27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég var ekki viðstaddur hér í deildinni í gær, þegar hv. þm. N.-Ísf. mælti til mín nokkrum orðum. Ég held samt, að mér hafi tekizt að fá aðalatriðin úr ræðu hans, svo að ég get vikið að henni fyllilega.

Hv. þm. minntist á það, að vinsældir mínar væru litlar hjá vissum mönnum í vissum stéttum. Þetta ætti að gleðja hv. þm., því það er í pólitík, eins og svo víða annarsstaðar, að eins dauði er annars líf. Ef þetta væri rétt hjá hv. þm., get ég ekki skilið í því, að hann og aðrir skuli þurfa að eyða eins miklum tíma til þess að vinna móti mér, sem raun ber vitni um. Ég ætla að nota tækifærið og færa hér fram ýms rök, sem benda alveg í gagnstæða átt við ræðu þessa hv. þm.

Það eru nú nýlega afstaðnar bæjar stjórnarkosningar hér í Reykjavík. Er það í fyrsta skipti, sem Framsóknarflokkurinn hefir boðið fram lista við þær kosningar. Það var ekki spáð vel fyrir flokki okkar. Andstæðingar hans sögðu, að hann hefði ekkert fylgi. Hv. þm. Dal. reiknaðist það til, að listinn mundi fá 200 atkv. og því engum fulltrúa koma að. Aðalmálgagn Íhaldsins, Morgunblaðið, var svo hlálegt, að það gerði þessa kosningabaráttu alveg ranglega að baráttu Íhaldsins við mig, í stað þess að hún var við Framsóknarflokkinn og fulltrúa hans. Ef þetta væri rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að ég væri illa liðinn í bænum, þá hefði spádómur hv. þm. Dal. átt að rætast, ef sú skoðun Mbl. var rétt, sem ég vil þó ekki halda fram, að kosningin snerist um fylgi mitt. En hvernig fór? Menn furðaði ekki á því, hvað Sjálfstæðisflokkurinn eða Jafnaðarmenn fengu — það vissu menn fyrir —, heldur hvað Framsóknarflokkurinn fékk mörg atkv. Framsóknarflokkurinn fékk sjöfalt meiri atkv.fjölda en flokksbræður hv. þm. Dal. höfðu búizt við. Þetta er í rauninni lítilfjörlegt atriði. Mér dettur ekki í hug, að það hafi verið mín vegna, að Framsóknarflokkurinn hafði svo mikið fylgi. Ég verð aðeins að geta þessa, fyrst hv. þm. vék að þessu og aðalmálgagn flokks hv. þm. túlkaði málið svo, að ef Framsóknarflokkurinn tapaði, væri það minn ósigur.

En þá er það líka minn sigur, að flokkurinn sigraði. En held því, að hv. þm. hafi reiknað rangt í þessu efni.

Þá vil ég líka minna á annan voða, sem líka snertir hv. þm. og hans bardagaaðferð.

Hv. þm. var ekki ákaflega orðavandur. Orðalagið var eins og þegar ómenntaðir eða drukknir menn eru að tala. Svo vonskuþrungin var ræða hans. Ég get ekki skilið, hvernig hv. þm., sem ekki er talinn ógreindari en sumir aðrir félagar hans í íhaldinu, gat látið sér slíkt orðbragð um munn fara. Ég vil segja honum það, að svona framkoma gagnvart mér og mínum samherjum hefir ótvírætt orðið okkur til mikils gagns.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. veit það, að það er einskonar gagnkvæmt leynisamband milli mín og Morgunblaðsins, hefi einu sinni heyrt sagt, það var víst Jakob Möller sem hélt því fram, að ég borgaði fyrir að skrifa vitlausar greinar í því blaði og skriði svo á heimsku Morgunblaðsins. Þetta var vitanlega gamanyrði. En sambandið, sem er milli mín og Morgunblaðsins, er þannig, að Morgunblaðið flytur um mig 1–3 skammargreinar á dag allan ársins hring. Þetta lítur á yfirborðinu út eins og það muni skaða mig, og þannig er til þessara árása stofnað. Þar sem Mbl. er dagblað og kemur í flest hús í bænum, en Tíminn, sem leiðréttir villur Mbl., aðeins vikublað og kemur í miklu færri hús í bænum, mætti búast við, að hér væri ójafn leikur, íhaldinu í vil. En raunin er samt sú, að af þessum skömmum Morgunblaðsins hefi ég fengið mitt aðalfylgi, því ekkert hefir sannfært fólk betur um að ég sé á réttri leið, en að það málgagn, sem þjóðin veit að vinnur jafnan það ógagn, sem það framast getur hverju góðu máli, og er að máli og formi til eitt göfumæli, skuli vera mér fjandsamlegt. Um aðalmálgögn íhaldsins má segja, að þau leggi jafnan til mála það heimskulegasta og illgirnislegasta, og það á hinn ódrengilegasta hátt. Það er ekki lítils virði að hafa slíkt blað á móti sér. En hvað græðir svo Mbl. á mér? Það græðir það, að sorinn úr fólkinu hér í Reykjavík, sérstaklega fólk, sem styður Storm og Framtíðina auk hinna viðurkenndu flokksblaða, þjappar sér ennþá fastar utan um Morgunblaðið, eins og t. d. Páll, sem ekki lokar. Slíkir menn verða ennþá meiri vinir Morgunblaðsins en áður. Slíkir menn heimta daglega ákveðið magn af ósannindum, rógi og níði um mig og nokkra aðra af andstæðingum kyrrstöðuflokksins. Aukið fylgi þessa fólks er gróði Morgunblaðsins. Það vill heldur hafa illa með sér en enga. Og til þess að ná í þessa menn notar það mig sem agn. Þegar ég er til lengdar burtu úr bænum, verður Mbl. dauft og bragðlaust, en við heimkomuna verður Mbl. eins og hálfskrælnaður eyðimerkurgróður, þegar regnið kemur og færir nýtt líf í hálfdauða leggi og blöð. Þannig útvega ég Mbl. sterkt og öruggt fylgi hjá dreggjum þjóðfélagsins, en það eykur aftur fylgi mitt hjá þeim hluta þjóðarinnar, sem er sæmd að þiggja frá stuðning í almennum málum.

Þá kom hv. þm. að máli, sem nú er fyrir Ed., frv. um fimmtardóm. Það mál kemur væntanlega hingað áður langt um líður, og er því ekki þörf að eyða miklum tíma í það, sem hv. þm. sagði.

Hv. þm. vildi ekki breyta nafninu á aðaldómstól okkar. Hann vildi ekki nafn frá þjóðveldistímanum. Hann vildi ekki leggja niður nafn, sem er sett á okkar kúgunartíma, nafn, sem er útlent og málfræðilega rangt. Það er eins og hann óttist hið fagra nafn aðaldóms Íslendinga frá þjóðveldistímanum, frá frelsisöld þjóðarinnar. Þessi lítilsigldi hugsunarháttur er til hjá gömlum innlimunarmönnum, sem aldrei hafa trúað því, að Ísland gæti verið annað en útkjálki af Danmörku.

Þegar hæstaréttarlöginn voru gerð árið 1919, voru þeir, sem að þeim stóðu að sumu leyti á líku stigi og hv. þm. N.-Ísf. Þeir fóru sem sé til Danmerkur og ekkert nema til Danmerkur, og fengu þar lánaða fyrirmynd og nafn að úrslitadómstóli fyrir Íslendinga. Engum þessara leiðtoga datt í hug Noregur, Svíþjóð, Sviss eða Þýzkaland og reynsla þeirra þjóða. Þeir voru þessum löndum ókunnugir. Þeir, sem það frv. sömdu, þekktu t. d. ekki opinbera atkvgr. í dómstól.

