31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég skal reyna að leitast við að lengja ekki umr. mjög mikið.

Þessi eldhúsdagur hv. stjórnarandstæðinga er nú ekkert orðið annað en lengdin, sem allir fælast og eru fyrir löngu orðnir leiðir á, því enginn er farinn að skilja í því, hvar þetta eigi að enda. Ég get því frekar verið stuttorður nú, þar sem ég hefi ekki heyrt nema sumt af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið hér í þessari hv. d., og sumt hefir farið framhjá mér, þótt eitthvað kunni að hafa fallið í minn garð. Ég hefi að minnsta kosti af og til haft þarfara að starfa en að hlusta eftir þessum ræðum.

Það, sem gefur mér aðallega tilefni til að standa upp, er ræða hv. þm. Vestm., sem haldin var einhverntíma í vikunni sem leið.

Okkur hv. þm. bar nokkuð á milli út af síldareinkasölunni, sem hann gerði að árásarefni á stj. Hv. þm. kvartaði undan því, að ég hefði verið harðorður í sinn garð. Mér þykir það leitt, ef hv. þm. hefir tekið sér það mjög nærri; en hinsvegar verð ég að segja það, að ræða hans gaf tilefni til þess, að ekki væri tekið á henni með sérstaklega mjúkum silkihöndum.

Það er langt frá því, að ég ætli að fara að deila við hv. þm. um öll atriði, sem fram komu í ræðu hans. Til þess er enginn tími. Ég ætla aðeins að minnast á fáein atriði.

Það, sem hv. þm. sagði um síldarsöltun, virtist bera vott um litla þekkingu hjá honum á síldarsöltun og útgerð, og mig furðar að hann skuli fara svo langt út í málið sem hann gerði: Hv. þm. hefir vafalaust fengið upplýsingar hjá mönnum, sem ekki hafa verið neitt vinveittir einkasölunnni, og hann hefir byggt of mikið á þeim upplýsingum.

Ég hafði svarað sumum atriðum frá fyrri ræðu hv. þm., en í seinni ræðu sinni endurtók hann sumt, og þarf ég ekki að fara út í það.

Hv. þm. gat þess meðal annars, að eitthvað hefði verið selt af síld áður en reglugerðin 1928 hefði verið samþ. Þetta getur verið rétt hjá hv. þm., en það voru tiltölulega fáar tunnur, sem seldar voru áður en reglugerðin var sett. En sú sala var í samræmi við þá reglugerð, sem síðar kom eftir till. þeirra manna, sem bezta þekkingu töldust hafa á þessu máli. Stærð síldar var eins og reglugerðin ákvað að hún ætti að vera, enda seldist sú síld fullu verði, sem seld var fyrirfram.

Þá er búið að marghrekja í ræðum og blöðum það, sem sagt hefir verið um síldarsamninginn 1928. Samanburður hv. þm. á kryddsíld árin 1927, 1928 og 1929 er villandi, því sú tunnuupphæð, sem hann nefndi fyrir árið 1929, er röng. Krydd- og sykursöltuð síld, sem alltaf er talin saman í útflutningsskýrslum, voru 26 þús. tunnur árið 1929, en ekki 17 þús., eins og hv. þm. sagði

Staðhæfingar hans munu vera byggðar á sögusögnum annara, þar sem hann hefir alls ekki kynnt sér þessi mál af eigin reynd. Mun sykursaltaða síldin hafa verið dregin undan.

Þá kom sami hv. þm. að því í seinni ræðu sinni, að Svíar hefðu eiginlega kryddsíldarverkunina í sínum höndum. Það er rétt, að þannig hefir það verið, og það er ekki svo létt að breyta því í einu vetfangi. Árið 1928 var ekki hægt að ná samningi við Svía um kaup á kryddsíld á öðrum grundvelli en þeim, að þeir að miklu leyti legðu til salt, tunnur og krydd. Var eðlilegt, að svo færi fyrsta árið, því sumir síldarkaupendurnir áttu tunnur og salt liggjandi hér á landi frá árinu 1927. Einnig höfðu íslenzkir síldarútgerðarmenn geri fyrirfram samninga um kryddsíld snemma á árinu 1928, sem síldareinkasalan varð að taka tillit til, þó óhagstæðir væru á ýmsa lund. Þess vegna var ekki hægt að taka kryddsíldarverkunina eins föstum tökum og æskilegt hefði verið.

