25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Bernharð Stefánsson:

Ég skal ekki að svo stöddu lengja umr. um þetta mál, enda finnst mér margt af því, sem sagt hefir verið um það, eiga betur við, við 2. umr. Auk þess hefir hv. 1. þm. Árn. svarað rækilega flestum þeim aths., sem fram hafa komið gegn frv. Eitt atriði er þó, sem hv. þm. láðist að svara, nefnilega, að tekinn væri réttur af landeigendum með þessu frv.,eins og hv. þm. Barð. vildi halda fram. Þetta er hinn mesti misskilningur. Með frv. þessu er í fyrsta sinni verið að gefa landeigendum rétt í þessu efni: Mér er ekki kunnugt um, að landeigendur hafi hingað til haft nokkur hlunnindi af því, þótt gerðar hafi verið opinberar ráðstafanir til þess að vinna refi. Ég veit heldur ekki til þess, að nokkur jörð hér á landi hafi nokkru sinni verið seld dýrara vegna slíkrar veiði. Það kemur því til engra mála, að landeigendur tapi nokkrum rétti, þótt frv. þetta verði að lögum. Hinsvegar er þeim gefinn réttur samkv. 4. gr. frv., svo að aths. hv. þm. Barð. er á engum rökum reist.

Ég man svo ekki eftir fleiru, sem ég hefi ástæðu til að minnast á viðvíkjandi þessu máli að svo stöddu. Aðeins skal ég taka það fram, að mér kemur ekki á óvart, þótt hv. þm. Barð. láti sér lítt um frv. þetta finnast, af því að mþn. í landbúnaðarmálum hefir um það fjallað. Það er nú svo um þennan hv. þm., að hann virðist aldrei geta litið þá n. réttu auga, né neitt það, er hún leggur til mála. Hinsvegar verð ég að treysta því, að landbn. þessarar d. líti sanngjarnari augum á frv. og meti það að verðleikum.