Þetta var kannske afsakanlegt á þeim tíma. Það liðu ekki nema 2 ár frá því að hæstaréttarlagafrv. var samþ. og þangað til pólitískir vinir hv. þm. höfðu forystuna í því að enska lánið var tekið. Og það voru sömu menn, samherjar hv. þm., sem gerðu hvorttveggja. Það liggur nú fyrir fjárhagsnefnd Nd. skjal, sem sýnir tildrög enska lánsins og menningarástand þeirra manna, sem að því stóðu fyrir Íslands hönd, og þetta skjal er ritað af einum þeim manni, sem stóð að þessu verki. Eftir að fjármálaráðh., hv. 1. þm. Skagf., hafði veitt viðnám í þinginu og lagt fast á móti, að tekið yrði stórlán, var hann kúgaður til þess af fjárglæframönnum flokksins. Menn skyldu nú ætla, að fyrst fjármálaráðh. vildi ekki taka lánið, þá hefði forsrh. farið utan til þess. Nei, hvorugur þeirra fór til að taka lánið, en annarhvor eða báðar útveguðu landinu hæfilega umboðsmenn! til lántökunnar. Þeir leituðu til aumustu braskara Kaupmannahafnar og fundu þar menn til þess að vera hjálparhellur og forverðir þess manns, sem endanlega fékk umboð til að undirrita veðsetningu tollteknanna árið 1921. Í ýmsum skjölum þessa máls, sem hv. þm. hlýtur að hafa séð, er lýsi mjög átakanlega þeim ræfilsskap, sem kom fram hjá forráðamönnum íslenzku þjóðarinnar í þessu máli.

Jón heitinn Magnússon sagði, að sér fyndist engir hafa áhuga fyrir þessari lántöku, nema þeir, sem að því ynnu og vildu fá milliliðsgróða. Hin umrædda skýrsla ber þetta nokkuð með sér. Ein aðalsöguhetjan í þessum sorgarleik var danskur maður, oftast nefndur Kúlu-Andersen. Átti hann og annar maður til, sem virðist hafa lagt til samböndin viðskiptaþekkinguna í London, að fá lánað á bónbjörgum, og helzt hjá okrurum, fé til Lundúnaferðar. Gekk þeim erfiðlega að slá sér aura. Eitt sinn urðu þeir félagar að aflýsa farmiðum hjá Bennett, vegna peningaleysis. Loks var ferðin afráðin, og segir ein af söguhetjunum þannig frá í skýrslu sinni til þingsins á bls. 6: „Fór ég svo til kunningja míns — kl. var þá orðin 12 — og bað hann um 8000 kr. strax. Hann átti aðeins 4000 kr. heima, en lofaði hinu fyrir kl. 4 heim til mín. Stóð það heima. Allir vita, hvað slíkt kostar“. (Auðséð að peningarnir hafa verið fengnir hjá okrara). „Fór ég svo til Bennetts að fá farseðla. Var þá búið að sækja farseðla sendiherra og Andersens. Leitað var að Andersen á öllum vínstofum og hótelum og fannst hann loksins kl. 1 um nóttina, að því er sýndist dauðadrukkinn, í Gautagötu. Hann vissi ekkert um, hver hefði borgað farseðlana. Hann færi ekki fet nema hann fengi lánuð 100 sterlingspund til ferðarinnar. Lét ég hann eiga sig. Vissi að nr. á farseðlum okkar voru í röð, þannig að við yrðum að sitja saman. Hefi ég aldrei séð skemmtilegra „diplomat“-andlit en á sendiherra, þegar ég rétt eftir að Esbjerglestin lagði af stað, settist milli hans og Andersens, sem svaf í horninu á klefa okkar“. Áframhald ferðarinnar og vinnubrögðin í London voru eins og byrjunin. Eitt hundrað þús. kr. átti hv. 1. þm. Skagf. að borga milliliðum eins, og Kúlu-Andersen. Koma enn harðar kröfur á ríkissjóð til að bæta ofan á milliliðseyðsluna við enska lánið.

Það var flokkur hv. þm. N.-Ísf., sem tók enska lánið 1921. Þessi sami flokkur gerði hæstaréttarlögin 1919. Ég veit ekki, hve langt verður þangað til dómstólunum verður breytt. Hitt veit ég, að þjóðin er á allt öðru menningarstigi nú en fyrir 10 árum. Menn gera sig nú ekki ánægða með Kúlu-Andersen sem leiðtoga til fjármálaráðstafana fyrir Ísland, og menn gera sig heldur ekki lengur ánægða með útibússtjóra eins og hv. þm. N.-Ísf. Kem ég kannske að því síðar, hverja sögu hann á í íslenzkum fjármálum.

Ég hefi minnzt á enska lánið 1921, og þann manndóm, sem nánustu flokksbræður og yfirmenn hv. þm. N.-Ísf. sýndu þá. Sömu menn undirbjuggu hæstaréttarlögin 1919, og sömu menn fjandskapast sem mest þeir mega gegn því, að formi og vinnubrögðum úrslitadómstólsins sé breytt í samræmi við niðurstöðu og reynslu samtíðarinnar í hinum ágætustu menningarlöndum. En ef hv. þm. vill vita, hver Íslendingur hefir talað með mestri hörku um ófullkomleika núveranda aðaldómstóls landsins, þá er það Lárus Jóhannesson. Hann sagði fyrir undirrétti í Hafnarfirði, að ef nokkurt réttlæti væri til í landinu (í þessu tilfelli hjá þeim tveim dómstigum, sem um málið áttu að fjalla), þá yrði Tervani-skipstjórinn sýknaður. Hæstiréttur sakfelldi skipstjórann. Eftir orðum þessa íhaldsforkólfs og höfuðeiganda Mbl. hefir hæstiréttur mjög undarlega afstöðu til réttlætisins í landinu. En hvorki þessi hv. þm. né aðrir hafa nokkurntíma áfellt L. J. fyrir þessi orð. Líklega eru þeir honum sammála.

Þá var hv. þm. eitthvað að dylgja um framkomu mína í sambandi við héraðsskóla Sunnlendinga að Laugarvatni. Það mun hafa verið áframhald af rógi íhaldsblaðanna undanfarna daga, sem hefir gengið í þá átt, að ég hafi ætlað að taka með óleyfilegu móti vörur og peninga til þessarar húsbyggingar. Er því rétt að kryfja sögur þessar til mergjar. Það er sagt, að ég hafi stolið gólfplötum frá landsspítalanum. Það er sagt, að ég hafi stolið sementi frá skrifstofubyggingunni Arnarhvoli. Og peninga í Laugarvatnsskólann á ég að hafa tekið frá gjaldkera alþingishátíðarnefndarinnnar. Og hver er svo sannleikurinn? Að húsameistari selur byggingarnefnd skólans eitthvað af vegghellum frá landsspítalanum, sem af gengu og þurfti að koma í verð. Að verzl. Jóns Þorl. varð sementslaus í haust, og ekki varð lokið við fjölda hús hér í Rvík í tæka tíð af þessari orsök. Þá fékk húsameistari lánaðar nokkrar tunnur af steinlími handa Laugarvatnsskóla, frá þeim manni, sem hafði Arnarhvol í samningsvinnu og lagði til allt efnið sjálfur. Þetta eru hinar drengilegu aðfarir íhaldsmanna og blaða þeirra. Þeir segja ekkert við því, þó að einn af þeirra samherjum eyði heilli milljón af fé Landsbankans handa óreiðumönnum í átthögum sínum, en þeir reyna að ófrægja mig með algerlega ósönnum sögum um eyðslu af almannafé, sem hvergi hefir átt sér stað.

