27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Í aðalblaði stj. birtist á síðastliðnu vori dálítill greinarstúfur, sem var alleftirtektarverður; því að þar var kveðið svo að orði, að nú hefði Framsókn komið sínum aðaláhugamálum fram, og gæti því tekið því með rósemi, þótt Íhaldið tæki aftur við stj. í landinu. (Forsrh.: Hver sagði þetta?) Fyrv. ritstjóri Tímans. Og síðan hefir þetta aldrei verði borið til baka, hvorki af flokkstj. né ríkistj., og verður því að líta svo á, að þessi yfirlýsing hafi verið gefin fyrir hönd stj. og flokks.

Ég þarf ekki að fjölyrða um, hvað slík yfirlýsing sem þessi þýðir fyrir flokkinn. Greinilegri þrotabúsyfirlýsingu hefi ég aldrei séð. Þeir, sem minnast þessarar yfirlýsingar stjórnarbl., munu ekki undrast, þótt eldhúsumr. séu með nokkuð einkennilegum blæ. Þegar að völdum situr slík stjórn, sem á engin stefnumál, sem er búin með aðaláhugamálin, hljóta eldhúsumr. að verða með undarlegum hætti. Enda hafa þær umr., sem til þessa hafa farið fram, einungis verið karp um smámuni. Stj. hefir verið vítt fyrir að veita Páli, en ekki Pétri bankastjórastöðuna og Pálma, en ekki Jóni, rektorsembættið, o. s. frv. Hún hefir verið vítt fyrir að veita þessum, en ekki hinum, og fyrir að eyða 500 krónum í þetta, en eigi hitt. (ÓTh: Stj. er vítt fyrir það, að hafa verið ranglát, en ekki réttlát). Réttlæti og réttdæmi þessa hv. þm. orkar áreiðanlega engu síður tvímælis en hæstv. stj., að hvorumtveggjum ólofuðum.

Þetta karp um smámuni er eðlilegt. Þegar þrotin eru áhugamál stj. og stefnumálin búin, þá er ekki von, að umr. snúist um stefnur. Þá hljóta þær að snúast um smámunina. Það er því alveg eðlilegt, að hv. þm. Borgf. flytji margra tíma ræðu til þess að telja upp smástyrki til einstakra manna, laun fyrir nefndarstörf og þessháttar smælki. Um þessa hluti greinir Íhald og Framsókn á, um það, hver á að fá þessa bita. Um stefnumál ræddi hv. þm. ekki. Sennilega af því, að hann hefir ekki orðið var við slíkt í fari hæstv. stj. eða ráðabreytni hennar.

Það má segja, að hér á landi séu aðeins tveir flokkar, sem hafa stefnumál að berjast fyrir, það er Alþýðuflokkurinn; stefnuskrá hans hefir verið prentuð og er öllum landsmönnum fyrir löngu kunn orðin, og svo Íhaldið; það hefir sína stefnuskrá líka, en þar eð hún er ekki líkleg til þess að auka fylgi flokksins, er henni leynt. Stefnuskrá þess er í skemmstu máli sú, að hamla eðlilegri þróun, halda í sérréttindi yfirstéttarinnar, tryggja völd hennar í stjórnmálum og atvinnumálum.

Framsókn, sem er stjórnarflokkurinn, hefir aftur á móti engin stefnumál, eins og sjá má á blöðum þess flokks, þingstarfsemi og gerðum stj. Ég hefi undanfarið verið á allmörgum stjórnmálafundum víða um land. Og ég verð að segja það, að öllu ósmekklegri og óheilli framkomu hefi ég ekki séð en framkomu Íhaldsins og Framsóknar á þessum fundum. Báðir þessir flokkar hafa þar sífellt verið að reyna að veiða bændurna og lokka þá til fylgis við sig. Málsvarar þessara flokka hafa þar helzt líkzt ölvuðum mönnum á uppboðsþingi. Þeir hafa boðið í bændurna hver í kapp við annan, lofað þeim gulli og grænum skógum, ef þeir fylgdu þeirra flokk að málum. Þegar annar flokkurinn hefir komið og sagt: „Þetta veiti ég yður“, þá hefir hinn óðara hlaupið til og sagt: „Þetta er ekkert á við það, sem ég hefi að bjóða“. Síðan hafa báðir flokkarnir keppst við yfirborðið, keppst við að bjóða bændum sérstök fríðindi, án þess að um ólík stefnumál væri að ræða. Báðir flokkarnir vilja svo eftir á eigna sér allt, sem þeir segja að gert hafi verið fyrir bændurna, eins og t. d. jarðræktarlögin, kæliskip, íshússbyggingar og landnámssjóðinn.

Skemmtilegasta dæmið er þó, þegar þessir tveir flokkar rifust um áburðinn forðum.

Framsókn kom og sagði: „Sjáið þið, bændur góðir, nú ætlum við að flytja til ykkar áburð alla leið frá útlandinu fyrir ekki neitt. Kjósið mig!“ En þá hleypur Íhaldið til og segir: „Við skulum gera meira. Við skulum flytja hann alla leið heim í hlað til ykkar fyrir ekkert. Það er nær að kjósa mig“.

Þá kom Framsókn með Búnaðarbankann, en Íhaldið var ekki alveg af baki dottið, Það bauð bændum að sjá landinu fyrir rafmagni til ljósa, suðu og hita út um alar sveitir landsins. En auðvitað gleymdi það að geta um, hvað rafmagnið myndi kosta. Og nú er á döfinni hér á þessu þingi styrkur til heyhlöðubygginga frá öðrum flokknum, og til kaupa og reksturs á skurðgröfum fyrir bændur frá hinum.

Báðir eiga þessir flokkar sammerkt í því að halda, að þeir geti lokkað bændur til fylgis við sig með því að lofa þeim styrkjum og fríðindum á kostnað annara stétta. Og alltaf eru boðin hækkuð, alltaf hugsað um það eitt, að bjóða yfir. Um hitt, þótt styrkurinn verði aðeins persónuleg hagsbót einstakra manna, er létti þeim líðandi stund, en eigi til gagnsemda fyrir landbúnaðinn í heild og fólkið, sem framvegis ræki hann, er ekkert hugsað.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að ef sú lýsing, sem fyrrv. ritstjóri Tímans gaf í fyrravor af Framsóknarflokknum er rétt, að hann væri þegar búinn að koma aðaláhugamálum sínum fram, þá er það ekki að furða, þótt stj. sé reikul í ráði og hrekist fram og aftur milli hinna flokkanna, Alþýðuflokksins, sem vill halda fram, og Íhaldsflokksins, sem vill halda aftur á bak. Þá má líkja flokknum við skip, sem velkist á öldunum, án stýris og áttavita, og hendingin ein ræður því, hvert það berst með straumi og vindi. Þetta er ofur skiljanlegt. Stjórnarliðið á engin sameiginleg áhugamál, ekkert, sem fengir flokkinn saman. Þess vegna hlýtur oft að fara svo, að, hver höndin verði þar upp á móti annari. Sumir tala oft um klofning í Framsóknarflokknum. Ég álít, að það sé eigi réttmæli. Flokkurinn er of laus í sér til þess að geta klofnað. Hann er eins og grjóthrúga, eða malarbingur. Sementið vantar; áhugamálin sameiginlegu, stefnumálin, vantar. Því fer sem fer, að Íhaldið gengur í hrúguna þegar því liggur á. Það á í Framsóknarflokknum varalið, sem hleypur undir bagga með því, þegar mest ríður á.

Þessi skortur sameiginlegra áhugamála veldur fálmi og stefnuleysi stj., veldur því, að flokksmenn hennar hlaupa undir Íhaldið þegar verst gegnir, veldur því, að stjórnarsaga Framsóknar er raunasaga.

Ég neita því ekki, að góðir menn og gegnir séu til í flokknum, og að núv. stj. hafi gert ýmislegt mun skár en fyrrv. ríkisstj. En sökum þessa skorts á áhugamálum og skilnings á eðli flokka og flokksstarfsemi, hefir hendingin ein ráðið því, hvað sneri upp og hvað niður í það og það skiptið, hvað gert var og hvað ógert látið.

Það er ekki óalgengt, að hæstv. forsrh. standi hér upp og segi með miklum áherzlum og fjálgleik : „Ég skoða mig sem fulltrúa bændanna í þessu landi“.

Ég álít það miður vel til fallið, að forsrh. landsins skuli hvað eftir annað lýsa yfir því, að hann skoði sig fulltrúa einnar stéttar. Hann á auðvitað ekki að vera fremur fulltrúi bænda en hverrar annarar stéttar í landinu. Og ég tel þetta því lakara, þar sem ég þykist þess fullvís, að nokkur hugur fylgi máli hjá hæstv. ráðh. Þessháttar yfirlýsingar eru háskalegar, bæði fyrir bændur og aðrar stéttir. Í fyrsta lagi gefa þær undir fótinn þeirri stefnu, sem allmjög hefir borið á hjá Framsóknar- og Íhaldsflokknum; að ala á ríg milli sveita og sjávarbyggða. Það er hið mesta skemmdar- og óhappaverk, að telja bændum trú um, að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta, sem andstæðir séu hagsmunum þeirra, er við sjóinn búa. Hagsmunir bænda og alþýðumanna við sjóinn fara saman. Hagsmunir manna fara ekki eftir því, hvort þeir búa í sveit eða við sjó, heldur hinu, hvort þeir tilheyra eignastéttinni, sem á framleiðslutækin og kaupir vinnuafl verkalýðsins til að græða á því, eða hvort þeir heyra til þeim stéttum, er lifa á launum eða handafla sínum einum. Allflestir bændur, sjómenn og iðnaðarmenn teljast til verkalýðsins að réttu lagi, því að þeir lifa á handafla sínum, en eigi eignatekjum. Aðeins fáeinir stórbændur geta talizt til eignastéttarinnar. Þeir hafa sömu hagsmuna að gæta og stóratvinnurekendur kaupstaðanna.

Ég sagði áðan, að því miður væri svo að sjá sem hæstv. forsrh mælti af heilum hug, er hann kallar sig fulltrúa bænda. Þetta verður enn ljósara, ef litið er á mismuninn á fjárframlögum þeim; er hið opinbera ætlast til að lagt verði til sjávar og sveita. Búnaðarfélag Íslands fær 250 þús. kr. styrk, en Fiskifélagið ekki nema 80 þús. Ef litið er á ýmsa styrki til einstakra athafna, verður hlutfallið enn hagstæðara sveitunum. Aðeins örlítið brot af því fé, sem varið er til verklegra framkvæmda, gengur til umbóta við sjávarsíðuna. (HH: Eru vitar þá taldir með?). Já, og þó er lagt á sérstakt vitagjald, en það gengur ekki einu sinni allt til vita. Mér er kunnugt um að það er þyrnir í augum sumra þjóða, sem sigla hingað, að vitagjaldinu skuli ekki öllu vera varið til vita.

Ég sagði, að ekki væri hættulaust að ala á þeirri kenningu, að hagsmunir sveitanna væri andstæðir hagsmunum kaupstaðanna. Slíkt er líka hin mesta fjarstæða. Því betri sem afkoma fólks er í kaupstöðunum, því hærra verð fá bændur fyrir afurðir sínar. Með vexti kaupstaðanna hefir skapazt markaður fyrir bændur. Heil héruð eiga hagsæld sína að þakka því, að geta komið afurðum sínum á þennan markað. Enda sýnir reynslan, að héruðin keppast um að fá samgöngur við kaupstaðina. Það má lesa úr þau héruðin, sem lakastar samgöngur hafa við kaupstaðina. Og enn má bæta einu við. Með vexti kaupstaðanna hefir tekið fyrir útflutning manna til Ameríku. Slíkt ætti að vera öllum stéttum gleðiefni.

Hið sama gildir um verkalýðinn í kaupstöðunum. Hans hag er því betur borgið sem hagur sveitanna er betri. Aðalmein verkalýðsins er atvinnuleysi og dýrtíð. Þegar illa árar í sveitunum, streymir umkomulaust fólk þaðan til kaupstaðanna, lækkar kaupgjald með auknu framboði á vinnu og hækkar húsaleigu með aukinni eftirspurn eftir húsnæði.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir bent á, hve geysiháar fjárhæðir ganga til sveitanna, ýmist sem beinn styrkur eða óbeinn. Þær fjárhæðir nema næsta ár allt að 1½ millj. kr. auk þess, sem varið er til samgöngubóta á landi, en það mun vera um 1 — ein — miljón kr.

