25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Bjarni Ásgeirsson:

Það kann að þykja furðu djarft af mér, ólöglærðum manni, að hefja lagadeilur við hv. 1. þm. Skagf. En ég verð að gera það eigi að síður. Hv. þm. sagði nefnilega aðeins hálfan sannleika. Að vísu hafa sýslunefndir vald til að setja reglugerðir um þessa hluti, en ég vil þá spyrja hv. þm., hvernig fari ef samþykktir sýslunefnda ríða í bág við gildandi lög. Slík tilfelli eru hugsanleg, og hafa reyndar komið fyrir, eins og bent hefir verið á. Gilda reglugerðirnar þá, eða lögin? (MG: Ég minntist á þetta áðan). Hvað þessa umræddu reglugerð snertir, þá hefir skrifstofustjórinn í atvmrn. úrskurðað, að hún bryti í bág við núgildandi lög. Á hinn bóginn halda sýslubúar því fram, að reglugerðin þurfi að vera eins og sýslunefnd hefir gert hana úr garði, en til þess að það geti orðið, þarf að breyta lögunum frá því, sem nú er.

Ég skal svo ekki hafa þessa aths. lengri. Gefst kostur á að ræða málið frekar við 2. umr.