Hugsið ykkur, hvað hefði mátt gera fyrir alla þá peninga, sem ríkið tapaði á fjármálavesöld þessa hv. þm. þegar hann var útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði.

Fyrir það hefði mátt byggja t. d. fimm sinnum slíka byggingu sem Arnarhvol, og þeir hefðu nægt í mestan hluta kostnaðarins við landsspítalann. En þeir eru nú farnir fyrir bókstaflega ekki neitt. Það eina, sem hægt væri að færa hv. þm. til málsbóta, er það, að hann hafi ekki ætlað sér að tapa þessu fé. En þá er ekki eflir önnur skýring en sú, að hann hafi alls ekki verið fær um að gegna starfi sínu sem útibússtjóri, sökum gáfnasljóleika; að hann hafi ekki séð það, að þessum mönnum var ekki óhætt að lána.

En hvað gefur manni með slíka fortíð hug til þess, að ætla að koma fram á Alþingi sem fjármálamaður eftir slíka ósigra ?

Þá sný ég mér að hv. 1. þm. Skagf. Hann byrjaði að tala um áfengisverzlunina; get ég svarað honum og hv. þm. Borgf. í einu því sem að henni laut.

Það kemur illa við hv. 1. þm. Skagf. hvað áfengisverzlunin er miklu betur rekin nú en í hans stjórnartíð. Að þar er hætt að lána vínin, og þannig fyrirbyggt að nokkuð tapist af fé verzlunarinnar. Nú vildi hann halda því fram, að rekstrarkostnaður áfengisverzlunarinnar hefði aukizt síðan núverandi forstjóri hennar tók við, og að hann hefði orðið meiri við áfengisverzlunina 1928 síðara missirið heldur en var hið fyrra missiri meðan Mogensen stýrði. Til að fá fulla vissu um þetta efni hafa þeir Jón Guðmundsson og Börn Steffensen endurskoðendur áfengisverzlunarinnar verið beðnir um skýrslu, og hafa þeir svarað sem hér segir:

„Að gefnu tilefni vottum við undirritaðir, að þegar nákvæmur samanburður er gerður á rekstrarkostnaði Áfengisverzlunar ríkisins fyrra og síðara missirið 1928, þá verður raunin sú, að rekstrarkostnaðurinn er 15519,04 kr. lægri síðara missirið en hið fyrra.

Í skilagrein þeirri, sem endurskoðendur landsreikninganna fengu frá Áfengisverzluninni, mátti sjá, að síðara missirið höfðu verið greiddir skattar og fleira, sem ekki gerðu niðurstöðutölurnar einar sambærilegar“.

Bréf þetta sýnir það, að hv. 1. þm. Skagf. er ekki nógu varfærinn í fullyrðingum sínum, og að hann byggir á hálfum röksemdum.

Benda endurskoðendurnir á, af hverju misskilningur hans á landsreikningunum stafar.

Það er hvorki meira né minna en 15519,04 kr., sem sparazt hafa á rekstri áfengisverzlunarinnar einungis á fyrsta missirinu eftir forstjóraskiptin.

Hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf. hafa báðir komið ofurlítið inn á afkomu áfengisverzl. í ræðum sínum. Þeir töldu mig hafa auglýst vínin svo vel og hvatt menn til að neyta þeirra ósleitilega, að ekki væri furða þó vínverzlunin blómgaðist. Þó skrif mín hafi nú mikil áhrif, þá skil ég ekki í því, að þau hefðu margt til að reisa við vínverzlunina, ef sama sleifarlagið hefði verið á henni og í stjórnartíð íhaldsins. Ef haldið hefði verið áfram að lána ótakmarkað, að hafa fleira starfsfólk en nauðsynlegt er og að hrúga saman miklu meiri birgðum en þörf er á, myndi hafa orðið önnur útkoma.

Þá kem ég að þeirri blaðagrein minni, sem íhaldsmenn hafa gert svo mjög fræga, er ég skrifaði stuttu eftir stjórnarskiptin um áfengismálið. Ég vildi sýna fram á í henni, hvers vegna ekki var leggjandi í það fyrir minnihlutastjórn, eins og þá, sem nú starfar í landinu, að koma banninu á aftur, eða stofna til þess, með stjórnarframkvæmdum einum, þar sem ekki væri nægur stuðningur hjá þjóðinni til að standa að baki slíkri ákvörðun, og þar sem jafnstór stjórnmálaflokkur og íhaldið vildi ekkert annað en halda víninu í landinu.

Flestallir þingmenn greiddu að síðustu atkv. með Spánarsamningnum. En samt var mikill munur á afstöðu flokkanna til þess máls. Nægir því til sönnunar að benda á aðalflokksblöðin frá þeim tíma. Morgunblaðið tók kröfum Spánverja með gleði, en Tíminn reyndi aftur á móti í lengstu lög að halda upp kjarki þjóðarinnar til andstöðu.

Íhaldsflokkurinn sem heild gekk glaður að leik, þegar samþykkja átti nauðungarsamninginn við Spánverja, en Framsóknarmenn greiddu atkvæði með honum nauðugir.

Þó segi ég ekki, að Íhaldsmenn hafi tekið kúgun Spánverja undantekningarlaust með gleði, því hv. þm. Borgf. er óneitanlega í hjarta sínu fylgjandi útrýmingu áfengis í landinu, þó að hann sýni það ekki í vali flokksvína, því að megnið af öllum drykkjulýð landsins eru nú pólitískir samherjar hans. Hv. þm. Borgf. er bannmaður þangað til komið er nærri verðinu á þurkuðum saltfiski.

Svo var það aftur 1927, að átök urðu milli flokkanna um það, hvort reyna skyldi að spyrjast fyrir um fiskmarkað á Spáni í sambandi við íslenzk bannlög. Þá neitaði allur Íhaldsflokkurinn að láta hreyfa fyrirspurn um málið á Spáni.

Ég hafði í þessu máli þá sérstöðu, að ég var annar af tveimur þm., sem greiddu atkvæði á móti Spánarsamningnum, en ég lýsti yfir í nefndri grein, að þótt ég hefði sérstöðu í málinu, þá vildi ég ekki sem ráðherra gera neitt í málinu, sem væri í andstöðu við hinn yfirlýsta vilja þings og þjóðar. Vegna fiskmarkaðar á Spáni vilja Íhaldsmenn með engu móti halda til streitu bannmálinu. Þeir bera þess vegna að sjálfsögðu ábyrgðina á því að Spánarsamningurinn heldur áfram óbreyttur. Það verður ekki komið á banni, sem gagn er að, nema það sé vilji þjóðarinnar, og hún treysti sér að leggja eitthvað í sölurnar.

Þegar nú séð var, að við urðum að hafa vínið, þá lá næst að athuga, hvernig ætti að fara með það, svo að sem minnstur skaði væri að í landinu.

Ef leiðir mínar hefðu ekki legið víðar en hv. þm. Borgf., þá hefði ég líklega ekki séð fleiri hliðar á meðferð léttra vína en hann. Þó skoðun hans á vínnautn sé að miklu leyti rétt, eins og Íslendingar hafa farið með vín, þá er hún mjög einhæf. Ég er ekki að ásaka hann fyrir það, en hann má ekki ætla sér þá dul, þó að hann þekki drykkjuskap flokksbræðra sinna, að hann þekki ofan í kjölinn meðferð þeirra þjóða á vínum, þar sem vínyrkja hefir verið stunduð frá fornöld.