Að vísu er ekki rétt að kalla þá fjárhæð alla styrk til landbúnaðarins, en þó er sveitunum mestur hagur í auknum vegabótum. Ég tel ekki þetta fé eftir, og það hefir sýnt sig, að þjóðin hefir verið þess megnug að leggja það fram hingað til. En sökum uppboðskapps Framsóknar við Íhaldið, hefir þessu fé verið varið miklu ver en skyldi. Ég fullyrði, að þetta fé kemur ekki landbúnaðinum að hálfu liði á við það, sem verið gæti, sökum skammsýni hæstv. stj. og uppboðskappsins við Íhaldsflokkinn. Það er látið heita svo, að fé þessu sé varið til að bæta atvinnuskilyrði sveitamanna, svo að meira verði afgangs af tekjum þeirra til nýrra framkvæmda og lífsskilyrði þeirra geti orðið betri og fjölbreyttari. En eins og þeim er varið, verður þetta að litlu eða engu leyti. Það fé, sem lagt hefir verið fram til samgöngubóta og jarðabóta í sveitum, hefir komið fram í verðhækkun á jarðeignum. Við næstu eigandaskipti tekur hinn nýi eigandi við dýru landi, sem hefir hækkað í verði, venjulega nákvæmlega sem svarar aukningu á afrakstrarmöguleikunum. Ef hækkunin yrði nú ekki meiri en það, mætti segja, að þetta væri ekki skaðlegt. En vegna brasks og spákaupmennsku, nemur hækkunin oft mikla meiru. Og þá eru þessir styrkir orðnir að hefndargjöf. Í staðinn fyrir að þessi fjárframlög eiga að tryggja framtíð þeirra manna, sem á jörðunum munu búa, verða þau oft beinar peningagjafir til þeirra, sem eiga jarðirnar þegar styrkurinn er veittur, eða ódýru lánin eða samgöngubæturnar gerðar. Verðaukinn verður þeirra eign, sem þeir geta braskað með eftir geðþótta.

Ég sagði, að skammsýni stj. ylli því, að eigi hefði verið séð við þessum leka. Flokkur stj. hefir ekki gert sér ljóst, að meðan braskað er með jarðirnar, eru þessi fjárframlög oft og tíðum til ills eins. Ég veit að vísu, að sumir menn í Framsóknarflokknum sjá nauðsynina á því, að fyrirbyggja braskið með jarðirnar. En þá kemur uppboðskappið við Íhaldsflokkinn til greina. Þeir framsóknarmenn sem betur sjá, þora ekkert að segja, því að þeir óttast, að þá verði þeir óvinsælir hjá bændum, og að Íhaldsflokkurinn græði á því atkvæði.

En það er áreiðanlega rangt og auk þess bein móðgun við bændur að ætla þá svo eigingjarna og þröngsýna, að Íhaldið fái atkv. þeirra, ef Framsókn heldur fram réttu máli, því, að styrkurinn til landbúnaðarins eigi að verða til framtíðarhagsbóta fyrir fólkið, sem býr á jörðunum; en ekki gjafir til einstakra manna. Megingallinn á gerðum stj. í landbúnaðarmálum er einmitt þessi. Hún hefir lagt alla stund á að kaupa sér hylli einstakra skammsýnna jarðeigenda með styrkjum og fríðindum, sem þeir geta hagnast á og braskað með. Hún hefir hugsað aðeins um líðandi stund, en ekkert gert til að tryggja framtíð landbúnaðarins. Bændurnir, sem selja jarðirnar, græða. En jafnframt er lagður skattur á framleiðslu landsmanna um ókomnar aldir.

Framsóknarflokkurinn gengur undir mörgum fallegum nöfnum. Hann nefnist ýmist Framsóknarflokkur, Bændaflokkur eða Samvinnuflokkur. Þegar þetta er athugað, koma mér nokkuð undarlega fyrir ummæli hæstv. forsrh., sem ég veit að muni telja sig vera einlægan samvinnumann. Hann lýsir yfir því hér í eldhúsinu, að hann sé á móti sameign og þjóðnýtingu. Ég þykist nú vita dálítið um samvinnustefnuna líka. Engin samvinna er möguleg í fjárhagslegum efnum nema samfara henni sé sameign fjárhagslegra verðmæta. Öll samvinna í fjárhagsefnum hlýtur að byggjast á þessu.

Samvinnuhreyfingin hér, sem ennþá er nær eingöngu kaupfélagshreyfing, veit þetta líka. Kaupfélögin auka sameignarsjóði sína ár frá ári. Samkv. samvinnul. eru samvinnufélögin skyldug til að leggja vissan hluta af veltu sinni í sameiginlegan sjóð. (Forsrh.: Er það þjóðnýting?). Hæstv. forsrh. þykir þjóðnýtingin háskagripur. Ég veit nú ekki betur, en að það hafi verið takmark samvinnumanna hér á landi, að allir landsmenn séu í kaupfélögum, er síðar myndi með sér eitt landssamband. M. ö. o., að hér sé eitt samband samvinnufélaga, sem reki alla verzlun við útlönd. Kaupfélögin verði svo öflug, að þau ein annist söfnun og dreifingu nauðsynja og afurða innanlands, en allsherjarsamband þeirra annist öll viðskipti við útlönd.

Hvað er það nú, sem gerist, ef kaupfélögunum tekst að koma þessarri hugsjón í framkvæmd? Þá er verzlunin orðin þjóðnýtt í raun og veru. Og því takmarki hafa samvinnumenn hér látist vilja keppa að til þessa, og í því skyni keppa félögin að því að auka sameignarsjóði sína sem mest.

Ég þykist nú vita, að hæstv. forsrh. muni hreyfa andmælum gegn þessarri skoðun minni, og til þess að stytta ræðu hans, ætla ég að svara þeim mótmælum, sem ég veit að hann kemur strax með.

Ég þykist vita, að hæstv. forsrh. fari að tala um muninn á frjálsum samtökum neðan að og lagaboðum ofan að.

Allar þær breyt., sem til gagns hafa orðið í þjóðfélagsmálum, hafa fyrst byrjað með frjálsum samtökum neðan frá, og síðan tekið löggjafarvaldið sér til styrktar. Það hafa kaupfélögin hér þegar gert. Þegar þeim fór að vaxa fiskur um hrygg og þeim hafði tekizt að breyta almenningsálitinu sér í vil, þá komu þau á samvinnul., sem veittu þeim ýmiskonar hlunnindi, fram yfir annan félagsskap.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. Ef svo væri komið, að kaupfélögin hefðu náð t. d. 4/5 af verzluninni í landinu undir sig, og sýnt væri að spara mætti algerlega tilkostnaðinn við þann 1/5, sem eftir er, með því að taka löggjafarvaldið í sína þjónustu og lögbjóða sameiginlega verzlun fyrir alla landsmenn, á þá að gera það? Og ef nú svo væri, að verzlunin með þennan 1/5 spillti fyrir verzluninni yfirleitt, eins og Tíminn segir að kjötverzlun einstakra kaupmanna hafi oft spillt fyrir kjötverðinu og lækkað það, telur hæstv. ráðh. þá ekki rétt að neyta löggjafarvaldsins til þess að hefta það, að verzlun sambandsins sé spillt? Ég vil vona, að hæstv. forsrh. svari þessu játandi.

Ég hefi farið út í þessa sálma vegna þess, hve sannfærður hæstv. forsrh. þóttist vera um skaðsemi þjóðnýtingarinnar, og hve fjarri hann kvað hana standa Framsóknarflokknum. Hæstv. ráðh. sér ekki, að lokatakmark samvinnufélaganna er þjóðnýting. Jafnvel Bolsevíkarnir í þeirri rauðu Rússíá segja sjálfir, að um 70% af þjóðnýtingunni hjá, þeim sé í höndum samvinnufélaganna. Enda játa það allir og viðurkenna, að samvinnustarfsemi á réttum grundvelli er einn þáttur þjóðnýtingarinnar.

Nú er það svo náttúrlega, að ef menn fara að tala um þjóðnýtingu, þá getum við hæglega spjallað um hana alla nóttina. Hæstv. ráðh. virðist ganga með þá kórvillu í höfðinu, að ekkert sé þjóðnýting nema ríkisrekstur. Annars fer því fjarri, að hæstv. ráðh., og Íhaldsmenn, séu svo hræddir við þjóðnýtingu, jafnvel ríkisrekstur, sem þeir vilja láta líta út fyrir. Hafnir, póstur og sími, allt er þetta þjóðnýtt. Ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ráðh. vildi breyta þessu í samvinnufyrirtæki. Sama er um skóla, sjúkrahús o. s. frv. Yfirleitt er það svo, að sú þjóðnýting, sem komin er á og náð hefir að festast, sýnir svo yfirburðina yfir samskonar starfsemi, sem einstaklingar reka í frjálsri samkeppni svokallaðri, að engum, jafnvel ekki íhaldsmönnum, dettur í hug að hrófla við henni.

Um ræktun landsins og viðhorf stj. og flokks hennar til jarðabóta og ræktunarstarfsemi má að vísu segja, að þar sé byggt á samvinnu, meira að segja lögþvingaðri samvinnu allra landsmanna. Að því leyti má segja, að Samvinnuflokkurinn beri nafnið með nokkrum rétti. — Allir landsmenn, hvort sem þeir eiga nokkurn jarðarblett eða engan, eru með 1. skyldaðir til að leggja fé til ræktunar landsins, til Búnaðarfélagsins, Búnaðarbankans og til jarðabóta. Lætur því skraf hæstv. ráðh. um, að flokkurinn vilji aðeins frjálsa samvinnu, undarlega í eyrum, þegar samtímis er verið að lögfesta skatta, er verja skal til ræktunar. Þessir skattar, sem þannig eru lagðir á landsmenn, eru nú um 1½ millj. kr. á ári, og þeir fara til jarðræktar og húsabóta og ódýrra lána fyrir bændur. Og þar við mætti bæta miklum hluta þess fjár, sem varið er til samgöngubóta, en það er yfir 1 milj. kr. á ári hverju. Þannig eru landsmenn beinlínis skyldaðir til þess að rækta landið, þrátt fyrir skraf ráðh. um frjálsa samvinnu, land, sem allur þorri þeirra á engan skika af. Ég tel þetta fé ekki eftir, ef það aðeins væri rétt notað. En árangurinn af þessari lögboðnu samvinnu þjóðarinnar allrar, verðmætið, sem hún skapar, kemur fram sem verðhækkun landsins. Jarðirnar hækka í verði þegar þær eru bættar. Og þessi verðmunur rennur allur í vasa þeirra einstaklinga, sem jarðirnar eiga. Ríkið, samfélag landsmanna, leggur fé í jarðirnar. Einstaklingarnir hirða verðhækkunina. Notendur jarðanna greiða þeim verðhækkunarskatt síhækkandi, þ. e. vexti og afborganir eða leigur af jörðunum, af fénu, sem þjóðin öll hefir lagt fram.

Þetta er rangt. Hæstv. stj. og flokkur hennar sér ekki, eða vill ekki sjá, að hið raunverulega eðli samvinnunnar er sameign. Ég þarf ekki að taka það fram, að auk hinnar eðlilegu verðhækkunar, sem verður á jörðunum, þegar þær eru bættar, kemur stundum önnur verðhækkun. Það er verðhækkun sú, sem braskararnir valda, þegar jarðarverðið hækkar meira en afrakstursmöguleikar jarðarinnar aukast. Þessi verðhækkun er skaðleg og til niðurdreps fyrir landbúnaðinn.

Samvinnustefna stj. í ræktunarmálum er því sú ein, að hafa lögþvingaða samvinnu um að bera kostnaðinn við ræktunina, en láta svo fáa einstaklinga spila með verðaukann, sem hún skapar.

Þar sem hæstv. ríkisstj. og flokkur hennar virðist telja samvinnuna holla og nauðsynlega, ætti hún að vera sjálfri sér samkvæm og vinna að því að auka samvinnu og sameign meðal þeirra, sem stunda landbúnað. En það er nú eitthvað annað en hæstv. stj. og flokkur hennar geri það. Það er þvert á móti eitt af hennar mestu áhugamálum, að því er hún sjálf segir, að styðja að því, að sem allraflestir sjálfseignarbændur verði í landinu, og þar af leiðandi sem allra smæstir sjálfstæðir atvinnurekendur.

Það hefir sýnt sig hér á landi sem annarsstaðar, að öll þróunin hnígur í þá átt að gera atvinnureksturinn sem stórvirkastan, atvinnufyrirtækin sem stærst og öflugust. Þróunin stefnir til stóratvinnurekstrar í öllum atvinnugreinum, vegna þess að það hefir sýnt sig, að stóriðjan hefir mikla yfirburði yfir smáiðjuna. Fyrirtæki með miklu fjármagni gefast betur en mörg smá og félítil. Með stórrekstri er hægt að kaupa og koma við dýrum vélum og nýjustu aðferðum. En slík tæki og vinnuaðferðir eru smárekstrinum um megn, þótt þau margborgi sig. En hæstv. stj. virðist ekki vita af þessari þróun, hún sér ekki lengra en það, að hún vill reka sveitabúskapinn með gamla laginu, sem víðast er komið á fallanda fót, og haldið er uppi með styrkjum og fjárframlögum. Ég veit það líka, að þó að hæstv. stj. og flokkur hennar beiti öllum sínum áhrifum til þess að flestir þeir, sem stunda landbúnaðinn, verði svokallaðir sjálfseignarbændur, þá mun það ekki takast. Hæstv. stjórn er þess ekki megnug. Þróun atvinnulífsins verður yfirsterkari. En þrátt fyrir það getur hæstv. stj. með stuðningi flokks síns miklu um það ráðið, hvernig þróunin verður á þessu landi.