Árið 1929 var hægt að lagfæra þetta að talsvert miklu leyti, þó nokkrir síldarkaupendur fengju þannig samninga, að þeir legðu til tunnur og krydd.

Það tekur nokkurn tíma að kippa þessu í það horf, sem það þarf að komast í, eins og það hlýtur að taka langan tíma að lagfæra allt það hörmungarástand yfirleitt, sem síldarsalan var komin í áður en síldareinkasalan komst á.

Þá var hv. þm. að gera samanburð á síldarverði. Tók hann árin 1923 til 1927 og bar þau saman við árið1928. Þessi samanburður var á ýmsan hátt mjög villandi. (JJÓs: Ég vitnaði í skýrslur sjútvn. Fiskiþingsins). Já, ég kem að því síðar. Í fyrsta lagi var peningagildið á þessum árum, allt fram að 1926, allt annað en árið 1928. (JJós: Ekki einkasölunni í óhag). Jú, einmitt einkasölunni í óhag. Og það verður að taka tillit til þess, ef gera á samanburð, sem nokkurt vit er í. Þarf því meiri nákvæmni við athugun síldarverðsins í krónutali, heldur en hv. þm. sýnir með þeim hundavaðstíningi, sem hann notar við þennan samanburð og annað, sem snertir síldareinkasöluna.

Í öðru lagi er þess að geta, að verð það á síldinni, sem tilgreint er í útflutningsskýrslum, er annað en það raunverulega verð, sem fyrir síldina fæst að lokum, og er svo að segja undantekningarlaust hærra. Á útfutningsskýrslunum er tilfært áætlunarverð; það verð, sem útflytjendurnir hugsa sér að fá fyrir síldina. (JJós: Ef hún er seld í „konsignation“). Já, það hefir nú einmitt mikill hluti síldarinnar verið seldur í „konsignation“ á þessum árum. Þess vegna er ekkert á útflutningsskýrslunum að byggja að þessu leyti. Síldarútflytjendurnir hafa enga tilhneigingu til að áætla síldarverðið lágt, því tollur af síld er greiddur pr. tunnu, án tillits til þess verðs, sem fyrir hana fæst. Þess vegna er ekki hægt að sjá af útflutningsskýrslunum með neinni vissu, hvað síldareigendurnir fá í raun og veru fyrir síldina hvert árið.

Það hefir jafnvel komið fyrir, að síld, sem mjög háu verði hefir verið reiknað í skýrslunum, hefir orðið að kasta í sjóinn utanlands.

Síldin er venjulega mest flutt út á þeim tíma, sem verðið á markaðinum er hæst, og áætlaða verðið miðað við það. Allir, sem við síldarútflutning hafa fengizt, þekkja þau tilfelli, að síld, sem flutt hefir verið út á þeim tíma, sem verðið er hátt á markaðinum, og því útflutningsverð hennar áætlað í samræmi við það, hefir selzt fyrir margfalt lægra verð, og stundum ekki einu sinni fyrir kostnaði við hana utanlands. Til dæmis haustið 1926 voru fleiri þúsund tunnur af síld fluttar út frá Norðurlandi og áætlað verð á hverri tunnu 60 kr. Mikið af þeirri síld seldist á aðeins 15 kr. tunnan og sumt af henni seldist alls ekki. Þetta sýnir, að samanburður hv. þm. er í mesta máta villandi.

Árið 1927 voru saltaðar og kryddaðar alls hér á landi 240 þús. tunnur. Telur hv. þm. Vestm., að sú síld hafi selzt fyrir alls rúmar 5 millj. kr., og er það víst, að söluverðið hefir ekki verið hærra; sennilega miklum mun lægra. Árið 1928 voru saltaðar og kryddaðar alls 184 þús. tunnur. Söluverð þeirrar síldar varð alls yfir 5½ millj. kr. Í báðum tilfellum er þetta reiknað með tunnum og salti. Sýnir þetta, að þó maður leggi til grundvallar áætlað útflutningsverð síldarinnar 1927, eins og hv. þm. gerir, sem þó er of hátt, þá hafa síldareigendur fengið um ½ milj. kr. meira fyrir 184 þús. tunnur árið 1928 heldur en fyrir 240 þús. tunnur 1927. Þó ber þess einnig að gæta, að frá síldarverðinu 1927 ber að draga tunnu- og saltverð þeirra næstum 60 þús. tunna, sem fleiri voru fluttar út árið 1927. Er sennilegt að áætla það 8 kr. á tunnu, sem verður þá alls um 450 þús. kr. Árangurinn af þessum samanburði verður því sá, að landsmenn hafa fengið um 1 millj. kr. meira fyrir 184 þús. tunnur af síld saltaðri 1928 heldur en þeir fengu árið 1927, þó miðað sé við það áætlunarverð á síldinni 1927, sem hv. þm. tilgreinir og vitanlega er of hátt. Raunverulega verðið 1928 sýna reikningar einkasölunnar.

