21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

8. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. um bændaskóla gerir frekar litlar breyt. á þeim lögum, sem nú gilda um þetta efni. Þegar n. fór að athuga þær, virtist henni þær svo lítilvægar, að þeirra vegna væri ekki brýn ástæða til þess að semja nýja löggjöf, einkum þar sem henni þótti orka nokkuð tvímælis, hvort sumar breyt. væru til bóta, sérstaklega ein, sem gerir það að skyldu að starfrækja undirbúningsdeild við bændaskólana. Árið 1928 var ákveðið, að þetta skyldi heimilt, aðallega vegna þess, að þá var lítil aðsókn að öðrum skólanum; og n. varð að líta svo á, að það væri nóg, að heimild væri til þess. Að vísu er þörf á því, að þeir, sem ætla að leggja stund á búfræði, hafi aflað sér nokkurrar undirbúningsmenntunar. En ekki er alltaf ástæða til þess, að sú menntun sé veitt í bændaskólum, því að nú er víða kostur á slíkri undirbúningsmenntun, ekki sízt þar sem héraðsskólar eru að rísa upp víða um land. En aðalverkefni bændaskólanna er að búa menn undir bændastöðuna.

N. tók það ráð að senda frv. til Búnaðarfélagsins, sem á að hafa tillögurétt og forgöngu um flest mál, er snerta búnað. Búnaðarfélagið athugaði frv. gaumgæfilega, því að fullur mánuður leið, þangað til kom umsögn frá fél. Búnaðarfélagið leggur til, að víðtækar breyt. verði gerðar á þessu frv. Það virðist sömu skoðunar og n., að ekki sé ástæða til þess að lögbjóða undirbúningsdeild, en vill aftur á móti gera miklar breyt. um annað, er snertir búfræði, sérstaklega auka verklegt nám. Aðalreglan yrði þá sú, að nemendurnir, nytu verklegrar kennslu heilt sumar, sem yrði þá sumarið milli kennsluvetranna, svo að þeir fengju æfingu í sem flestum bústörfum á þeim fyrirmyndarbúum, sem þarna eru rekin. Sérstaklega þyrftu þeir að læra að nota hestverkfæri við jarðabætur og heyvinnu, því að að því verður að stefna, að meira sé unnið með vélum en áður að búnaði. Þess vegna er áríðandi, að þeir, sem ætla að verða bændur, kunni að handleika slík verkfæri.

Þetta var því aðaltill. Búnaðarfélagsins, að undirbúningsdeild yrði felld niður sem skylda, en gerðar meiri kröfur til verklegs náms heldur en gert er ráð fyrir í frv. En jafnframt þessari till. Búnaðarfél. um aðalfyrirkomulag skólanna, að þar yrði tveggja vetra búfræðinám með eins sumars verklegu námi á milli, lagði það líka til, að stofnuð væri eins árs deild fyrir bændur og bændaefni, sem ekki gætu varið lengri tíma til námsins. Í þeirri deild yrði kennt það sama og í búfræðideildinni, en námið yrði þeim mun yfirgripsminna, sem tíminn er styttri, og þeir, sem þetta stunda, fengju svo verklega kennslu að vorinu.

Búnaðarfél. taldi æskilegt, að sem flestir gætu verið tvo vetur og eitt sumar að námi. En til þess að gera þeim nokkra úrlausn, sem ekki gætu verið svo langan tíma, lagði hún til, að þessi eins árs deild yrði höfð líka.

N. hefir svo íhugað þessa till., og mér er óhætt að segja, að í aðalatriðum hefir hún fallizt á hana. Sérstaklega held ég, að allir nm. séu sammála um, að æskilegt sé, að verklegt nám sé stórum aukið frá því, sem lagt er til í frv. Aftur eru nokkuð skiptar skoðanir innan n. um það, hvort rétt sé að setja upp þessa eins árs deild. Sumir telja, að kennslan í henni verði hálfgert kák, og því sé vafasamt, hvort kostandi sé upp á að starfrækja hana. En ég tel rétt að setja hana upp, því að það eru æðimargir ungir menn úti um land, sem hafa ekki efni á að stunda lengra nám en þetta, en hinsvegar ætti það að vera regla, að enginn maður gengi inn í bændastöðuna, sem ekki hefði fengið nokkra undirbúningsmenntun. Og þótt ekki væri það nema eitt ár, er það þó betra en ekkert, þótt það sé helzt til lítilfjörleg fræðsla, sem menn fá með slíku móti.