Búnaðarbankinn er stofnaður til að veita ódýr lán til landbúnaðarins. Til hans leggja landsmenn árlega 400 þús. kr. af tekjum sínum með lögþvingaðri samvinnu. Auk þess hefir ríkissjóður lagt til hans viðlagasjóðinn að mestu leyti. Stofnfé svo milljónum skiptir hefir verið lagt til hans af sameignarfé landsmanna. Ef svo fer, sem til er ætlazt, verður það mikla fé, sem bankinn veitir út um sveitir landsins, til að auka ræktun og byggingu sveitanna að miklum mun, og er það vel. En ekki verður séð, að hæstv. stj. hafi gert sér grein fyrir því, hverjar aðrar afleiðingar hljóta að verða þessum samfara, ef ekki er að gert í tíma. Hún ætti þó að hafa séð, hvað gerzt hefir í hinum aðalatvinnuvegi okkar Íslendinga, sjávarútveginum, við það, að hann fékk aukið rekstrarfé. Afleiðingar þess, að sjávarútvegurinn fékk aukið fjármagn, urðu þær, að útgerðin óx að miklum mun, en jafnframt færðust eignarumráð útgerðartækjanna, hinna stærstu, í hendur fárra manna. Þeir, sem höfðu framfæri sitt af útgerðinni, greindust í tvær meginstéttir, annarsvegar fámenn stétt atvinnurekenda, sem hafði allt fjármagnið í sínum höndum, og hinsvegar eignalaus vinnulýður, sem varð að lifa á því, að selja atvinnurekendunum vinnu sína. Verði ekki að gert, skeður það sama í sveitunum, sem orðið er við sjóinn.

Þegar nú verður veitt svona miklu fé út til sveitanna, án þess að gera nokkrar sérstakar ráðstafanir til að fyrirbyggja gróðabrask einstakra manna þar, þá mun rísa þar upp búskapur með stóriðjusniði. Þar verða rekin stórvirki af efnuðum mönnum, en eignalausum vinnulýð, sem skortir bæði jarðnæði og fjármagn, hlýtur að fjölga að sama skapi. Þar fá svo stórbændurnir „vinnukraftinn“, hjú og húsmenn.

Það er barnaskapur að ætla sér að stöðva eðlilega þróun atvinnulífsins, og þar sem stórreksturinn sýnir betri afkomu, á að hallast að honum. En það sem stj. átti að gera, var það, að láta haga þannig lánum til landbúnaðarins, að stuðlað yrði að því, að stórbúin verði ekki einstaklinga eign, heldur samvinnubú, sameign allra þeirra, sem að þeim starfa. En þar sem ekki eru skilyrði fyrir stórreksturinn, myndi smábúskapurinn. halda áfram. Þessar ráðstafanir hefir alveg verið vanrækt að gera.

Ég álít, að stórrekstur við landbúnað muni rísa upp víða um land. En það, sem hæstv. stj. á að gera, er að beina honum inn á þá braut, að stórbúin verði sameignar- og samvinnubú, eða ríkisbú, þar sem það þykir henta, t. d. við bændaskóla, fyrirmyndarbú o. s. frv.

Það er óþarfi að nefna mörg dæmi til að sýna, hvert stefnir í landbúnaðinum. Þau eru deginum ljósari. Þannig er t. d. á Korpúlfstöðum. Það er auðséð, hver afleiðingin verður, ef mörg slík bú koma upp. Því meir sem slíkum búum fjölgar, því meira verður í sveitunum af jarðnæðislausu fólki, sem verður að lifa á því að selja vinnu sína þeim, sem búin og jarðirnar eiga.

Ég drap á það í upphafi ræðu minnar, að þau orð hefðu verið látin falla í aðalblaði núv. hæstv. stj., að núv. ríkisstj. og flokkur hennar mundi geta vel sætt sig við, að Íhaldið tæki aftur við völdum, þar sem hún væri búin að koma í framkvæmd aðaláhugamálum Framsóknarflokksins. Ég hefi ennfremur bent á, að stj. og flokkur hennar hefir ekki neina sérstöðu í landbúnaðarmálum, enga ákveðna stefnu, nema ef hægt er að kalla það stefnu að yfirbjóða Íhaldsflokkinn í styrkveitingum til bænda, án þess að tryggja gagn af slíkum styrkjum í framtíðinni. Stefnuleysi hæstv. stj. og áhugaleysi sést og greinilega á háttsemi hennar á þessu og undanförnum þingum. Bendir sú háttsemi til þess, að blaðið hafi sagt satt er það sagði, að flokkurinn gæti vel unað því, að íhaldið tæki við.

Á síðasta þingi flutti hæstv. ríkisstj. 31 frv., eða þau voru flutt að tilhlutun hennar. 8 af þeim lágu í valnum þegar þingi lauk, Þessi var áhugi stj. fyrir málunum, sem hún sjálf bar fram, og þó voru ýms þeirra frá næsta þingi á undan. Á þessu þingi eru 28 frv. flutt af stj. og auk þess 8 frv., þar sem tekið er fram í grg., að þau séu flutt að tilmælum hæstv. stj., og vitað er, að enn eru fleiri frv., sem eru flutt fyrir tilmæli hæstv. stj. Nú er þingið búið að standa í 10 vikur, og af þeim frv., sem flutt hafa verið fyrir atbeina hæstv. stj., hafa aðeins 8 verið samþ. Mér hefir skilizt svo, að þegar búið er að afgreiða fjárl., eigi að slíta þingi hið bráðasta, en þá hlýtur líka að fara svo, að mestur hluti þeirra frv., sem stj. hefir borið fram, hlýtur að daga uppi, a. m. k. um stundarsakir, ef þau þá ekki verða beinlínis drepin. Hæstv. ríkisstj. flytur margt af frv., en henni virðist ekki vera það neitt sérstakt kappsmál, hvort þau ná fram að ganga eða ekki. Ég skal nefna eitt dæmi, sem sýnir þetta glöggt.

Nú hefir verið flutt þrjú þing í röð sama frv. að tilhlutun hæstv. dómsmrh. Það er um eftirlit með loftskeytum botnvörpuskipa. Það dagaði uppi á þingi 1928. Það var aftur tekið fyrir á þingi 1929, en fékk þá ekki afgreiðslu. Það var enn tekið fyrir á þessu þingi, og svo snemma, að það gæti haft nógan tíma til að komast gegnum þingið. En hvað skeður? Flokksmenn hæstv. stj. greiða ýmsir atkv. á móti frv. og fella það. Hæstv. ráðh. lætur líta svo út, sem hann telji þetta frv. mikilsvert, með því að flytja það á þremur þingum í röð. Samt er það fellt þegar það kemur til fullnaðarúrslita á þriðja þinginu, fellt af flokksmönnum hæstv. ráðh. Og hann tekur því ofboð rólega, og verður ekki annað séð, en hann uni því vel. Þessi málflutningur hæstv. ráðh. er orðinn hreinasti skrípaleikur. Auðvitað átti ráðh. að byrja á því að tryggja frv. fylgi hjá flokki sínum, ef hann þá meinti nokkuð með því að flytja það. Nú sér hver maður, að ráðh. hefir ekki verið þetta neitt áhugamál. Tilgangurinn hefir verið sá einn að skreyta sig með frv., í þeirri von að ganga fremur í augun á kjósendunum.

Þá er það alltítt, að stj. vill ekki flytja frv. um þau mál, sem hún þó segist vera eindregið fylgjandi. Hæstv. forsrh. segist vilja láta leggja skatta á krossa. En hann flytur ekki frv. um það sjálfur, heldur segir hann: „Komið þið með frv., ekki skal standa á mér að greiða atkv.“ En ef hæstv. forsrh. er því eindregið fylgjandi, að gjald af þessum heiðursmerkjum verði leitt í lög, þá á hann auðvitað sjálfur að bera frv. fram. Hann hefir bezta aðstöðu til að koma því gegnum þingið.

Ég hefi þá í þessum inngangi drepið á þau mál, sem ætla mætti, að væru aðaláhugamál hæstv. stj., en það eru landbúnaðarmálin yfirleitt og þau frv., sem lögð hafa verið fyrir þingið af stj., eða að hennar tilhlutun. Ég hefi sýnt fram á, að stj. hefir ekki einu sinni styrk hjá flokki sínum í fjölda þessara mála, og að engin meginstefna einkennir störf hennar eða tengir flokkinn saman. En þá vaknar þessi spurning: Hvernig stendur á því, að hæstv. núv. ríkisstj. hefir getað setið að völdum á þriðja ár með fylgi minni hl. kjósenda og minni hl. þingsins? (BÁ: Það gerir varaliðið!). Varaliðið, segir hv. sessunautur minn. Nei, það, sem stj. lifir á, er andstöðuflokkur hæstv. stj. Honum á hún það að þakka, hvað lífdagar hennar hafa orðið langir. Hæstv. stj. lifir ekki á eigin verkum. Hún lifir á syndum annara, syndum Íhaldsins. Svo lengi sem þær endast og eru landsbúum í fersku minni, er ekki óhugsandi, að líftóran haldist í hæstv. stj. Sú stj., sem þjóðin átti við að búa, áður en þessi stj. tók við völdum, hagaði sér þannig, að þjóðinni hrýs hugur við því að láta hana komast að völdum aftur. Þjóðin vill heldur stefnulausa stj. en stj., sem hefir þá stefnu, er til beinna óheilla horfir. Þess vegna tórir hæstv. núv. stj.

Sagt er, að hefðarkonur í París hafi þann sið að hafa jafnan í fylgd með sér, við hlið sér á mannamótum og götum úti, frámunalega ljótar og herfilegar kvenpersónur. Þetta gera þær til þess að þær sjálfar sýnist fegurri en þær eru, vegna samanburðarins við ófríðleika hinna. Með þessu móti geta réttar og sléttar miðlungskonur, og jafnvel tæplega það, að fríðleik, látið karlmennina halda, að þær séu töfrandi fagrar. Veldur því samanburðurinn. Greiða hefðarkonurnar oft þessum herfum, sem vel mætti nefna fylgikonur, ef orðið hefði ekki sérstaka merkingu, stórfé fyrir þeirra þjónustu.

Nokkuð svipað er um hæstv. stj. og þessar hefðarkonur Parísarborgar. Hæstv. ríkisstj. hefir fengið einskonar „fylgikonu“, og það alveg ókeypis. Á ég þar við fyrirrennara hennar í ráðherrasæti. Það er ætíð svo, að dómar manna byggjast að meira eða minna leyti á samanburði, og það er því ekki mikill vandi fyrir hæstv. stj. að vinna sér sæmilegt orð, þegar að því er gætt, í hverra sæti hún sezt. Það er ekki mikill vandi, segi ég, að fylla sæti þeirrar landsstj., sem lét viðgangast önnur eins hneyksli eins og sjóðþurð sýslumannsins í Barðastrandarsýslu, vaxtatöku bæjarfógetans í Reykjavík, sjóðþurðina í Brunabótafélaginu og kosningasvikin í Hnífsdal, svo að fátt eitt sé nefnt. En um þetta og annað eins lézt hv. fyrrv. stj. alls ekki vita, þótt það gerðist rétt undir handarjaðrinum á henni. Núv. hæstv. stj. þarf ekki að gera nema lítið brot af skyldu sinni til að standast samanburð við þessa menn, og sýnast vaxa og fríkka við samanburðinn. Og það er þessi samanburður, sem heldur líftórunni í hæstv. stj. Hún hefir átt því láni að fagna að fá þennan samanburð gerðan, fá þetta afskræmi svo að segja við hlið sér, sér að kostnaðarlausu, og það væri synd að segja, að hún hefði ekki reynt að notfæra sér hann eftir föngum.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa og gert sitt til að auka hróður hæstv. stj. hjá þeim, sem eru á móti íhaldinu. En það er alkunna, að last íhaldsblaðanna lætur í margra eyrum sem lofsöngur um stj., því að last illra manna — og á ég þar aðeins við illa menn í stjórnmálum —gengur næst lofi góðra manna. Hæstv. stj. hefir nú átt því láni að fagna, að á hana hefir verið ráðizt, og þó einkum á hæstv. dómsmrh., með hinum óvenjulegustu og ósæmilegustu aðferðum. Háttv. íhaldsmenn hafa með látlausum svívirðingum forgyllt þennan hæstv. ráðh. framan og aftan í augum meiri hl. af frjálslyndum mönnum í landinu, og þeir hafa, alveg ómaklega, gert hann að einskonar tákni íhaldsandstöðunnar. Þannig hefir þessi hæstv. — ráðh. stækkað og fríkkað í augum ýmsra frjálslyndra manna langt um fram það, sem hann hefir sýnt verðleika eða viðleitni til. Blöð hæstv. stj. og flokkur hennar hafa líka kunnað að nota sér þetta. Þau hafa gert hæstv. dómsmrh. að einskonar agni fyrir kjósendur, notað hann til þess að reyna að fá frjálslynda menn og umbótasinnaða til að kjósa svo kallaða framsóknarmenn. Hann hefir haft lag á því að tengja nafn sitt við ýms umbótamál, sem hreyft hefir verið á Alþingi. Þessi mál hafa aftur verið drepin, bæði af andstæðingum hans og flokksbræðrum, eða þá breytt svo, að þau hafa ekki verið nema svipur hjá sjón, ef þau hafa komizt fram. Hæstv. ráðh. skrifar fyrst um þessi mál í blaði sínu og ræðir síðan um þau á Alþingi. En þar kemur Íhaldið fyrst og síðan „varaliðið“ og „varavaraliðið“ og klípur af þessum till. að framan og aftan, þar til lítið er eftir, og ekki verður annars vart, en að hæstv. dómsmrh. láti sér þessa meðferð vel lynda. En á þennan hátt hefir honum og flokki hans tekizt að tengja nafn hans svo við þessi mál, að mönnum kemur það oft í hug þegar minnzt er á málin.

