31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1931

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Dal. endaði sína fyrri ræðu í eldhúsinu á því, að hafa yfir gamalt íslenzkt Grýlukvæði, og af því, hvað hann flutti með miklum raunablæ þetta gamla skemmtikvæði, dró ég það, að hann mundi óska þess að vera nú sjálfur orðinn t. d. Langleggur. En af því að ég er dálítið skáldhneigður eins og hv. þm., þótt ekki sé ég kominn í stórskáldatölu fremur en hann, þá hefir mér líka dottið í hug gömul vísa, undir þeirri hríð, sem stórskotalið stjórnarandstæðinga hefir undanfarna daga látið dynja á stj. Vísan er svona:

Satt og logið sitt er hvað,

sönnu er bezt að trúa, —

en hvernig á að þekkja það,

þegar flestir ljúga?

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þótt haldinn sé eldhúsdagur hér á þingi, t. d. einu sinni á ári, þ. e. nokkurskonar pólitískur reikningsskiladagur, þar sem flokkarnir ræða sín á milli stefnu og starfsháttu þeirra, sem með völdin fara, og það er ekkert undarlegt, þótt margt þurfi að athuga, þegar við völdin situr stj., sem er áhugasamari og framtakssamari á flestum sviðum þjóðlífsins heldur en flestar eða allar þær stj., sem áður hafa setið hér. Það má segja, að allt orki tvímælis, sem gert er, og ég veit ekki til, að nokkurntíma hafi verið unnið það starf, að ekki megi deila um, hvort ekki hefði verið réttara að hafa það á annan veg. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort nokkur einstaklingur hefir nokkurntíma framkvæmt nokkurt verk fyrir sjálfan sig svo, að hann hafi ekki á eftir fundið, að eitthvað í framkvæmdinni mátti betur fara. Við hverju má þá ekki búast hjá stj., er hefir fjölda framkvæmda á prjónunum?

En þótt ýmislegt megi þannig með réttu finna að störfum þessarar stj. eins og allra annara, er ranglátt að dæma öll verk stj. óhæfu, alveg eins og ef t. d. ráðist væri á togaraútgerðina, þótt sumum togurum hafi mistekizt, þeir hafi strandað eða farið í landhelgi, eða á vegabætur landsins í heild, þó að þar hafi komið fyrir mistök, eins og t. d. í Ferjukotssíkinu eða með sumar brúarsmíðarnar, eða ef ræktunarstarfsemi landsins væri dæmd einskis nýt, þó að til kunni að vera kalblettur á stöku stað. Að öllu þessu má finna og á að finna, þó að það geti orðið smáræði, þegar litið er á heildarárangurinn. En þegar þess er gætt, að hér eru að verki stjórnarandstæðingar, sem hafa sýnt, að þeir ganga fyrirfram ákveðnir til verks, í því að vera á móti öllu því, sem stj. hugsar, segir og gerir og atyrða hana fyrir það; andstæðingar, sem gera stj. hinar fjandsamlegustu hvatir í hverju máli, sem leysa öll útgjöld ríkisins upp í fimmeyringa til að grýta hana með, — ja, þá er ekki að undra, þótt nokkuð teygist úr tímanum, sem notaður er til eldhúsverkanna.

Ég ætla ekki að fara langt út í þær ásakanir, sem andstæðingar stj. hafa á hana borið. Ég ætla aðeins að nefna þrjú dæmi, sem sýna sannleiksástina og einlægnina, sem þar er að verki.

Á þinginu 1928 var samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta tekju- og eignarskatt með 25% viðauka, ef á þyrfti að halda. Stjórnarandstæðingar réðust á stj. fyrir þetta og kváðu það óþarfa álögur á borgarana. Hinsvegar voru uppi háværar kröfur, bæði frá þessum flokki og öðrum, um margskonar verklegar framkvæmdir, sem stjórnarflokkurinn var ekki viss um, að fé mundi vera til þess að framkvæma, án þess að leyfa stj. að afla tekna á þennan hátt. Þegar svo sýndi sig, að tekjur ríkissjóðs voru meiri en búizt var við og ekki þurfti að grípa til þessarar heimildar og stj. ákveður að beita henni ekki, — hvað verður þá uppi á teningnum? Stj. er skömmuð fyrir það, fyrir að gera það ekki, sem hún var áður skömmuð fyrir að gera.

