17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að það myndi skerðast varasjóður veðdeildarflokksins, ef till. mínum yrði framfylgt. Og hinsvegar lét hann þess líka getið, að öllum varasjóði 1. flokks veðdeildarinnar væri ráðstafað til annarar stofnunar, sem er Ræktunarsjóðurinn. Sú skerðing á varasjóði veðdeildarinnar, sem af þessu leiðir, hlýtur því samkv. hans skoðun engu síður, heldur miklu frekar, að draga úr öryggi hennar og valda álitsrýrnun á stofnuninni í augum þeirra, sem mundu kaupa veðdeildarbréfin. Hæstv. forsrh. var ekkert hræddur við það á sínum tíma að taka varasjóð 1. fl. veðdeildarinnar af veðdeildinni og láta hann renna inn í aðra stofnun. Það virðist því vera í fullu ósamræmi við fyrri skoðun hans í þessu efni, þegar hann nú er að tala um hættu af því að gefa eftir þessa upphæð af Skeiðaáveituláninu.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þessir samningar gætu strandað á því, að ekki næðist samkomulag við stjórn veðdeildarinnar, þá vil ég svara því, að þetta er mjög ósennilegt, þar sem frv. gefur stjórn veðdeildarinnar beina heimild til þess. Ég held því, að það sé engin ástæða til að óttast um málið frá því sjónarmiði, hvor leiðin sem farin verður.

Hæstv. atvmrh. var að bera mér á brýn, að ég miðaði einkum við fortíð þessa máls, en þóttist sjálfur líta á ástæðurnar eins og það lægi nú fyrir. — Hann hefir nú lesið upp af 6. bls. í nál., en ég af 16. bls., svo að því leyti stend ég nær nútíðinni en hann.

Nefndinni höfðu dottið í hug 4 leiðir til úrlausnar þessu máli, og skal ég í sambandi við þetta benda á það, sem n. segir í áliti sínu um fyrstu leiðina, en hún var sú, að ríkissjóður tæki landeignir á Skeiðaáveitusvæðinu upp í eftirgjöfina. Um þá aðferð talar n. á þessa leið, með leyfi hæstv., forseta:

„Það virðist í fljótu bragði geta verið mjög æskilegt, að bændur gætu látið land upp í áveitukostnað, en við nánari athugun eru ýmsir annmarkar á því, að þetta geti komið að verulegum eða hagfelldum notum. Sem ástæður eru nú, eru not áveitunnar eigi svo mikil, sem ætla mætti. Þetta stafar af orsökum, sem áður hafa verið greindar, vatnsskorti, ónógri framræslu, vöntun á girðingum o. fl. Flestar jarðir hafa því nú þörf fyrir það land, sem þær nú ráða yfir“.

Þetta er vitanlega miðað við ástandið í sumar og haust, þegar n. athugaði áveitusvæðið. Það er miðað við núverandi ástand, en á ekki rætur í fortíðinni.

Skal ég svo ekki fara lengra út í málið að öðru leyti, en vil aðeins að lokum láta þess getið út af ræðu hv. 2. þm. Árn., þar sem hann gat þess, að ef Skeiðamenn ættu sjálfir um að velja, þá mundu þeir hafna mínum till., en kjósa till. hv. meiri hl. n., þá verð ég að segja það, að þeir kunna ekki að meta það, sem vel er gert fyrir þá.