Ég skal nú segja hér nokkuð af sögu þessa hæstv. ráðh., máli mínu til sönnunar. Vil ég þar fyrst minnast á Byggingar- og landnámssjóðinn, og áður en ég vík að málinu skjóta því til bændavinarins mikla, hæstv. forsrh., að þessi sjóður á nú að fá úr ríkissj. 200 þús. kr. árl. styrk, en styrkur veittur í sama skyni, til efnalausra manna til að koma upp húsakynnum í kaupstöðum. og kauptúnum, er samkv. fjárlfrv. áætlaðar einar 33 þús. kr., og er þó íbúafjöldinn þar engu minni en í sveitunum öllum. Hæstv. dómsmrh. flutti frv. um Byggingar- og landnámssjóð fyrst með þeim hætti, að teknanna til að standast útgjöld eftir því skyldi afla með því að leggja sérstakan skatt á hátekju- og stóreignamenn. Þessu fé skyldi varið til að hjálpa hinum efnaminni bændum til að byggja yfir sig. Mikill meiri hl. þjóðarinnar var málinu fylgjandi, einmitt í þessari mynd. Og hæstv., dómsmrh. lánaðist með þessu að tengja nafn sitt við viturlega og vinsæla hugmynd. Frv. varð um síðir að lögum, eftir mikla hrakninga, en var þá orðið með allt öðrum svip en upphaflega. Í stað þess að láta þá leggja fram féð, sem fengið höfðu óeðlilegan gróða fyrir það, að þjóðfélagið gaf þeim betri aðstöðu en öðrum, var kostnaðurinn lagður á almenning, tekinn sem tollur af nauðsynjum fátæklinganna. Í stað þess að taka þetta fé af hinum ríku og nota það til þess að jafna efnahagsafstöðuna í þjóðfélaginu, var ákveðið að taka það eins og aðrar tekjur ríkissjóðs, sem tolla af nauðsynjum fátæklinganna, jafnvel líka þeirra, sem fátækrastyrk verða að þiggja.

Þetta er ágætt dæmi um það, hvernig hæstv. dómsmrh. starfar að þjóðmálum, gott sýnishorn af stjórnmálastarfsemi hans. Hann flytur á Alþingi gott mál og fær nafn sitt tengt við hugmyndina. Flokkur hans sjálfs hjálpar síðan andstæðingunum til að sníða af frv. meginkostina, og þannig nær það loks fram að ganga. Þetta lætur hæstv. dómsmrh. sér vel lynda. Hann skoðar það ekki sitt hlutverk að koma fram góðum málum, heldur að kókettera svo við þau, að flokkurinn geti notað hann sem agn handa kjósendum. Flest umbótamál hæstv. dóms.málaráðh. hafa farið á þessa lund. Sjálfsagt heldur Framsóknarflokkurinn því áfram lengi enn að nota hæstv. ráðh. á þennan hátt, og Íhaldsflokkurinn að stækka hann í augum landsmanna með hóflausum og vitlausum árásum, eins og nú síðast með geðveikismálinu svonefnda.

Ég skal nefna eitt mál enn, sem ýmsir hafa minnzt á og sýnir vel, hversu hæstv. ráðh. rækir hlutverk sitt. Áfengisverzlunin hefir á síðasta ári skilað í ríkissjóð í hreinan ágóða um 1 milj. kr., og er það mikið fé. En fyrir hverja krónu, sem þessi verzlun græðir, borga landsmenn margar krónur út úr landinu. Í skjóli þessarar verzlunar flýtur einnig annað áfengi í stríðum straumum um landið, og það er ómögulegt að hafa hemil á því, meðan ríkið verzlar sjálft með Spánarvín. Er þó ótalið það, sem mest er um vert, en það eru hinar ægilegu afleiðingar drykkjuskaparins, mannskemmdir og gæfuspjöll. Áður en hæstv. dómsmálaráðh. komst í þá stöðu, var hann einn ötulasti maðurinn í bindindis- og bannhreyfingunni, og enn er nafn hans í hugum margra tengt við þessi mál og störf í þeirra þágu. En rétt eftir að hann settist í ráðherrastólinn skrifaði hann í Tímann leiðarvísi til manna um það, hvernig þeir ættu að drekka. Grein þessi var ágætlega skrifuð og eindregin hvöt til allra þeirra, sem vilja koma vel fram í mannfagnaði, vera samkvæmishæfir, um að neyta ótæpt spánarvínanna, drekka þau eins og te eða kaffi. Þótt sleppt sé öllu gamni um „kaffibolladrykkju“, sem margir hafa minnzt á, þá er það enginn vafi, að grein þessi varð einskonar útbreiðsluritgerð fyrir drykkjuskap, og hún hefir orðið til að auka mikið drykkjuskap í landinu. Er nú svo komið í mörgum héruðum, að mönnum stendur beinlínis stuggur af áfengisnautn og óreglu. Þekki ég þess dæmi úr mínu kjördæmi, að ungir menn, sem á skömmum tíma fengu yfir 2.000 kr. hlut við fiskiveiðar, eyddu miklum hluta af þessum peningum beinlínis til áfengiskaupa, en afgangurinn fór í sektir vegna óspekta, er þeir gerðu í ölæði. Ég játa, að þetta er ekki hæstv. ráðh. einum að kenna, en þó á hann hér töluverða sök á. Hann verður að minnast þess, að margir leggja töluvert mikið upp úr orðum hans, og því hefir drykkjuskaparhvöt hans borið ekki lítinn árangur. Hann verður að muna, að ýmsir leggja meira upp úr ritum hans en skrifum Morgunblaðsmannanna um sama efni. Er þetta vegna fortíðar hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. krafðist þess meðan hann var óbreyttur þm. og Íhaldið fór með völd, að leitað yrði nýrra samninga við Spán. Ég undrast það mjög, eftir því sem hæstv. ráðh. talaði, meðan hann var óbreyttur þm., að hann skuli ekkert hafa gert í þessu máli eftir að hann varð ráðh. Hvers vegna hefir hann ekki gert það? Er honum snúinn hugur? Eða fylgdi ekki hugur máli áður? Til dæmis um það, hvernig ástandið er orðið sumstaðar, skal ég geta þess, að í mínu kjördæmi hafa ýmsir haft við orð að taka áfengissendingar, þegar þær koma, henda þeim beina leið í sjóinn, og láta svo skeika að sköpuðu um refsingarnar.

Því verður ekki neitað; að þegar hæstv. stj. tók við, var eftirlitið með framkvæmd áfengislaganna skerpt töluvert í bili, en ég er hræddur um, að það sé nú tekið mjög að dofna aftur. Það er núna ekkert óvenjulegt, að sjá marga drukkna menn í einu á opinberum stöðum, án þess að nokkrum detti í hug að stugga við þeim.

Þá vil ég segja nokkur orð til hæstv. forsrh. út af alþýðutryggingunum. Hæstv. stj. hefir látið svo sem hún sæi vel, hversu ótrygg er afkoma alþýðu manna undir núv. skipulagi atvinnufyrirtækjanna. Í öllum löndum hefir verið reynt að bæta nokkuð úr þessu með ýmiskonar alþýðutryggingum. Hér er hinsvegar aðeins komin upp ein tegund trygginga, slysatryggingin, og vantar þó mikið á, að hún sé svo víðtæk og bætur svo háar sem skyldi. Þær ellitryggingar, sem kallað er að séu til hér, eru ekkert annað en smánarlegt kák. Á Alþingi 1928 var samþ. þáltill. um að skora á ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta þing, 1929, frv. um almennar ellitryggingar. Ekkert frv. um þetta efni kom frá stj. á Alþingi 1929. Þá var borin fram till. um að skipa n. til að undirbúa löggjöf um alþýðutryggingar, er tæki til sjúkra-, elli-, slysa-, örorku-, mæðra-, framfærslu- og atvinnuleysistrygginga. Till. náði að vísu ekki að verða afgr., en var vel tekið af hæstv. landsstj. og hv. d. Ég má segja, að hæstv. forsrh. hafi þá lofað, að láta a. m. k. frv. um fullkomnar ellitryggingar koma fyrir þetta þing. Nú er komið á 11. viku Alþingis, og er enn ekki farið að bóla á frv. Ég fæ ekki neitað því, að mér finnst býsna mikils tómlætis kenna hjá hæstv. stj. í þessu mikilsverða þjóðþrifamáli: Á Alþingi í fyrra flutti hæstv. stj. frv. um búfjártryggingar, og gekk það fram með miklum meiri hl. Var það óneitanlega nauðsynjamál að koma upp tryggingum á búpeningseign landsmanna. En hversu miklu nauðsynlegra er það þó ekki öllum almenningi að tryggja hið eina verðmæti, sem hann á, heilsuna og starfsþrekið? Ég verð að víta tómlæti hæstv. forsrh. í þessu máli.

Þá er enn eitt atriði, sem mig langar til að minnast á. Hér á Alþingi hafa nú verið fluttar till. um að taka upp einkasölur á tóbaki og steinolíu. Þessi tvö mál voru með helztu áhugamálum Tímans og Framsóknarflokksins, áður en þeir góðu menn komust til valda. Ég minnist þess að hafa á þeim árum lesið í Tímanum margar harðar ádeilugreinar á Íhaldsflokkinn, fyrir að afnema þessar einkasölur. Nú er þessi ádeila farin að snúast harðlega á núv. hæstv. stj. sjálfa. Ummælin, sem hæstv. forsrh. hafði meðan hann var ritstjóri Tímans um íhaldsráðherrana, eiga nú svo ágætlega við hann sjálfan, að það er engu líkara en þau væru um hann skrifuð. Í fyrra var því borið við af hæstv. stj. um einkasöluna á tóbaki, að málið væri til athugunar hjá mþn. í skattamálum, og þess vegna mátti ekki samþ. frv. þá. Þetta vissi þó hæstv. stj. að var alrangt. Magnús Kristjánsson hafði tilkynnt n., að hann ætlaði að flytja frv. um tóbakseinkasölu. Nú í nóvember afgreiddi meiri hl. þessarar n. frv. til 1. um einkasölu á tóbaki til hæstv. fjmrh., og fékk það svar loks, er mjög var liðið á þing, að stj. mundi ekki flytja frv., því höfum við, ég og hv. 1. þm. N.-M., sem báðir erum í skattamálan., flutt frv. hér á Alþingi. En enn er afstaða hæstv. stj. til þessa máls með öllu óþekkt.

Um olíuna er það að segja, að í fyrra var flutt till. um að skora á ríkisstj. að nota heimild þá, sem hún hefir í lögum, til að taka upp ríkiseinkasölu á steinolíu. Þá lét hæstv. forsrh. þau orð falla, að hann vildi hafa einkasölu heimildina eins og reitt sverð yfir höfðum steinolíufélaganna, sem, ef svo má að orði komast, hafa „þríokun“ á allri olíuverzlun landsins. Hæstv. ráðh. sagðist þá ætla að láta fram fara rannsókn á verðlagi á olíu hér og í nálægum löndum. Engin slík rannsókn hefir farið fram, svo að mér sé kunnugt. (Forsrh.: En mér er kunnugt um það!). Almenningur hefir a. m. k. ekkert fengið af þeirri rannsókn að frétta, en þó veit ég ekki, hvern hún varðar meira en einmitt almenning, sem olíuna notar. Hann getur þá dæmt um, hvort ástæða sé til að nota heimildina eða ekki.

Til þess að tefja ekki tímann, skal ég annars ekki fjölyrða um þessi atriði nú. Ég get um þau vísað til þess, sem ég sagði um þau í fyrra. Það á allt við enn. Ekki er kyn þótt áhugamálin gangi fljótt til þurðar hjá hæstv. stj., þegar hún snýr svona greinilega bakinu við þessum málum, sem voru aðaláhugamálin fyrir síðustu kosningar.