Þá ætla ég að minnast á annað dæmi. Stj. var átalin fyrir það á þinginu 1928, að hún hefði skorið við nögl sér framlög til vega- og brúargerða í landinu, er hún lagði fjárl. fyrir þingið. Það gerði hún, af því að hún áleit, að þá væru ekki fyrir hendi nægilegar tekjur til að standast kostnað af meiri framkvæmdum. Vitanlega var hún skömmuð fyrir þetta, þó að hún lýsti yfir því, að næði hún að tryggja sér nægilegar tekjur til þess, myndi hún auka þessar framkvæmdir, eftir því sem getan leyfði. Nú á síðasta ári sýndi sig, að hægt var fjárhagsins vegna að framkvæma miklu meira af vega- og brúargerðum en áætlað var, enda hefir stj. varið stórfé til þessa, í viðbót við það, sem var í fjárl. Hvað kemur þá fram? Þá er sagt, að hún hafi sukkað 4 millj. kr. af landsfé. Ekkert undan tekið. Vel má vera, að ýmislegt í umframgreiðslum stj. sé þannig lagað, að stjórnarandstæðingar vilji gera aths. við það. En ekki er látið sitja við það, heldur er hún einnig skömmuð fyrir að hafa varið fé til þess, sem hún var áður skömmuð fyrir að hafa útundan.

Þá skal ég minnast á Íslandsbankamálið. Eins og kunnugt er, stóðu öll járn á stj. fyrir það, að bankanum skyldi vera lokað, eða að hann skyldi ekki vera opnaður viðstöðulaust. En þegar stj. svo beitist fyrir því, að hann verði opnaður og á þann hátt, að meginhlutinn af þm. virðast vera ánægðir með lausnina, þá á hún slíka að fara frá fyrir það.

Þetta er ekki nema lítið sýnishorn af þeim krásum, sem fram hafa verið reiddar. Þannig er allt til tínt, smátt og stórt, rétt og rangt, satt og logið, og allt er þetta látið í þennan stóra eldhúspott stjórnarandstæðinga og hrært þar saman í einn allsherjar graut. Síðan ganga þeir í þetta og éta hver eftir öðrum, hver út úr öðrum og hver upp úr öðrum, þangað til þeir liggja dauðir í kös. En þeir menn, sem fara þannig að ráði sínu, tala sig ekki aðeins „dauða“ í þingsalnum, heldur í stjórnmálalífi þjóðarinnar yfirleitt — og því fyrr því meir sem þeir tala.

Ég skal ekki fara mikið út í það, sem stj. er ásökuð fyrir, en þó get ég ekki gengið framhjá 2–3 málum.

Stj. er skömmuð fyrir að hafa hækkað vextina, og henni er borið á brýn ósamkvæmni samkv. sínum fyrri skoðunum. Þessu hefir að vísu verið svarað og sýnt fram á, að ráðin yfir vöxtunum eru í allt öðrum höndum nú en var áður. Nú er búið að setja bankaráð, sem ræður þessu með bankastjórunum. Stj. hefir þar engan íhlutunarrétt. Þetta er eitt af mörgu, sem sýnir heiðarleikann í bardagaaðferð stj.andstæðinga. Ég minnist ofurlítið á þetta vaxtamál vegna þess, að ég var í bankaráðinu, þegar hækkunin fór fram.

Fyrst vil ég benda á það, að hér hefir verið mjög blandað saman útlendum seðlabankavöxtum og innlendum útlánsvöxtum, en það er sitt hvað. Oftast munar 1–2% á þeim, svo að það munar ekki eins miklu á innlendum og útlendum vöxtum eins og margir hafa látið í veðri vaka. Í haust var svo komið, að ísl. vextir voru orðnir hvað lægstir, miðað við það, sem gerðist í nágrannalöndunum. Og það segir sig sjálft, að við Íslendingar, sem lifum á erlendu lánsfé, getum ekki orðið undir erl. bönkum með vexti.

Þeir menn, sem áður höfðu notið lánsfjár erlendis, reyndu allt hvað þeir gátu að losa sig við lán í útlöndum og notuðu þau til hins ítrasta hér. Það var því nauðugur einn kostur að reyna að stöðva þetta áhlaup með því að hækka vextina. Enda kom það niður á bönkunum hér beint og óbeint, vegna viðskipta þeirra erlendis. hvernig vextir eru þar. Þegar vextir því hækka í aðalpeningalöndum heimsins, hlýtur það og að verka hér. (ÓTh: En ekki þegar þeir lækka!). Jú, það hefir slíka verkað.

