29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég á eftir ósvarað þeim orðum hv. þm. Vestm., að ég hefði farið illa með skipstjórana á varðskipunum. Þetta eru margupptuggin og marghrakin ósannindi. Hv. þm. veit það ósköp vel, að ég var sem þingmaður á móti því, að skipstjórum varðskipanna væru greidd þriðjungi hærri laun en biskupi og landlækni, eins og hv. þm. og stjórn hans hafði gert. Ég hefi verið þessu mótfallinn frá upphafi. Hinsvegar hefir mér þótt sjálfsagt að laga það óréttlæti og ósamræmi, sem verið hefir á launum stýrimanna á varðskipunum, því að laun stýrimanna hafa verið allt of lág í hlutfalli við laun skipstjóra. Um Friðrik Ólafsson er það að segja, að ég býst við að hann hafi sjómælingar með höndum framvegis. Og launakjör hans hafa á engan hátt versnað, þótt hann hverfi að fræðimennsku nokkurn hluta ársins. Annars skal ég ekki þreyta hv. deild á því að tala lengi um þessi mál að svo stöddu, en þess má þó geta, að áður en þessi stjórn tók við, var harla lítið skipulag á rekstri og útgerð varðskipanna. Eftir að núverandi stjórn tók við, heimtaði hún af skipstjórunum, að þeir tækju sér reglulega frí, en svo hugulsöm var fyrrv. stjórn ekki. Betra skipulagi hefir verið komið á fæðið á skipunum, þannig að í stað þess að efni matarins var 4,50 kr. á dag á hvern skipverja, hefir það nú um stund ekki farið yfir 2,50 á dag. Blátt bann hefir verið lagt við því, að áfengi væri um hönd haft á varðskipunum, en á því bar dálítið áður. Annað mál var það, og þessu atriði ekki beint viðkomandi, að ég hefi aldrei getað tekið undir hermennskuskraf íhaldsmanna um strandgæzluna, að foringjar varðskipanna þurfi að hafa hermennskuuppeldi til þess að vera færir um að annast strandgæzluna. Þess vegna er það alveg fjarstæða að ætla, að Einar Einarsson sé ekki fær um að inna sitt starf af hendi fyrir þá sök, að hann hafi ekki gengið í herskóla. Allir skipstjórar íslenzku varðskipanna hafa að þessu leyti minni skólamenntun en foringjar dönsku varðskipanna, sem hér hafa verið og eru til strandgæzlu, en þó hafa þeir íslenzku reynst engu síður duglegir í starfi sínu, að dönsku foringjunum ólöstuðum. Af hverju kemur þetta? En meðal hinna mörgu hraustu manna á varðskipum vorum er Einar Einarsson áreiðanlega í allra fremstu röð. Hann er ákaflega duglegur maður. Hann hefir ávallt, allt frá því hann réri á báti austur á Norðfirði, reynzt framúrskarandi sjómaður, að harðfengi, dugnaði og starfslöngun. Það er alveg rakalaust, að tala um ranglæti gagnvart hinum skipstjórunum í sambandi við ráðningu hans á Ægi. Hinir skipstjórarnir halda öllum sínum fríðindum óskertum sem áður.

Þá var hv. þm. að finna að því, að togari, sem Ægir tók, hefði verið sakfelldur í undirrétti, en sýknaður í hæstarétti. Þetta sannar ekkert, enda má færa til dæmi, sem ganga í öfuga átt. Togari, sem Óðinn tók í fyrra við Eldey, og skaut á 11 skotum, og sem Jóhann P. Jónsson var sannfærður um að væri sekur, var þó sýknaður í undirrétti. Slíkt er engan vegin átöluvert, því að vitanlega var alveg rétt af varðskipinu að taka togarann, úr því að skipstjórinn áleit hann sekan. Það er einnig til bóta fyrir landhelgisgæzluna að taka togara, þótt ekki sé fullvíst um sannanir, og gefa þeim áminningu um að halda sig frá landhelginni.

