18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég heyrði ekki ræðu hv. frsm., en mér er sagt það eftir honum, að það sé mjög gott að byggja á till. þeirra, sem kunnugir eru atvinnurekstrinum. Þetta er auðvitað gott að vissu marki. En þegar þeir vilja fara að nota aðstöðu sína til að auðgast meira en rétt er á kostnað annara, er kominn tími til að taka í taumana. Það er þetta, sem hér er um að ræða. Refaræktarmennirnir vilja hafa verðið á yrðlingum alveg í hendi sér. Brtt. mín fer fram á að láta atvmrh. geta losað menn undan því fargi, er þetta getur á þá lagt. Ég skil sízt, hvernig hv. frsm. fer að því að vera á móti. þessu, þegar undanþáguvaldið verður fengið í hendur þeirrar hæstv. landsstj., sem hann fylgir gegnum þykkt og þunnt.