17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Ég tel ekki þörf á að fara mjög mörgum orðum um frv. þetta, þar sem allítarleg grg. fylgir því frá n. þeirri, sem skipuð var samkv. 23. gr. fjárl. 1930. Sú n. átti að athuga ástand. Skeiðaáveitunnar og fjárhagsafkomu bænda á áveitusvæðinu, til að standa straum af áveitukostnaðinum. Till. og athuganir þeirrar n. fylgja frv., og er þar flest það fram tekið, sem þörf er að ræða í sambandi við þetta mál. En þar sem engin umr. hefir enn orðið um málið, þá vil ég þó víkja að nokkrum atriðum.

Það er nú orðið alllangt síðan nokkur áhugi fór að vakna hér sunnanlands fyrir áveitum. Á þeim tímum voru jarðræktaraðferðir allar nær því ókunnar, enda vantaði öll nauðsynleg verkfæri til að framkvæma þær, svo nokkru munaði. Áveitur voru þá hinar einu jarðræktarframkvæmdir, er um gat munað, sem menn komu auga á og hægt var að koma í framkvæmd. Safamýri var fyrirmyndin. Þar hafði náttúran sjálf án aðstoðar mannanna gert stórfellda áveitu. Kringum 1870 ritaði Sveinn búfræðingur Sveinsson um þessi mál. Mun það hafa verið hið fyrsta, sem ritað var um slík efni. En lítill kraftur var þá til framkvæmda, enda vantaði alla fjárhagsaðstöðu til að ráðast í stærri framkvæmdir. Áhugi um þessar framkvæmdir helzt þó við, en það er fyrst þegar kemur fram yfir aldamót, að til framkvæmda fer að draga. Þá rætist líka nokkuð úr með peningamarkaðinn. Menn fóru líka að líta öðrum augum en áður á stærri fjárhæðir og hræðslan við að nota peninga minnkar. Áhuginn helzt enn vakandi og til framkvæmda í stærri stíl dregur bráðlega. Fyrsta af hinum stærri áveitum var gerð 1910. Það var Miklavatnsmýraráveitan. Eftir þeirri reynslu, er fékkst fyrstu árin, virtist hún gefa hinar beztu vonir. Kostnaður varð lítill, en góðar tekjur og bætt grasspretta í aðra hönd. Þessi reynsla, sem þarna fékkst, varð m. a. til þess, að Skeiðamenn fóru af alvöru að hugsa um áveitu hjá sér, á Skeiðin. Þeir áttu ötula og duglega forgöngumenn, sem lyftu undir málið, og 1916 var fyrst gerð áætlun um þessa áveitu. Nú var ástandið á Skeiðunum þannig og hafði verið svo, að stundum var þar mjög mikið grasleysi. Svo var það jafnan eftir þurrkavor; jörðin varð þá svo þurr, að gras spratt ekki og heyskapur varð enginn. Eftir votviðravor og í votviðrasumrum var þar á móti nóg gras, en þá urðu Skeiðin svo blaut, að ómögulegt var að ná því grasi. Skeiðamenn voru því næstum því jafnilla settir, hvort sem þurrkar eða votviðri voru, um heyskap sinn. Þessar voru þær ástæður, sem knúðu þá til að leggja út í þetta fyrirtæki, sem eftir því sem síðar hefir komið fram, hefir reynzt kröftum þeirra ofvaxið. En nú ber þess að gæta, að 1916 var aðstaðan nokkuð óvenjuleg. Þá var áhrifa ófriðarins farið að gæta talsvert um hærri afurðasölu út úr landinu. Hinsvegar var innlenda dýrtíðin nokkuð á eftir og fór fyrst að gæta fyrir alvöru á árunum 1918–1920. Gerir þetta skiljanlegra, að þeir lögðu út í þetta stóra mannvirki.

