12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að fjárl. líti ekki vel út, er þau koma frá fjvn. að þessu sinni, ekki sízt þegar litið er til þess, að þingið hefir nú bundið ríkissjóði 360 þús. kr. bagga, sem verður standandi útgjaldaliður í mörg ár, með þeirri lausn, sem samþ. hefir verið á bankamálinu.

Ég get ekki neitað því, að hæstv. stj. hefir skeikað ekki alllítið við að ákveða hina ýmsu gjaldaliði fjárl. Þó að ekki sé litið til einstakra brtt. við frv., er samt óumflýjanlegt, vegna settra laga, að breyta gjaldaliðunum mjög mikið til hækkunar frá því, sem var í frv. stj.

Um till. n. og nál. í heild vildi ég mega segja það, að um þau hafi ég og fleiri fjvnm. óbundnar hendur. Till. eru samþ. af meiri hl. n., en einstakir nefndarmenn hafa óbundnar hendur um þær. Sama er og um till. annara hv. þdm. að segja, að einstakir nm. hafa óbundin atkv. um þær.

Samkv. till. n. hækka útgjöldin um 300 þús. krónur frá því, sem þau eru í frv. Þó er aðgætandi, að þar eru ekki tekin með gjöldin, sem leiðir af því, að samþ. var að leggja 3 millj. í bú Íslandsbanka, og ýmislegt fleira, t. d. hefir styrkur til að reisa verkamannabústaði samkv. lögum frá síðasta þingi ekki verið tekinn með enn og bíður til 3. umr.

Það eru tvær gr. frv., eins og kunnugt er, sem mest af þeim útgjöldum, sem ekki eru beinlínis lögákveðin, eru á, 13. og 15 gr. Á þessum gr. nema útgjöldin samtals um 5 millj. króna, en alls eru útgjöld frv. áætluð um 12 millj. Lætur því nærri, að þessar tvær gr. beri um helming allra útgjalda ríkissjóðs, og helmingurinn af þeim er ætlazt til að gangi til nýrra fyrirtækja, sem ráðizt er í, og sumpart til áframhalds þeim, sem áður hefir verið byrjað á.

Það er auðvitað gott og blessað, ef Alþingi sér sér fært að leggja ríflega til verklegra framkvæmda í landinu. En ég vil geta þess í þessu sambandi, að þegar vegamálastjóri kom á fund hjá fjvn., var hann inntur eftir, hvernig á því stæði, að ekki hefði verið unnið fyrir allt það fé, sem ætlað var til vegagerðar í ákveðnu héraði síðastliðið ár. Svaraði hann því á þá leið, að ekki hefði verið hægt að fá nógu marga menn til þess að vinna verkið. Það er hróplegt ranglæti gagnvart hinni vinnandi stétt í landinu, að vegamálastjórninni skuli haldast uppi ár eftir ár að greiða verkamönnum mikið lægra kaup en aðrir atvinnurekendur greiða, og það svo lágt, að ekki er hægt að fá nógan mannafla til að framkvæma þau verk, sem Alþingi ætlast til, að unnin séu árlega.

Í sambandi við þessar tvær gr. fjárl. vildi ég segja það, að fjárhæðir þeirra ætti að nota til þess að koma meiri jöfnuði á athafnalífið í landinu, þannig, að þegar athafnalíf er fjörugt, þá ætti að leggja minna í framkvæmdir hins opinbera, en geyma heldur þangað til lítið er um vinnu hjá einstökum atvinnurekendum.

Þau ár, sem ríkissjóður og bæjarsjóðir hafa óvenjulegar tekjur, ætti að leggja nokkuð til hliðar og geyma til erfiðari áranna. Þetta hefir borið á góma í n., og hygg ég, að flestir nefndarmanna séu mér sammála um þetta. Það er rétt að nota til fullnustu greiðsluheimildir hvert ár, en þær óvæntu tekjur, sem kunna að fást vegna góðæris, á að geyma þangað til minni atvinna er í landinu.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, en snúa mér að þeim brtt., sumum, sem fram eru komnar, og þá sérstaklega þeim, sem ég flyt.

Á síðasta þingi bar ég fram brtt. ásamt öðrum við 8. gr. fjárl., um konungsmötu. Þar segir svo, að borðfé konungs skuli vera 60 þús. kr. Nú skyldi maður ætla, að upphæðin miðaðist við ísl. krónur, eins og aðrar upphæðir fjárlaganna, en svo er ekki, heldur er gert ráð fyrir í síðasta lið 10. gr., að konungur fái ekki aðeins þessar 60 þús. kr., heldur er honum færður til viðbótar gengismunur, sem nemur 12 þús. kr. Brtt. mín í fyrra fór í þá átt að fella niður gengisviðaukann, en náði ekki samþykki. Ég hefi ekki enn borið fram brtt. um þetta, en mun ef til vill gera. það við 3. umr.

