06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þessir tveir hv. þm., sem talað hafa, hafa verið mjög vinveittir afgreiðslu n. á þessu máli og fáar aths. gert. Ég skal taka það fram, að n. hefir ákveðið að taka aftur til 3. umr. 10. brtt. sína.

Út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði um brtt. sínar á þskj. 173, hefi ég lítið að segja. Hv. þm. tók það sjálfur fram, að þær hefðu nær eingöngu inni að halda orðabreyt., og það er alveg rétt. En slíkt er alltaf álitamál og smekkatriði, og n. getur t. d. ekki verið að deila um það, hvort réttara sé að setja sýslunefnd framan við hreppsnefnd eða öfugt, þegar nákvæmlega sama meining er í till.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki ljóst af frv., hvort refir ættu að vera fullkomlega ófriðhelgir eða ekki, og þetta atriði gerir hv. þm. brtt. um. Ég hygg, að ákvæði frv. geti ekki orkað tvímælis. Yrðlinga á grenjum er ekki leyft að taka, nema af þeim, sem til þess eru kvaddir, en utan grenjavinnslutíma eru refir fullkomlega ófriðhelgir, þar sem beinlínis er heitið verðlaunum fyrir að vinna þá.

Hv. þm. saknaði þess, að ekki væru nein ákvæði í frv. eða till. n. um meðferð grenja. N. leit svo á, að nánari ákvæði um þetta ættu betur heima í reglugerðum sýslnanna en beinlínis í lögunum.

Um nafn frv. skal ég ekkert segja. Mér finnst það litlu máli skipta og gott það nafn, sem er. En þar sem till. hv. þm. á þskj. 173 eru að áliti n. gagnslausar, en gætu á hinn bóginn valdið ruglingi, ef farið væri að samþ. einhverjar af þeim, og orsakað ósamræmi í orðlagi, leggur n. til, að þær verði felldar.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það hefði sannazt, að frv. hefði verið illa úr garði gert af mþn., þar sem heita mætti, að þegar það kemur nú frá landbn., standi ekki steinn yfir steini í því. Þetta er rangt. Fljótt á litið eru brtt. landbn. að vísu margar, en þegar að er gætt, sést, að það er ekki nema í örfáum efnisatriðum, sem nokkru er breytt, svo að það er æðifreklega að orði komizt, að ekki standi steinn yfir steini í frv. mþn.

Hv. þm. Borgf. gat um það, að landbn. hefði þótt nauðsyn til bera að taka fram, hvernig að á að fara, þegar fleiri hreppar eiga afrétti saman, og féllst hann í því efni á till. n., en sagði, að n. hefði gleymt þeim möguleika að fjallskilasjóður væri sameiginlegur, en afréttir ekki. N. lítur svo á, að þegar svona stendur á, geti það heyrt undir ákvæði frv. eins og það verður með brtt. n. Svæði, sem hefir sameiginlegan fjallskilasjóð, og þar með sameiginlega stj. fjárskilamála, getur heyrt undir hugtakið upprekstrarfélag. Þess vegna telur n., að ekki þurfi að samþ. þessa brtt. hv. þm., þó að hún leggi hinsvegar ekki á móti henni.

Um 4. brtt. hv. þm. (b-lið) er það að segja, að hún virðist takmarka rétt landeigenda eða ábúenda til ágóða af þessum hlunnindum. Hér í hv. d. hafa komið fram raddir um, að takmarkanirnar í frv. væru of miklar. N. hefir samt viljað takmarka þetta við heimaland, en ekki vill hún ganga lengra og leggur því á móti þessari brtt.

Hv. þm. Borgf. er okkur sammála um, að réttara sé, að hver einstök sýslunefnd setji reglugerð fyrir sig, heldur en að ein og sama reglugerð gildi fyrir land allt. Hv. þm. finnst meira að segja eiga að ganga lengra, svo að í hverri reglugerð væri ákvæði um refagirðingar. Þó eðlilegt sé, vegna ólíkra staðhátta, að hver sýsla hafi sína sérstöku reglugerð um grenjaleitir og grenjavinnslu, þá kemur þetta ekki til greina þegar um refagirðingar er að ræða. Verður ekki annað séð en að sömu ákvæði geti gilt fyrir land allt um það, hvað telja skuli öruggar refagirðingar.

Hv. þm. Borgf. vill fella niður dýralækniseftirlit með refum utan refabúa. Það er auðvitað mál, að ef um mjög lítilfjörlegan rekstur er að ræða, yrði það tiltölulega mjög kostnaðarsamt. En á hitt ber að líta, að um alveg eins mikla sýkingarhættu er að ræða á dýrum utan refabúa. Það getur því verið mjög mikið í húfi, ef ekkert eftirlit er haft. Það má búast við, að verzlun geti átt sér stað á milli þeirra, sem ala refi stuttan tíma, og þeirra, sem reka refabú.

