27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, fjárlög 1931

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Síðan ég talaði hér í gær hafa tveir hv. þm. yrt á mig, og mun ég svara þeim báðum að nokkru, þótt þar sé allmikill baggamunur. Hv. þm. Borgf. fór svo hógværlegum orðum um athafnir stj. í þetta sinn, að ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í ræðu hans, enda er hann nú búinn að tala tvisvar, en allt öðru máli er að gegn um hv. þm. Ísaf., er gaf mér tilefni til langrar ræðu. Af þeim atriðum, sem ég ætla að drepa á í ræðu hv. þm. Borgf. skal ég nefna þessi.

Hv. þm. furðaði sig á, að ég skyldi hafa talað um töluna 10 í sambandi við ræðu hans, en ég ritaði hjá mér þau atriði í fyrri ræðu hans, sem mér þóttu verð að svara, og þau voru hvorki fleiri né færri en 10, og tók ég þau öll fyrir og sýndi fram á villurnar, þannig, að ekki stóð steinn yfir steini.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ég hefði farið í gegnum sjálfan mig er ég svaraði honum en það er auðvitað alger misskilningur, að öðru leyti en því, sem ég tók fram sem ellefta atriði ræðu minnar, að ég hefði breytt um skoðun að því er snertir álit á honum sem fjármálamanni.

Hv. þm. spurði með fjálgleik, hver hefði ákveðið laun útvarpsstjóra. Það gerði ég, en fór þar eftir vilja og till. mþn., sem þingið hafði ekki haft neitt að athuga við, svo að ég var bundinn við það.

Þá talaði hv. þm. um gengismálið og sagði, að stj. hefði ekki tekið í þá hendi, sem henni hefði verið rétt til að koma vilja sínum fram. Hv. þm. á þar máske við framkomu sumra flokksmanna hans hér í hv. Nd. í því máli, en þá vil ég láta hann vita það, að við þá hönd þurfti ég ekki að styðjast, því að árið 1926 hafði ég komið frv. um verðfesting gjaldeyrisins í gegn í Nd. Í Ed. eru íhaldsmenn allir aftur á móti ákveðnir á móti verðfestingu, en það er líka af því, að þar hafa þeir ákveðinn foringja, sem alltaf hefir verið henni mótfallinn, og jafnaðarmennirnir eru báðir ákveðnir andstæðingar verðfestingar. Sú útrétta hönd, sem hv. þm. er að tala um, hefði því að engum notum komið, því að verðfesting hefði aldrei komizt í gegnum Ed.

Þá spurði hv. þm., hvort stj. hefði greitt manni einum allmikið fé fyrir að þýða lög á franska tungu, og þýðingin hefði reynzt léleg. Um það atriði er það að segja, að þessi maður hefir ekki þýtt ein lög, heldur mörg, og mér er kunnugt um það, að þetta er menntaður maður og auk þess hefir hann verið dómtúlkur, þannig, að ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi leyst þýðingarnar illa af hendi.

Annars vil ég geta þess, að ég geri ekki ráð fyrir, að þessi maður þurfi að hlaupa frekar undir bagga með lagaþýðingar, sökum þess að hinn nýi fulltrúi í utanríkisráðuneytinu mun annast það starf, og þótt það kunni að fara vaxandi, vona ég, að hann geti komizt yfir það.

Þá spurði hv. þm. um það, hvort ekki væri illa gengið frá ákvæðum þeirrar reglugerðar, sem gefin hefir verið út um skoðun bifreiða, og hvort allt féð ætti að renna til skoðunarmannanna. Ég skal játa, að upphaf 9. gr. virðist í fljótu bragði benda á þetta, en 7. gr. segir allt annað ,og tekur af allan efa í því efni. Féð rennur beint í ríkissjóð, en skoðunarmennirnir fá síðan laun sín greidd úr honum, og þannig hefir það þegar verið nú í tvö ár.

Þá kem ég að síðasta atriðinu í ræðu hv. þm. Borgf., sem ég þarf að svara, en það var sú spurning, hvort það væri satt, að greiddar hefðu verið 500 kr. fyrir að semja reglugerð, sem var 7 gr. Þetta er ekki rétt, en þeim manni, sem samdi þessa reglugerð, og ítarlega grg. með og aths., hafa verið greiddar 500 kr. fyrir það og marga aðra aðstoð, sem hann hefir veitt, og ef hv. þm. vissi, hversu mikil hún er, myndi hann varla telja þá þóknun of háa. Annars get ég upplýst það, að þessi aukastörf, sem unnin hafa verið í stjórnarráðinu, orsakast að nokkru af því, að skrifstofustjórinn í atvmrn. hefir átt við mikla vanheilsu að búa, og þá er það ekki undarlegt, einkanlega þar sem hann er afkastamaður mikill, þótt einhverja aðstoð þurfi að fá til að fylla skarðið.

Þá get ég nú snúið mér að minni löngu og skemmtilegu ræðu hv. þm. Ísaf., sem hann hóf um nónbil og endaði er klukkan var farin að ganga átta.

Þessi ræða var dálítið sérkennileg og með öðrum hætti en aðrar þær ræður, sem fluttar hafa verið á þessum eldhúsdegi, enda var hún ekki ólík þeim ræðum, er við fluttum á þingi 1927, það er að segja, hún var eiginlega kosningaræða, eins og bæði ég og aðrir hafa haldið. Það er nú alkunnugt, að á þeim lista, sem Alþýðuflokkurinn mun bera fram, verður hv. þm. Ísaf. efstur, og út frá því sjónarmiði vil ég dæma ræðu hans.

Það var einkanlega ljóst á fyrri hluta ræðunnar, að hún var til þess ætluð að vera kosningarbeita og birtast í Alþýðublaðinu næstu daga til að hafa áhrif á kjósendurna.