Þá vil ég minnast á launamálið. Hér hafa nú verið samþ. í hv. d. duldar launabætur til nokkurra embættismanna, t. d. til vitamálastjóra, landssímastjóra o. fl. Þessir menn hafa fengið uppbætur og eru þó í hæstu launaflokkum. En allur þorri embættis- og. sýslunarmanna situr við óbreytt sultarlaun, þrátt fyrir margítrekuð loforð um endurskoðun launalaganna. Stj. hefir brotið öll loforð um að gera till. um lagfæringar á launal. Laun presta, barna- og alþýðukennara, símafólks, póstmanna o. fl. o. fl. eru þó úr öllu hófi lág, svo að lagfæringin þolir enga bið. Ég veit, að hæstv. stj. mun reyna að afsaka sig með því, að endurskoðun launalaganna verði að bíða eftir úrlausn gengismálsins. En þetta er fjarstæða. Gengisbreytingin er ekki nema örlítill hluti af verðlagsbreytingunni.

Sé miðað við 1914, er verðlagsbreyt. 120%. Vísitalan er nú 220 á móti 100 1914. Af þessu er ekki nema 20%, sem stafar af lækkun gjaldeyrisins. Það er verðfall peninganna almennt gagnvart vörum, sem mestu veldur hér um. Ég álít því, að hæstv. stj. sé í lófa lagið að láta endurskoða launalögin, án minnsta tillits til lausnar gengismálsins, enda væri hægt að setja ákvæði í sjálf launalögin þar að lútandi ef þurfa þætti, t. d. miða við gullgengi.

Hæstv. stj. er sparnaðarstj., að því er hún sjálf og hv. flokksmenn hennar segja. En ýmsir líta öðrum augum á það mál. Hv. 2. þm. Reykv. benti á fasteignarkaup, sem hæstv. stj., hefir gert. Hún hefir sem sé keypt lóð undir hina fyrirhuguðu símstöð af Scheving Thorsteinsson lyfsala, 150 kr. hvern fermetra, eða alls um 120 þús. kr. Þetta er mjög illa ráðið, enda alger óþarfi af hæstv. stj. að kaupa yfirleitt nokkra lóð. Það var vel hægt að reisa símstöðina á einhverri af lóðum þeim, sem ríkið á. En látum svo vera, að hæstv. stj. hafi endilega viljað kaupa þessa lóð. Henni hefir samt yfirsézt. Ég býst við að ein ástæða hæstv. stj. til að kaupa lóðina sé sú, að opinberar byggingar muni fara vel við þessa hlið Austurvallar. Mér er ekki grunlaust um, að a. m. k. sumir í hæstv. stj. hafi þá hugmynd að reisa fleiri opinberar byggingar við Thorvaldsensstræti. En þá var líka alveg sjálfsagt að taka eignarnámi nú þegar hinar aðrar lóðir við Thorvaldsensstræti. Við það, að símstöðin er reist þarna, hljóta hornlóðirnar báðumegin að hækka í verði og verða ennþá dýrari þegar þær eru teknar.

Ég veit að vísu, að lóðaspekulationir hér í Reykjavík eru orðnar gegndarlausar, en ég verð samt að segja, að mér virðast lóðakaup hæstv. stj. vera alveg sérstaklega athugunarverð ráðstöfun. Hæstv. stj. hefir mjög rækilega ýtt undir lóðaspekulationirnar með þessu tiltæki sínu. Lóðirnar milli Austurvallar og Austurstrætis, sem eru einna bezt fallnar til verzlunarrekstrar af öllum lóðum í bænum, hafa verið seldar nýlega á 230 kr. pr. m.2, eða um 80 kr. dýrari pr. m.2 en stj. hefir keypt þessa lóð. Ég get skotið því inn í, í þessu sambandi, að lóðirnar einar hér í Reykjavík eru metnar til verðs hér um bil jafnt og allar bújarðir á öllu landinu, eða nálægt 25 millj. kr.

Ég vil enn gera annan samanburð, sem er býsna fróðlegur fyrir hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. er jafnframt þm. Strandasýslu. Í 4 af 6 hreppum þeirrar sýslu er mat allra fasteigna, lóða húsa og umbóta síðustu 10 ára, miklu minna en lóðarskikinn við Austurvöll hefir kostað. Í Kaldrananeshreppi er fasteignamat 115.400 kr., í Kirkjubólshreppi 91.500 kr., í Fellshreppi 69.300 kr., fast að helmingi minna en lóðin undir símstöðina kostar, og í Óspakseyrarhreppi 49.800 kr., eða meira en helmingi minna en hæstv. ráðh. hefir borgað fyrir lóð undir eitt hús í Reykjavík. Ég tek þetta dæmi til þess að benda hæstv. ráðh. á, hversu gífurlega dýru verði hann hefir keypt þessa lóð, og með því beinlínis ýtt undir lóðabrask. Ég bendi á þetta til þess að sýna hæstv. stj., hversu gífurleg verðhækkunin verður, þar sem einstaklingum er leyft að braska með lönd og lóðir. — Sama sagan gerist annarstaðar þótt í smærri stíl sé.

Ég hefi mikla tilhneigingu til að ræða um skattamál við hæstv. stj., en ég verð að draga töluvert mikið úr því, sem ég vildi segja þar um. Þó get ég ekki neitað mér um að minna hv. d. á, að í skattamálunum, eins og í öðrum málum, kemur ljóslega fram stefnuleysi hæstv. ríkisstj. Alþýðuflokkurinn fylgir ákveðinni stefnu í skattamálum, Íhaldsflokkurinn líka. En hæstv. stj. virðist helzt ætla sér að synda einhversstaðar á milli þeirra. Á fyrsta þinginu eftir að stj. tók við völdum, féllst hún á að lækka tolla á kaffi og sykri, og jafnframt tók hún á móti heimild til að innheimta tekju og eignarskatt með 25% viðauka. Hæstv. forsrh., sem líka var fjármrh., lét ógert að nota heimildina, og hefir það af öllum verið tengt við samninga um sjómannakaup, sem fram fóru í fyrra. Ég hefi alltaf verið á móti þeirri ráðstöfun. Og í ár fetar fjármrh. í fótspor fyrirrennara síns. Hann ætlar ekki heldur að nota þessa heimild. Síðastliðið ár hefði viðaukinn numið 400 þús. kr. Ég minnist þess, að hv. 2. þm. G.-K. flutti lofræðustúf til hæstv. stj. í tilefni af þessu, og mig undrar það ekki. Ýmsum hv. þm. hefir orðið tíðrætt um bitlingaaustur stj. til einstakra manna, og því verður ekki neitað, að með þeirri ráðstöfun að gefa eftir 25% skattaukann, hefir stj. gefið ýmsum mönnum stóra bitlinga. Ég hefi leyft mér að taka upp úr skattskrám fyrir 1929 nöfn nokkurra manna, sem hafa fengið hlut af þessum 400 þús. kr. Félagið Alliance fékk lækkun á skatti, sem nam tæpum 6.000 kr.; hv. 3. þm. Reykv. fékk ívilnun, sem nam 1.500 kr.; félagið Kveldúlfur fékk 3.000 kr. ívilnun; hv. 2. þm. G.-K. tæplega 1.000 kr. ívilnun, og hv. 3. landsk. 557 kr. ívilnun. Er nú ástæða til að ætla, að þessum mönnum og félögum veitist erfiðara að greiða þessa upphæð en öllum almenningi að greiða tolla af nauðsynjavörum? Ég segi nei! Hagur þessara manna er nákvæmlega sá sami, hvort þeir borga 1.000 kr. meira eða minna í skatt, en hagur almennings versnar stórkostlega við að borga tolla af nauðsynjavörum. Nei, stefna hæstv. stj. virðist nú vera farin að ganga í þá átt, að taka frá þeim, sem ekkert eiga, og gefa hinum, sem eiga mikið.

Enn vil ég minnast á eitt mál. Hugsar hæstv. stj. sér að láta þetta kjörtímabil líða svo, að ekkert verði gert til að leiðrétta það ranglæti, sem kemur fram í kjördæmaskiptingunni? Stj. ætti að vera það metnaðarmál að lagfæra kjördæmaskipunina, þar sem það er öllum vitanlegt, að hún og hennar flokkur er sterkari á þingi en vera ætti, þegar tekið er tillit til þess kjósendafjölda, sem hún hefir að haki sér. Hæstv. stj. þykist fylgja lýðræði. En það er brot á lýðræði, ef atkv. eins manns gildir meira á einum stað en öðrum. Það ætti að vera stj. metnaðarmál, þar sem hún nýtur góðs af ranglætinu, að reyna að bæta úr því, svo að ekki sé ástæða til að segja, að hún ætli sér að lafa á ranglæti og því að þverbrjóta anda lýðræðisins.

Þá vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort hún hugsar sér að láta bankaeftirlitsmanninn, sem nú er, Jakob Möller, sitja áfram í því sæti? Hann hefir gegnt embættinu í nokkur ár, og á allt annan veg en ég tel, að skylda hans hafi verið. Árið 1926 metur hann hag Íslandsbanka og gefur yfirlýsingar um, að bankinn eigi helminginn af hlutafénu óeytt. Nú hefir það hvað eftir annað verið fullyrt af formælendum bankans, að bankinn hafi ekki orðið fyrir verulegum töpum síðan, heldur bætt hag sinn. Samt er mat bankaeftirlitsmannsins 31. jan. þ á. á þá leið, að a. m. k. allt hlutaféð sé tapað. Svo kemur endurmat á bankanum nokkrum dögum síðar, á þá leið, að bankinn hafi tapað 3½ milljón meira en mat bankaeftirlitsmannsins þ. 31. jan. '30 sagði. Og ekkert orð heyrist frá bankaeftirlitsmanninum um vandræði Íslandsbanka fyrr en búið er að loka honum. Stórfelld afglöp hafa verið framin við útbú bankans á Seyðisfirði, en eftirlitsmaðurinn hefir enga hugmynd um það. Hann metur útbúið þar 1926 í sambandi við heildarmatið á bankanum. Það verður ekki séð, að hann hafi talið skyldu sína að fylgjast með því, sem þar var að gerast, þótt hann hljóti að hafa vitað, að bankinn myndi tapa stórfé á bróður útbússtjórans, og að skuld hans fór stöðugt hækkandi. Allt þetta bendir til þess, að annaðhvort sé maðurinn ekki starfi sínu vaxinn, eða hann hafi vanrækt það stórkostlega. Ætlar stjórnin að láta hann sitja framvegis?

Ég get ekki látið hjá líða að minna hæstv. stj. á það mál, sem tekið hefir næstan tíma hér í þinginu, en það er Íslandsbankamálið. Ég játa, að sú úrlausn, sem á því fékkst og hæstv. stj. studdi að, er nokkru viðunanlegri en sú, sem Íhaldsflokkurinn krafðist í byrjun þingsins. Ég álít samt, að hæstv. stj. hafi í þessu máli gengið fullu feti lengra til hins verra vegar en sæmilegt megi teljast. Þegar á leið, snérist megindeilan um það, hver ætti að taka við töpum bankans. Íhaldsmenn vildu koma þeim öllum á ríkissjóðinn, en við jafnaðarmenn vildum, að ríkissjóður tæki ekki á sig önnur töp en þau, sem óhjákvæmilega hlutu að lenda á honum og Landsbankanum sem lánardrottnum bankans, og lögðum til, að komið yrði á stofn nú þegar sérstakri lánsstofnun í stað Íslandsbanka. Ég hélt lengi vel, að hæstv. stj. væri á okkar bandi, en endirinn varð, að töpunum var jafnað niður á ríkissjóð og nokkra lánardrottna bankans í hlutfallinu 2 á móti 1. ríkissjóður tók á sig 2/3.Ég tel, að á þessu hafi engin þörf verið, og að stjórnin hafi með þessu litið meira á hag einstakra manna en þjóðarheildarinnar.

Hæstv. stj. hefir hlotið ámæli nokkurt fyrir embættaveitingar sínar og beina- og bitlingaaustur til einstakra manna. Margt af þeim ámælum álít ég hreinustu hótfyndni, en sumt hefir við rök að styðjast. Ég vil því bæta dálitlu við upptalningu hv. þm. Borgf. Ég man ekki betur, en hæstv. stj. hafi falið hv. 3. landsk. að framkvæma undirbúningsrannsókn að stofnun síldarverksmiðju á Siglufirði. Það kom í ljós, að rannsókninni lokinni, að rekstraráætluninni skeikaði um 100%, vegna einfaldrar reikningsskekkju hv. 3. landsk. Þetta var nokkuð óheppilegt, eins og menn sjá. En hv. 3. landsk. mun hafa fengið á 3. þús. kr. fyrir þessa rammvitlausu útreikninga sína.

Haustið 1928 sýndi hæstv. stj. hv. 1. þm. Skagf. til Akureyrar. Hann átti að ná samkomulagi við eiganda Uffe um skaðabótakröfu fyrir einhver samningsspjöll. Það mál var þannig vaxið, að hv. 1. þm. Skagf. bar bein skylda til að gera þetta, og það fyrir alls ekkert. Þeir samningar, sem hann sem atvinnumrh. gerði við eigendur skipsins, voru alveg óverjandi. En þessi för hans kosaði hátt á 2. þús. kr.