Annars er það hlutur, sem verður að gera sér ljósan, að við Íslendingar, sem ekki höfum yfir miklu fjármagni að ráða, verðum að sætta okkur við nokkuð háa vexti. Eina leiðin til þess að draga fjármagn að, er að hafa nokkuð háa vexti, og framhjá því verður ekki komizt.

Annars vil ég segja í sambandi við þetta, að á árunum 1925–27, þegar hæst var krafan hér um lækkun vaxta, voru seðlavextir í London 4%, en 1927–29 hækkuðu þeir þannig, að í haust, þegar vextirnir hækkuðu hér um 1%, komust þeir upp í 6% í London, svo að vaxtahækkunin á þessu tímabili nam í London 2%, en hér í Reykjavík aðeins 1%. Þetta sýnir, að miðað við vextina í London, og sama gildir um New-York, þá hafa vextir hér lækkað um 1% frá árunum 1925–27 til 1929–30. Það má því alveg eins tala hér um óbeina vaxtalækkun eins og hækkun.

Svo í haust eftir að vextir fóru að lækka erlendis, þá lækkuðu þeir hér líka. (ÓTh: Þeir hækkuðu um 1%, en lækkuðu um ½%). Já, það er rétt hjá hv. þm. En ég býst við, að ef ekki hefði komið þetta bankaáfall hér upp úr áramótunum, hefði komið til mála að lækka þá enn meira.

Annars var það aðalkrafa fylgismanna núv. stj. á sínum stjórnarandstöðuárum, að vextir til landbúnaðarins lækkuðu, því að lán til hans eru yfirleitt trygg. Þessu hefir stj. snúið til vegar með því að koma á fót sérstökum landbúnaðarbanka, sem er svo byggður, að hann á að geta lánað til ýmsra greina landbúnaðarins fé með lægri vöxtum en aðrir. —

Ég get ekki leitt hjá mér gengismálið, þar sem hv. þm. Dal. og aðrir stjórnarandstæðingar hafa legið stj. á hálsi fyrir það, að festa ekki gengið. — Þeir menn, sem nú skipa stj. og allir þeirra flokksmenn á þingi lofuðu fyrir kosningarnar, að þeir mundu vinna að því að festa gengið, ef þeir kæmust í meiri hl. á þinginu. Þetta tókst nú ekki, því miður; því að eins og kunnugt er, er flokkur stj. í minni. hl. á þingi. En hún hefir gert allt, sem hún hefir getað í þessu máli, en það hefir staðið á hinum flokknum, að ekki hefir verið hægt að gera þetta formlega. En stj. hefir með því valdi, sem hún hefir og með tilstyrk bankanna fest gengið þannig, að því máli er nú í raun og veru ráðið til lykta, þótt eftir sé að ganga frá því formlega.

Að lokum skal ég minnast á eitt mál, sem hefir verið dregið inn í umr. og stjórnarandstæðingar lifa einna hæst á, og það eru embættaveitingarnar. Því er haldið fram, að stj. noti embætti og bitlinga til þess að múta sínum flokksmönnum, svo að þeir verði henni háðir í stóru og smáu. Það er nú upplýst, að stj. hefir veitt embætti mörgum andstæðingum sínum, svo að þessi ásökun er algerlega röng. En segjum sem svo, að hún hefði ekki gert þetta. Hvernig stendur þá á því, að nálega hver einasti maður, sem fer hér úr embætti, er íhaldsmaður? Liggur ekki nærri að álykta, að fyrrv. stjórnir, sem flestar hafa verið að meira eða minna leyti úr flokki núv. stjórnarandstæðinga, hafi fylgt þeirri meginreglu að skipa þau aðallega sínum mönnum? Ég man a. m. k. ekki eftir mörgum embættum, sem síðasta stj. á undan þessari veitti öðrum en flokksbr. sínum.