Ræða hv. þm. Ísaf. sýndi það, að hann óttaðist ekki Íhaldið, heldur Framsóknarflokkinn, enda var meginárás hans beint að honum, því að sú hætta vofir yfir hv. þm., að Framsókn verði honum nokkuð skeinuhætt við næstu kosningar.

Það er því ekkert undarlegt, þótt hv. þm. harmi það, að frambjóðandi Framsóknarflokksins stækkar við hverja árás, sem íhaldið gerir á hann, en sú er trú mín, að hann haldi áfram að stækka, og það því frekar, sem þessi hv. þm. gerir harðari sókn á hendur honum.

Allur fyrri hluti ræðu hv. þm. var um Framsókn og Íhald og stefnumál þeirra, en eins og góður ræðumaður valdi hann sér grundvöll til að ganga út frá og byggja á. Hv. þm. vitnaði í grein eftir ritstjóra Tímans, þar sem hann hefði sagt, að Framsókn væri nú búin að koma fram öllum sínum áhugamálum, og af því dró hann svo þá ályktun, að flokkurinn ætti engin áhugamál og enga stefnu, og að þetta væri hrein þrotabúsyfirlýsing.

Ég verð nú að segja, að það hefði verið svo, ef hv. þm. hefði haldið rétt á málunum, en svo var það ekki. Hv. þm. sleit setningu út úr samhengi úr grein, sem eitt sinn stóð í Tímanum, og þar var sagt, að Framsókn hefði nú komið ýmsum áhugamálum sínum fram.

Ég skal nú í þessu sambandi minna á eitt frægt dæmi, sem bar við á þeim tímum, þegar dýrtíðin var sem mest í landinu. Þá var það, að einum merkum verkfræðingi var falið að gera áætlun um mótöku fyrir Reykjavíkurbæ. Þessum merka manni, sem nú er einn af leiðandi mönnum Íhaldsins, varð sú skyssa á, eftir því sem sagan hermir, að áætla rangt um það, hversu mikið væri í einu móhripi, og það varð aftur til þess, að útreikningurinn varð allur vitlaus, af því að grundvöllurinn var vitlaus. Það er því ekki leiðum að líkjast fyrir hv. þm. Ísaf., er hann lætur sig henda hina sömu skyssu. Grundvöllurinn undir ræðunni var ótraustur. En ég skal aðeins benda hv. þm. á það, að slíkt er honum til einskis sóma, og gjalda ætti hann varhuga við því, að byggja ræður sínar á svo ótraustum grundvelli, þegar hann leggur á stað í landskjörið í sumar.

Þá vil ég víkja að þeim meginkafla ræðu hv. þm., þar sem hann staðhæfði, að við Framsóknarmenn hefðum engin stefnumál. Ég vil hér með, í mínu nafni og flokksins, neita þessu algerlega. Slík fullyrðing er flutt gegn betri vitund og gegn öllum skynsamlegum rökum. Við Framsóknarmenn höfum meiri og víðtækari stefnumál en allir aðrir flokkar hér á landi. Við höfum stefnumál á öllum sviðum atvinnumála, menningarmála og þjóðmála yfirleitt. Við höfum þegar látið okkur skipta ýms þrifamál, bæði til lands og sjávar. Í landbúnaðarmálum erum við þegar farnir að hrinda stefnumálum okkar í framkvæmd með sívaxandi krafti, í samvinnumálum sömuleiðis, enda þótt við séum komnir stutt áleiðis að tiltölu við þau ótæmandi verkefni, sem fyrir hendi eru. Í iðnaði, verzlun og fiskiveiðum erum við aðeins að byrja og eigum mjög langt í land. Í menningar-, mannréttinda- og mannúðarmálum höfum við þegar látið allverulega til okkar taka og munum halda því áfram. Allstaðar eru verkefnin og við munum ekki láta neitt það mál afskiptalaust, er til nytsemdar horfir landi og lýð. Framsóknarflokkurinn hefir ekki legið á liði sínu þennan stutta tíma, sem hann hefir haft völdin, og hann mun ekki gera það framvegis. Hv. þm. veit þetta ósköp vel og þarf því eigi að tala á þennan veg. Hann veit, að við viljum vinna að alhliða þróun þjóðarinnar á grundvelli frjálsra samtaka og aukinnar menntunar. Það má segja um verkefni framtíðarinnar líkt og sagt var um orminn í Lermuvatni, að ef eitt höfuð var höggvið af honum, þá spruttu jafnharðan tvö í staðinn. Jafnskjótt sem eitt verkefnið er leyst, spretta mörg í staðinn. Þetta er lögmál allrar framþróunar og framsóknar.

Hv. þm. talaði um baráttu okkar í landbúnaðarmálum. Hann sagði, að fundir okkar út um land væru leiðinlegir fundir. Þar væri ekki um annað talað en jarðræktarlög, frystihús, búfjárrækt, áburðarhús, Búnaðarbanka og því líkt. Já, það má vel vera, að hv. þm. leiðist að hlusta á svona hégóma, en ef svo er, þá er ekki annað fyrir hann en hætta að fara á þessa leiðinlegu fundi og halda sér í þess stað við kaupstaðina einvörðungu. Það væri mörgum kært, ef hv. þm. vildi taka upp það hátterni í framtíðinni.