Það hafa verið færð góð rök fyrir því opinberlega, að síldarútvegurinn hafi grætt 1½ millj. kr. á einkasölunni 1928, samanborið við söluna 1927, og hefir það ekki verið hrakið.

Í fyrri ræðu sinni minntist hv þm. Vestm. á einhvern vin stj., sem hefði fengið nógar tunnur, þegar tunnuskortur var og aðrir fengu engar tunnur hjá einkasölunni. Mér var ekki ljóst þá við hvern hann átti. En nú í síðari ræðu sinni kvað hv. þm. upp úr með það, að hann hefði átt við Þormóð Eyjólfsson á Siglufirði. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, því Þormóður notaði engar tunnur í sumar. Sannleikurinn í þessu er sá, að einn af stærstu síldarútgerðarmönnunum, Ingvar Guðjónsson, fékk leyfi hjá einkasölunni til að flytja sjálfur inn tunnur handa sér árið sem leið. Þess vegna hafði hann tunnur, þegar aðra vantaði þær.

Þá var hv. þm. að gera samanburð á því, hvað Norðmenn fengu fyrir sína síld í Svíþjóð síðastliðið ár, og því sem Íslendingar fengu fyrir sína. Þessi samanburður var vægast sagt eintóm vitleysa. Skal ég nú reyna að rökstyðja það nokkuð.

Hv. þm. segir, að meðalverðið, sem Norðmenn fengu fyrir sína síld í Svíþjóð, hafi verið 23 aurar norskir pr. kílógr., sem jafngildir því sem næst 28 aurum íslenzkum. Meðalþungi í síldartunnu hjá Norðmönnum er 80 kg. Hafa þeir því fengið kr. 22,40 íslenzkar fyrir hverja síldartunnu komna til Svíþjóðar, að frádregnum tunnum og salti. Þetta þótti hv. þm. ólíkt betra verð heldur en einkasalan fékk.

Er því rétt að athuga, hvað einkasalan hefði getað greitt síldareigendum hér, ef henni hefði tekizt að ná sama ágætis verði og Norðmenn fengu, eftir því sem hv. þm. greinir, og vel má vera rétt, því það mun tekið úr opinberum skýrslum norskum.

Frá þessum 22,40 kr. ber þá að draga kostnað þann, sem hér segir:

1. Flutningsgj. til Svíþjóðar kr. 3,60 ísl.

2. Kostnaður einkasölunnar — 1,50 —

3. Útflutningsgjald ..... ... — 1,50 —

4. Tunnu- og salttollur . .. . — 0,35 —

5. Vörugjald ....... ....... — 0.15 —

6. Vinnulaun við síldina í landi .. — 5.00

— Samtals kr. 12,10 ísl.

Þessi kostnaður dregst frá því síldarverði, sem fæst í Svíþjóð. Verður því samkv. þessum útreikningi nettóverðið 10,30 kr. á tunnu, eða fullum 30% lægra en það verð, sem einkasalan greiddi fyrir hrásíldina til síldareigenda hér. Það er ekki við góðu að búast hjá hv. þm., þegar hann byggir útreikninga sína algerlega á röngum forsendum.

Ég skal svo ekki dvelja lengur við þetta. Vil aðeins að endingu minnast á það, að hv. þm. var að kveinka sér undan þeirri lýsingu, sem ég gaf á ástandi síldarútgerðarinnar og síldarverzlunarinnar áður en einkasalan tók til starfa. Ég vil benda hv. þm. á að kynna sér lýsingu á því ófremdarástundi, sem síldarútgerðin var komin í, sem Björn Líndal gaf í fyrirlestri, sem hann flutti á fundi hér í Reykjavík fyrir nokkru síðan. Sú lýsing var svo skuggaleg, að ég hefi þar hvergi komizt í námunda. Þennan fyrirlestur, eða útdrátt úr honum, getur hv. þm. lesið í Morgunblaðinu frá þeim tíma. Ef hann gerir það, vona ég að hann sjái, að ekki var ofmælt, það sem ég hefi sagt um þetta efni.