21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

8. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Jónsson):

Hv. 5. landsk. virðist sammála flestum atriðum frv. Það er aðallega eitt atriði, sem hann er dálítið hugsandi út af, nefnilega starfræksla eins árs deildarinnar. Till. um hana er komin frá Búnaðarfélaginu, og þar var hún borin fram af tveimur fyrrv. bændaskólastjórum. Kváðust þeir hafa reynslu fyrir því, að ýmsir ungir menn vildu fá sér einhverja menntun í búnaði, en gætu ekki lagt í það vegna fátæktar eða heimilisástæðna, meðan krafizt er minnst tveggja vetra námstíma í búnaðarskólunum. Hv. 5. landsk. bjóst við, að ef starfrækt væri eins vetrar deild, þá mundi þeim fækka, sem tækju þátt í lengra og erfiðara námi. Um það er auðvitað ekki gott að segja fyrir víst, en ég held, að flestum muni nú verða það ljóst, hvað þeir missa mikils í við það að taka ekki þátt í lengra náminu og verklegu kennslunni, og að þess vegna muni engir fara í eins vetrar deildina nema út úr neyð; hinsvegar getur hún verið góð til að mæta þörfum þeirra, sem þess eiga engan kost að njóta búnaðarskólanna með núverandi fyrirkomulagi. Hvað meiri starfskrafta þarf til búnaðarskólanna vegna eins árs deildarinnar, held ég að geti aldrei munað mjög miklu, a. m. k. þarf ekki meiri kennslukrafta til þeirra heldur en til undirbúningsdeildanna, sem gert er ráð fyrir að megi falla niður. Og að einhverju leyti ætti kennslan að geta orðið sameiginleg í báðum deildunum.

Hv. 4. landsk. er víst flestum breyt., sem felast í frv. og brtt. n., sammála, þó hann leggi mismunandi mikla áherzlu á þær. Mesta áherzlu leggur hann á opinberan búrekstur á skólajörðunum. Við hinir leggjum minni áherzlu á hann, teljum hann fremur sem neyðarúrræði. Við teljum æskilegt að koma upp fyrirmyndarbúum, en búumst tæplega við, að þau verði til meiri fyrirmyndar fyrir það, þó hið opinbera annist rekstur þeirra. Reynslan hefir sýnt, að rekstur hins opinbera á búnaðarfyrirtækjum vill ganga mjög misjafnlega. En við sáum þó eigi fært að leggja til, að frv. væri breytt að þessu leyti. Þar sem ætlazt er til, að svo mikil verkleg kennsla fari fram á skólabúunum, verður fyrst og fremst að haga fyrirkomulagi þeirra með hag nemendanna fyrir augum. Það er varla hægt að búast við því, að einstakir menn vildu haga búskapnum eingöngu eftir þörfum skólans, án tillits til þess, hvað búið gæfi af sér, ef þeir rækju það á eiginn reikning.

Af þessum ástæðum, og einnig með það fyrir augum, sem hæstv. forsrh. talaði um, að fremur yrði hægt að láta fara fram ýmsar tilraunir í þágu búpeningsræktar og jarðræktar í sambandi við búnaðarskólana með þeirri tilhögun, sjáum við okkur ekki fært að breyta því ákvæði frv., að á skólastöðunum skuli reka fyrirmyndarbú á kostnað ríkissjóðs.