Þá á ég brtt. á þskj. 260, við 2. gr., og fer hún fram á að fella niður tekjuliðinn skólagjöld. Þessa brtt. höfum við jafnaðarmenn borið fram í tvö ár, en hún ekki fengizt samþ.

Um brtt. þessa ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð. Skólar þessir, sem hér um ræðir, eru kostaðir af ríkinu svo að segja að öllu leyti. Skólagjöld eru ekki áætluð nema 20 þús. kr. alls. Þetta er lítil upphæð og alveg hverfandi samanborið við framlag ríkissjóðs, en það er þó afarerfitt fyrir fátæka nemendur að greiða 150 krónur fyrir eins vetrar skólavist.

Að vísu hefir ýmsum nemendum verið sýnd nokkur linkind um þetta gjald og mjög fátækt námsfólk sloppið við að greiða það. En ég álít, að sjálfsagt sé að fella skólagjöldin alveg niður. Það á að örva fólk til að leita sér menntunar, en ekki að gera því örðugra fyrir. Í milliþingan. í tolla- og skattamálum kom til tals að leyfa foreldrum að draga frá tekjum sínum framfærslu- og námskostnað barna, sem stunda skólanám, þótt þau séu komin langt yfir 14 ára aldur. Ég lít svo á, að meira en nóg sé að tolla allar þarfir manna og nauðsynjar, þó að ekki sé tolluð líka skólaganga unglinganna, eða viðleitni þeirra til þess að mennta sig, sem öll þjóðin hefir gagn af. Ég vona því, að hv. þdm. geti fallizt á þessa brtt. og að skólagjöldin falli úr sögunni. Fyrir ríkissjóð, munar þetta engu, en fátæka nemendur munar það afarmiklu.

Þá ber ég fram, ásamt 4 öðrum hv. þdm., IX. brtt. á þskj. 260, um 10 þús. kr. framlag úr ríkissjóði til þess að reisa lofttalstöðvar á Ísafirði og Horni. Ég vil leyfa mér mjög eindregið að mæla með því við hv. þdm.samþ. þessa brtt. Fyrir útgerð við allt Ísafjarðardjúp hefir þetta ákaflega mikla þýðingu. Sjómenn þar vestra — og raunar víða — taka mjög mikið mark á skeytum, sem send eru um veður og veðurútlit. En því miður eru veðurspárnar ekki ábyggilegar og hefir oft hlotizt tjón af því.

Í þessu sambandi skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkra smákafla úr bréfi skipstjórafélagsins Bylgja á Ísafirði til Veðurstofunnar hér í Reykjavík, dags. 28. jan. nú í vetur.

Fyrst er talað um veðurskeytin yfir höfuð og hvað mikið sé í húfi, að þau séu sem réttust. Síðan eru nefnd tvö dæmi, þar sem veðurspánum hefir skeikað mjög og mikið tjón hlotizt af. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðfaranótt þess 17. janúar var spáð góðu veðri, og um daginn sunnan og suðaustan, mildara veður. Þá nótt um kl. 4 brast á stórviðri úr norðaustri með svo miklu hríðarmyrkri, að skip náðu landi með illan leik, en töpuðu flest miklu af lóðum sínum, en sum öllum. Stóð bylurinn óslitinn til kl. 10 að kvöldi næsta dags.

Að kvöldi þess 24. var spáð stilltu og björtu veðri þá um nóttina, en yfir daginn sunnan og suðaustan golu. Skip reru öll til fiskjar, og flest langt, því bæði bar saman veðurspá og veðurútliti um kvöldið. Að morgni um kl. 10 hvessti á ANA, og gerði eitthvert mesta hvassviðri, sem þekkist hér úr þeirri átt. Smærri skipin náðu nauðulega landi, nokkur hleyptu til Súgandafjarðar, og einn bátur fórst með 5 mönnum“.

Þetta eru aðeins 2 dæmi, en þau sýna vel hvernig veðurspárnar hafa reynzt stundum fyrir vestan. Í báðum tilfellum er spáð góðu veðri, sem sjómenn reiða sig á, en í bæði skiptin brestur á stórviðri þar sem bátarnir eru að veiðum langt undan landi. Í fyrra óveðrinu tapast mikið af veiðarfærum, og í síðara skiptið ferst bátur með 5 manna áhöfn.

