27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

6. mál, sjómannalög

Ólafur Thors:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, sem leggur til, að þetta frv. verði samþ.

Ég veit ekki, hvort orð mín hafa fallið óskýrt í fyrri ræðu minni, en mér finnst bæði hv. frsm. og hv. 4. þm. Reykv. hafa dálitið misskilið mig. Ég sagði nefnilega ekki, að það hefði ekki verið tekið tillit til ísl. staðhátta, heldur, að það hefði ekki verði tekið nægilegt tillit til ísl. staðhátta.

Ég hefði kosið, að þessi lög væru afgr. í nokkuð öðru formi — með öðrum svip — heldur en liggur fyrir. En fyrir því get ég samþ. þau að vísu, að ég álít þau til bóta frá því, sem er.

Í tilefni af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, þá er í sjálfu sér nóg að vísa til fyrri ræðu minnar. Ég skal aðeins geta þess út af þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. varpaði fram, og ég svaraði þá samstundis, að skyldur útgerðarmanna ná alveg jafnt til að standast útfararkostnað manna, sem drukkna af skipum, ef líkið næst, eins og ef þeir deyja á sóttarsæng.

Mér þykir ekki rétt að játa alveg óandmælt þeirri fullyrðingu hv. 4. þm. Reykv. — sem mér skildist einnig koma fram hjá hv. frsm., — að við Íslendingar höfum enga sérstöðu í þessu máli. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hér væru togaraveiðar eins og á Bretlandi, og yfirleitt aðrar veiðar eins og þar og með öðrum nágrannaþjóðum. Það er nú svo, að þessi sjómannalöggjöf er — eins og hann sjálfur sagði — stæling af Norðurlandalöggjöfinni, en ekki löggjöf Breta, en þar skilur einmitt nokkuð á milli. Það er af því, að það hagar að ýmsu leyti öðruvísi til hjá þeim en hjá okkur. Og ég leyfi mér að benda einnig á það, að Norðurlandalög gjöfin er alls ekki eins í öllum löndunum, af því að löggjafarnir hafa fundið, að ekki dygði að stæla um of löggjöf annars lands í þessu efni, heldur yrði að hafa hugfast, hvað ætti sérstaklega við það land, sem lögin áttu að gilda fyrir.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara ummælum hv. 4. þm. Reykv.

Um það, sem hv. frsm. sagði, get ég verið stuttorður, enda hefi ég sumpart svarað honum með því, sem ég beindi til hv. 4. þm. Reykv.

Hv. þm. vildi telja mig hafa afsakað þau ummæli mín, að ég áliti, að lögin tækju ekki nægilega tillit til ísl. staðhátta með því að hafa borið fram brtt. við frv., en þó ekki borið fram fleiri brtt. Þetta gæti náttúrlega verið rétt, en það þarf ekki að vera rétt. Ég vil segja hv. þm. það, að eftir því sem ég hefi kynnt mér lög um þetta efni og eftir upplýsingum frá fróðum mönnum, þá hefði talsvert víðtækar breyt. orðið að gera, hefði verið farið eindregið inn á þá braut, og ég treysti mér ekki til að láta vinna það verk. Það væri starf milliþinganefndar, sem fengi talsverða greiðslu fyrir sitt starf. Og þá er þess ekki að vænta, að einstakir þm. megi við að leggja þann tíma og þá vinnu í málið, sem þyrfti til þess að koma með gagngerðar breyt., sem vel eiga við. Ég hefi þess vegna reynt að leiðrétta einstök atriði, þar sem gott var að koma leiðréttingu við.

Um 41. gr. vil ég segja, að það eru náttúrlega engin rök, sem hv. frsm. hefir fært fram og hæstv. atvmrh. tekið undir með nokkrum fögrum og lofsamlegum orðum um sjómannastéttina —, að við séum skyldir til að fara eftir öðrum þjóðum í því efni. Til þess þurfum við að athuga, hvernig afstaða þessara tveggja stétta, sjómanna og útgerðarmanna, er hvorrar til annarar, hvaða hlunnindi og skyldur þær hafa hvor gagnvart annari. Ef það væri svo, að ísl. sjómenn byggju við lík kjör og sjómenn nágrannaþjóða, nema í þessu eina atriði, þar sem ísl. sjómenn eru verr settir, þá væri þetta vitaskuld alveg sjálfsagt. En það hefir ekki verið framkvæmd nein rannsókn í þessu efni, og það þarf ekki, því að okkar sjómenn eiga yfirleitt við betri launakjör að búa, miklu meiri en sjómenn margra nágrannaþjóða. Og reyndar verðskulda þeir það, því að þeir hafa meira erfiði, þeir eru miklu duglegri en allir aðrir sjómenn, sem Íslendingar hafa sögur af.

Ég verð að segja alveg eins og er, að þetta deilumál er ekki frá mínu sjónarmiði til þess fallið að vera kappsmál, því að þetta er lítilfjörlegt atriði. Þessar brtt. hefi ég borið fram fyrst og fremst af því, að ég hefi viljað gera þá skyldu mína að vekja athygli hv. þm. á því, að þetta gamla deilumál er innifalið í þessari löggjöf.

Ég skal taka það fram, að ég hefi talað við þá af mínum flokksmönnum, sem eru fulltrúar fyrir sjávarútveginn, og teljum við þetta raunar til hagsbóta að því er snertir togaraútgerðina, enda hygg ég, að fáir togaraútgerðarmenn borgi sínum sjómönnum ekki skaða, sem þeir bíða við það, að togari ferst. En ef þeim er lögð þessi skylda á herðar, verður það til þess, að þeir vátryggja eignir sjómanna. Ef til vill mætti búast við, að útgerðarmenn smábáta gleymdu því að vátryggja, og yrðu því hart úti, ef þeir þyrftu að greiða skaðabætur. En ég hefi nú talað við þá úr mínum flokki, sem eru umboðsmenn þessara manna, — og það er ég líka að því er snertir smábátaútgerð á Suðurnesjum —, og okkur kom saman um það, að það megi gera ráðstafanir til að afstýra því, að þetta valdi nokkru stórtjóni, enda er farangur á þessum smábátum tiltölulega minni.

Ég held þess vegna, með samþykki þessara manna, að ég taki aftur þessa till. til samkomulags, og get ég með því gefið hv. 1. þm. S.-M. tilefni til að halda fast við sína aðstöðu og taka hana upp. (SvÓ: Þetta nær ekki til báta undir 12 smálestum). Nei, en það eru ákaflega margir bátar yfir þessari stærð, sem þetta gæti komið fremur illa niður á. En ég býst samt við, að þeir útgerðarmenn, sem ég er fulltrúi fyrir, muni ekki taka þessu þunglega.

Nú vona ég, að hv. formaður (SvÓ) álíti ekki, að ég sé að svíkja sig, þó að ég taki till. aftur, því að raunar hefi ég ekki borið mig saman við hann. Mér er þetta ekki meira kappsmál en það, að ég tek aftur till. nr. 13. c, við 41. gr., og þar af leiðandi b-lið 2. till. við 6. gr.