21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

8. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir gott að fá tækifæri til að koma ofurlítið frekar inn á þessi tvö atriði, sem við hv. 4. landsk. töluðum um í sambandi við breyt. þær, sem eru að verða á landbúnaðinum.

Um annað þetta atriði komst hv. þm. svo að orði, að þessum breyt. hafi verið nauðgað upp á bændur. Hann kvað það auðséð, að bændur væru ekki svo áfjáðir í breyt., af því að hefðu komið svo litlar áskoranir frá þeim. Ég verð að segja, að þessi ummæli stafa af því, að hv. frsm. er ekki nægilega kunnugur félagsskap bænda, bæði um búnað og verzlun. Ég vil segja, að þessir hlutir hafa verið undirbúnir af hálfu bænda. Framkvæmdir viðvíkjandi verzlun þeirra og verkun á þeirra vörum, viðvíkjandi búnaðarframkvæmdum og öllu því, sem Búnaðarfélagið hefir með höndum, — þetta allt hefir verið undirbúið innan þeirra félaga, sem bændur standa að. En bændur hafa ekki þurft að senda neinar áskoranir til Alþingis, af því að þeir hafa átt þar sína fulltrúa til að bera fram óskir sínar.

Ég vil halda því fram, að þessar breyt. til framfara hjá landbúnaðinum séu alveg óvenjulega vel undirbúnar af félagsskap bænda á verzlunar- og búnaðarsviðinu, og hvíli því á ákaflega traustum grundvelli. Sameiginlegt átak fjöldans í þeim mjög myndarlega og farsæla félagsskap bænda er hér að verki. Og því er ég fyrir mitt leyti vonglaður og bjartsýnn um það, að ekki þurfi að eiga sér stað eins mikil mistök hjá bændum eins og sumstaðar annarsstaðar í þjóðlífinu.

Þá kom hv. þm. inn á síðara atriðið, þar sem hann óttaðist, að samfara vélakaupum bænda gætu orðið eins mikil mistök og hjá sjómönnum á sínum tíma í sambandi við vélar í mótorbátum. Hann gat þess sérstaklega, að mest hefði farið í súginn vegna vankunnáttu í meðferð þessara véla. Ekki er að efa, að þetta er rétt. En nú er það um þessar landbúnaðarvélar að segja, að fyrir utan þessa tiltölulega fáu „traktora“, er ólíkt minni vandi að fara með þær en mótorvélar í skipum. Það er ekki svo vandfarið með plóga, herfi og sláttuvélar.

Ennfremur er þess að geta, að auk þess sem verkleg námsskeið eru í búnaðarskólunum, þá hefir Búnaðarfél. Íslands samið við bændur, sem vel kunna að fara með verkfæri, um að halda lærisveina við verklegt nám. Hafa menn fengið dálítinn styrk frá Búnaðarfélaginu til þess að vera á þessum námskeiðum. Ég játa, að ef ekkert væri gert í þessu efni, þá mætti óttast mistök. En af hálfu búnaðarfélagsskaparins hefir verið reynt að koma í veg fyrir mistök.

Enn kom hv. þm. með eitt atriði, sem var mjög gott, að drægist inn í umr. Hann sagði, að margir væru innflytjendur verkfæranna og hefði það sín óheppilegu áhrif á verkfærasöluna, þar sem þeir litu meira á hagsmuni sína heldur en að útvega það bezta. Þetta er það, sem átti sér stað í mjög ríkum mæli viðvíkjandi mótorbátunum, og einnig viðvíkjandi skilvindum. En svo er þessu ekki háttað um innflutning á landbúnaðarverkfærum nú. Það má svo heita, að svo að segja einungis tveir aðiljar hafi á hendi innflutning þessara verkfæra, S. Í. S. aðallega, og Mjólkurfélag Reykjavíkur að dálitlu leyti. Það eru m. ö. o. tvö bændafélög, sem standa fyrir innflutningi þessara véla, sem eingöngu hafa þess að gæta að hugsa um hagsmuni bændanna, sem eiga félögin.

Hv. þm. sagði, að Búnaðarfélagið ætti að hafa á hendi innflutninginn og reyna verkfærin, áður en þau eru útbreidd. Maður getur ekki annað sagt en að Búnaðarfélagið hafi gert þetta. Verkfæraráðunautur félagsins, Árni Eylands, sem um leið er starfsmaður Sambandsins, hefir bæði útvegað verkfæri og haft á hendi leiðbeiningastarfsemi.

Hv. 4. landsk. hefir sagt, hvað við ættum að gera í þessu máli, og ég hefi sýnt fram á, að við erum búnir að gera það. Og það er ástæða fyrir hv. þm. að samfagna mér út af því, að við höfum þarna gert mjög mikið til þess að hindra það, sem hann óttaðist og benti á, að hefði átt sér stað á öðru sviði í þjóðlífinu.