Til þess að benda hv. þdm. á, hve mikið er í húfi um að veðurfregnir reynist ábyggilegar, þá skal ég geta þess, að í bréfinu stendur, að láta muni nærri, að við Djúpið rói í hvert sinn er gefur á vetrarvertíð: 15 vélbátar og línuskip, 25 smálestir og stærri, og 40 vélbátar frá 6–25 smálestir. Áhöfn þessara skipa allra til samans er um 400 manns og veiðarfærin, sem þau nota daglega, um 70–80 þús. kr. virði. En auk þess ganga frá Ísafirði 2 togarar, með samtals 50 manna áhöfn, svo að þarna eru um 450 menn, sem sjó stunda og treysta á veðurskeytin. „Má af þessu nokkuð marka, hve mikið er í húfi bæði af mannslífum og fémæti á hverjum degi, sem róið er, og hversu bráð nauðsyn beri til, að veðurspárnar séu sem réttastar“.

Nú er það álit kunnugra manna, að nauðsynlegt sé að hafa talstöð á Horni, sem stæði í sambandi við loftskeytastöðina í Reykjavík og aðra á Ísafirði. Og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr bréfinu, sem um þetta ræðir:

„Mjög æskilegt væri, eigi sízt vegna veðurfrétta, að loftskeytastöð verði reist á Horni; er stæði í sambandi við stöðina í Reykjavík, og aðra, er sett yrði hér upp á Ísafirði. Talsverður áhugi er vaknaður fyrir þessu hér vestra, þingmálafundur hefir skorað á Alþingi að koma því í framkvæmd, og fiskideildin hér sömuleiðis, hvern árangur sem það ber að þessu sinni. Til þess að rökstyðja enn betur ummæli vor um nauðsyn veðurfregna af hafinu, skulum vér geta þess, að í vetur hefir það komið fyrir dögum oftar, að spáð hefir verið austan- eða suðaustankalda, en veður þá verið á norðaustan með stórhríðarbyl og sjávargangi, stundum svo miklum, að togarar hafa orðið að leita hafnar“.

Það er ekki vafi á því, að ef skip gætu fengið fregnir frá Horni um hvernig veður væri þar úti, áður en lagt væri af stað til veiða, þá mundi það tryggja, að sjaldan yrði farið út í tvísýnu. Þess má líka geta, að allmargir togarar stunda veiðar vestur á Halamiðum einmitt þann tíma, sem hér er aðallega um að ræða, og þar sem flestir þessir togarar eru útbúnir loftskeytatækjum, mundi auðvelt að komast í samband við þá um veðurfar vestur og norður í hafinu, svo að auðveldara væri að segja fyrirfram með nokkurri vissu, hvernig veður hagaði sér næstu stundirnar, og þar með betur tryggt líf og fjármunir allra þeirra sjómanna, sem leita langt frá landi til fiskiveiða í litlum bátum.

Jón Eyþórsson veðurfræðingur leggur líka eindregið með því, að þessar talstöðvar verði reistar, og fullyrðir, að með þeim megi gera veðurspárnar öruggari, og það án verulegs aukins kostnaðar fyrir sjálfa Veðurstofuna. Hann segir svo í bréfi til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins, dags. 24. febr. 1930, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinsvegar er mjög merkilegt nýmæli í bréfi skipstjórafélagsins „Bylgjan“ á Ísafirði, sem ég vildi leyfa mér að vekja athygli á. Á ég þar við tillögu þá, að reist verði loftskeytastöð á Horni, er stæði í sambandi við talstöð á Ísafirði og loftskeytastöðina í Reykjavík. Slík stöð yrði, að mínu áliti, hinn mesti fengur fyrir allar ráðstafanir, sem gerðar yrðu til slyssvarna við Vestfirði“.

Ég hefi grennslazt eftir því hjá landssímastjóra, hvað kosta mundi að reisa þessar tvær stöðvar nægilega sterkar til þess að ná sambandi við loftskeytastöðina hér í Reykjavík og veiðiskip úti fyrir. Segir landssímastjóri mér, að þær muni ekki þurfa að kosta uppkomnar yfir 10 þús. kr., ef rafmagn fæst á báðum stöðunum. Á Ísafirði er rafmagnsstöð, eins og kunnugt er, og á Horni stendur til að reisa radíóvita nú í sumar, svo að þar ætti ekki heldur að verða skortur á rafmagni.

Ég tel óþarft að eyða fleiri orðum um till. þessa, enda þori ég að fullyrða, að engri 10 þús. kr. upphæð sé hægt að verja betur vestur þar, til þess að tryggja öryggi og líf þessara ca. 450 sjómanna, sem veiðar stunda við Ísafjarðardjúp. En þessi till. getur líka haft víðtækari áhrif, því að komist stöðvarnar upp, verða þær öllum til öryggis, er fiskiveiðar stunda fyrir Vestfjörðum.

Vona ég svo, að hv. þdm. skilji nauðsyn þessara athafna og samþ. brtt. einum rómi.

Fleiri till. á ég ekki við þennan fyrri kafla fjárlaganna, og get ég þá látið máli mínu vera lokið að þessu sinni.