Þá kem ég að aðalágreiningsefninu, sem sé till. n. um, að ekki megi flytja yrðlinga út fyrir 20. sept. Hv. þm. Borgf., sem leggur eindregið á móti þessari till., segir, að það útiloki alla samkeppni. Ég skil ekki, að svo þurfi að vera. Ég veit, að þeir, sem stunda refarækt, eru svo margir, að ástæða er til að ætla, að samkeppni eigi sér stað á milli þeirra. Og þar sem þessi atvinnuvegur virðist vera álitlegur, má telja víst, að refaræktarbúum fjölgi í framtíðinni. Hitt kann að vera, enda drap ég á það í framsöguræðu minni, að þetta verði til að draga eitthvað úr samkeppninni, en með tilliti til þjóðarhags er ekki í það horfandi. Hv. þm. Borgf. sagði, að refaræktin væri eftirsóttur atvinnuvegur. Það er rétt, en hér er um tvennt að ræða: atvinnu þeirra, sem vinna grenin, og refaræktina. Annað er rányrkja, en hitt er framtíðaratvinnuvegur, sem bundinn er föstu skipulagi. Ég veit, að þeir, sem leggja það á sig að fara upp um fjöll og firnindi, hvernig sem viðrar, og eiga þar illa æfi, eiga það skilið, að hafa eitthvað upp úr því. En því má ekki gleyma, að refabúin eru álitleg byrjun að atvinnuvegi, sem ekki er rétt að hindra.

Hv. þm. talaði um, að þessir menn, sem stunduðu refarækt. væru að „agitera“ í þessu máli, og frá þeim væri komin sú till., að takmarka útflutninginn við 20. sept. Ég man, að í fyrra, þegar þetta var til umr., var hann mjög svæsinn í orðum um þá menn, sem væru að „agitera“ í þm. í þessu máli. Ég mótmæli því að því er snertir landbn., að hún hafi orðið fyrir nokkrum utanaðkomandi áhrifum í þessu máli. Hinsvegar hefir n. leitað álits kunnugra manna og haft einn slíkan mann á fundi með sér. Nm. eru yfirleitt ófróðir um þetta mál, og hafa því aflað sér upplýsinga hjá kunnugum mönnum.

Út af þessu sama atriði, um takmörkun útflutningsins, vildi hv. þm. Borgf. halda því fram, að dýralæknisvottorð hefði sama gildi, hvort heldur dýrin væru eldri eða yngri. Hv. þm. hlýtur sjálfur að sjá, að þetta er ekki rétt. Með öllum dýrum geta vitanlega leynzt sjúkdómar, sem ekki eru komnir í ljós, þegar dýrin eru nýfædd. Ég færði rök að því í framsöguræðu minni, hve miklu hægra það er fyrir útlendinga, sem kaupa yrðlinga, að telja, að þeir séu hjá sér fæddir og uppaldir, ef þeir fá þá mjög unga. Þetta gat hv. þm. Borgf. ekki hrakið.

Hv. þm. vildi fá sannanir fyrir því, að það fengist meira fyrir dýrin með því að takmarka útflutninginn við 20. sept. Ég hefi ekki í höndunum beina reikninga um þetta, en bæði ég og aðrir nm. hafa séð fullkomin gögn fyrir því, og mun ég geta lagt þau fram síðar, ef hv. þm. óskar.

Að lokum drap hv. þm. Borgf. á það, að það gætti ósamræmis í till. n., þar sem n. ætlast til, að reikningar yfir kostnað og tekjur af grenjaleitum og refaveiðum skuli leggjast fram á fjallskilafundi, en hinsvegar bannað að flytja út refi fyrir 20. sept. Ég skal játa, að í fljótu bragði lítur svo úr, að um ósamræmi sé að ræða. En þó er því ekki til að dreifa. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir, að hreppsnefnd selji yrðlingana annaðhvort til refaræktarbúa eða til einstaklinga, sem vildu verzla með þá. En þó að hreppsnefndir hefðu yrðlinga undir höndum yfir sumarið, sé ég ekki, að neitt sé í veginum. Þá eru yrðlingarnir bara taldir sem eign á þeim tíma, sem reikningarnir eru lagðir fram. Svo kemur söluverð þeirra á næsta árs reikning. Ég sé ekki, að þetta sé svo ógurlegt. Samt gæti þetta e. t. v. farið betur á annan hátt, og n. getur tekið það til athugunar til 3. umr.