Í hinni margumtöluðu grein minni gerði ég nokkurn samanburð á vínnautn norðurlandaþjóða og suðlægari þjóða. Ég sýndi fram á, að ef menn hefðu vín um hönd, þá ættu menn að gera það eins og siðaðir menn. Ég sagði, að gegnum aldaraðir hefðu margar hinar suðlægari þjóðir, t. d. þær, sem búa kringum Miðjarðarhafið, notað hin léttu borðvín sem hressingu með hverri máltíð, og þó þekktist varla ölvun í þessum löndum. Í norðlægum löndum nota menn á sama hátt öl, te og kaffi: Við Íslendingar höfum um langa stund notað kaffi sem hressingardrykk með mat, í stað þess að Ítalir, Frakkar og Spánverjar nota létt vín. Það er dálítið eitur í kaffi, te og öli, eins og í léttu víni, og við erum sjálfsagt heldur verr farnir Íslendingar að drekka jafnmikið kaffi og við gerum. Og fullvíst er það, að vínið, sem margar suðurlandaþjóðir nota, hefir ekki meiri heilsuspilli í för með sér fyrir almenning en kaffidrykkja Íslendinga. Ég benti í þessari sömu grein á þann leiða galla á Íslendingum og fleiri af Norðurlandaþjóðunum, að þeir, sem nota vín á annað borð, vilja hafa það sterkt og drekka mikið. Þeir vilja drekka til þess að verða fullir. Hv. þm. Borgf. hefir ekki séð, að t. d. Frakkar og Rínardalsbúar nota borðvín með mat og verða ekki fremur kenndir en hv. þm. Borgf. verður af kaffisopanum, sem kjósendur hans gefa honum þegar hann er að laumast á tánum um kjördæmið og telja bændum trú um að hinir pólitísku samherjar hans, vörukaupmenn, togaraeigendur og steingerðir embættismenn í Reykjavík, séu brennandi af áhuga fyrir því að létta lífsbaráttu sveitafólksins. Suðurlandabúar liggja ekki í spýju sinni eða brjóta allt og bramla á opinberum samkomustöðum eins og háskríllinn íslenzki, sem smyglar inn whisky, og lágskríllinn, sem svalar áfengisnautn sinni í farðavínanda.

Ég játa, að vínnautn, eins og hún birtist oftast hér á landi, er andstyggileg, og móti henni hefi ég barizt og með meiri árangri en margir landar mínir. Hv. þm. veit, að meðan stjórnin, sem hann studdi, sat að völdum, var drykkjuskapur á almannafæri sama sem óheftur, að þá voru skipin, sem fluttu fólk með ströndum fram, eins og fljótandi vínbúðir og barsmíðar og áflog ölvaðra manna voru daglegt brauð. Þegar útlend skip komu, fóru Íslendingar alltof oft fram í þau og þömbuðu vín, þangað til þeir urðu ölvaðir og orðnir sér og landi sínu til minnkunar.

Hv. þm. veit líka, að tekizt hefir að vinna bug á þessum ósóma að nokkru leyti. Að miklu minna er drukkið af sterkum vínum en áður. Hv. þm. Borgf. hefði eflaust viljað þurrka út drykkjuskapinn í stjórnartíð bandamanna hans. En hann hefir nú á stjórnmálasviðinu lagt lag sitt við þannig menn, að hans góði vilji á þessu sviði hefir komið að litlum eða jafnvel engum notum fyrir þjóðfélagið.

Það er vitaskuld ekki mér einum að þakka, að drykkjuskapur á almannafæri, bæði á sjó og landi, hefir minnkað stórkostlega síðan haustið 1927. Eftir stjórnarskiptin komu nokkrir af leiðtogum templara til mín og spurðu, hvað ég gæti gert til að draga úr vínnautninni. Ég sagðist ekki geta breytt löggjöfinni gagnvart Spánverjum, nema sæmilegur meiri hluti þjóðarinnar vildi taka afleiðingunum, og ekki komið fram umbótum viðvíkjandi vanbrúkun á víni í landinu nema með þeirra aðstoð. Stjórn templara og landsstjórnin unnu síðan saman að umbótum á áfengislöggjöfinni. Löggæzlan hefir verið styrkt, mest í Reykjavík, en nokkuð úti um landið. Farþegaskipin við strendurnar eru nú þurr og þar er aldrei neinn drykkjuskapur. Smyglun er heft eftir því, sem fjárhagur landsins leyfir. Á varðskipum landsins, þar sem vín var þráfaldlega haft um hönd, er nú fyrirskipað að hafa enga tegund víns um borð nema í lyfjakistu. Og ef maður á varðskipum landsins er staðinn að vínnautn á skipunum, eða er ölvaður á almannafæri í landi, þá er slíkum manni tafarlaust vísað úr vistinni. Hefir þessi fyrirskipun orðið til að koma æskilegu lagi á þessa hlið starfsins á varðskipunum. Ásakanir íhaldsmanna í minn garð í sambandi við áfengismálið eru þá fyrir það, að úr því vín er í landinu, þá sé það fremur góð en léleg vara, að vínið, meðan það er til á Íslandi, sé notað í hófi, en ekki í óhófi, að hafa komið fram löggjöf, sem gerir drykkjuskap á almannafæri vítaverðan, og nokkru eftirliti í því efni. Að farþegaskipin með ströndum fram eru ekki lengur fljótandi knæpur og að áfengisnautn á varðskipum landsins varðar nú stöðumissi, í stað þess að íhaldið hafði komið því lagi á, að vín þótti sjálfsagt til risnu á varðbátunum.

Þá skal ég drepa á þann hvalablástur, sem orðið hefir út af því, að blandað var saman einhverjum gömlum víntegundum, sem íhaldið hafði keypt, en gengið erfiðlega að losna við í tíð fyrrverandi forstjóra. Það var ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að hella þessum gömlu birgðum niður eða að reyna að selja þær. Ef því hefði verið hellt niður, hefði þurft að kaupa vín í staðinn, úr því skylt er að hafa vín á boðstólum. Það hefði því verið fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina og hófseminni til engra bóta. Og ætli það sé ekki nokkuð sama, hvort víninu er hellt saman hér eða suður á Englandi eða Spám? Ég er viss um, að hv. þm. Borgf. hefði haldið klukkutíma ræðu út af því, ef víninu hefði verið heilt niður. (PO: Það hefði þá verið lofræða). Nei, þá hefði nú vaknað sparnaðarhugurinn í hv. þm. Hann er nógu skynsamur til að sjá, að það var ekkert verra að láta þetta vín renna um kverkarnar á íhaldsmönnum heldur en að panta annað sunnan af Spáni til þess. Árásirnar út af þessu eru því ekki annað en hótfyndni, og byggðar á vísvitandi rangsleitni í garð þess manns, sem tók við áfengisverzluninni í vesöld og niðurlægingu og hefir nú gert hana að vel starfræktu fyrirtæki.