Hv. þm. hélt nú áfram „kritik“ sinni á flokknum. Hann útmálaði klofninginn í flokknum, bæði um einstök mál og innbyrðis. Það er nú svo með menn, að þeir eru sjaldnast steyptir í sama mót, og allra sízt þegar um er að ræða sjálfstætt hugsandi menn. Svo ber og á það að líta, að núv. stj. er ekki meirihlutastj. og á því örðugt með að halda strikinu beinu, þar sem á báðar hliðar eru flokkar, sem toga til hinna ítrustu öfga í þjóðmálum. Það er því með öllu ómögulegt fyrir minni hluta stj. að stýra beint milli öfganna fremur en milli skers og báru. En hv. þm. vil ég segja það, að hann ætti sízt að tala digurbarkalega um slíka hluti. Hann veit það, hv. þm., að þó að einhver klofningur kunni að vera í flokki okkar, þá er hann þó meiri í Íhaldsflokknum, en langsamlega mestur í flokki hv., þm. sjálfs. Í engum flokki hér á landi eru þvílíkir þverbrestir, sem í Alþýðuflokknum. Þar er nú ástandið svo bágborið, að minni hl. hefir þau orð um, að hann vilji gera meiri hl. allt til bölvunar, sem hann geti. Er þessa svo skammt að minnast, að hv. þm. ætti varla að vera búinn að gleyma því. Við höfum fylgzt með löngum skrifum frá Vestmannaeyjum, þar sem er einhver hinn hatrammasti bræðrabardagi, sem við höfum sögur af í íslenzkum þjóðmálum. Í sambandi við þetta berast svo yfirlýsingar víða utan af landi, og allar bera þær vitni hinum mikla klofningi innan þessa flokks. Annars þýðir ekki um slíkt að sakast, því þetta á sér stað í öllum flokkum, sérstaklega þegar þeir eru orðnir stórir.

Hv. þm. hélt enn áfram krítik sinni á Framsóknarflokknum, og veittist nú sérstaklega að mér, sem form. stj. Tilefnið var það, að ég teldi mig vera fulltrúa bændanna í landstj. Hv. þm. fer hér að vísu ekki með rétt mál, því að hann getur þess ekki, að ég hefi ávallt talið mig sérstaklega sem fulltrúa bændanna. Þetta er töluvert ólíkt. Hitt er vitanlega alveg rétt, að ég er ráðh. allrar þjóðarinnar, en þó dettur mér ekki í hug að afneita svo minni fortíð og mínu eðli, að ég þori ekki að kannast hreinskilnislega við það, að ég hefi til þessa helgað mig málefnum bændanna, vegna þess, hversu þau hafa verið vanrækt til þessa, og vegna þess að framtíð þjóðarinnar krefst þess, að gert sé eitthvað til þess að forða landbúnaðinum íslenzka frá því að hrynja í rústir.

Það væri því rangt af mér að vilja ekki kannast við, að ég er kominn inn í þingið og í ráðherrasæti sem fulltrúi bændanna sérstaklega. Ég er viss um það, að flokksmenn hv. þm., t. d. ráðh. í Danmörku og á Englandi, munu fyrst og fremst telja sig fulltrúa verkamanna, enda þótt þeir séu um leið almennir embættismenn. En þó að við framsóknarmenn teljum okkur fyrst og fremst fulltrúa bændanna, þá held ég að við höfum ekki vanrækt að beita okkur fyrir ýmsum framfara- og menningarmálum annara stétta. Vil ég þar nefna nokkur dæmi þess, hve alhliða við beitum okkur fyrir nytsemdarmálum til lands og sjávar.

Þingið í fyrra samþ. lög um verkamannabústaði. Hv. 2. þm. Reykv. bar fram frv. um þetta efni, en það var svo úr garði gert, að engin leið var að samþ. það. En hver var það svo, sem bjó málið í færan búning og beitti sér fyrir framgangi þess? Það var nú enginn annar en atvmrh. Framsóknarflokksins og bændanna, sem það gerði.

Á þinginu 1928 bar hv. þm. Ísaf. fram till. um styrk til sjómanna á Ísaf. til sumvinnufélags þeirra. Sú till. var felld. Hver var það svo, sem tók málið upp að nýju, aflaði því fylgis og fékk það samþ.? Það var atvmrh. bændanna, sem gerði það. Þessu ætti hv. þm. Ísaf. ekki að gleyma, því að með þessu hefir Framsókn sýnt fullan skilning á þörfum kjördæmis hans, sem þó er alls ekki sveitakjördæmi.

Þá má og nefna rýmkun kosningaréttarins. Það var enginn annar en atvmrh. Framsóknar, sem bar það mál fram í fyrra og leiddi til sigurs.

Enn má nefna umbætur þær á kjörum sjómanna, sem nú eru að fara í gegn um þingið, og eru fluttar af núv. stj.

Svona má lengi telja áfram. Við höfum t. d. með atkv. okkar stuðlað að því að bæta kjör togaraháseta. Við höfum yfirleitt sýnt fulla samúð og fullan skilning á þörfum og nauðsynjum annara stétta þjóðfélagsins. Við höfum í ríkum mæli notað aðstöðu okkar til þess að koma fram margvíslegum mannúðar- og mannréttindamálum þeirra, sem minni máttar eru. Ég er því í mínum fulla rétti, þótt ég telji mig sérstaklega sem fulllrúa bændanna, vegna þess að ekki verður með rökum sýnt, að ég hafi látið áhuga minn á málum landbúnaðarins verða til þess að draga úr framkvæmdum stj. á öðrum sviðum.