N. hefir í samræmi við aðaltill. Búnaðarfél. leyft sér að flytja allvíðtækar brtt. við frv., og eru þær á þskj. 310. Skal ég fara nokkrum orðum um þær. Flestar standa þær í sambandi við þessa aðalbreyt., en nokkrar eru þó óháðar. Svo er um 1. till., við 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir í frv., að heimilt sé að koma upp nýbýlum, ef fært þyki, handa kennurum skólans til ábúðar. N. telur það æskilegt, til þess að kennararnir verði fastari við skólana, en hinsvegar telur hún rétt, að þeir borgi leigu eftir landsnytjar og aukahús, sem þeir fá við þetta býli. 1. brtt. er í samræmi við þetta.

Þá er 2. brtt., við 4. gr. Hún stendur í sambandi við aðalbreyt., að ekki er lögboðið að starfrækja undirbúningsdeild, heldur á að starfrækja tvær aðrar deildir, búfræðideild með tveimur bekkjum og bændadeild með einum bekk.

Þá er 3. brtt., sem miðar að því að taka fram um skilyrði, sem sett eru fyrir inntöku í skólana. N. ætlast til, að það geti komið í staðinn fyrir þessa undirbúningsdeild, sem upphaflega var ráðgerð í frv., að menn uppfylli viss skilyrði, áður en þeir koma í skólann. Býst ég við, að fæstum verði það erfitt. Í þessari till. er ekkert tekið fram um þekkingarskilyrði, heldur er ætlazt til, að það verði ákveðið með reglugerð.

4. brtt. er við 6. gr. og tekur nákvæmar fram, hvað skuli kennt í hvorri þessari deild fyrir sig. Þar eru ekki miklar breyt. frá því, sem er í frv., en það átti að vera orðað dálítið lögulegar en þar er gert.

5. brtt., við 7. gr., tekur nánara fram um þá verklegu kennslu, sem ætlazt er til, að nemendur fái, og er nokkuð aukin frá því, sem ákveðið er í frv.

Loks er 6. og 7. brtt., sem standa í nánu sambandi við þetta líka.

Þá er 8. brtt., við 11. gr., um að sú gr. falli niður. Sú gr. er um, að árlega skuli halda námsskeið við bændaskólana. Undanfarin ár hefir verið ætlazt til, að svo væri, en reynslan hefir orðið sú, að þau hafa jafnaðarlega farizt fyrir, nema þegar Búnaðarfélag Íslands hefir haldið sín námsskeið á bændaskólunum, en það hefir mætt nokkurri tregðu, vegna skorts á húsrúmi. Fannst okkur því ekki rétt að lögbjóða þetta, heldur geta þá skólastjórar í samráði við atvmrh. ákveðið um þetta í hvert skipti, eftir því sem bezt þætti henta.

Þá er lagt til, að komi ný grein, sem heimilar, að undirbúningsdeild verði starfrækt við skólana, ef þörf krefur, til þess að fá nemendur í aðaldeildir. Það er aðeins heimild til þess að starfrækja hana, en alls ekki lögboðið.

9. brtt. er við 12. gr., til þess að samræma hana við það, að 11. gr. falli niður.

Síðasta brtt. er við 13. gr., um það, að skólastjóra skuli skylt að hafa eftirlit með mötuneyti pilta. Það hefir komið fyrir við einstöku skóla, þar sem mötuneyti hefir verið, að það hefir ekki farið fram svo vel og heilsusamlega sem skyldi. Teljum við því réttara, að fulltíða maður hafi eftirlit með því.

Þessa brtt. okkar eru nokkuð miklar fyrirferðar. En þær standa í sambandi við þær breyt., að undirbúningsdeild er ekki lögboðin og verkleg kennsla gerð nokkru fullkomnari, og svo loks að jafnhliða þessari tveggja ára kennslu fer fram eins árs kennsla fyrir þá nemendur, sem ekki geta stundað nám í tvö ár.