25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég er því fullkomlega samþykkur, að ástæða sé til að setja löggjöf um þetta efni, sérstaklega grenjavinnslu. En ég get ekki séð, að í þessu frv. séu ný ákvæði, sem taki núv. löggjöf fram. Núgildandi ákvæði eru í reglugerðum og sýslusamþykktum, sem stjórnarráðið hefir staðfest og gilda sem lög.

Síðan refaskinn og yrðlingar urðu svo verðmikil, sem raun er á orðin, hefir mikið verið sótt eftir refaveiðum. Og þó að gengið sé út frá, að hreppsnefndir ráði menn til þess að vinna greni, þá hafa einstakir menn gefið sig við því utan allra samninga. Ég tel sjálfsagt, að hreppsnefndir og aðrir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, ráði um grenjavinnsluna, en sé ekki, að það sé tryggt í þessu frv. eða fyrirbyggt, að öðrum sé fyrirmunað að blanda sér inn í þær sakir en þeim, sem um þau eiga að sjá. Mér finnst vanta ákvæði í frv., er skeri úr um þetta, og vil skjóta því til þeirrar n., sem um það á að fjalla, að athuga þessa hlið málsins.

Þó það eigi ekki við að ræða um einstakar gr. frv. við þessa umr., þá vil ég benda á ákvæði í 5 og 6. gr. frv. um borgun til þeirra manna, sem vinna grenin. Ég sé ekki ástæðu til, að verið sé að binda hendur hreppsnefnda um það, hvort borgun til refaskyttu skuli vera dagpeningar eða hluti af veiðinni. Ég vildi aðeins skjóta þessu til n., að hún taki þetta til athugunar.

Þá eru nokkur atriði í síðari kafla frv., sem ég hygg, að þörf væri á að taka til nánari athugunar, en ég hefi ekki haft tíma til að taka þann kafla til nákvæmrar yfirvegunar, og er því ekki viðbúinn að ræða hann nú.