Fyrir utan embættaveitingarnar segja menn, að stj. úthluti fé og bitlingum til flokksmanna. Það hefir einu sinni verið sagt, að stj. væri búin að múta svo að segja öllum flokksmönnum sínum; það hefir verið talinn upp fjöldi trúnaðarstarfa, endurskoðunar-, bankaráðs- og milliþinganefndarstörf og önnur trúnaðarstörf, sem stj. hafi skipað. En fyrst er það að athuga, að stj. hefir alls ekki skipað öll þessi störf. Mörg þeirra eru skipuð af Alþingi, og stj. hefir þar engan íhlutunarrétt öðruvísi en aðrir þm. En allar þessar ásakanir sýna aðeins fláttskap stjórnarandstæðinga, því að fyrrv. stj. og þingmeirihl. hafa fylgt nákvæmlega sömu reglu. Hvenær hafa þeir sett sig úr færi að koma sínum eigin mönnum í embætti, mþn., endurskoðunarstörf o. s. frv.?

Þegar fyrrv. stj. skipaði í nefndir, t. d. bankanefndina sælu, þá veitti hún ekki öðrum þau störf en sínum eigin flokksmönnum. Svo atyrtu þessir sömu menn núverandi landsstj. fyrir það sama, er þeir sjálfir beittu út í æsar áður, og það sem allar stjórnir gera, að fela heldur sínum eigin samherjum pólitísk trúnaðarstörf, sem mikið er undir komið að vel séu af hendi leyst.

En það sem kórónar þessi síendurteknu mútubrigzl stjórnarandstæðinga, er hinn svívirðilegi hugsunarháttur, sem að baki þeim liggur. Þar er sem sé gengið út frá því, að hver maður, sem þiggur launað starf hjá öðrum, hafi þar með selt honum sjálfan sig með húð og hári. Þetta er einhver hinn lélegasti kaupmangaramórall, sem nokkursstaðar hefir birtzt. Árni Garborg lýsir þeim mönnum sem þannig hugsa, með þessum orðum:

„Sálin verður að viðskiptabók,

að vörutegund hver granni“.

Fyrir þessum mönnum er fólkið í landinu ekki annað en pólitískur verzlunarvarningur, sem gengur kaupum og sölum — þingmennirnir engu síður en aðrir. Ef stjórnarandstæðingar trúa sjálfir á það, sem þeir segja um þessa hluti, og ef þeir halda áfram þessum mútusöng sínum í sambandi við pólitísk trúnaðarstörf, verður ekki hægt að skoða hann öðruvísi en sem opinbera yfirlýsingu flokks þeirra um það, að allir, sem trúnaðarstörf hljóta í þeim flokki, allir þeirra endurskoðunarmenn, milliþinganefndarmenn bankaráðsmenn o. s. frv., allt séu þetta sálar- og sannfæringarlausir þrælar, sem æfilangt séu bundnir við árina á þessari pólitísku galeiðu, sem flokkurinn heldur úti.

Þá vil ég að lokum beina máli mínu til hv. þm. Ísaf. Mun ég þó ekki fara ýtarlega út í hans löngu ræðu, enda hafa aðrir tekið hana til meðferðar. En sumt í henni var þó þannig, að ég get ekki leitt það hjá mér að öllu.

Hv. þm. líkti Framsóknarflokknum við stýrislausan og áttavitalausan bát, sem hending ein réði um, hvert stefndi í hvert sinn. Ég mun nú ekki halda því fram, að stjórnmálaskúta sú, sem hv. þm. er „munstraður“ á, sé áttavitalaus. En það er annað lakara. Hv. þm. virðist ekki þekkja nema tvær áttir. Hann þekkir austur og vestur, en suður virðist hann ekki hafa hugmynd um, að sé til. Hann viðurkennir ekki tilverurétt milliflokks. Sinn eigin flokk viðurkennir hann vitanlega og sömuleiðis Íhaldsflokkinn, en það sem framyfir er, er frá „hinum vonda“ í augum þm. (ÓTh: Jónasi?) Og þarna mætast þeir Herodes og Pílatus. Þetta er eitt af því fáa, sem jafnaðarmenn og íhaldsmenn eru sammála um. — Íhaldsmenn segja: Þeir, sem ekki fylgja okkur, eru jafnaðarmenn. Það er aukaatriði, hvort þeir teljast til aðalbolsanna eða „bolsabræðranna“ — „Timabolsanna“. — Þeir eru allir af sama sauðahúsinu. — Jafnaðarmenn segja á sama hátt: Allir sem eru á móti okkur eru íhaldsmenn. Þar getur verið um stigmun að ræða, „stóra íhaldið“ eða „litla íhaldið“, aðalliðið eða varaliðið. Íhald er það allt saman. En einmitt með þessum gagnstæðu ásökunum á báða bága afsanna þessir flokkar hvor annars rök. Þau ganga hvort upp á móti öðru eins og + og ÷. Framsóknarflokkurinn er sem sé hvorki jafnaðar- eða íhaldsflokkur, eins og þessir andstæðingar hans ættu að vera farnir að skilja, heldur hann sjálfur — miðflokkur á milli tveggja hinna. Og það er hart, að hv. þm. Ísaf. skuli neita tilverurétti hans sem miðflokks, þar sem það er nú komið svo, að hans eigin flokksmenn, sócialdemokratar, eru einmitt víða um heim orðnir miðflokkur á milli kommúnistana annarsvegar og borgaraflokkanna hinsvegar. Og vitanlega sæta þeir þar sama ámæli frá „kommúnistum“ og Framsóknarflokkurinn nú frá þessum hv. þm., að þeir séu ekki annað en „litla íhaldið“.