Hv. þm. Ísaf. hélt áfram hinni ítarlegu gagnrýni á Framsóknarflokknum og kom nú inn á það, hversu misskipt væri fjárstyrkjum af hálfu hins opinbera til landbúnaðar og til sjávarútvegs. Þessu til sönnunar benti hann á það, að Búnaðarfélag Íslands fengi miklu meiri fjárstyrk heldur en Fiskifélagið. Jú, það er að vísu rétt, að Búnaðarfélagsstyrkurinn er meiri, en hv. þm. mælir af ókunnugleik, ef hann vill gera þessi tvö félög hliðstæð, og hann má alls ekki draga af krónutölu styrksins nokkra ályktun um aðbúnað ríkisins að þessum stofnunum. Búnaðarfélagið hefir svo umfangsmikil störf með höndum og svo fjölháttaðar framkvæmdir á sviði landbúnaðarins, að það er ekki berandi saman við Fiskifélagið. Og þegar hv. þm. er að tala um styrki til landbúnaðarins, þá gætir hann þess alls ekki, að verulegur hluti þeirra rennur til kaupstaða og kauptúna landsins. Ég skal aðeins geta þess, að hæsta búnaðarfélag landsins að dagsverkatölu mun vera Jarðræktarfélag Reykjavíkur. Líkt má segja um búnaðarfélög t. d. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði og víðar. Hvað Ísafjörð snertir, þá er nú verið að gera breyt. á jarðræktarlögunum, til þess að Ísfirðingar geti notið góðs af jarðræktarstyrknum. Þegar Búnaðarbankinn verður kominn á fót, þá mun verða stofnuð sérstök lánadeild fyrir smábýli við kaupstaði og kauptún. Þegar þess vegna þessir tveir hv. þm., hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. Reykv., eru að gera samanburð milli sveita og kaupstaða í þessum efnum, þá fara þeir mjög villir vegar, því að það er í mjög vaxandi mæti, sem Búnaðarfélagið leggur til aukinnar ræktunar í kaupstöðum og kauptúnum, og er það vel farið.

Þá kastaði hv. þm. þeim hanzka að okkur Framsóknarmönnum, að við afflyttum aðrar stéttir landsins, og okkar barátta gengi út á að rífa frá kaupstöðunum og efla sveitirnar á kostnað þeirra. Ég neita því, að nokkur sérstakur svipur sé yfir baráttu okkar, sem bendi til slíks, sem hér er borið á okkur. Það er með öllu rakalaust. En hitt er satt, að barátta okkar hefir mest gengið út á að fylla skarðið í vör Skíða, þ. e. a. s. rétta hag landbúnaðarins, sem hingað til hefir orðið harðast úti. En hver sú króna, sem tekin er úr þeim sameiginlega sjóði til framfara landbúnaðinum, er að vísu óbeint tekin frá öðrum stéttum jafnframt, en slíkt má segja um öll útgjöld hins opinbera. Annars finnst mér nú, sem sízt sæti á sumum flokkum að núa öðrum slíku um nasir, að minnsta kosti mun mörgum þykja þá skörin færast upp í bekkinn, er jafnaðarmenn fara að áfellast aðra flokka fyrir að ala á ríg milli stétta í landinu. Þeir hafa sízt sterka aðstöðu til þess að kasta steini að öðrum fyrir þær sakir.

Þá hélt hv. þm. áfram krítik sinni á Framsóknarflokknum. Hann vildi halda því fram, að þessar fjárhæðir, sem veittar væru til landbúnaðarins, kæmu ekki nema að mjög litlu liði, eða jafnvel verra en það. Hann sagði, að tilætlunin með þessum styrkveitingum væri sú, að hjálpa bændum til þess að eiga meiri tekjuafgang um árslokin. Þetta er algerlega byggt á misskilningi og vanþekkingu á þessum málum. Ef hv. þm. athugar þetta til hlítar, þá mun hann komast að raun um, að þetta er ekki gert til þess að létta undir með árlegum rekstrarkostnaði bændanna, heldur, ef svo mætti að orði kveða, með stofnkostnaði þeirra. Það er verið að hjálpa til þess að auka ræktaða landið, koma upp rjómabúum og frystihúsum, auka og bæta búfjárstofninn, bæta húsakynnin og allan aðbúnað og hjálpar mönnum til þess að eignast jarðyrkjuvélar og nýtízkuáhöld. Það er ekki verið að hjálpa mönnum til þess, að rekstrarafkoman verði betri beinlínis það árið, heldur til þess að hjálpa þeim að koma upp betri og öflugri stofni í húsum, vélum, gripum og ræktuðu landi. Það er í rauninni verið að leggja þetta í sparisjóð, sem ríkið nýtur vaxta af í framtíðinni. Þessar styrkveitingar verða því öldungis réttmætar, enda skapa þær og skilja eftir sig tilsvarandi aukið verðmæti í landinu.

Enn hélt hv. þm. áfram gagnrýni sinni á flokknum, og kom nú með ýmsar persónulegar játningar, sem sýndu það greinilega, að hér var um kosningaræðu að ræða. Það er sá partur ræðu hans, sem á að heyrast út til kjósendanna í landinu og afla hv. þm. atkv. Hann sagðist ekki vera á móti þessum styrkjum til bændanna. En svo kemst hv. þm. þó að þeirri niðurstöðu, að þeir séu oft og einatt hefndargjafir og beinlínis skaðlegir. Það er dálítið undarlegt, að hann skuli eigi að síður vera með slíkum ráðstöfunum, sem miða til óheilla og skaðsemdar, þeim er hljóta. Það væri nú skynsamlegra og hreinlegra af hv. þm., að vera beinlínis á móti þessum styrkveitingum, og játa það opinberlega fyrir landslýðnum.

Þá sagði hv. þm., að við hefðum vanrækt að leggja á verðhækkunarskatt af löndum og lóðum í tilefni af því fé, sem við hefðum fleygt í vasa einstakra manna, eins og hann orðaði það. Ef það er rétt að við höfum vanrækt að gera nauðsynlegar umbætur á skattalöggjöfinni hingað til, þá er því ekki til að dreifa framvegis. Mþn. hefir verið sett í þessi mál, og í henni á sæti meðal annara hv. þm. Ísaf., svo hann getur væntanlega beitt áhrifum sínum í þá átt, sem hann var að tala um.