Þá hefir verið minnzt á björgunarútbúnaðinn, sem settur hefir verið á varðskipin. Hv. þm. kallar það gort hjá mér að drepa á þetta. Ég skal þá láta hv. þm. vita það, að ég er ekki það lítilmenni, að ég láti 13 blöð andstæðinganna — tvö þeirra dóu nú reyndar með Íslandsbanka — vaða uppi með ósannindum og rangfærslum um mig og mínar gerðir án þess að ég að minnsta kosti leiðrétti það, þegar mér gefst tækifæri til. Eða telst það rangt að segja sannleikann? Kallar hv. þm. það óþarft yfirlæti í landhelgismálunum, að keyptur hefir verið dýptarmælir á Ægi? Öðrum verður bætt við á Óðin, þegar hann fer næst til útlanda. Ég hefði vitanlega ekki minnzt á þetta, ef ég hefði ekki verið látinn sæta ámælum fyrir að hafa bætt úr vanrækslu fyrr verandi stjórnar. Sama er að segja um línubyssurnar, sem settar hafa verið á Óðin og Hermóð, sem hvorugur hafði áður slík tæki, til þess að koma kaðli í báta, ef þeir eru í nokkurri fjarlægð. Andstæðingar mínir vilja, að um þetta sé þagað, af því að þeirra stjórn hafði ekki manndóm til þess að láta gera þetta strandgæzlunni til bóta. Þeir sjá sér heldur ekki fært að reyna að tileinka sér heiðurinn af þessu, því á það yrði lítið líkt og þegar íhaldsmenn eru að reyna að telja mönnum trú um, að þeir eigi frumkvæði að og hafi barizt fyrir stofnun Byggingar- og landnámssjóðs. Svo ég víki aftur að landhelgisgæzlunni, þá sýnist svo sem þeir, sem sáu um smíði Þórs og Óðins, hafi álitið, að þau skip ættu að vera útbúin með sjóhernaðartækjum, ættu að vera einskonar vasaútgáfa af herskipum stærri þjóða. Á sama hátt hafa þessir menn viljað hafa herlærða menn fyrir foringja, en þó eftir atvikum sætt sig við að hafa þá aðeins lítið lærða í þeim sökum, af því að við erum minni herskaparþjóð en nábúarnir. Ég fyrir mitt leyti hefi alltaf fyrirlitið þetta hernaðarbrask; ég hefi litið á varðskipin sem sjólögreglu, þar sem mest er undir komið dugnaði, kurteisi og réttlæti, en minna undir hermennskuprófum eða langri skólagöngu þar að lútandi. Með því að Einar Einarsson virðist hafa þessa kosti til að bera í ríkum mæli, þá sá ég ekki ástæðu til þess að krefjast af honum slíks prófs, þess smábátaprófs í sjóhernaðarfræðum, sem íhaldið telur hámark þess sem með þurfi á íslenzku varðskipi. Mér þótti mestu máli skipta að fá á Ægi hraustan foringja og ódeigan, sem auk þess kynni vel til björgunarstarfs, ef á þyrfti að halda. Ég hefi unnið að því að fá slíkan mann á Ægi, og ég hygg, að framtíðin muni sýna, að þetta val hefir ekki mistekizt.

Þá þykir mér hlýða að víkja nokkrum orðum að hv. þm. N.-Ísf. Ég get þó sparað mér langt mál út af ræðu hans, því að hann var nú orðinn bljúgur eins og lamb, nærri því að segja prúður og kurteis eins og þolanlega síðaður maður, enda dró hann í land mikið af því, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni. Hann viðurkenndi nú, að nafn hæstaréttar væri ekki sem hentugast, og má þetta væntanlega teljast byrjun að hinu nauðsynlega undanhaldi hv. þm. í því efni. Annars skal ég benda á, hve óviðkunnanlegt það er, að hæstaréttardómarar skuli vera verr launaðir en t. d. útibússtjórar bankanna. Auk þess getur þetta verið mjög hættulegt, því að með þessum launakjörum getur orðið hörgull á hæfum mönnum til starfsins. Sömuleiðis virtist hv. þm. ekki vera hlynntur því, að dómararnir fái utanfararstyrk og sé einn þeirra skyldur til að nota sér hann á hverju ári. Get ég varla skilið, að nokkur annar hv. þm. setji sig á móti svo sjálfsögðu atriði, því að vissulega er mikils um vert, að dómarar forpokist ekki í starfsgrein sinni. Yfirleitt hagaði hv. þm. sér nú á sama hátt og honum er títt í ræðum sínum á eldhúsdögum. Hann er vanur að rjúka upp í byrjun með miklu írafári og veður þá elginn með staðlausum fúkyrðum. Flest lítilmenni og bleyður eru líkt skapi farnar og þessi hv. þm. Í byrjun, meðan ekki blæs á móti, vaða þeir einatt upp á aðra menn með hroka og rembingi, svo að úr hófi keyrir. En venjulega þarf ekki annað en að stinga með nál í belginn, til þess að vindurinn leiti útrásar, þá falla þeir saman eins og líknarbelgir. Líkt er hv. þm. N.-Ísf. farið, og varð raunin hin sama og endranær.