Sú áætlun, sem gerð var 1916, nam 103 þús. kr. Af þeirri upphæð átti ríkissjóður að greiða 1/4 hluta, svo ekki voru nema 77 þús. kr., sem leggjast áttu á bak Skeiðabænda samkv. þeirri áætlun. Á þessum grundvelli var svo lagt út í fyrirtækið. Allt hefði líka farið sæmilega, hefði ekki allt farið fram úr áætlun. Allt verðlag breyttist þegar farið var að vinna verkið og varð miklu hærra en það hafði verið áætlað og búizt hafði verið við. Fram yfir hina upphaflegu áætlun var bætt vegna breyt. og viðauka 22 þús. kr., og fram yfir upphafsáætlun varð svo verkið tæpum 10 þús. dýrara. Allur annar kostnaður, þar með vextir af lánum meðan verkið stóð yfir og „óbilgjarna klöppin“ o. fl., nam hátt á þriðja hundrað þúsund kr. Allur kostnaður við áveituna er því talinn að vera kr. 422.845.00. Það hefir nú verið nokkuð deilt um það, af hverju þessi hækkun stafaði. En í nál. er nú sýnt, í hverju hún liggur. Þó má geta þess, að um klöppina eru skiptar skoðanir. Einn verkfræðingur telur, að hún hafi kostað 78 þús. kr., annar, sem athugað hefir þetta, telur hann vera minni. En um það atriði er ekki hægt að deila, að kostnaðurinn hefir orðið miklu meiri en áætlað var, og það að mestu leyti af ófyrirséðum orsökum, sem Skeiðamenn eiga enga sök á. Um hitt mætti frekar deila, hvort Skeiðamenn hafa fylgt þeirri samþykkt um áveituna, sem gerð var 1917. Það má deila um það, hvort þeim bar ekki að jafna niður þegar í stað kostnaði við lántökur og vöxtum af lánum meðan á verki stóð, í stað þess að telja það allt til stofnkostnaðar, eins og þeir hafa gert. En eins og komið er, þá skiptir það ekki máli, því þetta verður ekki aftur tekið.

Áveitan tók til starfa 1923. En þá kom í ljós, að mistök höfðu orðið um upptöku vatnsins úr Þjórsá. Þegar áin var lítil, náðist ekki nóg vatn í aðfærsluskurðinn. Úr þessu var bætt á síðastliðnu vori. Er nú talið, að upptaka vatnsins sé alveg örugg í hvaða ári sem er. Sumarið 1924 var nóg vatn. Var þá gerð nokkur athugun um það, hvaða grasauka vænta mætti af áveitunni. Sú rannsókn sýndi, að vænta mætti æðimikillar aukningar. Þegar lagt var til grundvallar vatnslaust land, þá var tvöfalt gras við það, sem verið hafði undanfarið. Þetta sýnir það, að góðar vonir má gera sér um áveituna, þegar hún er komin í fullt horf. Allt það land, sem áveitan nær yfir, eru 2890 ha. Og þegar áveitukostnaðinum er skipt niður á þetta land, þá verða það um 146 kr., sem kemur á hvern ha. Ég verð að segja í sambandi við þetta, að mér ægir ekki sá kostnaður, ef borið er saman við aðra grasrækt. Ef áveitulandið kemst langt í því að gefa af sér eins mikið og fæst af þurrrækt, sem styrkt er úr ríkissjóði með um 200 kr. hver ha., þá verð ég að segja það, að mér ægir ekki svo mjög, þótt ríkissjóður styrki áveituna með 146 kr. á hvern ha. Það eru a. m. k. engar öfgar, þó að það sé gert.

En það er margt fleira, sem þarf að athuga í sambandi við áveituna. Flóðgarðahleðsla hefir orðið mjög mikil og hafa bændur orðið að leggja mikla vinnu í þá. Er nú búið að hlaða flóðgarða, sem nema 36 þús. teningsmetrum, en eftir er að hlaða sem nemur 5.000 ten.m. Þetta mikla verk hefir vitanlega kostað mikið og átt sinn þátt í því að rýra efnahag bænda. Auk þess hafa bændur orðið að byggja hlöður til geymslu á þeim aukna heyfeng, sem stafar frá áveitunni. Einnig fjós og aðrar byggingar vegna aukins bústofns. Nautgripum hefir fjölgað mikið síðan áveitan kom til framkvæmda. Allt þetta hefir í bili orðið til þess að þrengja efni bænda á áveitusvæðinu. En það er fleira, sem að því hefir stuðlað, að efni þeirra hafa rýrnað. Að nokkru leyti mun það hafa stafað af þeirri bjartsýni, sem kom fram á þeim tíma, sem peningar okkar féllu í verði. En einmitt um sömu mundir var banki settur á stofn í héraðinu, sem gerði aðgang að lánum mjög greiðan. En af þessu öllu saman hafa skuldir þessara bænda á öllu áveitusvæðinu orðið svo miklar, að þær nema nærri 7.000 kr. að meðaltali á hvern mann. Þegar þar við bætist áveituskuldin, ef þeir ættu að greiða hana, sem er þá hátt á 11. þúsund, þá eru samtals meðaltalsskuldir á hvern bónda um 17 þús. kr., og geta allir séð, að það eru skuldir, sem ekki nær nokkurri átt, að menn geti almennt risið undir.

