11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. form. landbn. virtist skilja ummæli mín á þann veg, að mér hefði sárnað, að landbn. skyldi ekki leggja til, að frv. mitt yrði samþ. óbreytt. Ef ég hefði látið orð falla, sem bent gæti á þetta, væri sök sér, þó hv. form. henti það á lofti. En þar sem ég sagði skýrt og skorinort, að málinu hefði verið vísað til landbn. til þess að hún gæti umbætt það, er leiðinlegt að heyra hv. form. núa mér því um nasir, að ég hafi engar breyt. viljað. Þess óskaði ég einmitt helzt, að breyt. yrðu gerðar á frv. á þann hátt, sem betur mætti fara.

Ég gerði að umtalsefni grenjavinnslu, en þar hefir landbn. alveg horfið frá því, sem ég lagði til og byggt er á margra ára reynslu. Ég fann ekki að öðrum breyt. hv. n., svo að hv. form. þurfti ekki að rjúka upp á nef sér eins og hann gerði.

Hv. þm. kvartaði undan því, að ég hefði sagt, að n. hefði tekið of mikið tillit til ýmissa manna, sem hafa hag af því, að dýrunum sé sleppt. Það, sem á skorti, var víst það að ég nefndi ekki nöfn þessara manna.

Ég hefi ekkert móðgað hreppsnefndirnar. Ég veit vel, að þær vilja gjarnan búa tryggilega um þetta, en þær eru ekki einar í ráðum. Slík mál eru borin undir sveitarfundi. Það er öruggast, að skyttan fái því meiri arð, því meira sem hún vinnur af fullorðnum dýrum. Ég hefi alls ekki haldið því fram, að till. mþn. í þessu efni sé sú eina rétta. Ég get vel fallizt á, að hyggilegt sé að greiða skotmönnum enn meira en mþn. lagði til. En það er ekki til neins að mæla á móti því, að grenjaskyttur hafa sleppt fullorðnum dýrum. Hér er auðvitað ekki til að dreifa sviksemi hreppsnefnda. Hreppsnefndirnar vita engin deili á vinnubrögðum skotmannanna. Þegar þær verða varar við sviksemi hjá skotmönnum, reka þær þá frá starfinu. En ég verð að segja, að þegar skotmaður þarf að leggja mikið á sig, en hreppsnefndir skera launin mjög við neglur sér, er ekkert óeðlilegt, að hann sleppi fullorðnu dýrunum.

Ég hefi aldrei sagt, að landbn. vildi ekki þessu máli vel, þó að mér hafi fundizt hún bregðast skyldu sinni um þetta eina atriði. Hún hefir vafalaust gert það eftir beztu vitund, en henni hefir missézt.

Hv. þm. sagði, að þegar mþn. hefði starfað að einhverjum málum, ætti ekki að þurfa að breyta þeim. Það er vitanlega rétt, enda hefir n. ekki breytt neinu mikilvægu, nema þessu eina atriði.

Hv. þm. Borgf. var að tala um leitarsvæði og afrétti. Ég hefi ekki sagt eitt orð um, að ekki mætti tiltaka menn á leitarsvæði.

Að síðustu vil ég segja hv. form. landbn., að þó að mál hafi verið borin undir þingið frá mþn., prýðilega undirbúin, hefir þingið breytt þeim og fært úr lagi.

Hv. þm. Borgf. taldi ósæmandi fyrir þingið að samþ. frv. eins og það kom frá mþn. Þetta mál er nú orðið svo þrautrætt og leiðinlegt, að ég nenni ekki að vera að elta ólar við hv. þm. Reynslan er búin að sýna, að skotmenn hafa verið svikulir.