25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins út frá því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að minna hann á, að það er skýrt og greinilega tekið fram í gildandi lögum um refaeyðing, að sýslunefndir hafa rétt til þess að setja reglugerðir um eyðing grenja. Hitt er allt annað atriði, að nokkrir hreppar kunni að hafa neitað að fara eftir settum reglum. Í sjálfu sér er eðlilegt, að sett séu lög um þetta efni, en rétt finnst mér hinsvegar að ætla sýslunefndum nokkurt svið til umráða í þessum efnum. Ber og á það að líta, að áður var grenjavinnsla kostnaðarsöm, en er nú orðin tekjugrein allmikil. Að mínu áliti er réttast, að lögin séu einskonar rammi, en sýslunefndum sé ætlað að fylla út í hann með nánari ákvæðum. Mér virðist hv. mþn., sem samið hefir frv., varla hafa verið inni á þessu spursmáli. Hinsvegar vil ég vænta þess, að hv. landbn. þessarar d. athugi málið frá þeirri hlið sérstaklega, sem ég hefi bent á. Ég tel ekki rétt að svipta sýslunefndirnar íhlutunarrétti um þessi mál, eins og frv. þetta nánast gerir ráð fyrir. Ég sé, að einn nm. bendir á 1. gr., þar sem sýslunefndum er falið eftirlit með hreppsnefndum um eyðing refa. En þetta ákvæði nægir enganveginn. Það hefir n. að líkindum haft einhvern grun um, og þess vegna lagt til, að atvmrn. setti reglugerð um eyðing refa og grenja. En ég er hræddur um, að erfitt myndi veitast að semja reglugerð, er alstaðar ætti við. Hinsvegar stæðu sýslunefndirnar ólíkt betur að vígi í þeim efnum heldur en stjórnarráðið. Óska ég, að hv. landbn. þessarar d. taki þetta til rækilegrar athugunar. Um þessi mál eins og svo mörg önnur gildir það, að sitt á við á hverjum stað. Sýslunefndir eru miklu líklegri til að geta tekið tillit til þessa en atvmrn., sem jafnan hlýtur að vera ókunnugt á stórum svæðum á landinu.