Annars ætti ekki að þurfa að deila lengi um tilverurétt og þýðingu miðflokka, þar sem það er löngu heimskunnugt, að í þeim eins og miðstéttunum er venjulega mest af heilbrigðasta, þróttmesta og atorkusamasta fólkinu, er ber uppi farsælustu og hóflegustu stjórnmálastarfsemina.

Hv. þm. minntist á, að Framsóknarflokkurinn væri kallaður ýmist bændaflokkur eða samvinnuflokkur, og hafði ýmislegt við hvorttveggja að athuga. En hvorttveggja er réttnefni, vegna þess að flokkurinn leggur mesta áherzlu á viðreisn landbúnaðarins í atvinnumálum þjóðarinnar, en í skipulagsmálunum byggir hann aðallega á samvinnunni. En þetta fer auk þess mjög saman, því að það eru bændur landsins, sem borið hafa samvinnustefnuna uppi til þessa hérlendis, og samvinnan hlýtur að verða einn allra öflugasti þátturinn í viðreisnar- og velferðarbaráttu bændanna í bráð og lengd.

En hv. þm. vildi draga í efa, að núv. stj. hefði orðið bændum landsins að nokkru verulegu liði. Hélt hann því fram, að fé það, sem nú væri varið úr ríkissjóði til eflingar landbúnaðinum, kæmi honum sem heild ekki að neinu liði, heldur rynni sem gróðafé í vasa einstakra manna. En slíkar fullyrðingar geta ekki verið af öðru en vanþekkingu sprottnar. Því að á meðan ástandið í sveitunum er þannig, að stóra spurningin, sem fyrir liggur, er blátt áfram sú, hvort takast muni að forða sveitunum frá algerðri auðn eða ekki, þá er ótímabært að vera að tala um gróðafé íslenzkra bænda.

Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að það er allmikið fé, sem varið er úr ríkissjóði á hinum síðari árum til eflingar landbúnaðinum. En þm. má ekki halda, að bændurnir leggist í leti og sællífi vegna ríkissjóðsstyrksins. Fyrst og fremst er nú ekkert í eðli né uppeldi íslenzkra bænda, er skapað getur þá hættu. Og auk þess er það svo, sem og kunnugt er, að bændunum er gert að skilyrði að leggja sjálfir margfalt fram á móti hinum opinbera styrk í framkvæmdum jarða- og húsabóta. Hin nýja starfsemi, sem hafin er í að rækta og byggja upp landið, er sameiginlegt átak alþjóðar við að bæta úr margra alda vanrækslu íslenzku þjóðarinnar — forfeðra allra landsmanna, bæði þeirra, er sveitirnar byggja, og hinna, er sjóinn stunda. Og af því mikla starfi kemur vitanlega langmest á herðar bændanna sjálfra. Og þó að sú starfsemi beri þeim sjálfum nokkra ávöxtu beint og óbeint, þá er samt það starf aðallega unnið fyrir síðari tímann, fyrir hinar ófæddu og ókomnu kynslóðir. Það er því alveg rangt hjá hv. þm. Ísaf., þegar hann heldur því fram, að landbúnaðarpólitík stj. viti mest að hinni líðandi stund, en komi minna framtíðinni við. Ræktun landsins er fyrst og fremst fyrir framtíðina unnin, en örðugust hinni líðandi stundu, þ. e. mönnunum, sem verða að leggja fé og fyrirhöfn í að framkvæma störfin. Þm. þarf því ekki að óttast, að fé því, sem ríkið ver til þess að létta undir þau störf með bændunum, sé illa varið. Við gleðjumst yfir okkar auðugu fiskimiðum, og við blessum þá menn, er hætta lífi og limum til að sækja þangað björg í sameiginlegt bú þjóðarinnar. En við vitum ekki, hversu auðlegð þeirra helst lengi. Það er djúpur brunnur, sem ekki verður ausinn upp. En við vitum hitt, að það fé, sem varið er til að rækta landið, auka gróðurmagn þess og gera það byggilegra, — að það fé heldur áfram að gefa vöxtu og vaxtavöxtu, þó að hin dýpstu fiskimið verði þurrausin. Það verður því ekki annað þarfara gert við hin reikulu auðæfi hafsins en að festa sem mest af þeim í moldinni. Hún er þjóðarinnar tryggasta eign, og fyrst og fremst eign alþjóðar, hvernig sem einstakar kynslóðir haga ábúðarrétti einstaklingana.

