21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

8. mál, bændaskóli

Jón Baldvinsson:

Það ber náttúrlega ekki svo ákaflega mikið á milli mín og hæstv. atvmrh. í þessu máli. Hann gerir aðeins meira úr þeim undirbúningi, sem orðið hefir í landbúnaðarmálum, heldur en ég vil vera láta. Og það, sem ég átti við, var ekki fyrst og fremst undirbúningur í þessum nefndum, sem starfa í Búnaðarfélaginu, heldur úti á meðal bændanna sjálfra. Og ég held, að meðal þeirra hafi ekki verið eins mikill áhugi um þetta eins og í Búnaðarfél., sem kannske er líka eðlilegt. En af því að ég er ekki viss um, að bændur hafi verið viðbúnir því að taka við þessum breyt. á svo skömmum tíma, þá óttaðist ég, að mistök yrðu, sérstaklega um notkun vélanna. Þar, sem ég hefi farið um landið, hefi ég sumstaðar séð dæmi þess, að landbúnaðarvélar hafa verið í svipaðri hirðingu og mótorvélar voru fyrrum. Víða hefir maður séð sundurryðgaðar vélar, að því er virðist fyrir vanhirðu.

Þótt innflutningur þessara véla sé að mestu í höndum tveggja aðilja, eins og hæstv. ráðh. sagði, þá eru fleiri, sem flytja þær inn og hafa heimild til þess. Er því alls ekki útilokað, að þó nokkuð komi inn af vélunum á annan hátt.

Hæstv. ráðh. kvað ekki eins vandfarið með landbúnaðarvélar eins og bátavélar. Rétt er það; en svo framarlega sem hirðuleysi er sýnt í meðferð véla, hlýtur meira eða minna fé að fara forgörðum.