08.04.1930
Efri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í C-deild Alþingistíðinda. (1777)

205. mál, almennur ellistyrkur

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég get verið þakklát hv. deild fyrir þann velvildarhug, sem hún hefir sýnt þessu máli. Ég vil þó sérstaklega þakka hæstv. forseta fyrir þann mikilvæga stuðning, sem hann hefir sýnt málinu með brtt. sínum, og fyrir þá yfirlýsingu, að þótt svo illa færi, að þær breyt., sem verða nú að líkindum gerðar á frv., væru felldar úr í Nd., þá mundi hann samt vilja fylgja frv. eins og það kæmi frá þeirri hv. d. Þetta allt vekur traust hjá mér, svo að ég vona nú, að málið komist áfram.

Ég get verið hv. 4. landsk. sammála um það, að þörf væri á gagngerðari breytingum en hér er gert ráð fyrir. En þótt ekki sé lengra farið, bætir frv. þetta þó að miklum mun úr því ástandi, sem nú er. Þess er ekki vanþörf, því að eins og er, þá er ekki hægt að veita svo smáa styrki, að allir, sem sækja, geti fengið einhverja úrlausn. Eins og kunnugt er, þá er há­marksstyrkur 200 kr., en því hámarki hef­ir víst aldrei verið náð og engin líkindi til, að svo verði meðan lögin eru óbreytt. En í frv. okkar er farið fram á, að meira fé verði lagt til þessara sjóða, og verði það samþ., eykst sú upphæð að mun, sem til úthlutunar kemur, og með henni það gagn, sem sjóðirnir geta gert.

Mér virðist blása mjög byrlega fyrir þessu máli, eins og það horfir við nú, og ég er vongóð um, að frv. nái samþ. hér í hv. deild.