Hvernig sem annars er reynt að ófrægja núverandi stjórn fyrir áfengismálin, þá mun óhlutdræg rannsókn jafnan sýna, að í stað þess að íhaldið lét líðast opinbert ölæði, hvar sem var á sjó eða landi, hlynnti, ef nokkuð var, að misbrúkun lækna á áfengi, keypti mikið af lélegri vöru í áfengisverzluninni, lét stundum, að því er virðist, undan frekju flokksmanna, eins og Garðars Gíslasonar, sem heimtaði að vera milliliður, lánaði læknum og ýmsum öðrum áfengi, og tapaði á því stórum upphæðum, og hálffyllti áfengisverzlunina með pólitískum skjólstæðingum íhaldsins, þó að margir þeirra væru lítt til vinnu færir, og gerðu þannig starfræksluna miklu dýrari en þörf var á, eins og framangreint vottorð frá núverandi endurskoðendum sýnir, þá hefir núverandi stjórn gert það, sem hægt var að gera til að halda áfengisbölinu í skefjum. Og það, að benda þjóðinni á að nota hin suðrænu vín að fordæmi siðaðra þjóða, meðan sú sala er annars lögleyfð, getur varla talizt veruleg höfuðsynd.

Hv. 1. þm. Skagf. var að spyrja eftir „bláu bókinni“, hvers vegna hún færi ekki að koma. Það er nú vegna þess, hvað æðsti dómstóllinn okkar er seinvirkur. Það vantar nefnilega ennþá bæjarfógetadóminn, og vona ég, að hann fari nú að koma, og þá verður farið að ljúka við þessa merku bók.

Ég vona annars fastlega, að dómurinn fari að koma. Annars gæti farið um vaxtatökumálið og dóminn í því eins og sagt er um sýslumann nokkurn, sem var oft í lengra lagi með suma dóma sína. Einu sinni var kært til hans út af stuldi á lambi. Fimmtán ár liðu, og þá kom sýslumaður með dóminn, en maðurinn sem afbrotið hafði framið, var löngu dauður.

Hv. 1. þm. Skagf. þótti það undarlegt, að núverandi stjórn skyldi finna hús það við Menntaskólann, sem átti að vera lestrarsalur fyrir nemendur, en hefir verið lokað í 70 ár og var að litlu meira gagni fyrir nemendur heldur en þótt það hefði staðið í fjarlægu landi. Ég veit eins vel og hann, að fólk hefir séð bókasafnshúsið. En ég hefi sannað, að þeir; sem átta um það að hirða, létu það liggja eins og grafinn fjársjóð mannsöldrum saman. Þegar hv. þm. segir, að hann hafi daglega komið á þetta safn í 6 ár, er auðséð, að hann veit ekki hvað hann er að tala um. Hann blandar saman lestrarfélagi pilta, „Íþöku“, og þessu gleymda bókasafni, staðnum, sem ég hefi reynt að gera nothæfan fyrir nemendur, og tekizt að leysa það mál.

Hv. þm. var að tala um, hversu yndisleg sambúðin hefði verið í skólanum á sinni tíð. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma en ég hefi gert. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera að reyna að falsa sögu skólans. Ég hefi bent á „pereatið“ og lýsingar Einars Kvarans og Gests Pálssonar á skólanum í kringum 1890, lýsing Guðmundar Hannessonar litlu seinna og loks púðursprengingarnar og eldspýtnadreifingarnar skömmu eftir aldamótin, þegar litið var á pilta eins og glæpamenn og þjófa, eins og bækur skólans bera með sér. Hv. þm. sagði, að lítið hefði borið á slíku á seinni árum, en ég tók dæmi frá vorinu sem leið um það, hvernig formið er enn í skólanum; og hversu litla lipurð stjórn skólans hefir sýnt gagnvart sanngjörnum kröfum og þörfum ungra manna. Sá skóli, sem er svona, þarf að lagast vegna þarfa þjóðarinnar.

Hv. 1. þm. Skagf. lét eins og það væri einhver óttalegur glæpur, sem ég hefði framið með því að reyna að hindra, að bekkir skólans í gagnfræðadeild væru tvískiptir. Heilaga einfeldni! Veit ekki hv. þm., að bekkirnir eiga ekki að vera tvískiptir, voru það ekki fyrr en til skamms tíma og að húsrúm leyfir það ekki. Þegar hv. þm. var kennslumálaráðherra; framdi hann lagabrot með því að hafa bekkina tví- og þrískipta og bæta við kennurum, sem var borgað eins og þeir væru fastir kennarar, þótt engin lög væru til um það. Það er hægt að ásaka fyrrverandi stjórn fyrir það, hvað ört hún lét skólann vaxa, og hirti lítt um heilsu og líf nemenda. Skólinn hefir verið argasta berklabæli, og ekki veit ég, hvað hörð orð ég má hafa um yfirmenn hans, fyrrv. kennslumálaráðherra, og þá ekki sízt hv. 1. þm. Skagf. fyrir að hafa hreint ekkert gert í því máli. Sum árin veiktust 20–30 nemendur af brjóstveiki, enda var það engin furða, þegar skólinn var yfirfylltur eins og sjóbúð og vanhirtur um viðhald og aðgerðir að sama skapi. Það var ekki hægt að uppfylla frumlegustu hreinlætiskröfur. Ég veit, að til eru foreldrar, sem ásaka mig fyrir að takmarka inngöngu í skólann, en ég tek mér það ekki nærri. Meðan ég hefi yfirumsjón skólans með höndum, verð ég að hafa vit fyrir þeim fáráðu foreldrum, sem keppast við að koma börnum sínum í yfirfylltan skóla, þar sem heilsa og líf unglinganna er í voða. Ég veit, að það gleður hv. d., að þótt berklahættu sé ekki útrýmt í skólanum, hefir borið miklu minna á henni í vetur en um mörg undanfarin ár, og þakka ég það því, að nú eru minni þrengsli í skólanum og hægt að koma við meira hreinlæti. Það er búið að mála og dúkleggja, koma loftræsting fyrir á viðeiganda hátt, fá meira „sport“ inn í skólann og útbúa sérstakt fatageymsluherbergi handa nemendunum auk margra annara umbóta. Ég held að hv. 1. þm. Skagf. megi vera viss um það, að ég hefi ekki skorið sundur lífsþráð nemenda. Það er hæðni örlaganna, að þessi hv. þm. skuli segja þetta, þar sem ég hefi einmitt átt þátt í að minnka til stórra muna sýkingar- og berklahættu við þennan stærsta skóla landsins.

Hv. þm. endaði mál sitt á því, að við Framsóknarmenn værum ófáanlegir til að nefna flokk hans því nafni, sem honum bæri, og mundum við gera það af hræðslu við Dani. Ég býst nú við, að Dönum sé sama bæði hvað flokkurinn heitir og hvað við köllum hann. Annars hefi ég aldrei áfellt Íhaldsmenn fyrir það, hvað þeir kalla sig. En ég hefi bent þeim á, hvað það er hlægilegt, að þeir skuli kalla sig Sjálfstæðismenn, þeir, sem eru linastir allra flokka um menningarlegt, pólitískt og fjárhagslegt sjálfstæði okkar. Ég hefi enga trú á, að þegar við förum að byggja upp okkar raunverulega sjálfstæði, verði nokkur verulegur veigur í Íhaldsmönnum, að örfáum undanteknum. Það sem ég hefi áfellt þá fyrir, er sú firra, að þeir, skuli ætla sér þá dul, að byggja sína flokksframtíð innanlands á því að skrökva upp á erlenda þjóð, að hún beri illan hug til okkar og sé að gera okkur rangt til og hafi sýnt sig í innlimunartilraunum, þótt engin rök verði leidd að því, að svo sé. Það getur enginn flokkur byggt sitt líf á því að skrökva upp sakargiftum á einstaklinga eða þjóðir. Okkar sjálfstæðisbarátta er í því fólgin. að gera einstaklingana frjálsa og sterka, svo að þeir geti staðið örugglega gagnvart allri útlendri áleitni. En aðalmaðurinn í Sjálfstæðisflokknum, hv. 1. þm. Skagf., hefir hjálpað Shellfélaginu inn í landið á þann hátt, sem alþjóð er kunnugt og greitt götu þess á allan hátt. Allir, vita, að Shell á Íslandi er ekki íslenzkt félag. Íslendingar eru ekkert nema jeppar, meira að segja hv. 1. þm. Skagf. sjálfur. Hann hefir misbeitt sinni stöðu sem ráðherra til að opna þessu gróðafélagi leið inn í landið. Ef við fáum mikið af slíkri pólitík, þýðir ekki, þó prentað væri „sjálfstæðismaður“ á bak og brjóst á hverjum einasta manni í flokknum. Enginn maður með heilbrigða skynsemi mundi trúa því, að þar sem borgararnir væru þesskonar „sjálfstæðismenn“ geti verið til lengdar um nokkurt þjóðarsjálfstæði að ræða.