Þá hafði hv. þm. ýmislegt að athuga við samvinnnhreyfinguna eins og hún kemur fram í stefnu og starfsemi Framsóknarflokksins. Vildi hann halda því fram, að hin rétta samvinnustefna væri ekki annað en ein grein sócíalismans og benti á því til stuðnings, að í Rússlandi væri samvinnan í stöðugum uppgangi og einn aðalþátturinn í þjóðnýtingu kommúnistanna. Náttúrlega er hv. þm. á engan hátt of gott — fremur en öðrum — að gamna sér við nýjar nafngiftir á gömlum hlutum og hugtökum. En það er í rauninni ekki annað en að brengla gömlum hugtökum, þegar farið er að blanda saman „samvinnustefnu“ og „jafnaðarstefnu“. Þetta hvorttveggja er heiti á gamalkunnum, gagnólíkum, hagfræðilegum stefnum, sem öllum, er við opinber mál fást, eru kunnar, og flestir kunna orðið að gera greinarmun á. Þó að byrlega blási nú fyrir samvinnustefnunni í Rússlandi, þá sannar það ekki annað en það, sem margir hafa vonað, að „kommúnisminn“ mundi smátt og smátt nálgast veruleikann og lífið og laga sig eftir því.

Það er oft svo, að þegar störfin og ábyrgðin færast yfir á herðar manna, jafnvel þeirra, sem bezt hafa lifað á loftkenndum hugsjónum, þá laga þeir sig eftir kringumstæðunum — sveigja hugsjónirnar og veruleikann saman til frjórrar starfsemi. — Einmitt þetta gefur manni trú á, að upp úr þeim glundroða, sem kommúnisminn hlaut að valda í öndverðu, vaxi með tímanum hófleg og heilbrigð stjórnmálastefna, sem orðið geti öðrum til fyrirmyndar. Og það ætti sízt að verða samvinnumönnum hryggðarefni, þó að „kommúnistar“ sæki til þeirra úrræðin, er annað þrýtur. Og við ættum satt að segja ekki að þurfa að fara til stóra Rússlands eftir slíkum dæmum. Það þarf ekki nema til „litla Rússlands“ — í kjördæmi þessa hv. þm. sjálfs.

Það ætti að vera hv. þm. í fersku minni, að fyrir nokkrum árum lenti Ísafjarðarkaupstaður í fjárhagslegu öngþveiti, svo að nauðsyn þótti að grípa til góðra ráða — að reisa atvinnulíf kaupstaðarins úr rústum. Nú er það kunnugt, að Ísafjarðarkaupstaður er sterkasta vígi jafnaðarmanna hér á landi. Hefði því mátt búast við, að þeir gripu til hinnar marglofuðu þjóðnýtingar, þ. e. litla bæjarfélagið sjálft beitti sér fyrir atvinnurekstrinum. En hvað skeður? Jú, það er stofnað samvinnuútgerðarfélag á staðnum, og mér er sagt, að það sem af er, gangi starfsemi þessi prýðilega, og það svo, að nú rýkur hver kaupstaðurinn af öðrum til að stofna samskonar félagsskap. Þetta er mjög gleðilegt tákn tímanna. En hinsvegar er engin ástæða til að fara að kalla samvinnustefnuna jafnaðarstefnu, þótt jafnaðarmenn fari að tileinka sér ýmislegt úr henni, frekar en að fara að kalla Reykjavík Ísafjörð, þótt ýmsir Ísfirðingar leiti þangað og fái sér þar búsetu.

