25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Benedikt Sveinsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál, en vil þó koma fram með örfáar aths.

Hv. 1. þm. Árn., sem er nokkurskonar flm. þessa máls, vildi ekki kannast við, að það væri loðið og óákveðið, þar sem talað er um þennan helming, sem landeigandi ætti að fá. Hann sagði, að það væri augljóst, en sannleikurinn er nú sá, að maðurinn fær aðeins ¼, því að hér stendur í 5. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Skotmaður, sem fullvinnur gren, nær báðum dýrum og öllum yrðlingum, skal hafa hálft verð dýra og yrðlinga“.

Þetta á þá að dragast frá, en það, sem eftir er, kemur til skipta, og rennur því ¼ til landeiganda og ¼ í sveitarsjóð. Þetta er því æðióljóst, þótt hægt sé að skilja það með skýringu hv. þm.

Þá sagði hv. þm., að hreppsnefnd skyldi sjá um sölu yrðlinga, en ég hefði satt að segja haldið, að hreppsnefndum væri margt betur lagið en kaupmennska, enda hefðu þær nógu öðru að sinna.