31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. fjmrh. og hv. þm. S.-Þ. hafa gert nokkrar aths. við ræðu mína um síldareinkasöluna. Get ég ekki farið langt út í það, þar sem ég má aðeins gera stutta aths. En mér finnst það óþarfi af jafnskýrum manni og hv. þm. S.-Þ. að taka ummæli mín sem persónulega áreitni til hans sjálfs, hæstv. fjmrh. eða Jakobs Karlssonar, vegna þess að þeir væru bændur. En það sýndi enga viðleitni til að fá kunnuga menn að þessum atvinnurekstri, er þessir menn voru valdir endurskoðendur, þ. e. a. s. tveir hinir fyrrnefndu. — Og viðleitni hæstv. stj. til að hafa við stj. síldareinkasölunnar þá menn, er fjærst þessum atvinnuvegi standa, hefir enn sýnt sig við skipun manns í stað hv. 2. þm. S.-M., sem hefir sagt lausri framkvæmdarstjórastöðu sinni. Í stað hans á að koma, að því er ég veit bezt, kaupfélagsstjórinn í Borgarnesi. Hann er sjálfsagt ágætur maður, en hann er eins fjarri síldarútveginum eins og t. d. ég landbúnaðinum. Þess vegna er einkennilegt að taka hann til þessa starfs fremur öllum öðrum.

Hæstv. fjmrh. hefir ekki tekizt að hnekkja aðalatriðunum í aths. mínum, þrátt fyrir hjálp þá, sem hann hefir notið frá starfsmönnum einkasölunnar hér á þingi. Hann vildi einkum reyna að hnekkja samanburði mínum á verði íslenzkrar og norskrar síldar sumarið 1929. Fékk hæstv. ráðh. niðurstöðu sína með því að, hækka fram úr öllu hófi áætlunina um kostnað af síldinni hér. M. a. reiknaði hann stjórnarkostnað kr. 1.50 á hverja tunnu, en þessi kostnaður hefir aldrei verið reiknaður svo mikið sem 1 króna á tunnu, og fleira var í þessa áttina. — Annað atriði, sem hæstv. ráðh. tók ekki til greina, var það, að mest öll norska síldin, sem veidd er á hafinu, hefir fram að þessu verið „rundsöltuð“ sem kallað er, og fyrir þá sök ekki eins verðmæt og íslenzka síldin. Ennfremur virtist mér hann reikna 80 kg. í tn., en vitanlegt er, að ísl. tn. er með 90 kg. innihald. Það er því einungis með því að gera innihaldið minna en það er, og með því að teygja kostnaðinn fram úr hófi, og sérstaklega með því að gera engann gæðamun á ísl.- og norskveiddri síld, sem hæstv. ráðh. nær niðurstöðu sinni.

Þegar athuguð er hin „sérfræðilega aðstoð“, sem hæstv. ráðh. hefir notið frá einum af framkvæmdarstjórum einkasölunnar, hv. 2. þm. S.-M. og frá form. útflutningsnefndar, hv. þm. Ak., má ég áreiðanlega vel við una, hversu fátt hann hefir getað hrakið af því, sem ég hefi borið hér fram. Öll meginatriði ádeilu minnar standa óhögguð, þótt reynt hafi verið af hæstv. ráðh. að bera í bætifláka eftir mætti.

Á eitt vil ég benda enn þá, sem sýnir vel röksemdaaðferðina hjá hæstv. fjmrh. Þegar ég tók hér tölur upp úr hagskýrslunum til að sanna mál mitt, sagði hæstv. ráðh., að ekkert væri hægt að reiða sig á hagskýrslurnar. Rétt á eftir vildi hann sanna, að 1928 hefði fengizt hærra verð fyrir minna magn síldar en 1927, og þá sagði hæstv. ráðh.: „Þetta má sanna með opinberum skýrslum“. Þá voru þær góðar! En þegar þær sanna mál andstæðingsins, eru þær einskisvirði! Þetta vildi ég aðeins draga fram í þessari stuttu aths., til að sýna rauða þráðinn í vörn hæstv. ráðh.