06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Halldór Stefánsson:

Enda þótt brtt. mínar á þskj. 173 séu að vísu nokkuð fyrirferðarmiklir, ætla ég ekki að tala um þær langt mál, því þær eru að nokkru leyti sama efnis og brtt. n. og settar fram í sömu röð. Það er víða aðeins orðamunur, er mér þótti betur mega fara, þótt sumpart séu þar nokkrar breyt. að efni til. Skal ég nú stuttlega víkja að efni þeirra, án þess að rekja hverja einstaka brtt.

Mér virðist það óljóst eftir frv. og till. n., hvort refir eigi að teljast fullkomlega ófriðhelgir eða ekki. Ég tel, að villtir refir hafi verið ófriðhelgir og eigi að vera það áfram. En þar sem hreppsnefndum er ætluð á grenjavinnslutímanum öll framkvæmd að eyðingu refa, þykir mér nauðsynlegt að gera þau skil á þessu, að á grenjavinnslutímanum hafi hreppsnefndir einskonar einkarétt til refaveiða, er þær svo láta af hendi til skotmanna, eftir því sem þær skipa til um veiðina, en á öðrum tímum séu þeir ófriðhelgir fyrir öllum, hvernig sem á stendur. Ef álit mitt um ófriðhelgi refa er rétt, þykir mér ekki geta komið til mála, að landeig- andi og ábúandi fái landshlut af ágóðanum af refaveiðum, svo sem n. leggur til.

Það er fyrst og fremst alveg rangt að ætla landeigendnm nokkurn veiðihlut, nema þá óbeint að því leyti, sem þeir gætu byggt jörðina hærra en ella, eða þeir séu jafnframt ábúendur, því ef maður hefir skilyrðislausa ábúð á jörð með öllum gögnum og gæðum, á hann vitanlega landshlut fyrir veiði, sem aðrar landsnytjar. Landeiganda kæmi það til nytja, ef þessi hlunnindi væru svo mikil, að hann fyrir þau geti byggt jörðina hærra en annars myndi.

Það er líka svo sumstaðar hér á landi, a. m. k. á Austurlandi, að hreppar hafa stór útgjöld af eyðingu refa. Skiptir það jafnvel þúsundum króna. Svo hefir það verið a. m. k. fram á síðustu ár. Útgjöld hreppanna munu þó hafa minnkað nokkuð á síðustu árum, vegna þess hve hátt verð hefir verið á yrðlingum, en eru þó allhá ennþá.

Þá sakna ég þess í frv. og till. n., að þar eru engin ákvæði um meðferð grenja. Þess vegna hefi ég leyft mér með 9. brtt. að setja fram stuttar reglur um það, hvaða meðferð skuli hafa á grenjum og hvað beri að varast.

Þá er í heiti frv. mótsögn — eyðing og rækt — og fyrirsögn fyrri kafla er ekki nógu yfirgripsmikil, þar sem hann tekur til fleira en grenjavinnslu. Það, sem hér er nefnt eyðing refa, hefir jafnan áður verið nefnt refaveiðar.

Frekar skal ég ekki ræða um þessar till. Ég legg það undir dóm hv. þdm., hvernig þeir velja milli till. minna og annara till., sem fyrir liggja í þessu máli.