08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

8. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Á Alþingi 1928 var sett til bráðabirgða löggjöf fyrir bændaskólana og kom það þá fram, bæði frá landbn. og einstökum þm., að rétt væri að framkvæma gagngerða endurskoðun á löggjöfinni um bændakennslu. Því snéri stj. sér til mþn. í landbúnaðarmálum og bað hana að framkvæma þessa endurskoðun. N. sendi ríkisstj. frv. sitt skömmu fyrir þing, og var það lagt fyrir hv. Ed. í þingbyrjun. Er það nú komið hingað með nokkrum breyt. Vil ég ekki tefja afgr. frv. hér með löngum umr., en þarf þó að drepa á eitt eða tvö atriði.

Eitt af því, sem töluvert var rætt um á Alþingi 1928, var það, hvort hafa ætti opinberan búrekstur á bændaskólunum. Var veitt heimild til þess þá, en hún hefir eigi verið notuð. Mþn. lagði öll með því, að þetta væri nú gert, og hv. landbn. í Ed. var óskipt á sama máli. Ég var hikandi í þessu atriði á þingi 1928, áleit þá, eins og ennþá, að það séu mestu fyrirmyndarbúin, sem bera sig bezt. En krafan um, að ríkið reki skólabúin, er nú svo almenn, að ég hefi fyrir mitt leyti fallizt á, að þetta sé a. m. k. reynt um tíma, með því móti, að á búunum séu þá jafnframt gerðar tilraunir þær, sem getur í 2. gr. frv. Stuðningurinn við landbúnaðinn hefir verið mjög einhliða á undanförnum árum, og nær allur miðazt við ræktunina. Móti hverjum 10 kr., sem ríkið hefir lagt fram til stuðnings jarðræktinni, hefir ekki komið nema 1 kr. til stuðnings búfjárrækt. Þótt ræktunin sé góð, þá þurfum vér þó jafnframt búpening, til þess að jarðargróðinn verði oss til nytja. En tilraunir þær, sem þarna er gert ráð fyrir, miða að því að efla búfjárræktina, sem vér Íslendingar erum orðnir svo langt á eftir öðrum þjóðum í. Er ekki vonlaust, að þær geti borið talsverðan ávöxt.

Ég lít svo á, að mikil nauðsyn sé að koma sem fyrst fram endurskoðun búnaðarskólalaganna. Þar sem orðið er áliðið þingtímans, vil ég því biðja hv. landbn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, að reyna að flýta afgreiðslu þess eftir mætti, svo að frv. megi verða að lögum á þessu þingi.