Hv. þm. Borgf. álasar mér fyrir það, að ég væri að lasta Jón Magnússon dáinn. Ég hugsa, að ef Jón Magnússon hlustaði á okkur núna, sem vel getur verið, mundi hann bera mér það, að ég hefði verið hreinskilinn við hann, meðan hann lifði. Meðan við áttum saman sæti á þingi sagði ég honum óspart mitt álit á framkomu hans. Hv. þm. Borgf. má vera meira en lítið undarlega innréttaður, ef hann heldur, að ég álíti stefnu Jóns Magnússonar betri, þó að hann sé dáinn, heldur en meðan hann lifði. Ég get gjarnan sagt, að Jón Magnússon var miklu klókari að snúa snældu sinni en þeir, sem komu á eftir honum til mannaforráða í Íhaldsflokknum, og að mörgu leyti vel viti borinn maður, en þó mjög óheppilegur foringi fyrir vöntun á frelsi og kjarki. T. d. var hann forsætisráðherra þegar enska lánið var tekið. Var sú framkvæmd góð eða vænleg til þjóðheilla? Eigum við að vera að falsa söguna? Nei, hv. þm. Borgf.

Það er ekki hægt. Við eigum að segja rétt um þá dauðu eins og þá lifandi.

Það kom mjög illa við hv. þm. Borgf., þegar ég benti honum á hvað það væri, sem hann var að telja eftir t. d. smávægileg útgjöld við það að koma í lag stórum ríkisstofnunum. Á Vífilsstöðum var svo sem kunnugt er hörmulegt óstand á matreiðslunni og öllum þeim málum í 8 ár. Sjúklingarnir voru sáróánægðir með matinn og ráðskonuna. Þeir kvöldust og kvörtuðu, en ráðskonan var í náðinni hjá Íhaldinu og Sigurði lækni Magnússyni. Ég vissi um þetta óstand og ákvað að hafa ráðskonuskipti og gerði það. Eftir það hefir sannarlega kveðið við annan tón á meðal sjúklinganna. Ég valdi til starfans myndarstúlku, sem ég hafði sérstaka trú á að mundi búa vel um sjúklingana. Hér var ekkert hæli, sem hægt var að taka til fyrirmyndar í þessu efni, og nú kemur hv. þm. með sína syndaskrá og skammar mig fyrir að hafa veitt þessari konu 4–500 króna utanfararstyrk, þegar hún var að búa sig undir forstöðu fyrir ríkisstofnun, þar sem óþörf eyðsla á einni viku getur kostað landið miklu meira en það, sem eytt var til að koma starfrækslu þessari í lag. Væntanlega veit hv. þm., að það hefir skipt svo um á Vífilsstöðum, að nú er eins og dagur hjá nótt hjá því sem áður var. Hverjum einasta sjúklingi mundi þykja miður, ef þessi ráðskona færi frá þeim, í stað þess að þeir glöddust mjög, þegar hin fór. Hlutum eins og þessum er hv. þm. sí og æ að amast við. Hv. þm. sér svo mikið eftir þessum 4–500 krónum, að hann vill vinna til að hafa það ástand, sem áður var þar um aðbúnað sjúklinganna. En er það nú ekki merkilegt, að hv. þm. Borgf. skyldi aldrei með einu orði amast við því, að Eggert Claessen fékk 40 þús. kr. laun samhliða því sem hann var að setja bankann á hausinn? Hvers vegna er hv. þm. alltaf að telja eftir 12–18 þús. kr. til Páls Eggerts Ólasonar, en gleymir samherja sínum Claessen? Hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. segja: Það er ekki landssjóður, sem borgar Eggert Claessen! Heyr á endemi! Hver var það, sem tók enska lánið, ef ekki ríkið? Og hver fékk meiri hluta lánsins nema Íslandsbanki? Hver var það, sem tók milljónalán í National City Bank, ef ekki ríkið til að koma einni milljón af því í Íslandsbanka? Hver fær skellinn af Íslandsbanka, ef ekki ríkið? Þeir, sem hafa lesið skrif fyrrverandi ritstj. „Íslands“ í Vísi, vita, að hans höfuðröksemd er sú, að ríkið beri ábyrgð á Íslandsbanka; það sé svívirðilegt, ef sparifjáreigendur tapi, og svívirðilegt ef útlendingar tapi. Bæði af blöðum Íhaldsmanna og framkomu þeirra í þinginu sést, að þeir telja öll skakkaföll Íslandsbanka vera á ábyrgð ríkisins, og þá er ekki orðið langt yfir í 40 þúsundir Eggerts Claessens.

Nei, hv. þm. verður að játa það, að hann er ekki jafnréttlátur og glöggskyggn eins og hann er natinn við smámuni. Hann á að sjá að það var svívirðilegt að borga þeim óhappamönnum, sem tóku enska lánið, 100 þúsund krónur. Ég býst við, að það hefði kannske borgað sig að greiða Jóni Sigurðssyni forseta eða einhverjum slíkum manni 40 þúsund kr. í árskaup. En Eggert Claessen, sem hefir alltaf verið að hjálpa bankanum niður á við, átti sannarlega ekki skilið að fá 40 þús. kr. á ári fyrir sitt starf. Það er ekki það sem setur landið á hausinn, þó að matreiðslukona fái 400 króna styrk, eða landið eigi 2 bíla. Hv. þm. sér nokkur hundruð, en hann sér ekki 40 þúsundir greiddar af almannafé fyrir að stýra fjárhagsfyrirtæki út í milljónagjaldþrot, og hann sér ekki milljón á Ísafirði eða 2 milljónir á Seyðisfirði. Hann sér ekki Loft í Sandgerði eða Copland með 1200 þúsund krónur gefnar eftir af Eggert Claessen úr fátæklegum sjóði Íslandsbanka, sem þar að auki mun hafa lánað sama erlenda fiskspekulantinum a. m. k. 3/4 úr milljón veðlaust, til að halda áfram möguleikanum til að tapa. Það er þessi eyðsla, sem framkvæmd er af leiðandi mönnum í flokki hv. þm., sem setur okkur í skuldir og gerir það að verkum, að vextirnir eru 8%. Fátækir iðjumenn og dugnaðarmenn eru með háum vöxtum að borga milljónina, sem þm. N.-Ísf. og Claessen hafa lánað út í eintóma vitleysu.