Hv. þm. sagði að landbúnaðarpólitík okkar hefði að vísu bætt nokkuð aðstöðu bændanna um líðandi stund, en ekki um alla framtíð. Við höfum nú ekki verið við völd nema í rúm tvö ár, svo tæplega er að vænta allra umbóta á svo skömmum tíma, en ég verð að telja það mjög mikið lof, ef hægt er að segja, að við höfum bætt lífskjör manna um líðandi stund. En við höfum gert meira en að búa í haginn fyrir hina líðandi stund. Við höfum einnig unnið fyrir framtíðina. Við höfum vakið bændastéttina til dáða og framkvæmda, enda er nú risin sú alda meðal þeirra, sem á komandi árum mun rísa hærra og hærra og leiða til viðreisnar landbúnaðarins á Íslandi. Hitt skal ég játa, að það vantar mikið á, að við séum búnir að gera allt, sem við höfum ætlað okkur að gera. Það er fjöldi verkefna enn óleystur, og fjöldi mála, sem þarf að hrinda í framkvæmd. Framsóknarflokkurinn er hugsjóna- og umbótaflokkur, sem aldrei mun þrjóta verkefni. (EJ: Þær koma bara nokkuð seint þessar umbætur). Þær koma þó fyrr en ef íhaldsmenn héldu um stjórnartaumana.

Næsti kafli hjá hv. þm. snérist einkum um samvinnumálin. Hann sagði, að við gætum talað um þau í alla nótt, sem vitanlega er alveg rétt. Sérstaklega talaði hv. þm. um samvinnu annars vegar og þjóðnýting hinsvegar: Ég mun nú ekki stofna til deilu um hv. þm. um þessi mál að sinni, enda mun hann standa nær okkur í þeim efnum en margir aðrir flokksmenn hans. Hann á líka til þeirra að telja, sem jafnan hafa staðið framarlega í fylkingum samvinnumanna hér á landi. Ætt hans er ein merkasta samvinnumannaætt á Norðurlandi. Það er ekki takmarkið, sem skilur samvinnumenn og þjóðnýtingarmenn, heldur miklu frekar þær aðferðir, sem nota eigi. En það, sem hv. þm. vitnaði í úr ræðu minni, var það, að ég sagðist ekki vera með þjóðnýtingu af því að ég væri samvinnumaður. Hann sagði, að samvinna væri ómöguleg nema með sameign. Ég skal játa það, að á þröngu sviði hefir hv. þm. rétt fyrir sér, enda hafa samvinnufélögin þá lögbundnu reglu, að leggja árlega til hliðar í sjóð, og þann sjóð viljum við nota til ýmissa nytsamra hluta. Annars hvílir okkar samvinnubygging á því einkum, að einstaklingarnir eru frjálsir og sjálfstæðir atvinnurekendur eftir sem áður, en taka af frjálsum vilja höndum saman um hagsmuna- og menningarmál sín. Samvinnafélögin eru reist á grundvelli frjálsra samtaka en ekki á valdboði eða þvingun ofan frá. Þau byggjast á félagsþroska og skilningi einstaklinganna. Takmarkið er skipulag. Og við hyggjum, að það þjóðfélag verði styrkara, sem hvílir á þessum grundvelli, en á valdboðum og þvingun. Ég hygg, að það muni aldrei takast vel og eiga æði langt í land, þangað til mannkynið verði komið á það stig, að allt skipast við valdboð ofan að.

Í þessu sambandi spurði hv. þm. mig um það, þegar svo væri komið fyrir samvinnumönnum, að við værum búnir að ná undir okkur 4/5 af verzlun landsmanna, og við sæjum, að það stafaði bagi af því, að ekki væru allir komnir inn í félagsskapinn, hvort við vildum ekki þvinga hina til inngöngu.

Almenna svarið er hiklaust nei. Almenna reglan er sú, að menn eigi að ganga inn í samvinnufélagsskapinn af frjálsum vilja, af því að þeir séu sannfærðir um það af „ökonomiskum“, menningarlegum og mannúðarlegum ástæðum, en við ætlum aldrei að ná marki okkar með þvingun. En hinsvegar geta komið fyrir þær kringumstæður í einstökum atriðum, að við álítum, að eigi að fá löggjafarvaldið til þess að koma fram ýmsri löggjöf á þessu sviði.

Þennan kafla um samvinnufélögin endaði hv. þm. mjög einkennilega. Hann tók eitt dæmi frá einstöku landi og sagðist vilja minna á hið stóra land Rússland, og mér virtist hann gera það til þess að sannfæra okkur um, að við ættum heldur að fara þjóðnýtingarleiðina heldur en samvinnuleiðina.

Mér þótti þetta mjög óheppilegt dæmi, því að ég held nú að þeir sem ráða lögum og lofum í Rússlandi, séu alls ekki flokksbræður hv. þm., heldur sé það einmitt sá partur af hans flokki, sem þeir algerlega afneita, og að margar aðfarir þeirra þar séu jafnaðarmönnum hér á móti skapi.

Að öðru leyti finnst mér og dæmið einkennilega valið. Ég hefi að vísu ekki getað síðustu árin fylgzt eins vel með í samvinnufélagshreyfingunni og áður, en ég hefi heyrt, að ráðandi menn í Rússlandi hafi byrjað á því að ráðast á samvinnufélögin. Þótt þeim hafi snúizt hugur síðan, þá hófu þeir starfsemi sína með því að ofsækja samvinnufélagsleiðtogana og senda þá til Síberíu. Yfirleitt held ég, að það hafi verið mjög svipað og í því ríki, sem er lengst til hægri, Ítalíu, því að Lenin og Mussolini munu hafa haft sömu aðstöðu gagnvart samvinnufélögunum, nefnilega að rífa þau niður. Við höfum sömu aðstöðu hér. Íhaldsmenn hægra megin og sócíalistar vinstra megin reyna að rífa okkur í sig.

