10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og ég tók fram áðan, þá hefi ég fengið staðfestingu á því hjá gengisnefnd, að það, sem ég sagði um daginn, er rétt. Ég hefi ekki áætlað verðmuninn á yrðlingum haust og vor of hátt. Samkv. þeim upplýsingum var meðalverð hvers mánaðar eins og hér segir:

Í júlí ........... ca. 140 kr. pr. dýr

— ágúst ...........— 300 — — —

— september.......... — 530 — — —

— október .......... — 490 — — —

— nóvember ........... — 560 — — —

Meðalverðmunur á hverju dýri í júlí og nóv. var því 420 kr., og er það a. m. k. staðfesting á því, sem ég hefi áður sagt um þetta.

Ég hefi nú skýrt þetta fyrir hv. d. og legg það í dóm hennar, hvort ég hafi ekki rök að mæla, að munurinn á verði yrðlinga vor og haust sé meiri en nemur tilkostnaði. Og þótt hv. þm. Borgf. rengi mig, mun hann þó ekki rengja gengisnefnd. En hv. þm. virtist efast um, að ég færi rétt með þessar tölur, og þess vegna vísaði ég honum þangað. (PO: Það er nokkuð seint). Nei, það er ekki of seint, 3.umr. er eftir.

Hv. þm. sagði áðan, að dýrin væru ekki öll flutt út, heldur væri sumum slátrað, og því fengist minna verð fyrir þau. Þetta er að vísu rétt, enda gerði ég ráð fyrir afföllum í reikningum mínum, og jafnvel þó áætlun mín um þau verði ekki tekin gild, þá geta þau aldrei orðið nándar nærri eins há og verðmunurinn. Ég gaf hv. þm. þessar tölur uppskrifaðar ásamt tilkostnaði og afföllum. Var það ekki rétt? (PO: Það stóð aðeins „kostnaður“ hjá hv. þm.).