Hv. þm. fannst það bæði óeðlilegt og óskiljanlegt, að framsóknarmenn skyldu geta átt nokkuð saman við íhaldsmenn að sælda, og alveg á sama hátt undrast íhaldsmenn samstarf framsóknar- og jafnaðarmanna. En þetta er hvorttveggja ósköp eðlilegt og kemur til af því, sem áður er sagt, að Framsóknarflokkurinn er miðflokkur á milli tveggja hinna. Aðstaða hans er svipuð bónda, sem á jörð á milli tveggja granna. Hann á sameiginleg landamerki með báðum og getur þar af leiðandi átt sameiginlega hagsmuni með báðum. Það geta verið sameiginleg veiðivötn, sameiginleg engjalönd, sem þarf að veita á og friða o. s. frv. Og bóndinn gætir þessara hagsmuna sinna til beggja handa. Það er í sjálfu sér ekki að undra, þótt framsóknarmenn og íhaldsmenn gangi stundum saman að málum, þar sem þeir eru að sumu leyti fulltrúar sömu manna og sömu stétta og hafa æði oft sömu hagsmuna að gæta í atvinnumálum sinna kjósenda. Í Skipulagsmálum eru framsóknarmenn aftur á móti róttækari en íhaldsmenn og hljóta þar vitanlega stuðning jafnaðarmanna, sem venjulega vilja ganga þar enn lengra, og styðja þá sömuleiðis að ýmsum slíkum málum. Þannig verða þeir eins og bóndinn að taka höndum saman við þessa granna sína á báða bóga; ekki af löngun til að vera á milli, heldur til þess að vera í samræmi við sitt eigið eðli og sín eigin áhugamál. Þetta ættu stjórnmálamenn að skilja, þó að það kunni að ruglast saman í höfðinu á ýmsum kjósendum.

Þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Ísaf. hafa verið að kasta mér dálítið á milli sín í þessum umræðum. Hv. 2. þm. G.-K. byrjaði á þeim leik, með því að hafa upp eftir mér nokkur ádeiluorð, sem ég lét falla í garð jafnaðarmanna í Íslandsbankamálinu. Vitanlega voru þau orð fyllilega réttmæt og ég get vel skilið, að hv. 2. þm. G.-K. vilji halda þeim á lofti. Hann hefir orðið fyrir því raunalegu hlutskipti að lenda ungur í flokki, sem var veginn og léttvægur fundinn. Syndir hins liðna hvíla á herðum þess flokks eins og gamlar skuldir á misheppnuðu fyrirtæki. Skuldir, sem vonlaust er um að komast nokkurntíma úr. Það verður oft hinsta gleði þeirra manna, sem þannið er komið fyrir, að lauga hugann uppúr ávirðingum annara. Síðasta huggun þess, sem ekki getur vaxið sjálfur, er oft það, að aðrir minnki.

Annars er rétt að geta þess út af hinu margumtalaða „kámi“, sem ég minntist á að félli á okkur framsóknarmenn vegna samstarfs okkar við nágrannanna — og nágrannana beggja megin — get ég bætt við, að það stafar einmitt af þessu skilningsleysi fólksins, sem ég minntist á áður, — skilningsleysi á eðli og nauðsyn þess, að Framsóknarflokkurinn vinni að ýmsum málum sitt á hvað með báðum hinum flokkunum. Ef við styðjum annanhvorn flokkinn að góðu máli — og það getur líka komið fyrir með íhaldsmenn — þá finnst ýmsum hinna óþroskaðri manna, og þeir eru fleiri en skyldi, að við höfum tekið ábyrgð á öllum syndum hinna sömu flokka. Þetta er kámið, sem ég minntist á, að við fengjum af samstarfinu við hina flokkana. Það er þetta kám, sem við sífellt verðum að þvo af okkur, en ekki stuðningurinn við góð mál, eins og hv. þm. Ísaf. einhverntíma hélt fram. Mjaltakonan þvær sér ekki vegna mjólkurinnar, sem hún nær úr kúnni, heldur óhreinindanna, sem falla á hana við að ná mjólkinni. Þess vegna er okkur kærkomið það steypubað, sem við fáum frá þessum sömu grönnum sitt á hvað. Þeir hreinþvo okknr hver af annars „kámi“ miklu betur en við gætum sjálfir.