Það víðasta, sem hv. þm. kom að, í sambandi við þessa „krítik“ viðvíkjandi landbúnaðinum, var fremur skattamálefni. Hann sagði, að við framkvæmdir okkar væru það jarðeigendur einir, sem græddu. Hann segir, að við knýjum landsmenn til að rækta upp landið, leggja vegi og byggja brýr, en allt þetta sé til þess að jarðeigendur græði. Þetta er ekki rétt. Hinar miklu framkvæmdir víðsvegar um land efla almenna velmegun. Þær hækka kaupið og bæta afkomumöguleika fólksins yfirleitt og lífskjör þess. En þegar hv. þm. ber okkur á brýn, að við gerum ekkert annað en þetta, þá er það rangt, því að við erum þegar búnir að stíga spor til þess að koma í veg fyrir þær slæmu afleiðingar, sem hv. þm. er hræddur við. Við höfum með Byggingar- og landnámssjóðnum gert ráðstafanir til þess að hindra, að fjárstyrkur ríkisins breytist í óeðlilega verðhækkun, sem braskarar geti stungið í sinn vasa. Í ábúðarlaga frv., sem liggur fyrir þessu þingi, er líku stigið spor til þess að hindra þetta.

Ég játa að vísu, að þarna eru viðfangsefni, sem við erum ekki búnir að vera nóg til þess að leysa, en sem við vitum, að við eigum eftir að leysa og munum leysa. Þeim ásökunum, sem hv. þm. hefir borið á okkur, vil ég því algerlega vísa á bug.

Þá sagði hv. þm. enn, að okkar aðalstefna í landbúnaðarmálunum væri að fjölga býlunum úti um land. Þetta er alveg rétt. Bæði Byggingar- og landnámssjóðurinn, ábúðarlögin og fleira stefnir að því að fjölga sjálfstæðum býlum í landinu. Hv. þm. kvað þetta vera á móti þróuninni, það ættu að rísa upp risavaxin fyrirtæki, sem notuðu fullkomnustu vélar, og þetta eitt borgaði sig. Ég skal viðurkenna, að á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu eru það stór fyrirtæki, sem framtíðin tilheyrir. En ég vil mótmæla því, að þetta eigi að heimfæra á öllum sviðum. Það á ekki við í landbúnaðinum og sízt í landbúnaðinum á Íslandi. Þróunin hér er einmitt sú, að það eru smábýlin, sem eiga framtíðina fyrir sér, en stóru býlin standast ekki samkeppnina. Við vitum líka, hvernig farið hefir í einu mesta landbúnaðarlandi heimsins, Danmörku. Þar var mikið af stórum herragörðum, en smábýlin fá. Hefir stefnan verið sú að herragörðunum sé að fjölga? Nei, hún hefir einmitt gengið þvert á móti. Herragarðarnir hrynja hver af öðrum. Þeir eru teknir og stykkjaðir niður. En eru það nú aðeins vinstrimennirnir, sem eru á þessari vitlausu braut? Ónei, þeir, sem hafa stutt þá til þess, eru einmitt flokksbræður hv. þm. Ísaf., jafnaðarmennirnir, sem hafa þarna starfað þvert á móti skoðun hv. þm.

Ég álít, að eins og þetta á við í Danmörku, eigi það enn frekar við hér á Íslandi. Sú stefna, sem nú ríkir, að fjölga smábýlunum, er einmitt sú rétta.

Þó að gott geti verið að hafa þennan mikla rekstur og hafa fólkið eins og ósjálfráð verkfæri, er það ekki nema að litlu leyti af því góða, og það á ekki við í landbúnaðinum. Það, sem þar á bezt við, er að bóndinn sé sjálfstæður maður, svo að hann finni, að hann starfar að sjálfstæðri vinnu, sem ber arð í hans skaut.

Þess vegna get ég ekki fallizt á það, þegar hv. þm. segir, að við höfum vanrækt að stofna þessi stórbú, sem rekin séu með vélum. Við höfum ekki vanrækt það, fremur en bændafrömuðirnir suður í Danmörku. Þeir hafa einmitt stuðlað að því að rifa niður herragarðana. Hitt er annað mál, að eins og frv., sem liggur fyrir hv. Ed., fer fram á, þá viljum við ríkisrekstur við bændaskólana, til þess að geta gert þar ýmsar gagnlegar tilraunir.

Nú held ég, að ég muni búinn að fara orðum um velflest af því, sem hv. þm. talaði um og snerti landbúnaðinn. Og þó að ég hefði getað gert það miklu betur, með því að búa mig undir, býst ég við að hafa sýnt fram á, að við Framsóknarmenn séum algerlega í samræmi við kröfur tímans. Við erum búnir að stíga mörg spor í þessa átt, en þó er langt um meira framundan. Það er einmitt þetta, sem ég vil undirstrika, að 90% af framkvæmdamálum okkar eigum við eftir að framkvæma.

Það, sem fram kom í síðari hluta ræðu hv. þm., var meira smælki, einstök atriði og tíningur, sem ég skal reyna að verða fljótari með.

Hv. þm. kom inn á aðstöðu landsstj. hér á Alþingi og gerði mikið úr því, hvað landsstj. hefði getað komið litlu fram. Hann sagði, að tiltölulega lítið væri samþ. af frv. stj., sumpart vegna þess að hún hefði ekki bolmagn til þess, og sumpart ekki áhuga. Það er eins og hv. þm. gangi út frá því, að fyrst við erum í stjórn, þá getum við gert allt. Slíka kröfu er ósanngjarnt og ranglátt að gera til þessarar stj., þar sem hún hefir meiri hluta í hvorugri þingdeild, og þessvegna verðum við, til þess að koma fram okkar málum, að fá styrk frá nábúum okkar, annaðhvort til hægri eða vinstri. Stundum fáum við stuðning frá þeim til hægri handar. Um landbúnaðarmálin fáum við oftar og betur stuðning frá jafnaðarmönnum. En í mjög mörgum stórum málum vill hvorugur flokkanna hjálpa okkur, sumpart af því, að þeir eru á móti þeim, en sumpart af því, að þeir vilja ekki að okkur verði of mikið ágengt.

