10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jón Auðunn Jónsson:

* Hv. þm. Borgf. sagði, að þetta væri til þess að skapa refabúunum betri aðstöðu, svo að þeim myndi fjölga á næstu árum. Hitt er og víst, að eigi þessi atvinnuvegur að vera til góðs, verður að kosta kapps um að flytja aðeins góð dýr út. En nú er það svo, að þeir, sem kaupa refina á vorin, flytja allt út, sem þeir fá, hversu mikið rusl sem það er. Það er einnig upplýst í þessu máli, að oft er það svo, að þeir selja betri dýrin sem grænlenzk, en úrkastið selja þeir undir íslenzku nafni. En ef dýrin verða flutt út að haustinu, sem að öllu leyti er skynsamlegt, er það víst, að framvegis verða það aðeins valin dýr, sem seld verða. Ég veit til þess, að á síðastl. vori keypti útlendur kaupmaður yrðlinga, fyrst eftir að refabúin voru hætt að kaupa þá. Hann keypti þá fyrir lægra verð en refabúin höfðu gefið fyrir þá. Þannig kom einn til Ísafjarðar og keypti þar 160—180 yrðlinga. Voru þeir mjög misjafnir að gæðum. Hann fór með þetta allt til útianda. Ég álít, að bezt sé að vanda þessa vöru sem mest.