Ég drap á það áðan, að ég teldi, að margt af því, sem fundið væri hæstv. stj. til foráttu, væri ekki á rökum reist. En ég verð að segja, að svör hæstv. forsrh. hafa verið með mjög undarlegum hætti. Þegar rætt hefir verið um umframgreiðslur stj., eru svör hæstv. ráðh. til hv. 1. þm. Skagf. o. fl. á þessa leið: Þér ferst flekkur að gelta. Slíkt svar er kannske hæfilegt handa hv. 1. þm. Skagf., en það er ekki sæmilegt gagnvart hv. d. í heild sinni. Umframgreiðslur hæstv. stj. eru jafnvítaverðar, þótt hv. 1. þm. Skagf. hafi greitt ennþá meira umfram fjárl. Hæstv. ráðh. má ekki flýja í það skálkaskjól að telja allt gott eða sæmilegt, sem ekki er jafnbölvað eða verra en hjá fyrirrennurum hans, íhaldsráðherrunum.

Hv. þm. Borgf. flutti langt mál um bein og bitlinga hæstv. stj. Hann kom víða við, og ég heyrði margs getið, sem ég vissi ekki um áður. Af ræðu hv. þm. mátti ætla, að honum væri sérstaklega hugað um, að vel og sparlega væri haldið á fé ríkissjóðs. Hann virðist telja það rangt og vítavert, þegar mönnum eru fengin í hendur erfið og vandasöm störf, og greidd fyrir það laun úr ríkissjóði, án þess nokkur trygging sé fyrir því, að störfin verði leyst sæmilega af hendi. Ég felst alveg á þetta. En mér þykir undarlegt, hversu seint hv. þm. upp lýkur sinni röddu.

Hann hefir þó sannarlega haft ærið tilefni til umkvörtunar áður, í tíð fyrrv. stj. Hún hrúgaði hálaunuðum og umfangsmiklum aukastörfum á fjölmarga hæstlaunuðu embættismenn sína, einmitt þá menn, sem bezt eru launaðir allra íslenzkra embættismanna og hafa þeim embættisstörfum að gegna, að þau hljóta að taka alla starfskrafta þeirra, ef þau eru rækt eins og vera ber. Ef þessir menn hafa rækt aukastörfin samvizkusamlega, hljóta þeir að hafa tekið tíma frá embættisstörfunum, en hafi þeir rækt embættisstörfin eins og vera ber, hafa þeir hlotið að vanrækja aukastörfin. Hvorttveggja er jafnskaðlegt og siðspillandi. Á embættismenn í vandasömustu trúnaðarstöðunum með um 10 þús. kr. embættislaunum hefir verið hlaðið þýðingarmiklum aukastörfum og þeim greitt fyrir þau stundum meira en öll embættislaunin námu. Þetta eru bitlingar. Já, sem ekki hefir verið unnið fyrir. Og ég efa eigi, að með þessu hefir íhaldsstj. haft það í huga að tryggja sér fylgi þessara áhrifamiklu manna.

Ég hefi til fróðleiks gert lauslegt yfirlit yfir föst laun og aukatekjur 10 af hæst launuðu embættis- og sýslunarmönnum ríkisins árin 1925–1927. Það sýnir sig, að bitlingar þessara 10 manna hafa numið yfir 260 þús. kr. þessi 3 ár, eða nokkru meira en öll hin föstu laun þeirra samanlögð. Og þetta eru einmitt hæst launuðu embættismennirnir. En allur þorri embættis- og starfsmanna ríkisins dregur fram lífið á sultarlaunum.

Skal ég svo víkja að upptalningunni. Einn af prófessorunum við Háskóla Íslands er meðal þessara manna. Prófessorar eru með allra hæstlaunuðu embættismönnum ríkisins. Þeim er ætlað mikið starf og vandasamt, og laun þeirra voru upphaflega miðuð við, að þeir beittu til þess öllum kröftum og allri orku sinni, er þyrftu ekki líka að leita snapa annarsstaðar.

Ég ætla þá að lesa upp greiðslur til hans af opinberu fé árin 1925—27.

1925:

Aukavinna í stjórnarráði

kr.

421,00

Lagafrv. fyrir sama

—

356,00

Laun í sambandslaganefnd

—

500,00

Setu- og varadómarastörf

—

1.154,40

Skattstjóralaun

—

3.560,00

Prófessorslaun

—

9.500,00

Skjalaheimt

—

500,00

15.991,40

Ferðakostnaður í sambandslaganefnd

Kr.—

3.500,00 3.500,00 19.491,40

Af þessum 19.491,40 kr. eru aðeins 9.500 kr. em-

bættislaun. Hitt allt er fyrir aukastörf, sem á hann

hefir verið hlaðið. Reikningurinn verður mjög

svipaður tvö næstu árin, eða

1926:.

Aukavinna í stjórnarráði

kr.

2.575,00

Málfærsla

—

66,93

Laun í sambandslaganefnd

—

500,00

Setu- og vardómarastörf

—

803,16

Skattstjóralaun

—

4.183,25

Prófessorslaun

—

9.030

Lög Íslands

—

2.000,00

18.658,34

1927:

Aukavinna í stjórnarráði

—

150,00

Lagafrv. fyrir stj.

—

1400,00

Sambandslagan. (laun og ferðakostnaður 500 +2000)

—

2.500,00

Setu- og varadómarastörf

—

115,20

Skattstjóralaun

—

3.600,00

Prófessorslaun

—

7.980,00

Lög Íslands

—

2.000,00

—

17.745,20

Auk þess laun í matsnefnd Landsb. kr.

6.000,00 6.000,00

23.745,20

Samtaldar greiðslur af ríkisfé á 3 árum

kr. 61.894,94

Skattstofan leigði í húsi hans, og eru það það þægindi. Auk þess hefir sami maður verið formaður niðurjöfnunarnefndar Reykjavíkur öll árin og fengið fyrir það hér um bil 7 þús. kr. þessi ár. Ég held, að hv. þm. Borgf. hefði orðið fjölrætt um þetta, ef það hefði verið greitt af annari stj. en þeirri, sem hann studdi. Þess þarf varla að geta, að þessi háskólakennari er sanntrúaður íhaldsmaður. Annað veglegasta embætti á landinu verður að telja stöðu skrifstofustjóra í stjórnarráðinu. Launin eiga að miðast við það, að sá maður, sem í því situr, geti lifað sómasamlega af þeim án hjáverka. Þó sést, að einn þeirra hefir haft aukavinnu í sömu stjórnardeild og hann stýrir og vinnur í sitt aðalstarf. En hjáverkin eru þó miklu fleiri. Greiðslur til hans hafa numið árið.

1925:

Laun

kr.

9.500,00

Aukavinna í stjórnarráðinu

—

2.100,00

Áfengisverzlun, endurskoðun

—

2.400,00

Kirkjujarðarsjóður, reikningshald

—

3.000,00

Landhelgissjóður, reikningshald

—

4.000,00

—

21.000,00

1926:

Laun

kr.

9.030,00

Aukavinna í stjórnarráði

—

2.100,00

Áfengisverzlun

—

2.400,00

Kirkjujarðarsjóður

—

3.000,00

Landhelgissjóður

—

4.000,00

— — — 20.530,00

1927:

Laun

kr.

7.980,00

Aukavinna í stjórnarráðinu

—

2.100,00

Áfengisverzlun

—

2.100,00

Kirkjujarðasjóður

—

3.000,00

Landhelgissjóður

—

4.000,00

— — 19.480,00

Samtals á 3 árum. 1925–27

kr .

— — 61.010,00

Föstu launin eru ekki svipað því helmingurinn af þessari upphæð. Aukastörfin gefa 345.000 kr. eða kr. 11.500 Bæjarfógetaembættið í Reykjavík var vissulega eitt af allra þýðingarmestu embættum. Greiðslur til bæjarfógetans voru þessar:

1925:

Embættislaun kr. 9.500,00

Ýmsar embættistekjur — 5.564,46

Innheimtulaun stimpilgjalds — 985,96

Laun í sambandslaganefnd — 500,00

Þingmannskaup — 2.114,64

—18.765,00

Ferðakostnaður í sambandslaganefnd kr. 4.265,00 4.265,00

— 22.930,06

1926 :

Embættislaun kr. 9.300,00

Ýmsar embættistekjur (áætl. Þar í innheimtulaun stimpilgjalds) — 6.000,00

Laun í sambandslaganefnd — 500,00

Þingmannskaup — 1.987,92

— 17.787,92

1927:

Embættislaun — 7.980,00

Ýmsar embættistekjur — 4.830,00

Laun í sambandslaganefnd og ferða-

kostnaður (500+2.380) — 2.880.00

Þingmannskaup — 1.728,00

— — 18.503,50

Samtals kr. 59.221,48

En þó eru ótaldar vaxtatekjurnar.

Næst tek ég lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Tekjur þess voru árið 1925:

Laun kr. 5.600,00

Innheimtulaun stimpilgjalds — 31.086,28

— slysatryggingargjalds — 1.824,18

38.510,46

1926 :

Laun kr. 5.750,00

Innheimtulaun etc. (áætl. ) — 30.000,00

— 35.750,00

1927:

Laun kr. 5.800,00

Innheimtulaun stimpilgjalds — 16.224,87

— slysatryggingargjalds — 2.662,46

— — 2.424.687,33

Samtals kr. 98.947,80

Þó eru ótalin innheimtulaun sóknargjalda og skipagjalda og fleira þessháttar.

Þessi maður hafði engin aukstörf á hendi, en bæjarfógetinn hafði tíma til þess, auk þess að rækja embætti sitt, að sitja á þingi og dvelja erlendis langdvölum sem sambandslaganefndarmaður.

Til dæmis um það, hversu síðasta stj. kepptist við að hlaða aukastörfum á starfsmenn hins opinbera, má nefna einn mann, sem var eftirlitsmaður með skipum. Honum hafa verið greidd á árinu

1926:

Laun kr. 6.000,00

Vélstjóraskólinn (kennslukaup) — 250,00

Varðskip (reikningshald 1/2 ár) — 5.000,00

_ __ 11.250,00

Ferðakostnaður — 794,87

(til Kaupmh.) — 1.500,00

Ferðafé (til útlanda) — 5.165,00

— 7.459,88

18.709.88

1927:

Laun fyrir eftirlit — 6.000,00

Vélstjóraskólinn — 400,00

Varðskip (reikningshald ) — 10.000,00

— — 16.400,00

Ferðakostnaður — 1.537,50 1.537,50

— 17.937,50

Samtals í 2 ár kr. 36.647,38

Auk þess fékk sami maður drjúgar tekjur fyrir skipaskoðunina, sem borguð var af eigendum skipanna.

Ég ætla, að sungið hefði í tálknunum á hv. þm. Borgf., ef einhver annar en flokksmaður hans (MG) hefði verið svona ör á bitlingunum.

Þá er það fulltrúi einn í stjórnarráðinu. Það verður að teljast mjög ábyrgðarmikil staða, sem búast mætti við að tæki alla starfskrafta fulltrúans. En launagreiðslur hans sýna, að honum hafa verið falin ófá aukastörf. Einkennilegt er, að hann hefir, eins og reyndar skrifstofustjórinn líka, aukavinnu í sömu stjórnarskrifstofu og hann á að vinna í sitt fulla starf. Hann hafði á hendi endurskoðun hjá Brunabótafélagi Íslands, og mönnum er í minni, hvernig eftirlitið var þar, enda er skiljanlegt, að maðurinn hafi haft æði mikið að gera.

Árið 1925 voru laun hans

kr. 7.298,00

Aukavinna í stjórnarráðinu

— 1.200,00

— hjá lögreglustjóra

— 2.136,00

Endurskoðun hjá Brunabótafélaginu

— 500,00

— slysatryggingar

— 250,00

— ríkissjóðsskipa

— 1.200,00

— Eimskipafélags

— 1.200,00

Fiskiveiðasjóður (reikningshald)

— 1.200,00

Bjargráðasjóður (reikningshald)

— 400,00

Setudómarastörf

— 400,00

15.784,00

Árið 1926:

Laun

— 6.860,00

Aukavinna í stjórnarráði

— 1.200,00

— hjá lögreglustjóra

— 2.008,00

Stjórnarlaun í Búnaðarfél. Íslands

— 500,00

Endurskoðun Brunabótafél. Íslands

— 500,00

— slysatryggingar

— 350,00

— ríkissjóðsskipa

— 1.200,00

— Eimskipafélags

— 1.200,00

Fiskiveiðasjóður

— 1.200,00

Bjargráðasjóður

— 400,00

15.418,00

Árið 1927 varð hann skrifstofustjóri, þá hækka launin upp í.

— 8.504,42

Aukavinna í stjórnarráði

— 1.200,00

— hjá lögreglustjóra

— 1.728,00

Stjórnarlaun í Búnaðarfél. Íslands

— 416,67

— slysatryggingar

— 1.500,00

Endurskoðun ríkissjóðsskipa

— 1.200,00

— Eimskipafélags

— 1.200,00

Fiskiveiðasjóður

—1.200,00

Bjargráðasjóður

— 400,00

Gæzlustjóri samábyrgðar

— 864,00

Síldarmatsnefnd

— 300,00

Bátaútvegslánsstofnun

— 166,67

Rannsókn á fjárhag á Eyrarbakka

— 300,00

18.979,76

Samtals kr.

