18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Hv. frsm. fór hógværum orðum um. brtt. mínar, þótt hann væri heldur á móti þeim. Um tvær þær fyrstu sagði hann, að það, sem þar er gert ráð fyrir, mætti gera án þess að þær væru samþ. Það er kannske eitthvað ofurlítið til í þessu, en það er þó talsverður munur á, hvort landeigendur eiga rétt til að taka að sér skotmennskuna, nema þeir séu óhæfir til starfans, eða hvort hreppsnefnd má ganga alveg framhjá þeim eftir eigin geðþótta. Víða hagar svo til, að margar skyttur eru í sama hreppi, og ég og ýmsir fleiri góðir hreppsnefndarmenn hafa verið því hlynntir, að leyfa mönnum að skjóta sjálfir í landi sínu. En það er engin trygging fengin fyrir því, að aðrar hreppsnefndir verði ekki örðugri í þessu efni. — Ef bornar eru saman 2. brtt. hv. n. á þskj. 291 og 3. mgr. 4. brtt. minnar á þskj. 303, þá sést, að á þeim er raunverulegur munur. Þrátt fyrir bezta vilja get ég ekki séð, hvernig það á að samrýmast nokkurri sanngirni, að hreppurinn eigi að fá ágóðahlut þann, sem ráð er fyrir gert í till. n., nema það eigi að verða svo, að hreppurinn fái ágóðahlut af hverju einu, sem hreppsbúar afla sér, t. d. tófum að vetrinum. (LH: Hreppurinn fær andvirði óskilafjár og ómerkinga). Það er nú svo. Hreppurinn fær þetta því aðeins, að enginn geti helgað sér kindurnar. Þær hreppsnefndir, sem ég þekki til, eru ekki heldur svo þröngsýnar, að þær láti ekki þann mann fá ómerking, sem getur leitt sæmileg rök fyrir því, að hann eigi ómerkinginn, þótt ærin hafi t. d. drepizt. Enda er þetta alveg rétt, því að það er í flestum tilfellum vitanlegt, að hreppurinn á ekkert í ómerkingnum, því að engar á hann ærnar.

Mér dettur ekki í hug að taka það illa upp, þótt hv. n. sé á móti till. mínum, og ég ræð ekki við það, hvort þær verða samþ. eða ekki. En ég hefi reynt að koma því lagi á þetta frv., sem mér hefir af margra ára reynslu og samvizkusamlegri athugun sýnzt heppilegast.

Ég tek undir það með hv. frsm., að frekari umr. eru þýðingarlitlar. Ef menn hafa bitið það í sig, eins og hv. landbn. sýnist hafa gert, að láta ekki af einhverri fyrirætlun, er ekki að búast við miklum árangri af fortölum.