Ég býst við, að dómur sögunnar muni verða sá, að sú stj., sem nú hefir setið 2½ ár, hafi á stuttum tíma komið fram tiltölulega mörgum málum. En þetta er ekki eingöngu stj. að þakka. Við höfum fengið yfir okkur alveg sérstakt góðæri, sem hefir gert okkur fært að framkvæma meira af góðum verkum en nokkurntíma hefir verið, síðan þetta land var byggt.

Hv. þm. sagði ennfremur, að við tækjum því með jafnaðargeði, þó að okkar frv. fengi ekki framl. Við verðum að sætta okkur við það, vegna þess að við höfum ekki meiri hluta í þinginu. Ég þakka auðvitað fyrir þau „kompliment“, að við tökum því alltaf með jafnaðargeði. Ég held reyndar, að það sé ofmælt, því að þótt ég sé ekki skapverri maður en aðrir, þá er það þó oft, að ég tek því ekki með jafnaðargeði, þegar mál eru drepin fyrir mér. En ég vona, að ekki beri mikið á því, fyrst hv., þm. segir þetta. Við erum sem sé ekki nógu sterkir, en ég vona, að spá hv. þm. sé sönn, að við sé um alltaf að stækka, þannig að eftir næstu kosningar getum við komið öllum okkar málum fram.

Annars höfum við dálítið svipaða aðstöðu eins og Magnús Stephensen sagðist hafa sem landshöfðingi: Hann væri eins og viss skepna milli tveggja nagla. Hann átti við Alþingi annarsvegar og dönsku stj. hinsvegar. Við höfum annan nábúann til hægri og hinn til vinstri, og þeir gætu mulið okkur á milli sín, ef þeir væru nógu samtaka. Hvort þeir gera það, verða þeir sjálfir að gera út um Í þessu sambandi sagði hv þm. það, sem honum þótti svo gaman að segja, að hann sagði það 3–4 sinnum og hafði þó áður endurtekið það 3–4 sinnum, sem sé, að stj. lifði ekki á eigin verkum, heldur á syndum Íhaldsflokksins. Það er vitanlega satt, að allir stjórnmálaflokkar lifa ekki einungis á sínum eigin verðleikum, heldur líka á syndum annara. Menn eru ekki alltaf með stjórnmálaflokkum, vegna þess að þeir fallist á allt, sem þeir gera, heldur af því að hinir hrinda þeim ennþá meira frá sér.

Það er satt, að Íhaldsfl. hefir framið miklar vanrækslur, og ég efast ekki um, að það hefir hjálpað okkur mikið, sérstaklega meðan við vorum andstöðuflokkur. En ég vil halda því fram hiklaust, að síðar meir muni mest hjálpa okkur, hvað við höfum komið mörgum góðum málum í framkvæmd, bæði fyrir sveitirnar og smælingjana í kauptúnum, á sviði mannréttindamálanna, menntamálanna og mannúðarmálanna.

Þá eru einstök atriði eftir, sem ég gæti kallað eldhúsdagskaflann í ræðu hv. þm. Hann vék að tryggingarmálunum og gat þess, að 1928 hefði verið Samþ. þáltill., þar sem var skorað á stj. að láta undirbúa alþýðutryggingar. Hún hefði sýnt of mikið tómlæti í þessu, og kvaðst hann harma það mjög. Ég harma það líka, að þetta mál er ekki komið í framkvæmd ennþá. Ég er hv. þm. sammála um, að þessi löggjöf er meðal þýðingarmestu löggjafar, sem við þurfum að koma á. En það, sem veldur drættinum, er ekki tómlæti stj., heldur það, að hún hefir ekki haft á að skipa nógum starfskröftum. Fyrst eftir að þáltill. var samþ., var ekki hægt að snúa sér til annars en manns, sem mjög var hlaðinn öðrum störfum. Og það var ekki fyrr en í haust, að maður fékkst til að taka þetta mál að sér, en hann starfar nú að því með óskertum starfskröftum. Ég vona því, að við getum fengið þetta mál vel undirbúið fyrir næsta þing.

Hv. þm. vék að endurskoðun launalaganna og hélt því fram, að ekki væri rétt að fresta endurskoðun þeirra, þangað til búið væri að verðfesta peningana. Ég er honum mjög ósammála um þetta. Ég álít ekkert vit í því að gefa út ný launalög nú, og svo gæti komið fyrir, að t. d. hv. 3. landsk. yrði aftur fjmrh. og vildi hækka krónuna aftur og stofna til þess glundroða, sem það hefði í för með sér. Mér er það svo mikið kappsmál að verðfesta peningana, að ég tel einmitt gott að hafa þennan písk á þá, sem vilja endurskoða launalögin, að það verði ekki gert fyrr en búið er að verðfesta peningana.

Hv. þm. kom inn á það, að landstj. hefði aukið lóðabrask hér í Reykjavík, og átti hann þar við, að grunnur hefði verið keyptur undir landssímahús. Ef hv. þm. álítur, að stj. hafi sérstaklega stutt að lóðabraski í bænum með því að kaupa þessa lóð við Austurvöll, þá hafa nú fleiri orðið til þess að auka það. Því nokkrum vikum áður en ríkisstj. keypti þessa lóð, þá keyptu flokksbræður hv. þm. Ísaf. stóra húseign og stóra lóð við Tjörnina, fyrir á annað hundrað þús. kr., eins og hin lóðin var keypt á. Svo að við erum þá undir sömu fordæminguna seldir, og fá nú Íhaldsmenn einhverja átyllu til þess að skamma okkur fyrir að vera samtaka í óknyttunum.

Síðan bar hv. þm. fram tvær fyrirspurnir. Önnur var sú, hvort stj. ætlaði að láta þetta kjörtímabil líða án þess að endurskoða kjördæmaskipunina. Ég hefi ekki haft tækifæri til að bera mig saman við samverkamenn mína og flokksbræður. En ég get látið hv. þm. vita, hver er mín skoðun í þessu máli.

