10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Út af ummælum hv. þm. N.-Ísf. verð ég að geta þess, að þau byggjast á misskilningi hv. þm. Hann virðist alls ekki hafa lesið till. í þessu máli.

Hv. þm. talaði um, að ekki mætti flytja slæm dýr út. Eftir frv. má ekki flytja nokkurt dýr út nema dýralæknir hafi skoðað það og gefið vottorð um heilbrigði þess. Það er því tilgangslaust hjá hv. þm. að vera að benda á ástandið eins og það er áður en nokkur lagaákvæði eru sett um þetta.

Hv. frsm. er nú flúinn úr því skjólinu, sem hann stóð í, með fullyrðingar sínar frá refabúsformanninum. Nú benti hann á gengisnefndina. Ég get ekki farið þangað til að leita þeirra upplýsinga, því eins og hv. frsm. á að geta séð, er enginn tími til þess að gera það áður en atkvgr. fari fram um þetta mál. Og ef gengisnefndin hefir svo mikið um þetta í sínum fórum, hví hefir hann þá ekki aflað þeirra upplýsinga. Hv. frsm. mátti þó vita, að í skjóli þeirra upplýsinga, sem hann fékk hjá refabúsforstjóranum, mundi honum ekki vera lengi vært.