24.01.1930
Efri deild: 4. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

8. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefði að vísu verið ástæða til að fylgja þessu frv. úr hlaði með löngu máli. En þar sem ég er að mestu leyti sammála hinni ítarlegu grg. milliþinganefndarinnar, get ég sparað mér langt mál með því að vísa til hennar. Og mér finnst undirbúningur hennar á þessu frv. svo rækilegur, að það ætti að geta fengið fulla afgreiðslu á þessu þingi.

Í hitteðfyrra voru af hálfu stj. bornar fram bráðabirgðatill. um breyt. á bændaskólalöggjöfinni og voru þær samþ. Þetta frv. fer inn á sömu braut, og verða þær þá lögfestar þar til frambúðar, ef frv. þetta verður gert að lögum.

Ég ætla ekki að rekja þær breyt. allar, sem eru í þessu frv. og ætlazt er til, að verði að lögum. Aðeins vil ég víkja að einni, þeirri, að bú bændaskólanna verði rekin á kostnað ríkisins. Um það atriði vil ég segja hið sama og ég hefi sagt áður, að ég er í nokkrum vafa með það. Ég er að vísu samþykkur því, að fyrirmyndarbúskap beri að reka á skólajörðunum. En eitt þeirra skilyrða, og það allra helzta skilyrðið, sem ég tel að þurfi að uppfylla, til þess að um fyrirmyndarbú sé að ræða, er það, að búið beri sig fjárhagslega. En sú reynsla, sem fengin er um það frá þeim tíma, er ömtin ráku skólabúin, bendir til þess, að erfitt sé að láta búskapinn bera sig á þeim með opinberum rekstri. En nú er mþn. í landbúnaðarmálum einhuga um, að þetta sé gert með samkomulagi við skólastjórana, og er líklegt, að það náist á öðrum hvorum staðnum. Fæst þá reynsla um þetta atriði. — En þó er eitt, sem mælir með því, að þetta sé gert, og sem dregur mig í þá átt, að rétt sé að prófa þetta. Það er hið mikla ósamræmi í þeim stuðningi, sem hið opinbera veitir hinum ýmsu liðum búskaparins. Mér telst svo til, að um 90% af því fé, sem veitt er til styrktar landbúnaði, gangi til jarðræktarinnar, en ekki nema 10% til umbótatilraunanna á búfénu. Nú er það þó svo, að nálega allt það, sem jarðræktin gefur af sér, gengur til búfjárins, sem breytir því í seljanlegar vörur. Er því augljóst, að miklu máli skiptir að bæta svo búfjárkynið sem unnt er, til þess að auka afurðamöguleikana. Aðrar þjóðir hafa líka séð þetta fyrir löngu og varið miklu fé til að bæta búfénaðinn. Það atriði er hvergi álitið þýðingarminna en jarðræktin sjálf. En kynbótum á búfé er máske hægra að koma fyrir á skólabúunum, ef þau eru rekin fyrir reikning ríkisins. Ef meiri hl. n. og þings getur fallizt á þessa breyt., þá tel ég rétt að bæta því inn í frv., eða gefa stj. nægilega mikla heimild til að láta fara fram á skólabúunum tilraunir og starfsemi í þessa átt.

Að endingu vil ég óska, að þetta þýðingarmikla mál fái góða og rækilega meðferð og afgreiðslu á þessu þingi. Legg ég svo til, að því verði, að umr. lokinni, vísað til hv. landbn.