12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

11. mál, yfirsetukvennalög

Sigurður Eggerz:

Ég tók það fram áðan, að mér dettur ekki í hug að bera á móti, að sýslumennirnir hafi svarað hæstv. fjmrh. eftir sinni beztu vitund. En læknarnir hljóta að vera kunnugri, hvar vantar ljósmæður, og þess vegna getur hæstv. ráðh. ekki haldið áfram að staðhæfa, að skýrslur sýslumannanna séu réttar. Út úr þessu er ekki nema ein leið, og hún er sú, að hæstv. stj. verður nú að láta rannsaka þegar, af hverju stafar þessi mikli munur, sem er á skýrslum læknanna og sýslumannanna. Óska ég þess fastlega, að hæstv. ráðh. sjái þannig um, að það sanna komi í ljós um þetta atriði.

Þetta ætti nú að vera aðeins stutt aths., svo ég læt mér nægja að undirstrika það enn einu sinni, að ég er alveg viss um það, að ef ljósmóðurstarfið væri vel launað, þá mundi ekki skorta ljósmæður. Það byggist á almennu lögmáli. Og þegar litið er á, hvað yfirleitt er sótzt mikið eftir föstum stöðum, og svo á hitt, að hér er um að ræða 31 lausa stöðu, sem engin vill sækja um, þá er auðséð, að þær hljóta að vera mikið verr launaðar tiltölulega en aðrar stöður.

Hæstv. ráðh. var að tala um, hvort ég hefði veitt því nokkra eftirtekt, að stjfrv. færi í þá átt að hækka ljósmóðurlaunin. Ég hefi aldrei neitað því, en ég sagði, og segi enn, að það gerir ekki ráð fyrir eins mikilli hækkun og meiri hl. beggja deilda var samþykkur að veita yfirsetukonunum í fyrra, og þó var sú hækkun ekki hærri en það, að þó hún hefði komizt í gegn, hefðu margar ljósmæður ekki haft meiri laun en algengar vinnukonur. Það voru nú öll ósköpin, sem farið var fram á.

Þá var hæstv. fjmrh. að benda mér á, að ég skyldi ekki fara of geist, til að spilla ekki fyrir ljósmæðrunum. Ég skal þá lofa honum því, að steinþegja og segja ekki eitt orð um þetta mál framar, ef hann vill fallast á mínar till.