04.03.1930
Efri deild: 40. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í C-deild Alþingistíðinda. (1762)

205. mál, almennur ellistyrkur

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Á Alþingi 1929 bárum við hv. þm. Snæf. og ég fram frv. um breyt. á lögum nr. 17, 9. júlí 1903, um almennan ellistyrk. Þessu frv. var vel tekið hér í deildinni og var afgr. til Nd. með 13 shlj. atkv., eftir að gerðar höfðu verið á því nokkrar breyt., sem við flm. gátum eftir atvikum sætt okkur við. En í Nd. andaði kaldara í garð frv. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. í Nd. (HStef) gerði grein fyrir áliti fjhn. á þskj. 414 (sjá A-deild Alþt. 1929), og talaði hann af full­um skilningi um nauðsyn þess að hækka ellistyrkinn. En því miður kom fram vöntun á þessum skilningi hjá öðrum hv. þm. í Nd. Einkum bar á þessu skilnings­leysi hjá hv. 2. þm. Reykv. (HV) og hv. þm. Ísaf. (HG), þótt undarlegt megi virð­ast, því að sjálfsagt þykjast þeir bera hag gamalmennanna fyrir brjósti ekki síður en aðrir. Þessir hv. þm. kölluðu frv. hé­góma og kák og fóru um það fleiri óvirð­ingarorðum, sem ég hirði ekki að rekja hér. En umr. snerust þó einkum um ímyndaða örðugleika á framkvæmd lag­anna á því ári, sem þau gengju í gildi.

Hið eina, sem var eitthvað í áttina til þess að geta talizt rök á móti frv., var það, að frv. myndi tefja fyrir framgangi væntanlegrar almennrar tryggingarlög­gjafar. En á þeirri löggjöf bólar ekki ennþá. Að vísu er komin fram till. um skip­un mþn. til að athuga alþýðutryggingar. En sú till. kom líka fram á síðasta þingi, án þess að hún fengi afgreiðslu, og má því búast við, að bið geti orðið á almennri löggjöf um þetta efni.

Ég ætla ekki að endurtaka það, sem sagt var um málið í fyrra, en vil aðeins taka það fram, að þetta frv. er ekki sett til höfuðs almennri tryggingarlöggjöf. Þetta frv. er einmitt spor í áttina til slíkr­ar löggjafar, sem ég tel sjálfsagða og nauðsynlega.

Frv. á þskj. 205 er shlj. frv. eins og það lá fyrir Sþ. í fyrra. Ég gerði þá grein fyrir efni þess í grg. og framsöguræðu, og sama gerði hv. 1. þm. N.-M. í Nd., og læt ég mér nægja að vísa til þess. Vil ég vona, að hv. Nd. hafi aukizt svo áræði, að hún sjái sér fært að samþykkja frv. að þessu sinni.

Frv. var athugað svo gaumgæfilega í fjhn. í fyrra og hér í hv. deild, að ég álít, að það ætti ekki að þurfa að vísa því til nefndar að þessu sinni.