08.04.1930
Efri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í C-deild Alþingistíðinda. (1773)

205. mál, almennur ellistyrkur

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er vegna brtt. þeirra hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. landsk., að ég tek til máls. Ég get fallizt á, að það væri gott og blessað, ef nokkrar líkur væru til, að þær næðu fram að ganga.

Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, miðuðum við flm. frv. nú við meðferð hv. Nd. og Sþ. á því í fyrra. Við gerð­um ekki ráð fyrir, að það næði fram að ganga með þeim ákvæðum, sem felld voru í Nd. í fyrra. Hv. þm. A.-Húnv. gaf í skyn, að ef Nd. gæti ekki fallizt á brtt., þá væru þeir hv. 6. landsk. reiðubúnir að samþ. frv. án þeirra, þegar það kæmi hingað aftur. En það mundi tefja málið, og hvað lítil töf sem er getur verið háska­leg fyrir framgang þess, þar sem talað er um að slíta þingi fyrir bænadaga. Ann­ars lýsi ég því yfir, að það mundi engan hafa glatt meira en mig, ef hægt hefði verið að koma frv. í gegnum þingið með þessum breyt. Því meiri tekjur sem sjóð­unum eru ætlaðar, því meira fé kemur vitanlega til úthlutunar, og það er aðalatriðið, sem fyrir okkur flm. vakir.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði um, að þó þm. væru mjög staðfastir menn, gæti komið fyrir, að þeir skiptu um skoðun, og viðurkenni ég það. Ef þeir hefðu nú einmitt breytt um skoðun á þessu máli síðan í fyrra, þá mundi það horfa allt öðruvísi við nú. En ég tel þó mjög hæpið, að byggja megi á því, að svo hafi viljað til. Og okkur flm. mundi þykja það mjög illa farið, ef tilraun okkar til að auka styrk­inn til gamalmenna yrði enn að engu, og hygg ég, að fleiri hv. dm. líti svo á. Ég verð því að vara alla þá, sem vilja eindregið, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, við því að greiða 1. og 2. brtt. á þskj. 447 atkv.

Öðru máli er að gegna með 3. brtt.; hana tel ég til bóta, og hún getur varla stofnað málinu í hættu. Ef mér hefði dottið í hug, vegna persónulegs kunnug­leika á úthlutun styrksins, að hlutdrægni ætti sér stað, þá hefði ég sjálf tekið upp þetta ákvæði. En ég hefi aldrei orðið slíks vör hér í Reykjavík. En ég viðurkenni, að hlutdrægni í úthlutun styrksins getur átt sér stað, og því er rétt að setja þennan varnagla í frv.

Held ég, að ég hafi svo ekki fleira um þetta að segja. Ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með 1. og 2. brtt. á þskj. 447, en greiði 3. brtt. atkv. með ánægju.