21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

8. mál, bændaskóli

Páll Hermannsson:

Mér virðist þýðingarmesta ákvæði þessa frv. vera í 2. gr. þess, þar sem ákveðið er að reka fyrirmyndarbú á skólajörðunum, sem veitt geti þá fræðslu, sem ekki fæst á annan hátt en í sambandi við verkleg störf. Hv. n. hefir dregið saman í 4 liði þær breyt. frá núgildandi lögum, sem frv. felur í sér. Samkv. áðursögðu tel ég því aðalatriðið það, sem n. nefnir í 3. liðnum. En til þess að sú breyt., geti komizt á, verður að hverfa að því, sem nefnt er í 2. lið, að skólabúin séu rekin á kostnað ríkisins.

Við getum víst flestir verið sammála um það, að fyrst þegar við munum eftir okkur, hafi bændaefnin og húsfreyjuefnin fengið haldbeztu fræðslu sína á góðum heimilum. Það eru einstök góð fyrirmyndarheimili, sem mest og bezt hafa haldið uppi íslenzkri menningu yfirleitt á umliðnum öldum. Og ég er viss um það, að enn gildir sú regla að miklu leyti, að bænda- og húsfreyjuefnin fái bezta undirbúninginn undir framtíðarstörf sín á góðum heimilum. Mér er það því vel ljóst, að rekstur hins opinbera er ekkert skilyrði fyrir því, að bú geti orðið að reglulegu fyrirmyndarbúi og veitt bændaefnum góðan undirbúning; en þrátt fyrir það, og þótt ég sjái marga annmarka á opinberum rekstri á landbúnaðarfyrirtækjum yfirleitt, held ég, að hjá honum verði varla komizt á þessum skólastöðum. Aðalerfiðleikinn við opinberan búrekstur er sá, að útvega nógu ósérplægna menn til að veita búunum forstöðu. Ef til þess fengjust menn, sem ynnu af eins mikilli fyrirhyggju og trúmennsku eins og þeir ættu búið sjálfir, þá gæti reksturinn vitanlega gengið eins vel eins og hjá beztu einstaklingsfyrirtækjum. Aftur óttast ég, að ef einstakir menn eiga að reka skólabúin á eiginn reikning, þá muni þeir fara of mikið eftir því, hvað borgar sig bezt í bili.

Ég er hv. 4. landsk. samdóma um það, að þó ekki sé farið á stað nema með þessi tvö fyrirmyndarbú, sitt á hvorum skólastað, þá muni brátt koma í ljós, að þörf sé á fleirum, t. d. einu í hverjum fjórðungi landsins. Það á ekki við alveg sama búskaparlag í öllum landshlutum; þess vegna þarf að koma upp tilrauna- og fyrirmyndarbúum á nokkrum stöðum, og það verður eflaust gert, ef vel gengur með þessi fyrstu. En alveg sérstaklega mikil þörf er fyrir slík bú þar, sem skólar eru með mörgu fólki. Mér skilst það alltaf betur og betur, að unga fólkinu yfirleitt, bæði í sveitum og kaupstöðum, leikur meiri hugur á að komast yfir bókleg fræði heldur en að kynnast þeim atvinnuvegum, sem það á að lifa af í framtíðinni. En ég vona, að þær breyt., sem nú er lagt til að gera á búnaðarskólunum, hjálpi þó nokkuð til að laga þær auðsæju misfellur. Það hafa ekki ennþá allir áttað sig nægilega á þeim breyt., sem eru að verða á búskapnum og standa fyrir dyrum. Er því mikil þörf á að hjálpa mönnum til að skilja þær.