50.181,76

Af þessu eru föstu launin aðeins 22.662,00 kr. en launin fyrir aukastörfin um 27.500,00 kr.

Þá má nefna einn starfsmann hins opinbera, bankaeftirlitsmann.

Fjárlög 1931 (3. umr. í Nd.).

Árið 1925 voru embættislaun hans

kr.17.800,00

Þingmannskaup

— 2.114,64

Ferðafé

— 1.239,00

21.153,64

Árið 1926:

Laun

—16.733,00

Þingmannskaup

— 1.987,92

Á Selfossi

— 122,00

Ferðafé

— 2.119,00

—

20.961,92

Árið 1927:

Laun

—14.400,00

Þingmannskaup

— 1.728,00

Ferðafé

— 2.500,00

—

18.628,00

Samtals kr.

60.743,56

Hér er ekki um aukastörf að ræða nema þingmannskaupið. En kunnugir fullyrða og reynsla bendir til, að embættið hafi verið veitt manninum sem eitt meiri háttar „aukastarf“.

Þá mætti nefna einn af smærri launamönnum í þessum hóp, hv. 1. þm. Reykv.

Hann var þá dócent við háskólann. Auk embættisins og þingstarfanna hafði hann tíma til að endurskoða landsreikningana og sýsla við býsna margt fyrir sjálfan sig. Og þrátt fyrir öll þessi umfangs miklu störf hafði hann ennfremur tíma til að sitja í bankanefnd og síðar bankaráði og hirða drjúg laun fyrir.

Árið 1925 voru dócentslaun hans kr.

8.010,00

Þingmannskaup

—

2.114,64

Endurskoðun landsreikninga

—

1.780,00

Laun í bankanefnd

—

4.000,00

—

15.904,64

Árið 1926:

Dócentslaun

—

7.530,00

Þingmannskaup

—

1.987,92

Endurskoðun landsreikninga

—

1.673,33

11.191,25

Árið 1927:

Dócentslaun

—

6.480,00

Þingmannskaup

—

1.728,00

Laun í bankaráði

—

1.106,67

9.314.67

Samtals kr.

36.410,56

Þá er vegamálastjóri.

Árið 1925:

Laun

— 9.500,00

Skipulagsnefnd

— 500,00

Vatnamálanefnd

— 10.00,00

11.000,00

Ferðafé

— 2.811,43

—

— 2.279,30

Fæðispeningar

— 840,00

5.930,73

—

16.930,73

Fjárlög 1931 (3. umr. í Nd.).

Árið 1926:

Laun

—9.030,00

Skipulagsnefnd

—500,00

Vatnamálanefnd

—1.000,00

__ __

10.530,00

Ferðafé

— 4.856.95

Fæðispeningar

— 1.092,00

5.948,95

16.478,95

Árið 1927:

Laun

— 7.980,00

Skipulagsnefnd

— 1.000,00

Vatnamálanefnd

— 1000,00

9.780,00

Ferðafé

— 2.131,45

Fæðispeningar

— 744,00

2.875,45

12.855,45

Samtals kr.

46.265,13

Aukastörf þessa manns virðast svo lítil, að hann er nánast tekinn hér með til samanburðar.

Þá má loks nefna eitthvert allra umfangsmesta starf, sem hér á landi finnst; það er starf aðalpóstmeistara. Það heimtar að sjálfsögðu alla starfskrafta mannsins, enda er það með allra hæst launuðu embættum á landinu. Þó hefir póstmeistari haft tíma til að sitja í gengisnefnd og bankaráði.

Árið 1925 voru embættislaun hans

kr. 9.000,00

Uppbót

— 4.500,00

Laun í gengisnefnd

— 900,00

—

14.400,00

Árið 1926:

Laun

— 9.000,00

Uppbót

— 4.500,00

Laun í gengisnefnd

— 1.000,00

Málskostnaður (tekið með til fróðleiks)

— 495,00

Ferðakostnaður

— 1.780,50

17.575,50

Árið 1927:

Laun

— 12.980,00

Laun í gengisnefnd

— 1.120,00

14.105,00

Samtals kr.

46.080,50

Um bankaráðslaun er mér ókunnugt. Þarna hefi ég talið tíu af þeim embættismönnum þjóðarinnar, sem settir eru í allramestu trúnaðarstöður þjóðfélagsins. Það eru menn í hæsta launaflokki, menn, sem verða að beita allri orku sinni, ef þeir eiga að rækja embættin til hlítar.

Þessum mönnum hefir verið greitt alls á þessum þremur árum 556908,11 kr. Föstu launin nema aðeins um 255 þús. kr. af þessari upphæð, en aukatekjurnar um 260 þús. kr., auk „ferðakostnaðar“ og dagpeninga, um 42 þús. kr. Skal hér gefið yfirlit yfir þessar greiðslur:

Laun

Aukatekjur

Ferðafé

Samtals

kr.

kr

kr..

kr

1

Prófessor

26.510,00+30.384,94+

(3.000+2.000=)5.000,00=61.894,94+7.000

2

Skrifstofustjóri

26.510,00+34.500,00

=61.010,00

3

Bæjarfógeti

26.780,00+27.053,48+

(3.000+2.380=)5.380,00=5.9221,48

4

Lögreglustjóri

17.150,00+81.797,80

=98.947,80

5

Eftirlitsmaður skipa (1926–27)

12.000,00+15.650,00+

8.997,38=36.647,38

6

Fulltrúi, síðan skrifstofustjóri

22.662,42+27.519,34

=50.181,76

7

Bankaeftirlitsmaður

48.933,00+ 5.952,56+

5.858,00=60.0743,56

8.

Prófessor

22.020,00+14.395,56

=36.410,56

9

Vegamálastjóri

26.500,00+ 5.000,00+

14.754,13=46.254,13

10.

Póstmeistari

26.480,00+17.325,00+

1.758,50=45.585,50

Þess má geta, að ferðakostnaður nr. 1. og nr. 3. í sambandslaganefnd er áætlaður hluti af nefndarsetukaupi þeirra, og þykir ekki fært að setja hann hærri en 2000–3000 kr. fyrir eina ferð til Kaupmh.

Ég hefi rætt nokkuð á öðrum stað um þessa háttsemi í launagreiðslum. Ég tel hana afar fordæmanlega. Ef launakjörin eru slík, að það þurfi að bæta laun þessara embættismanna, þá á að hækka föstu launin. Hitt, að hrúga svona á þá aukastörfum, hlýtur að leiða til þess, að þeir vanræki aukastörfin og embættisstörfin líka. Það er augljóst mál, að hversu ágætur maður sem er, hversu mikill starfsmaður og fjölhæfur, þá er það ómögulegt, að hann geti annað svona mörgum tímafrekum störfum. Og það er háskalegt, að embættismenn eigi það undir stj., sem í það og það sinn situr, hvort þeir geta fengið aukatekjur fyrir einhver hjáverk, svo að þeir telji sér og sínum nokkurn veginn borgið. Ef litið er á þessa menn, sést það fljótt, að þeir eru einlit hjörð. Ég held, að hver einasti af þessum tíu mönnum hafi verið íhaldsmaður, flokksmaður fyrrv. stj.

Nú verð ég að víkja að núv. hæstv. stj. Ég hygg, að mikið af þessum ósóma þróist enn undir verndarvæng hennar. Hvort einhverjir af þessum mönnum hafa snúizt og tekið framsóknartrú, skal ég láta ósagt, en enn sem fyrr hygg ég, að mönnum í hæstu launaflokkum sé goldið stórfé fyrir störf, sem þeir ekki geta innt af hendi án þess að vanrækja embættisstörfin. Hv. þm. Borgf. hefði átt að kynna sér þetta.

Til viðbótar hefi ég tekið upp greiðslur til annara 10 manna, sem launaðir voru af opinberu fé, þessi sömu ár. Eru þeir úr allrahæsta launaflokki. Það eru bankastjórar Íslandsbanka og Landsbankans, tveir fyrrv. ráðh., hv. 1. þm. Skagf. og hv. 3. landsk., forstjóri áfengisverzlunarinnar og loks einn læknir, sem er forstjóri 1jóslækningastofunnar. Ég get lesið þennan lista upp fyrir hv. d., sérstaklega til hugarhægðar hv. þm. Borgf., sem hlýtur að vera orðinn leiður á sínum smáu tölum. Þessar eru hressilegri. Þær tala sínu máli.

Efst á blaði er:

Laun

Aukatekjur

Ferðafé

Samtals

kr

kr.

kr.

kr.

1. Bankastjóri Íslandsbanka

120.000,00 +

1.500,00 =

121.500,00

2. Bankastjóri Íslandsbanka

72.000,00 +

8.304,56 =

80.304,56

3. Bankastjóri Íslandsbanka

72.000,00

=

72.000,00

4. Bankastjóri Landsbankans

72.000,00 +

1.300,00 =

73.300,00

5. Bankastjóri Landsbankans

72.000,00 +

10.201,04

+407,00 =

82.608,04

6. Bankastjóri Landsbankans

72.000,00

? =

72.000,00

7. 3. landsk. (ráðh. 22/3 ár)

32.986,64 +

13.047,20 =

46.033,84

8. 1. þm. Skagf. (ráðh. 22/3 ár)

32.986,64 +

14.595,59

+ 1.192,50 =

48.774,73

9. Forstjóri Áfengisverzlunar

56.500,00

=

56.500,00

10. Forstjóri ljóslækningastofu .

60.200,00

=

60.200,00

Sundurliðaðar greiðslur til ráðh. hafa numið:

Jón Þorláksson, núv. hv. 3. landsk.

Árið 1925:

Þingmannskaup

kr.

2.114,64

Ráðherralaun

—

12.500,00

Eimskipafélag

—

500,00

—

15.114,64

Árið 1926:

Þingmannskaup

—

1.987,92

Ráðherralaun

—

12.500,00

Ókeypis húsnæði 3 mán.)

—

?

Risnufé 1/2 ár)

—

2.000,00

Húsaleiga greidd

—

1.050,00

Eimskipafélag

—

500,00

Árið 1927:

—

18.037,92

Þingmannskaup

—

1.728,00

Ráðherralaun (2/3 árs)

—

7.986,64

Risnufé

—

266,64

Eimskipafélag.

—

500,00

12.881,28

Samtals

kr.

46.033,84

Auk þess sat hann í bankaráði Íslandsbanka sem form., og segir Morgunblaðið, að fyrir það starf sé greitt 6.000 kr. á ári.

Magnús Guðmundsson, hv. 1. þm. Skagf.

Árið 1925

Þingmannskaup

kr. 2.114 64

Ráðherralaun

— 12.500,00

Eftirlit emb.

— 437,00

— — — —

15.051,64

Árið 1926:

Þingmannskaup

— 1.987,72

Ráðherralaun

— 1.2500,00

— (hálf í 6 mán.)

— 3.125,00

Eftirlit emb.

— 752,50

— — —

18.396,42

Árið 1927:

Þingmannskaup

— 1.728,00

Ráðherralaun (11/2 emb. 9 mán.)

— 11.979,92

13.707,92

Fyrir ferð til Akureyrar e.s. Uffe

1.645,75

15.353,67

Samtals kr.

48.774,73

Samtals nema launagreiðslur til þessara síðari 10 manna 713.221,17 krónum a. m. k. á þessum þremur árum, eða yfir 710 þús. auk ferðakostnaðar. En hinir fyrrnefndu 10 opinberu starfsmenn hafa fengið um 320 þús. í starfslaun, auk ferðakostnaðar, á sama tíma af opinberu fé. Samanlögð starfslaun þessara 20 manna af opinberu fé í þessi 3 ár hafa því numið liðlega 1 millj. 23 þús. kr. Ýmsir þeirra hafa haft tekjur þar fyrir utan, en það er mér ókunnugt um, enda kemur það þessu máli minna við. Þó hafa þeir að sjálfsögðu orðið að leggja einhverja vinnu fram til þess að afla þeirra tekna. En opinberu greiðslurnar nema 61.500 kr. á mann, þó að ferðakostnaður sé frátalinn, eða 20.500 kr. árlega á mann, eins og auðreiknað er af heildartölunum. Það er því nær helmingi hærra en laun þessara manna eru ákveðin í lögum. Þetta er ekki annað en að auka laun hæst launuðu mannanna í landinu, sem þannig eru hlaðnir viðbótarstörfum, sem þeim er ómögulegt að inna af hendi. Þetta er sú allra hættulegasta bitlingapólitík, beinhákallapólitík, sem hægt er að hugsa sér. Hæstv. núv. stj. segir til, hvort hún heldur þessari háttsemi áfram.

Ég gæti haldið áfram lengi að telja upp greiðslur svipaðar þessum. Sendiherra vor í Kaupmannahöfn hefir fengið yfir 100 þús. kr. fyrir 1½–2 ár og erindreka landsins í Miðjarðarhafslöndunum hafa verið greiddar 104.900 kr. á þremur árum. En ég skal ekki lengja þetta meira að sinni.

