12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

6. mál, sjómannalög

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir hönd n. hefi ég ekki mikið að segja um þetta frv. Það er allmikill lagabálkur, sem hefir verið allvandlega athugaður í hv. Nd., en það skal játað, að sjútvn. þessarar d. vannst ekki tími til að athuga frv. eins nákvæmlega og þörf hefði verið á með jafnmikinn lagabálk. En þar sem n. var kunnugt um, að sjútvn. Nd. hafði málið til meðferðar næstum allan þingtímann og lagði mikla vinnu í það, þótti henni tryggt, að n. myndi hafa athugað frv. það vel, að óhætt væri að samþykkja það. Þó las n. frv. yfir og bar þá staði saman við gildandi lög, sem henni þótti ástæða til. Ég hefi líka átt tal við sjútvn. Nd. um þetta mál, og skýrði hún mér frá því, að eins og frv. væri nú, hefði n. öll staðið saman um það. Það voru gerðar nokkrar breytingar á því í hv. Nd.; voru þær gerðar til samkomulags, og með því að mikil vinna hefir verið lögð í þetta mál, sér n. ekki ástæðu til annars en að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.

N. telur töluverða bót að því að hafa þessi lög í sérstökum bálki, þegar búið er að framkvæma það, sem við bendum á, sem sé að samræma siglingalögin við þessi sjómannalög.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið og hefi fyrir n. hönd ekki fleira að segja.