09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. 2. minni hl. (Hannes Jónsson):

Hv. þm. Dal. talaði mikið um, hvað ég malaði mikið. Ég hefi alls ekki ætlað mér að mala hv. þm.; ég ætlaði einmitt að fara mjúkum höndum um hann, svo hann yrði óskaddaður, þegar hann fer næst að biðla eftir atkvæðum. Enda held ég hann malaðist illa, því hann er allt of mjúkur fyrir.

Út af öllu þessu kvarnarhjóði í hv. þm. Dal. fór ég að hugsa um það, að einmitt hann sjálfur hefir malað meira og betur en nokkur annar stjórnmálamaður þessa lands.

Eitt sinn hafði þessi maður um sig stóran flokk. En hann malaði og malaði, þangað til allur flokkurinn var sundraður. Á sömu stundu og hann varð var við, að allt var að hverfa úr kvörninni, fór hann að svipast eftir einhverju öðru til að mala. Jú, hann kom auga á einhverja sterkustu peningastofnun landsins, Íslandsbanka. Hann skipaði sjálfan sig bankastjóra, og hélt svo áfram að mala, þangað til minna var eftir af bankanum en ekki neitt. Áður en Íslandsbanki var búinn, fór hv. þm. enn að svipast eftir einhverju öðru í kvörnina. Og hann fann hvorki meira né minna en annan stærsta stjórnmálaflokk landsins. Tryggði hann sér þar hina beztu aðstöðu og tók svo til að mala. Enginn veit enn, hve langt líður, þangað til hann er búinn að hreinsa eins rækilega til þar, sem hann er nú, eins og hann gerði þar, sem áður var gamli Sjálfstæðisflokkurinn og Íslandsbanki. En vegna hans margreynda dugnaðar á þessu sviði má gera ráð fyrir, að honum endist aldur til þess. E. t. v. finnur hann að því loknu enn verkefni við sitt hæfi, ef honum auðnast fleiri lífdagar, því hann er fæddur dugnaðarmaður. Þó er það efamál, nema því aðeins, að hann fái svipaða aðstöðu eins og í gamla daga, þegar hann skipaði sjálfan sig bankastjóra.

Hv. þm. Dal. kvaðst reiðubúinn að ámæla hvaða sýslunefnd sem væri, sem léti það undir höfuð leggjast að greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót. Hann ætti þá held ég að byrja á að kristna sýslunefndina í sínu kjördæmi. Sýslumaðurinn þar sendi svo hljóðandi svar við spurningu hæstv. fjmrh.: „Vantar ekki ljósmæður sýslusjóður greiðir enga dýrtíðaruppbót“. — Svona eru nú sýslunm. í Dalasýslu óguðlegir. Hv. þm. ætti nú að taka saman það allra hjartnæmasta úr yfirsetukvennaræðum sínum, búa til úr því gómsætan graut og senda til sýslun. kjördæmis síns, til að vita, hvort hún hætti þá ekki að níðast á þessum þarfasta þjóni þjóðfélagsins, sem mér skildist hv. þm. telja ljósmæðurnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta við hv. þm. Ég býst við að verða aldrei eins stór og hann, a. m. k. ef hann á við líkamlega vöxtinn. Á þverveginn verð ég það a. m. k. ekki, og ekki á hinn heldur nema því aðeins, að hv. þm. eigi eftir að bogna svo af raunum sínum, að hann verði ekki hærri í loftinu en ég, þótt smár sé.