08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

8. mál, bændaskóli

Jón Sigurðson:

Mál þetta fer sennilega til þeirrar n., sem ég á sæti í, svo að ég þarf ekki að segja margt á þessu stigi. Hér á Alþingi hefir áður verið ágreiningur um það, hvort reka ætti skólabúin fyrir reikning hins opinbera eða ekki. Ég er yfirleitt andvígur þeim ríkisrekstri. Á Hólum á ríkissjóður nú nærri allan bústofninn, og þar sem svo stendur á, álít ég skólastjóranum vorkunnarlaust að reka fyrirmyndarbú fyrir eiginn reikning. En svo var að heyra á hæstv. atvmrh., sem þetta væri e. t. v. nauðsynlegt vegna tilrauna, sem ætti að gera á búunum. Út af þessu vil ég segja frá því, að ég var nýlega á fundi með Halldóri Vilhjálmssyni skólastjóra, Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra og Pálma Einarssyni ráðunaut, til þess að ræða þetta mál. Kom þeim saman um og færðu rök að því, að tilraununum yrði að halda alveg aðgreindum frá búunum. Sérstakur maður yrði að hafa þær með höndum. Því getur alveg eins verið einkarekstur á búunum fyrir því.

Annars vil ég lýsa yfir ánægju minni út af sumum þeim breyt., sem hv. Ed. hefir gert á frv. þessu. Á Alþingi 1928 fluttum við hv. þm. Borgf. brtt., þar sem meðal annars var lögð áherzla á það, að eins vetrar nám fyrir bændaefni væri tekið með. Hv. Ed. hefir nú aðhyllzt þessa stefnu, og er það mikil bót frá því, sem var í stjfrv. En þar var eingöngu gert ráð fyrir 2 vetra námi, og jafnvel einum undirbúningsvetri að auk. Ef þetta hefði náð fram að ganga, er ég sannfærður um, að það hefði orðið til að tæma búnaðarskólana. Því er svo háttað í sveitunum, að menn hafa ekki ráð á því að eyða þrem vetrum til náms. Til þess að koma á góðri menntun meðal bænda dugir ekki að lengja námstímann, heldur gera skólagönguna eins auðvelda og nytsama og auðið er, svo að sem flestir geti átt kost á að afla sér fróðleiks. Það er enginn efi á því, að ef kröfunum er stillt í hóf, getur þetta orðið gullsigildi fyrir hvern einasta bónda.

Ég hallast því frekar að því að rýmka meira til en hv. Ed. hefir gert, og vil gera aðganginn að skólunum ennþá hægari.