25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

11. mál, yfirsetukvennalög

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég hefi heyrt fátt nýtt koma fram í þessu máli, enda er þetta fimmta þingið, sem málið er rætt á. Ég hafði því ætlað mér að sitja hjá að þessu sinni. En eitt gleður mig þó, og það er, að undir öllum umr. um þetta mál skuli ekki hafa fallið niðrandi orð um ljósmæðurnar eða starfsemi þeirra, fyrr en hjá hv. þm. Ak., því að slíkt hefir komið fyrir á undanförnum þingum. Hér hefir aðeins verið deilt um réttmæti launakrafnanna. „Verður er verkamaðurinn launanna“, stendur þar, og því er ég fyllilega samþykk. En ef verið er að berjast fyrir bættum kjörum verkamanna, þá skýtur skökku við hjá hv. þm. Ak. með undirtektir hans í þessu máli. Hann segir, að ekki sé þörf á lærðum ljósmæðrum. Ég hafði ekki búizt við slíkri firru hér á þingi, og einna sízt frá hv. þm. Ak. (EF: Hann getur nú verið skrítinn líka). Ég hélt, að hann vildi ræða málið með alvöru. Kona, sem fæðir barn, á heimtingu á lærðri ljósmóður og lækni, ef þörf er á. Þetta veit ég, að hver hv. þm. tekur undir, nema hv. þm. Ak. Ég veit ekki til þess, að fyrir 20 árum hafi ekki verið farið út af bæ, þó að kona ætti barn — eða sagði hv. þm. Ak. það ekki? (EF: Eitthvað nálægt því). Ég mótmæli þessu, því að sem betur fer er lengra síðan þetta þótti sæmilegt. Hvers vegna heldur ríkið uppi ljósmæðraskóla, sem stendur undir umsjón landlæknis, ef ljósmæður eru ekki taldar nauðsynlegar? Ljósmæður hafa fengið námstíma sinn lengdan og vilja fá hann lengdan enn, og þær þurfa þess.

Ljósmæður í fámennum umdæmum gætu ef til vill sinnt hjúkrun að einhverju leyti, þótt ég álíti, að ekki eigi að fara að blanda almennri hjúkrunarstarfsemi inn í þetta mál. En ég veit, að margar ljósmæður tekur sárt að geta ekki fylgzt með framförum í sinni grein, en hin lágu launakjör þeirra gera þeim ekki kleift að afla sér frekari menntunar en þær fá á ljósmæðraskólanum.

Það hefir verið deilt um, hvort launin væru nóg í hlutfalli við starfið og kjör barnakennara og ljósmæðra borin saman. En ég álít, að þar sé ólíku saman að jafna. Barnakennarar vinna hálft árið fyrir launum sínum, þann tíma árs, sem lítið er um aðra atvinnu, en geta haft mikið upp úr sér hinn tíma ársins, ef þeir eru duglegir menn. En ljósmæður eru bundnar við starf sitt allt árið og mega ekki fara út úr umdæmi sínu nema með leyfi héraðslæknis, og mundu heldur ekki gera, ef þær vissu, að sín gæti verið þörf.

Þess má og gæta, að því minna sem umdæmið er, því minni tekjur gefur það af sér. Það er því ekki nema helber heimska að miða laun ljósmæðra við stærð umdæmisins og að bjóða megi ljósmæðrum því meiri smánarbætur, sem umdæmi þeirra er fámennara og „praksis“ þeirra þar af leiðandi minni.

Ég held, að ef hv. þm. hugsa um þetta mál í alvöru, þá hljóti þeir að sjá, hve réttmætar kröfur ljósmæðranna eru. Það er ekki nein hótun, heldur spá mín, að þeir, sem standa á móti þessum kröfum nú, muni sjá það eftir nokkur ár, að það var ekki vel yfirvegað, þegar þeir börðust á móti þessum sjálfsögðu launabótum ljósmæðranna.