Það má líka geta þess, að meðallandsverð er 3.300 kr., eftir jarðamatinu 1921, og húsakynni öll á sömu jörðum eru metin á 3.200 kr. að meðaltali, svo að það eru 6.500 kr. meðaltalsverð fasteigna í héraðinu. Ef litið er á þetta, sér maður, hve mikil fjarstæða það væri að ætlast til, að þessir menn standi straum af þeim skuldum, sem ég hefi nú nefnt.

Eins og tekið er fram í frv., þá gerir n. ekki ráð fyrir, að þessir menn geti, a. m. k. sumir hverjir, þrátt fyrir það, þótt farið sé mjög liðlega í sakirnar, staðið straum af skuldum sínum, og þó að svo og svo mikið sé gefið eftir af áveitukostnaðinum. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sumir af þessum mönnum verði áður að leita nauðasamninga; því að það er álit n., að ekki sé viðlit fyrir ríkissjóð að sinna þessu, nema um leið sé gengið svo frá, að þessum mönnum sé gert kleift að halda áfram búskap sínum og starfsemi.

Hér eru taldar tvær jarðir, sem eru eign hlutafélagsins Titan, en þess má geta, að frv. gerir ráð fyrir, að þessir jarðeigendur greiði allan kostnað, sem þeim ber að réttu hlutfalli, svo að ekki sé þörf á að taka þessar jarðir með í áveitukostnaðinum, því að greiðslur þeirra munu sennilega fást að mestu leyti með því að taka þær upp í skuldirnar. En n. er ekki alveg ljóst, enda er það sjálfsagt lögfræðispurning, hvort hægt sé að skilja þessa jarðeigendur eftir og gera þeim önnur skil en Skeiðabændum. En n. telur sjálfsagt, ef það er hægt, að láta þá greiða að fullu sinn áveituskaða.

Skuldir Skeiðaáveitunnar eru í árslok 1929 267 þús. kr. í veðdeild, og 19½ þús. eða rúmlega það í viðlagasjóði. Þetta gerir allt saman 287 þús. kr. skuld, sem þeir eiga að standa straum af, og ef skuldir þessara jarða Titans, Þjótanda og Skálmholtshrauns, sem eru 22.400 kr., dragast frá, verða eftir 264.878 kr., sem hvíla á 25 jörðum á Skeiðum. Af þessum skuldum eru árlegar greiðslur í veðdeild 15.976 kr. og í viðlagasjóð 3.280 kr., og verður þetta 19256 kr. á ári. Nú gerir frv. ráð fyrir, að Skeiðamenn verði látnir greiða 2% af skuldaupphæðinni, m. ö. o. greiða skuldina upp á 50 árum án vaxta. Þetta gerir í árlega greiðslu frá Skeiðamönnum 5.297,58 kr., og á þá ríkissjóður að taka á sig um 14 þús. kr. á ári. Þessi greiðsla stendur þannig til 1943, en þá er viðlagasjóðslánið greitt upp, og frá 1944 til 1962eru þá greiðslurnar sem hér segir: 1944–1956 10.679 kr., eftir það í 6 ár 8 þús. kr., og hefir þá ríkissjóður greitt alls með vöxtum 368.294 kr., eða hér um bil þessa upphæð. En svo er það, sem upp í þetta kemur. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir, að jarðirnar Þjótandi og Skálmholtshraun greiði 22.400 kr., og það, sem Skeiðamenn greiða 1962–80, kemur líka hér til frádráttar. Það verða 95 þús. kr. Það verður þá 1/4 millj. kr., sem ríkissjóður hefir greitt, þegar öllum greiðslum frá Skeiðamönnum er lokið. En upp í það hafði n. hugsað sér, að nokkuð kæmi þó.