Mér þótti illa fara á þessum mikla rosta í hv. þm. N.-Ísf. Hv. þm. er þó hvorki annað né meira í fjármálum en afdankaður útibússtjórakurfur, sem í þeirri stöðu vann sér það eitt til ágætis að láta útibúið, sem hann veitti forstöðu, tapa millj. kr. á nokkrum árum. Hv. þm. var að tala um, að græðzt hefði á sumum lánum útibúsins, þ. e. að sumir hafi borgað vexti og afborganir. En bankar eiga að fá höfuðstól og vexti. Það er engin dyggð, þótt útibúið tapaði ekki hverjurn eyri, sem það lánaði. Að vísu hefir tapazt víðar. En hins ber líka að gæta, að fjöldi lánsstofnana víðsvegar um land, svo sem er um flesta sparisjóði, hafa litlu eða engu tapað á sínum útlánum. Forráðamenn þeirra stofnana hafa hugsað allt öðruvísi en hv. þm. N.-Ísf. Þeir hafa ekki verið að hugsa um það eitt að styðja einstaka stórbraskara, sem hafa verið svo lukkulegir að fá að eyða tugum og hundruðum þúsunda, sem tapazt hafa. Þeir hafa betur en hv. þm. N.-Ísf. kunnað að meta það, hverjir stórfuðu á heilbrigðum grundvelli og voru stuðnings verðir. Þeirra hugsun hefir yfirleitt verið sú, að dreifa fénu til nytsemdarfyrirtækja. Þeir hafa ekki þjáðzt af þeirri stórmannlegu hugsun að gera einstaka vini sína og kunningja að einskonar eyðslugreifum á kostnað alþjóðar.

Síðast sagði hv. þm., að ég væri fullur af hatri til allra stétta. Þetta lítur ekki út sem sannleiki. En ég veit að hv. þm. svíður það, að ég hefi veitt vissri tegund manna mótstöðu, t. d. atkvæðafölsurunum í Hnífsdal og ýmiskonar stórafbrotamönnum. En það er hrein og bein embættisskylda og á ekkert skylt við hatur. Hv. þm. vill í raun og veru, að ég sé eins sofandi fyrir öllum misfellum eins og fyrirrennarar mínir. Hann má af skiljanlegum ástæðum ekki heyra það, að mönnum, sem tapað hafa milljónum af landsins fé, sé hallmælt. Slíkir stórsvindlarar eru víst í huga hv. þm. sérstaklega ráðvandir dánumenn.

Þá fór hv. þm. að skrökva upp á látinn heiðursmann. Hann hélt því fram, að Magnús heit. Kristjánsson hefði verið mótstöðumaður minn. Þetta er þveröfugt við sannleikann, því milli okkar var jafnan hið ákjósanlegasta samkomulag og samvinna. Og þótt okkur hefði borið eitthvað á milli í smáatriðum, þá veit ég að hann hefði aldrei gefið slíkum manni, sem hv. þm. N.-Ísf. er, tilefni til að fara með dylgjur og róg um samstarf okkar. Hann var of mikill drengskaparmaður til þess. En mig undrar þó ekki fáfræði hv. þm. á þessu sviði, þar sem hann er svo illa að sér, að hann heldur því fram, að ameríska lánið hafi verið tekið í Englandi. Hv. þm. vildi áfella mig fyrir að vera á móti því, að það lán var tekið. Ég hefði ekki verið á móti því, að lán hefði verið tekið handa Landsbankanum. hefði hann þurft þess með. En forsaga þessa láns var sú, að Íslandsbanki þurfti á peningum að halda, en Landsbankinn alls ekki. Hinsvegar var ástand Íslandsbanka svo þá, að ekki þótti fært að fara beint að því, að lánið væri tekið handa honum. Þá var það, að íhaldsstjórnin þáverandi fann það snjallræði upp að láta Landsbankann taka lánið, til þess svo að hann lánaði Íslandsbanka það. — Það stóð nú víst til, að Íslandsbanki borgaði þetta lán fljótlega, og því var margheitið, en jafnoft var það heit rofið, enda fór svo, að um helmingur þess var ógreiddur þegar Íslandsbanki lokaði 3. f. m. Ég hefi því á réttu að standa, en hv. þm. á röngu í þessu eins og öðru sem við deilum um. Landsbankinn kærði sig aldrei um þetta lán og notaði það ekki. En honum var af íhaldsstjórninni otað fram sem millilið. Landsbankinn varð svo að borga lánveitandanum í Ameríku, en fékk peninga sína seint og illa frá Íslandsbanka, og á helminginn ennþá í gjaldþrotabúi hans.