhéraðs svarar þannig: .

„Út af fyrirspurn yðar viðvíkjandi því, hvort öll yfirsetukvennaumdæmi í Ólafsvíkurhéraði séu skipuð ljósmæðrum, skal yður hér með tjáð, að sem stendur er eitt óskipað, og líklegt að annað losni á komandi vori. — p. t. Alþingi, 29. jan. 1930. H. Steinsson“.

Frá Brekku á Barðaströnd er svarað: „Eina ljósmóður vantar í Reykhólahérað. — Héraðslæknirinn“.

Frá Kópaskeri:

„Ef núverandi lærlingar koma úr skóla, nógar ljósmæður“. — Héraðslæknir“. Héraðslæknir Sauðárkrókshéraðs svarar þannig:

„Eins og stendur er ekkert ljósmóðurumdæmi óskipað í Sauðárkrókshéraði. En í einu ljósmóðurumdæmi héraðsins gegnir ennþá ljósmóðir, sem strangt tekið ekki er til þess fær, vegna aldurs og lasleika. Má telja til þess þær orsakir, að þessi aldraða ljósmóðir nýtur trausts og að ekki hefir hin síðustu 2 árin fengizt nein álitleg kona til að læra ljósmóðurfræði og setjast þar að. — Alþingi, 30. jan. 1930. Jónas Kristjánsson“.

Þetta eru nú plöggin, sem fjhn. hefir fram að leggja, og ég verð að telja þau sterkar sannanir fyrir okkar málsstað. Engir vita betur um þetta en héraðslæknarnir, en samkv. skýrslu þeirra vantar 31 ljósmóður. Þó er það ekki talið með, að í vor verða nokkur umdæmi laus og vandkvæði talin á að fá yfirsetukonur í þau. Þessar sannanir eru svo sterkar, að þær hljóta að taka af allan vafa um, að það er rétt, sem haldið hefir verið fram á undanförnum þingum, að 30 ljósmæður vantar í landinu. Það er býsna undarlegt, að einmitt í kjördæmi hæstv. ráðh. skuli ljósmæðraskorturirn gera mest vart við sig. En hæstv. ráðh. fullyrðir engu að síður, að ekki vanti margar ljósmæður.

Ég ætla að lesa upp skeytið frá héraðslækninum á Siglufirði, af því að það er sérstaklega eftirtektarvert fyrir hæstv. ráðh. og hans flokk. Það hljóðar svona:

„Síðastliðnu ári fæddust hér samtals 55 börn, tala fæddra hér í Siglufirði hefir aldrei náð 60 stop. Að vísu mjög erfið ferðalög á úlfsdali og í Héðinsfjörð stop en sú venja mun vera að komast á að vanfærar konur láti flytja sig af þessum útkjálkum til kaupstaðarins þá er þeim þykir hæfilegt og næst í góð veður og ala svo börn sín hér þar sem hægurinn er hjá að ná í flýti bæði yfirsetukonu og lækni stop Hér eru 2 vinnandi læknar og hefir það eitt sinn komið fyrir að yfirsetukonur og læknarnir báðir hvert um sig hafa orðið að sitja yfir fæðingu sömu nóttina stop en slíkt er undantekning stop Álít því í bili óþarft að bæta við annari ljósmóður“. — (Fjmrh.: Hvað kemur þetta laununum við?). Það kemur afstöðu hæstv. ráðh. við. Konurnar í sveitinni verða að flytja á mölina og fæða börn sin innan um kaupstaðarlýðinn. Það gæti farið svo, að þau ílengdust þar, og það hélt ég að hæstv. ráðh. og hans flokkur vildi fyrirbyggja. Það má því segja, að laun ljósmæðranna fari að hafa meiri þýðingu en maður bjóst við í fyrstu, þar sem þau eru eitt af þeim atriðum, sem verða til þess, að fólkinu fjölgar í kaupstöðum, en fækkar að sama skapi í sveitunum. Þetta ætti hæstv. ráðh. að athuga og hverfa frá villu sins vegar í þessu máli, fylgja till. fjhn., en draga til baka frv. það, sem hann flytur sjálfur.