Kjördæmaskipun sú, sem nú er hér á landi, er orðin mjög gömul. Það hafa verið gerðar nokkrar breyt. á henni með því að bæta við nýjum þm. Á þeim áratugum, sem liðið hafa síðan hún var sett, hefir orðið töluvert mikil breyt. á okkar þjóðlífi, þannig að mikill hluti fólksins hefir flutzt í kauptúnin. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að þeir, sem áttu að stjórna peningamálum okkar, beindu peningastraumnum til kauptúnanna. Því það er nú svo, að fólksstraumurinn fer þá sömu leið, sem peningum er beint. Og síðustu 30–40 árin hefir mannfjölgunin verið langmest í kauptúnum landsins. Nú er ný stefna að ryðja sér til rúms í þessu máli. Fyrir atbeina Framsóknarflokksins og með stuðningi annara flokka er nú reynt að stöðva þennan fólksstraum úr sveitunum til kaupstaðanna. Lánsstofnunum hefir verið komið á fót, sem eiga að beina peningastraumnum út í sveitirnar, til þess að gera mönnum mögulegt að lifa þar góðu lífi.

Við stöndum á tímamótum. Ráðstafanir þess opinbera eru að gera breytingu á þessum sviðum. Þeir fá nú réttinn, sem áður hafa orðið að þola órétt. Sveitirnar fá nú aftur það, sem ranglega var frá þeim tekið.

Þá hefir verið talað um að breyta kjördæmaskipuninni, til þess að lagfæra þetta ranglæti. Ég ætla að segja það fyrir mitt leyti, að mér finnst það væri óheppileg ráðstöfun að hafa eingöngu fyrir augum höfðatöluna í kaupstöðunum og sveitum eins og hún er nú. Landbúnaðurinn á kröfu til þess að fá að sýna það, hver árangur verður af því, að hann er að fá nokkuð af því, sem hann á að fá. Ég vil láta það sýna sig, að eftir 20–30 ár verði komið það jafnvægi á, að færri leiti þá til kaupstaðanna en fleiri til sveitanna en nú er. Þegar það jafnvægi er komið á, er kominn tími til að breyta kjördæmaskipuninni. En ég vil lýsa hér yfir því, að ég álít það ekki tímabært nú að gera ráðstafanir til þess að breyta kjördæmaskipuninni.

Fyrirspurninni um bankaeftirlitsmanninn mun hæstv. fjmrh. svara. Það heyrir ekki undir mig.

Hv. þm. minntist á Íslandsbankamálið. Ég mun ekki frekar en áður fara út í það. Hv. þm. sagði að deilan hefði staðið um það, hver hefði átt að borga töp Íslandsbanka. Eins og ég hefi vikið að áður, álít ég dæmið hafi verið rétt sett upp hjá stj. Stj. afgreiddi málið þannig, að þátttaka fékkst frá öðrum en ríkinu til þess að standa undir töpum bankans. Það hefði orðið meira tjón fyrir ríkið ef ekkert hefði verið gert í þessu máli. Stj. reyndi að afgreiða málið á fjárhagslegum grundvelli með það fyrir aug um að láta hrunið fyrir ríkið og aðra verða sem allra minnst. Eru það ólík afdrif málsins eða láta allt lenda á ríkinu svo sem til var ætlazt í upphafi af íhaldsmönnum.

Þá eru aðeins tvö atriði eftir.

Hv. þm. talaði um bitlinga stj. og nefndi viðvíkjandi því þau tvö dæmi, að hv. 3. landsk. var falið að athuga skilyrði fyrir því að setja á stofn síldarverksmiðju og hv. 1. þm. Skagf. var sendur til Akureyrar í sérstökum erindum fyrir stjórnina.

Þessi dæmi, sem hv. þm. nefndi, eru bæði frá árinu 1927, rétt frá fyrstu mánuðum, sem núv. stj. sat að völdum. Árin 1928, 1929 og það, sem liðið er af árinu 1930, nefnir hv. þm. engin dæmi þessa. Í þessu efni get ég því verið mjög ánægður með aðfinnslur hv. þm. Ísaf.

Síðasta atriðið, sem hv. þm. beindi til stj. var um umframgreiðslur í fjárl. og að stj. vanrækti að skýra þinginu frá, hvernig á því stæði.

Ég vil benda hv. þm. á það, að í byrjun hvers þings hefir fjmrh. þessarar stj., flutt ræðu um afkomu síðasta árs, og þá um leið gert grein fyrir umframgreiðslum og hvernig þeim hafi verið varið hverri fyrir sig. Það er því ekki rétt hjá hv. þm., að stj. hafi vanrækt þetta. Fjmrh. hefir skýrt frá þessu á hverju þingi og hefir því aðallega verið varið til þess að framkvæma nauðsynlegar samgöngubætur, svo sem brýr og vegi. Ég vona, að hv. þm. Ísaf. sé mjög ánægður með það.

Þá er ég loks búinn að svara hv. þm. Ísaf. Ég skal játa, að ræða hans var að mörgu leyti skemmtileg, fróðleg og eftirtektarverð. Þetta er líka hans fyrsta landskjörsræða. Ég efast ekki um, að það, sem hv. þm. sagði um stefnu okkar framsóknarmanna í landbúnaðarmálum, var vel meint. Hann vildi gerast kennari okkar í landbúnaðarmálunum. Við framsóknarmenn munum ekki sækja neina fræðslu til hans um þetta efni. Ég veit, að hann getur veitt betri fræðslu á öðrum sviðum.

Hv. þm. sagði í þessari fyrstu landskjörsræðu sinni, að við framsóknarmenn lifðum á syndum íhaldsins. Ég vona, að flokkur hans eigi líka eftir að græða mikið á syndum þess, og ég vona líka, að þó að flokkur okkar eigi áfram eftir að stækka og stækka, þá þurfi ekki jafnframt af því að leiða, að flokkur hans stækki ekki nóg líka — t. d. við landskjörið næsta.