5. gr. frv. gerir ráð fyrir verðhækkunarskatti á landverði. Hann á ekki að koma til fyrr en 1940, en sé þó miðaður við árið 1921. Er það gert með fullum vilja nefndarmanna, því að þeim er það ljóst, að viðkomandi menn munu eiga fullerfitt með að rétta sig svo við, að hagur þeirra verði sæmilegur, þó að þeim sé veitt þessi hvíld, að vera lausir við verðhækkunarskattinn til 1940. En 1940 kemur til greina sú hækkun, sem orðið hefir frá 1920 samkv. fasteignamati, og kemur þá til útborgunar á næstu 10 árum, og síðan tug af tug til 1990. Hvers megi vænta af þessu, er ómögulegt að segja. En eftir því, sem menn gera sér vonir um þetta áveitufyrirtæki, þá eru það engar öfgar, að landeignir þessar fimmfölduðust eða meira, með aukinni ræktun, sem mundi stafa af áveitunni á þessu tímabili, með tilliti til þess að meðalverð þessara jarða, sem eru taldar í meðallagi stórar, er rúmar 3 þús. kr. Það er því full ástæða til þess að halda, að þetta gefi töluverðar tekjur, en við höfum ekki getað gert okkur neina grein fyrir, hvað það mundi gefa ríkisjóði á sínum tíma, því að allt fer eftir því, hvernig áveitan reynist. Ef hún reynist illa, verður þessi skattur enginn eða lítill, en aftur getur hann orðið mjög mikill, ef menn virkilega hafa hag af þessari áveitu. Hitt má vitanlega deila um, hvort á að hallast að þessari skoðun, að leggja slíkan skatt á; en það sýnist ekki vera nein fjarstæða í þessu efni, þar sem hann á að taka enda eftir 50 ár, en hinsvegar sýnist ríkissjóður verða hér fyrir nokkrum halla, sem hann ætti að fá eitthvað upp í, ef þeim mönnum gengur vel, sem verið er að greiða fyrir.

En um þetta vil ég ekki þrátta. Það er stefnuatriði, sem getur komið til greina hér sem í öðru. En til þess að fá heilbrigða lausn á þessu, úr því þá ekki var gefið eftir alfarið, virðast ekki aðrar leiðir betri.

Til þess ennfremur að fá eitthvað upp í þetta, gerir 6. gr. frv. ráð fyrir, að 20% söluskattur verði á lagður.

Þessi atriði bæði hafa verið rædd við viðkomandi héraðsmenn. Þeir hafa talað um, að söluskattinn sé þeim frekar vel við, vegna þess að þeir vilja helzt ekki, að jarðir þeirra seljist yfirleitt út úr héraðinu. En svo er ráð fyrir gert í frv., að ef erfingjaskipti verða, kemur þessi skattur ekki til greina, svo að þeir eru tryggðir, sem vilja á þessum jörðum búa mann fram af manni.

Þessi skattur miðast við það sama og hinn, að því leyti að hann miðast við það fasteignamat, sem síðast fór fram. En sá munur er þó á honum, að hann á að greiðast nærri samtímis og salan fer fram til viðkomandi sýslumanns.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, sé ég ekki ástæðu til þess að tala mjög langt mál um þetta, og ekki til þess að minnast að neinu verulegu leyti á nál. minni hl. Það er eitt um það nál. að segja, að það skín algerlega það sama, ef ekki frekar, út úr því, að hér sé nauðsynlegt og sjálfsagt að hlaupa undir bagga. Og það kemur fram hjá hv. minni hl., að hann vill jafnvel taka þetta enn ríflegar en frv. ætlast til. Mér telst svo til, að eftir till. minni hl. eigi þessir bændur ekki að greiða meira en 65 þús. kr. af því, sem hvílir á áveitunni, og þar með falla niður allar aðrar kvaðir, sem lagðar eru á með frv. stj. En sá galli er á brtt., að minni hl. ætlast til, að ríkisstj. fái veðdeild Landsbankans til að gefa eftir ¼ af láninu, ríkissjóður greiði helming og áveitumenn ¼.

Þessu er þá fyrst og fremst til að svara, að þegar hverjum flokki fyrir sig í veðdeildinni er lokið, á ríkissjóður allan afgang, sem verður af hverjum einstökum flokki, svo að þetta er aðeins að taka úr sama vasanum. En það er og önnur hlið á þessu máli, sem minni hl. hefir líklega ekki athugað, að það er viðsjárvert að breyta svo um starfssvið veðdeildarinnar, að láta hana fara að gefa eftir skuldir. Það er hætt við, að slíkt veiki afarmikið lánstraust hennar, eða það traust, sem hún þarf að njóta til þess að geta selt bréf sín, ef þeim grundvelli er kippt undan að safna í sjóð til öryggis. Þetta mætti að mínu áliti ekki koma fyrir, vegna þess að ég er hræddur um, að veðdeildin líði við þetta lánstraustsspjöll, svo að hún eigi erfiðara með að selja bréf sín. Og það er óhæfilegt af löggjafarvaldinu að ganga inn á þá braut að rýra álit hennar.

Að öðru leyti má benda á það, að þessir menn skulda æðimikið Landsbankanum og öðrum stofnunum, og gæti hugsazt, að við nauðasamninga við þessa menn yrði komið allnálægt bankanum sjálfum.