08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Þegar þetta mál var hér fyrst til umræðu, þá sagði ég um það nokkur orð og benti á helztu annmarka þess. Ég verð að segja, að hv. n. hefir unnið mikið að þessu frv. og lagfært það til muna, en sá böggull virðist mér fylgja skammrifi, að ekki sé sami grundvöllur undir öllu því, sem hún hefir lagt til málanna.

Það eru nú komnar svo margar till. fram í málinu, að erfitt verður að átta sig á þeim öllum eða með hverjum menn eigi að greiða atkv., svo að ég vildi nú stinga upp á því, að hv. flm. og n. kæmu sér saman um þær brtt., sem fram ættu að ganga, eða m. ö. o. tækju frv. til nýrrar athugunar, ásamt brtt. þeim, sem nú eru fram komnar; mætti þá svo verða, að menn gætu áttað sig á málinu, og ekki yrði samþ. eitthvað, sem miður færi, af öllum þeim aragrúa af brtt., sem fyrir liggja.

Annars verð ég að segja það, að mér finnst mjög rasað fyrir ráð fram, ef löggjafarvaldið ætlar að fara að setja ýms óþarfa ákvæði inn í þessi lög, og láta t. d. sýslunefndir, sem vitanlega hafa þessi mál alls ekki í hendi sinni nema að litlu leyti, hafa yfirumsjón með framkvæmdum hreppsnefndanna, sem allar framkvæmdir hvíla á í þessu efni, sem öðrum sveitarstjórnarmálum.

Ég get ekki verið hv. frsm. sammála um það, að þetta sé ekki stórmál. Nú eru aðrir tímar en fyrir 10—15 árum, því að afurðir af yrðlingum eru nú svo miklu hærri en áður. Það verður því næsta eðlilegt, að maður geri sér ljósa grein fyrir því, hverjir eigi afurðirnar af refavinnslu og grenjum í landareign manna. Sumir vilja halda því fram, að sveitarfélögin eigi að hirða ágóðann, og hv.1. þm. N.-M. sagði m. a., að það næði ekki nokkurri átt, að þessi hlunnindi ættu að tilheyra jörðunum, því að þær væru t. d. ekki byggðar með þeim skilyrðum. Ég verð nú að segja, að mér finnst þetta nýtt að heyra., og hefði alls ekki búizt við því úr þessari átt. Það er að vísu rétt, að hreppsfélög hafa oft töluverð útgjöld sökum grenjavinnslu, en það er óþarfi fyrir hreppinn að hafa nokkurn kostnað af því. Ef svo er, þá sé ég ekki, hvaða ástæða er til þess að svipta einstaklingana afurðunum og færa þær í hendur sveitarfélaganna, sem alls engan rétt eiga á þeim. Mig minnir, að hv. þm. Borgf. hafi bent á það ósamræmi, sem er á milli 4. gr. frv. og brtt. á þskj. 147 við hana, og ég fæ ekki betur séð en að þar komi hver grundvallarhugsunin í bága við aðra. — Annars skal ég verða við þeim tilmælum, sem mér bárust frá hæstv. forseta, um að fella niður umr. um sinn.