Ég tók eftir, að hv. þm. Borgf. drap í ræðu sinni, sem mér annars þótti fróðleg á marga lund, meðal annars á tvær nefndir. Mér er málið skylt, því að ég hefi átt sæti í þeim báðum. Hann sagði, að sparnaðarnefndin eða ríkisgjaldanefndin mundi hafa kostað um 18 þús. kr. Mér er ekki kunnugt um, hver kostnaðurinn hefir orðið. En af því að hann sagði, að eftirtekjan hefði engin orðið, þykir mér rétt að skýra frá, hvað af starfi n. hefir leitt. N. hefir samið og gefið út ítarlega og fróðlega skýrslu um útgjöld þriggja ára úr ríkissjóði. Hafa þær skýrslur leitt í ljós hið gífurlega fjárbruðl og bitlingaaustur fyrrv. stj., t. d. aukatekjur þeirra manna, sem ég hefi talið hér upp. Um þetta var þjóðinni alveg ókunnugt, því að landsreikningurinn leynir meiru en hann segir frá um þessa hluti, eins og hann nú er saminn.

Eftir að þær upplýsingar fengust, hefir verið tekin upp ýmis nýbreytni svo sem það, að ríkið eignaðist sína eigin prentsmiðju, tekin upp sameiginleg innkaup fyrir varðskip ríkisins og spítalana. Nú er farið að reisa hús fyrir opinberar skrifstofur í stað þess að leigja fyrir þær dýrt og óhentugt húsnæði hjá einstökum mönnum o. s. frv.

Það var ómögulegt að taka ákvarðanir um þessa hluti, nema upplýsingar væru fyrir hendi um árlegan kostnað í sambandi við þá, t. d. prentun, húsaleigu, ræstingu, kostnað við varðskipin, kostnað við spítalana o. fl. Í skýrslunni, sem ég drap á áðan, sést, að bæjarfógetinn í Reykjavík hefir haft í innheimtulaun stimpilgjalds margar þúsundir króna ár hvert, lögreglustjórinn hvorki meira né minna en 30 þús. kr. af sama tekjustofni. Ég er viss um að hv. þm. hefir ekki verið kunnugt um, hve stórfelldar tekjur hér var um að ræða, áður en skýrsla ríkisgjaldanefndar kom út. Síðan hefir þessum embættum verið breytt. Ennfremur hafa nefndir þær, sem fjallað hafa um póst- og símamál og kirkjumál, að miklu leyti stuðzt við skýrslur ríkisgjaldanefndar. Og almenningur hefir þar í fyrsta sinn fengið glöggt yfirlit yfir, hvernig fé ríkissjóðs er notað.

Ég get gjarnan skýrt frá því, úr því að farið var að minnast á þetta á annað borð, að ég hefi unnið í ríkisgjaldanefndinni í fjóra mánuði og fengið fyrir það eitthvað í kringum 2.000 kr. Og verð ég að álíta, að ég hafi verið vel að þeim kominn fyrir starf mitt. Annars verð ég að játa það, að það liggur við að ég roðni, þegar ég ber þessa greiðslu til mín saman við ýmsar greiðslur fyrrv. stj. Samanburðurinn gefur í skyn, að ég sé heldur lítill afkastamaður, samanborið við ýmsa gæðinga íhaldsstj., enda fæ ég oft að heyra það, að ég fari seint á fætur.

Þá hefi ég á þessu ári fengið 1.125 kr. fyrir störf á síðasta ári í mþm. í skattamálum, og læt ég hv. þdm. um það að dæma um, hvort ég hefi fyrir því fé unnið eða ekki. Ég hefi nú þegar lagt fyrir þessa hv. d. fimm frv. og till. um skattamál. Hv. 1. þm. Skagf. á nú sæti í þessari n. með mér, nagar sama beinið. Hann hefir áreiðanlega ekki fengið minna en ég á árinu. Ekki heyrði ég hv. þm. Borgf. telja það eftir.

Þessi eru nú þau „bein“, sem ég hefi fengið. Annað þeirra, skattamálanefndin, er frá þinginu. Þessi hv. d. kaus mig í n.

Hv. íhaldsmenn mega teljast, margir hverjir, hreinustu sérfræðingar í bitlingaaustri og beinaáti, en þeir vilja sannarlega hafa kjöt á beinum sínum. Þegar þeir því dylgja með það, að núv. stj. kaupi sér stuðning með bitlingum, sýnir það bara, hvernig þeir hafa notað bitlingana og þegið þá. Slíkur hugsunarháttur, sem þar kemur fram, er vitni þess, að hægt er að kaupa þessa menn sjálfa, enda væri hægt að sýna, að svo er, ef athuguð væri saga íhaldsstj. og flokks hennar. Hér sannast gamla máltækið: Margur heldur mann af sér, eða á dönsku, svo að hv. íhaldsmenn skilji: Tyv tror hver Mand stjæler.

Hv. þm. Vestm. veik að okkur jafnaðarmönnum nokkrum orðum út af Síldareinkasölunni.

Við jafnaðarmenn töldum þá lausn á síldarmálunum ófullkomna, en þó til bóta frá því, sem áður var. Við bentum strax á galla einkasölulaganna, og reynslan hefir sannað mál okkar. T. d. veldur skortur á rekstrarfé því, að sjómenn og útgerðarmenn fá ekki andvirði síldarinnar fyrr en seint og um síðir. Mistökin, sem urðu á rekstri einkasölunnar síðastliðið ár, stöfuðu af því, að stj. hennar notaði ekki heimildina frá síðasta þingi um að taka söltunin í sínar hendur. Af þessu leiddi misræmi milli veiðileyfa og söltunarleyfa, þannig, að sumar stöðvar vantaði tunnur, þótt aðrar hefðu yfrið nóg. Morgunblaðið flutti eilífar rógsögur út af þessum mistökum, og virðist hv. þm. Vestm. byggja á þeim, og hefði hann þó heldur átt að gera Alþýðublaðið að heimild sinni í þessu máli, því að það birti skýrslu framkvæmdastjóra Síldareinkasölunnar um tunnubirgðir og tunnuinnflutning á hverjum tíma.

Hv. 2. þm. G.-K. virtist ætla að gera eldhúsdag að ritstjóra Alþýðublaðsins og skoðanabræðrum hans í þessari hv. d. Mér varð nú að orði, að hann ætlaði að fara að lauga sig í skolpinu af hv. þm. Mýr. Kjass þessara hv. þm. og blíðmæli hvors til annars læt ég þá um, og vel get ég unnað þeim þess báðum að hreinsa sig hvor í annars skólpi. Þar hæfir skel . . . . . .

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að sér kæmi það undarlega fyrir sjónir, að við jafnaðarmenn skyldum ekki bera fram vantraust á stj., úr því að við værum með aðfinnslur við hana.

Þessi hv. þm. hefir drepið á þetta sama áður, og ég þá svarað honum, svo að ég þarf ekki að gera það nú. Aðeins get ég endurtekið það, að það er ekki vegna okkar jafnaðarmanna, sem framsóknarstj. situr, heldur vegna synda íhaldsmanna og þar með synda hv. 2. þm. G.-K., eins og ég skal sýna með nokkrum dæmum.

Hv. 2. þm. G.-K. mun mega teljast með hinum áhrifamestu mönnum í flokki sínum. Þegar hér á Alþingi var borið fram frv. um að lögvernda heilsu sjómannanna á togurum, var engin hatrammari á móti því en einmitt hv. 2. þm. G.-K. og hefði hann þó átt að vera fylgjandi þessu frv., þar sem það tryggði heilsu og starfsorku þeirra manna, sem þessi hv. þm. á allan sinn gróða undir. Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram, að Íhaldið snérist óskipt á sveif með hv. 2. þm. G.-K. í þessu máli, en Framsóknarflokkurinn reyndist þá miklu skárri, hann viðurkenndi nauðsynina, sem á því var, að lögfesta 8 stunda hvíld á togurum, og svo lauk, að samþ. var að lögfesta 8 tíma hvíldartíma á togurunum, þrátt fyrir megna andstöðu hv. 2. þm. G.-K. og flokksbræðra hans. Sjómenn og verkamenn muna afstöðu hv. 2. þm. G.-K. og flokks hans til þessa máls og óska ekki að auka áhrif slíkra manna á Alþingi.

Dæmi eins og þetta veldur því, að samanburður á Framsóknar- og Íhaldsflokknum verður til þess að prýða Framsóknarflokkinn í augum þjóðarinnar og það jafnvel langtum meira en góðu hófi gegnir, eimitt vegna þess, hve ósvífni íhaldsmanna er áberandi.

Í fyrra lá hér fyrir þinginu frv. til laga um verkamannabústaði, þar sem gert var ráð fyrir 2 kr. framlagi frá ríkinu á hvern íbúa þess bæjar, sem notfærði sér þessi lög, gegn jafnmiklu tillagi frá bæjarsjóði. Á móti þessari tilraun til að hjálpa verkamönnum, sem vinna að því að skapa arð fyrir fyrirtæki hv. 2. þm G.-K., barðist hann með hnúum og hnefum. Og ekki nóg með það, heldur tók hann sér far út um land, til þess að predika það fyrir bændum, að ekki ætti að hjálpa verkamönnunum á mölinni til þess að byggja yfir sig, heldur ætti að einbeina getu ríkissjóðsins til sveitanna. Þannig reyndi hv. 2. þm. G.-K. að afla sér fylgis hjá bændum með þeim ógeðslegustu smjaðurslátum, sem ég minnist að hafa séð eða heyrt. Maðurinn, sem á allt sitt gengi undir verkalýð kaupstaðanna, sem hefir skapað fyrirtæki hans stórfeldan arð með vinnu sinni, hælir sér af því við bændur, að hann vilji engan eyri láta leggja úr ríkissjóði til þess að hjálpa þessu fólki til að losna við húsaleigu og óholl húsakynni, heldur einbeina allri getu ríkissjóðsins til bændanna, sem hann er að tala atkvæði hjá.

Í Íslandsbankamálinu lét stj. þó nægja að flytja 2/3 af tapinu yfir á Útvegsbankann og ríkið, í stað þess sem hv. 2. þm. G.-K. og hans flokksbræður vildu demba allri skuldasúpunni á ríkissjóðinn og það alveg að órannsökuðu máli. (ÓTh: Hvernig fær hv. þm. þetta hlutfall?). Ég hefi svo oft útskýrt það áður, að hv. 2. þm. G.-K. ætti að vera farinn að skilja, en ég get samt gert það í eitt skipti enn. Ég á við það, að framlag ríkisins til Útvegsbankans og Íslandsbanka nemur 4½ millj. kr., móti 2–2½ millj. frá einstökum mönnum.

Það hverfur allt að því sama, sem ég áður sagði, að það eru verknaðrar- vanrækslu- og ásetningssyndir Íhaldsins, sem valda því, að Framsóknarstj. fer með völdin í landinu. Þjóðinni hrýs hugur við því, að fá Íhaldinu aftur völdin í hendur. Það eru ekki jafnaðarmenn, sem valda því, að Framsóknarstj. fer með völd. Það var um tvennt að velja: Íhalds- eða Framsóknarstj. Hvortveggja kosturinn var illur, en af tvennu illu ber fremur að velja hið skárra. Þess vegna er það, að við jafnaðarmenn erum enn hlutlausir gagnvart hæstv. stj. Sjálfir höfum við ekki þann styrk að líkur séu til, að við gætum tekið við völdum þótt nýjar kosningar færu fram. Eftir sem áður yrði um að velja litla Íhaldið eða stóra Íhaldið, og stóra Íhaldið hefir til þessa reynst enn þá verra en það litla.

Ég vil að lokum minna hv. 2. þm. G.-K. á orð Snorra goða við Flosa. Flosi var á undanhaldi, og vildi komast með mönnum sínum til vígis í Almannagjá. Er ekki ósvipað ástatt nú um Íhaldsflokkinn. Hann er á undanhaldi, en vill þó feginn reyna að ná vígi í stjórnarstólunum. En gefum Njálu orðið: “Þeir Flosi höfðu hörfað neðan milli Virkisbúðar ok Hlaðbúðar, en Snorri goði fylkt þar liði sínu svo þykkt, að þeim gekk ekki að fara. Kallaði Snorri þá á Flosa: „Hví farið þér svo geystir eða hverir elta yður?“ Flosi svarar: „Eigi spyrr þú þessa af því, er eigi vitir þú það áður. En hvort veldur þú því, er vér megum eigi sækja til vígis í Almannagjá?“ „Eigi veld ek því“, segir Snorri, „en hitt er satt, at ek veit, hverir valda — ok mun ek segja þér, ef þú vill, að þeir valda því, Þorvaldur kroppinskeggi og Kolur“. Þeir voru þá báðir dauðir ok höfðu verið hin mestu illmenni í liði Flosa“.

Þeir sem valda því, að Íhaldsmenn ná ekki vígi í stjórnarstólunum, eru þeir Þorvaldur kroppinskeggi og Kolur verknaðar- og vanrækslusyndir Íhaldsstj., ásamt minningunni um tilraunir þær, sem flokkurinn síðan hefir gert til þess að koma alþýðunni í fullkomna fjötra atvinnukúgunar og örbirgðar með ríkislögreglu, þrælalögunum og drápsklyfjum nauðsynjatolla.