Hv. þm. var að tala um, að ég hefði farið oft austur að Laugarvatni, og húsameistari hefði líka farið þangað vegna skólabyggingarinnar. Í fyrra fóru nokkrir þm. þangað austur, meðal annars nokkrir flokksmenn hv. þm. Á reikning hv. þm. yfir þessa ferð voru fáeinar brauðsneiðar, sem þessir menn fengu í nesti! Þetta sá hv. þm., rétt eins og það væri milljónin á Ísafirði! Annars gaf hv. þm. mér tækifæri til að sýna og sanna, hvernig allur þessi taumlausi Laugarvatnsskólarógur er til kominn. Morgunblaðið neitaði að taka við yfirlýsingu í þessu efni frá húsameistara og ríkisbókara. Hv. þm. segir, að það séu orðin svo mikil brögð að skammarlegri eyðslu minni í sambandi við Laugarvatnsskólann, að ef einhver fari þangað austur, þori hann ekki annað en lýsa því yfir í Morgunblaðinu, að ferðin sé ekki farin á ríkisins kostnað. Mér er sagt, að skólastjórinn við Kennaraskólann hafi nýlega farið með nemendum sínum skemmtiferð austur að Laugarvatni. Ég var ekki beðinn að lána bil í þessa ferð, en ég hefði eflaust gert það, ef til hefði komið. Ég lánaði til dæmis Vélstjóraskólapiltunum bíla austur að mjólkurbúinu í Ölfusi, og einnig hefi ég lánað Menntaskólapiltum bíla við og við, og nú seinast útvegað þeim brúkaðan bíl frá einum af spítölum landsins, til að leikfimikennarinn geti fljótlega flutt hópa af piltum inn í Laugar eða til róðra suður að Skerjafirði. Nú komu Kennaraskólapiltarnir austur, voru þar allan daginn og skemmtu sér vel á margan hátt, dönsuðu, syntu í lauginni og fóru á skautum á vatninu. Daginn eftir verða skólapiltar varir við, að bærinn er fullur af kviksögum um ferð þeirra. Stjórnin átti að hafa sent piltana austur með ærnum kostnaði. Skólastjórinn bað þá Morgunblaðið fyrir yfirlýsingu, sem byrjar svo: „Að gefnu tilefni“. En blaðinu þóknaðist nú að skilja þessi orð framan af og snýr þessu þannig við, að það verður engin leiðrétting. Það mátti ekki móðga slúðurberana. Athugasemdin í Mbl. var einmitt orðuð þannig af moðhausum blaðsins, að fólk með samskonar innræti og hv. þm. Borgf. ætti sem auðveldast með að trúa, að stjórnin hefði beðið piltana að fara þessa skemmtiferð.

En úr því að minnzt er óbeinlínis á Laugarvatn, þá ætla ég að segja það við hv. þm. Borgf., sem fulltrúa þess flokks, sem barðist mest á móti framkvæmd þess skólamáls, að það er litið svo á af mörgum, sem standa utan við — ég segi það ekki sem mína skoðun — að bygging þess skóla sé einhver glæsilegasti sigur af mörgum og miklum sigrum, sem stjórnin hafi unnið í nokkru máli, að hafa stutt fólkið austanfjalls í að koma upp þessum héraðsskóla eins og hann er og á þeim stað sem hann er. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en það vita allir, að eftir að búið var að veita fé til skólans og safna fé í Árnessýslu, þá eyðilögðu íhaldsmenn málið 1926, af því að þeir vildu ekki koma upp skóla fyrir bændabörnin austanfjalls. Þeir vöktu upp svo mikinn fjandskap, að nær einstætt mun vera í sveitum á Íslandi. Þeir settu sveit á móti sveit, mann á móti manni, svo að ekki mætti koma upp þjóðleg menntastofnun austanfjalls, þar sem unga fólkið úr héraðinu gæti verið vetrarlangt fyrir 400 kr. undir betri kringumstæðum en í Reykjavík fyrir 1200 kr. Síðan komu kosningar og stjórnarskipti. Þá verða til 5 hreppar í Árnesþingi, sem vilja leysa málið. Ég hjálpaði þeim eftir því sem ég gat til þess, í trássi við íhaldið, í trássi við „Moggann“ og alla hans aðstandendur. Það var reynt að ófrægja okkur fyrir þetta eins og hægt var. En nú er svo komið að hinir öflugustu Íhaldsmenn í Reykjavík, svo sem þeir Knútur Zimsen og Eggert Claessen, til að nefna menn, sem litið hafa átt samleið með mér í almennum málum, hafa sagt um Laugarvatnsskólann: Við erum á móti öllu því, sem Jónas hefir gert, nema þessu. Þarna hefir hann séð rétt. — Og út af þessum látlausa rógi og mótstöðu gegn þessum skóla hefir bygging þessa skóla meir verið tengd við mitt nafn heldur en ástæða er til og miklu meira en vera myndi, ef íhaldið hefði ekki eyðilagt málið 1926. En ég finn, að margir skoða þetta sem merkilegan sigur á heimsku og sundrung og illvilja fáráðra manna.

Þá eru það varðskipin. Hv. þm. hélt enn fram, að landhelgisgæzlan væri í ólagi, af því að skipin tækju einstöku sinnum farþega milli hafna. Hann varð nú samt sem áður að játa, að landhelgisgæzlan væri betri, af því að skipin væru orðin betri. Og líka hitt, að sá maður, sem ég hefi valið sem skipstjóra á „Ægi“, hafi unnið gott starf. Ég held hann sé fyrsti íhaldsmaðurinn, sem ég hefi heyrt unna þessum manni sannmælis. Ægir er búinn að taka eitthvað 10–12 togara á hálfu ári, og sektir þeirra eru orðnar um 150 þús. kr., ef ég man rétt. En leiðinlegt fannst mér, að hv. þm. skyldi þurfa að dylgja um það, að þessi skipstjóri hafi ekki alltaf gætt verks síns. En hann gætir starfa síns áreiðanlega með allt öðrum hætti en margur íhaldsembættismaður, sem sefur hálfan sólarhringinn, og vinnur eins lítið og hann getur þann tíma, sem hann er við verkið að nafni til. Því að áreiðanlega eru þeir dagarnir margir, þegar Einar Einarsson skipstjóri sefur ekki nema 3–4 stundir á sólarhring, en stendur dyggilega á verði uppi á stjórnpalli við sitt karlmannlega starf. Nei, Ægir var ekki sendur austur í fljótaferð eins og hv. þm. sagði, heldur blátt áfram í eftirlitsferð. Hefðu hv. þm. því vel getað sparað sér það mikla erfiði, sem þeir hafa lagt fram til þess að gera það hlægilegt. Og ef íhaldið vill bera saman landlegudaga Ægis við það, sem gerðist með varðskipin í tíð íhaldsins, þá mun ekki halla á Einar Einarsson.

Ég ætla þá að minnast á aðra hluti í sambandi við „Ægi“.

Það vita allir, að „Þór“ var við Vestmannaeyjar til þess að bjarga bátum þar, ef á lá. Og maður skyldi því halda, að þeir, sem stóðu fyrir þessum málum í Vestmannaeyjum, hefðu útbúið „Þór“ með þeim helztu tækjum, sem að liði gætu komið við björgun. Maður skyldi ennfremur halda, að þegar „Óðinn“ var smíðaður, hefði verið um þetta hugsað. En það var síður en svo. En þegar „Ægir“ var smíðaður í tíð núverandi stjórnar, þá lét ég tilvonandi skipstjóra kynna sér björgunarmál í Noregi, Þýzkalandi, Englandi og Danmörku. Hann er fyrsti Íslendingurinn, sem þekkir af eigin reynd öll björgunartæki, sem notuð eru í næstu löndum. Ennfremur bað ég skipstjórann að velja öll björgunartæki, línubyssu, „rakettur“, og þesskonar, sem gætu átt við hjá okkur. Þegar „Ægir“ kom var hann fyrsta skipið hér við land, sem hafði öll venjuleg tæki til björgunar, sem unnt var að koma við á slíku skipi. Síðan lét ég kaupa samskonar tæki á „Óðin“ og nokkru minni tæki á „Hermóð“, sem eiga þar við. Þegar ég tók við; var jafnvel ekki til almennileg línubyssa á „Þór“. En slíkar byssur, sem draga vel 250 metra, eru alþekktar í næstu löndum. Lenti oft í mestu vandræðum fyrir varðskipunum áður fyrr að ná sambandi við báta, sem átti að draga, af því að slíka línubyssu vantaði. Hættan var sú, að bátur og skip rækjust á, þegar verið var að kasta köðlum á milli. Svona var vankunnáttan fáránleg frá hálfu íhaldsforkólfanna, sem höfðu yfirumsjón með skipum þessum, að okkar menn þekktu ekki einföldustu áhöld.

