25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

11. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Ég get verið þakklátur hæstv. forseta, að hann hefir nú tekið aftur þær ásakanir, er mér virtust liggja í orðum hans til læknanna, og læt því úttalað um það.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. fjmrh. Hann var að tala um, að ég væri kominn í rökþrot, en hið sama henti hæstv. ráðh. litlu síðar, er hann fór að tala um hjúkrunarstarfsemi ljósmæðra. Ég hefi alltaf sagt, að ég ætlaðist ekki til, að yfirsetukonur hefðu aukastarfsemi þann tíma, sem þær eru hjá sængurkonum. En hitt hefi ég sagt, að á öðrum tíma, mundi hjúkrunarstarfsemi þeirra geta komið sér vel víða um land.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hefði aldrei viljað sveigja til samkomulags í þessu máli. Þegar ég bar frv. fram í upphafi, fór ég fram á talsvert hærri launakröfur. Af þeim kröfum hefi ég smám gaman slegið og get nú sætt mig við þær brtt., sem hv. fjhn. hefir borið fram. Þetta kalla ég að sveigja til samkomulags. En hitt er ekki leiðin til samkomulags, að bera nú fram sömu till., sem hv. deild drap í fyrra.

Hæstv. fjmrh. lét í veðri vaka, að hann vildi ekki sækja þá ljósmóður til sængurkonu, er væri að stunda sjúkling. En ég sé ekkert hættulegt við það. Því vitanlega mundi ljósmóðirin sótthreinsa sig áður en hún færi að hjúkra sængurkonunni.

Hæstv. ráðh. talaði um, að starfstími barnakennara væri ekki sambærilegur við yfirsetukonur. En ég lít svo á, að barnakennararnir, sem fá 1.000 kr. laun fyrir 6 mánaða starf, séu margfalt betur settir en ljósmæðurnar, er ekki fá nema 5–600 kr. kaup yfir allt árið.

Annars færði hæstv. fjmrh. engin rök fyrir máli sínu, og sé ég því ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.