Á „Óðni“ og „Ægi“ eru nú björgunarstólar, sem hægt er að draga eftir köðlum á milli skipa, allt að ½ kílómetra. Ef ekki er hægt að komast nær strönduðu skipi en í 500 m. fjarlægð, þá reynir björgunarskipið að skjóta „rakettu“ yfir í hið strandaða skip eða bát. Fyrst er skotið grönnum þræði og þá dregin sterkari lína og loks kaðall. Síðast er þessi björgunarstóll settur á kaðalinn og gengur eftir honum milli skipanna. Í hann binda menn sig fasta, og stóllinn gengur fram og aftur meðan nokkur maður er eftir, sem þarf að bjarga.

Ég hefði nú ekki farið að minnast á þessa hluti, ef ekki væri alltaf verið að núa mér því um nasir, að ég hirti ekkert um strandgæzlu- og björgunarmálin. En vegna þess leyfi ég mér að benda á, að á svona einföldu máli var næsta lítil þekking og lítil viðleitni sýnd til umbóta meðan íhaldið átti að sjá um þessi mál. En ég vona, að stjórnir þær, sem koma hér á eftir, haldi áfram í sömu átt, og alltaf verði á okkar björgunarskipum þau skárstu tæki, sem hægt er að koma við. Nóg er samt áhætta sjómanna.

Þá gerðist hv. þm. Borgf. svo djarfur að fara að tala um loftskeytafrv. Og hann reyndi að afsaka sig, en ásaka mig. Hann sagði hvorki minna né mjórra en það, að stjórnin hefði þegar heimild til alls þess, sem farið er fram á í frv. Ég hefði gaman af að sjá framan í forstjórana í Kveldúlfi, þegar þeim væri skipað að gefa drengskaparvottorð um skeytin, og þegar farið væri að segja yfirleitt við þau skip og félög, sem mest brjóta: Þið fáið ekki að ráða orðalagi á skeytunum, sem þið sendið. Fróðlegt yrði ennfremur að sjá, hvað íhaldsmenn segðu, þegar farið væri að dæma togaraeigendur þá, sem ekki vildu hlýða reglum stjórnarinnar, eftir lögum, sem íhaldið hefir fellt á Alþingi Það eru einhver mestu ósannindi, sem hafa sögð verið á Alþingi, þegar þessi hv. þm. segir, að þetta frv. hafi verið borið fram án tilefnis. Enda vita allir, að það er Kveldúlfur, sem vill ekki hafa þetta eftirlit, og önnur félög, sem standa undir yfirumsjón formanns Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. Og hv. þm. Borgf. hefir viljandi látið ginna sig eins og þurs í þessu efni. Hann hefir með atkvæðagreiðslu sinni um loftskeytafrv. sannanlega gengið í félag með eigendum veiðiskipa, sem eru að svíkjast inn í landhelgina. Sá blettur verður aldrei af honum þveginn; höndin er svört orðin og hv. þm. sér það, og þjóðin sér það líka. Hann getur verið viss um, að einhverjir sjómenn á Akranesi muni þakka á viðeigandi hátt stuðninginn við eigendur Belgaum, Egils Skallagrímssonar og annara brotlegra togara. Íhaldsmönnum tókst meðan ég var veikur að drepa frv. Landhelgis- þjófarnir hrósa nú sigri, en brosa í laumi í kampinn að hv. þm. Borgf., sem á að vera málsvari sjómannanna á Akranesi, en er í raun og veru viljalaust verkfæri í höndum togarafélaganna í Rvík, eins og atkvæðagreiðsla hans sýnir. En slíkar aðfarir mættu gjarnan koma þeim í koll, sem eru að hjálpa togurum að ræna björginni frá fátækum fiskimönnum á friðuðu svæði. Áður en Einar Einarsson tók Belgaum við Snæfellsnes nýlega, þá sögðu sjómennirnir vestra: Þessi stóri, grái togari er nú búinn að vera hér 4 daga og rífa netin okkar og eyðileggja aflann. Vestur á Snæfellsnesi verður það metið, að Belgaum var hremmdur í landhelgi: Og þar líta sjómennirnir allt öðrum augum á það, hver munur sé á landhelgisgæzlunni eins og hún var hjá íhaldinu og eins og hún er nú heldur en hv. þm. Borgf.

Ég skal ekki segja, hvað langt líður þangað til hið ísl. þjóðfélag hefir komið lögum yfir landhelgissvikin. En ég veit það, að við þetta mál skilur þjóðin ekki fyrr en búið er að beygja íslenzku landhelgisþjófana undir íslenzk lög og réttarframkvæmd. Það getur svo farið, að minna bros verði á vörum hv. þm. Borgf. og eigenda Kveldúlfs, þegar sjómenn eru búnir að greiða atkvæði, um þetta mál við næstu kosningar. Því að það vita allir, sem eitthvað þekkja til þessa máls, að á hverjum degi fara þessi leyniskeyti út frá íslenzkum togarafélögum til skipa þeirra, einungis í því skyni að gefa fregnir um varðskipin, til að hægt sé að laumast í landhelgina, þegar skipin er fjarri. Þetta er ástæðan til þess, að togarafélögin hata allar hömlur á þessu sviði.

Að endingu vil ég nefna það, að það hefir nú varla neitt íhaldsblað komið svo út um langan tíma, að ekki sé ég ófrægður fyrir það, ef einhver maður fær að fara milli hafna með varðskipi um leið og það fer í eftirlitsferð. En ég býst nú naumast við, þó að íhaldið komi aftur til skjalanna, að þetta muni hætta. Hv. þm. Borgf. gat ekki neitað því, að það var vel byrjað í tíð íhaldsins, þegar „Óðinn“ var sendur í Borgarnes til þess að sækja þáverandi forsætisráðherra, hv. 3. landskjörinn, þegar hann kom úr pólitískum leiðangri vestan úr Dölum. Ég veit ekki annað en Þórarinn á Hjaltabakka hafi unað því ágætlega að ferðast með varðskipi tvisvar eða þrisvar, er hann var að fara til og frá nefndarstörfum í Reykjavík. Hvernig mundi þetta verða eftir stjórnarskiptin? Ætli íhaldsmenn yrðu harðari af sér en ég, þegar hv. þm. Barð. þarf að fara heim. Ég var einmitt svo eftirlátssamur, að ég leyfði þessum hv. þm. að fara í kvöld áleiðis heim til sín, um leið og skipið fór í eftirlitsferð til Vesturlands. Hann veit, að ég tel þetta ekki eftir, hvorki flokksmönnum né andstæðingum. Mín hjálp nær til allra þeirra, sem ég álít, að maðurgeti meinfangalaust greitt götu fyrir, hvort sem það nú heldur eru Framsóknarmenn eða Íhaldsmenn.